Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti

843/2014

Reglugerð um veiðar á kröbbum í Faxaflóa. - Brottfallin

1. gr.

Almennt.

Allar veiðar á kröbbum í gildrur í Faxaflóa á svæði sem afmarkað er skv. 3. gr. þessarar reglugerðar, eru óheimilar nema að fengnu sérstöku leyfi Fiskistofu. Um veiðar á kröbbum í fiskveiðilandhelgi Íslands, utan framangreinds svæðis í Faxaflóa gildir reglu­gerð nr. 611/2007, um takmarkanir á heimild til veiða á kröbbum.

Undir þessa reglugerð falla allar krabbategundir, svo sem trjónukrabbi, grjótkrabbi og gaddakrabbi.

2. gr.

Krabbaveiðileyfi.

Leyfi til krabbaveiða í gildrur skulu gefin út fyrir hvert fiskveiðiár en ráðherra er heimilt að fela Fiskistofu að fella úr gildi öll leyfi sé talin ástæða til að takmarka veiðarnar eða endurskipuleggja stjórnun þeirra.

Aðeins þeir bátar, sem leyfi hafa til veiða í atvinnuskyni eiga kost á leyfi til krabbaveiða í gildrur.

Heimilt er að binda útgáfu leyfa til veiða ákveðnum skilyrðum, m.a. skýrsluskilum um veiðarnar, hámarksstærð báta, stærð og gerð veiðarfæris, veiðitímabil o.s.frv.

Fiskistofa skal auglýsa eftir umsóknum um leyfi til krabbaveiða fyrir 1. ágúst ár hvert. Þegar krabbaveiðileyfum sem til ráðstöfunar eru hefur ekki verið úthlutað við upphaf fiskveiðiárs skal afstaða tekin til umsókna eftir því sem þær berast Fiskistofu.

Við afgreiðslu umsókna og við úthlutun veiðisvæða hafa þau skip forgang sem áður hafa stundað veiðar á kröbbum og skal byggt á því á hvaða svæði og í hve langan tíma krabbaveiðar hafa verið stundaðar. Auk þessa, í þeim tilvikum sem þess er þörf, skal litið til aflamagns. Að öðru leyti skal hlutkesti skera úr um rétt umsækjenda til leyfis til krabbaveiða.

Í umsókn skal meðal annars koma fram hvar veiðar eru fyrirhugaðar og gerð gildra.

Leyfi til veiða á kröbbum er óheimilt að framselja. Forgangsrétt samkvæmt 5. mgr. er heimilt að flytja á milli skipa skipti útgerðaraðili um skip.

Um krabbaveiðar krókabáta vísast til reglna um veiðar krókaaflamarksbáta.

3. gr.

Veiðisvæði og fjöldi leyfa.

Leyfi til veiða eru bundin við svæði innan línu sem dregin er milli Garðskagavita, (64°04,92' N 022°41,40' V) og Malarrifs, (64°43,69' N 023°48,17' V). Einungis skal gefa út 3 veiðileyfi á svæðinu. Hámarksfjöldi gildra fyrir hvert skip eru 500 gildrur í sjó.

4. gr.

Veiðarfæri, vitjun og merking lagna.

Óheimilt er að nota önnur veiðarfæri við krabbaveiðar en þar til gerðar gildrur sem uppfylla skilyrði sem fram koma í reglugerð þessari.

Allar nýjar gildrur skulu vera þannig útbúnar að þær opnist innan árs hafi þær glatast í sjó.

Gildra skal vitja eigi síðar en 10 sólarhringum eftir að þær eru lagðar í sjó. Frá þessu má aðeins víkja ef veður hamlar sjósókn með þeim hætti að ekki reynist unnt að vitja gildra og skal skipstjóri tilkynna Fiskistofu liggi gildrur viðkomandi skips lengur en 20 sólar­hringa án þess að hafa verið vitjað.

Gildrubaujur skulu vera á báðum endum gildrulínu og allar merktar með flaggi sem komið er fyrir efst á baujustönginni. Gildrur, niðurstöður, gildrubaujur, gildrubelgir og baujuflögg skulu, með varanlegri merkingu, vera greinilega merktar umdæmisnúmeri eða skipaskrárnúmeri þess skips sem notar þær. Stafir á baujuflöggum og belgjum skulu vera stórir og skýrir.

Leggi skip gildrur sínar á svæði þar sem togveiðar eru heimilar, er skylt að auðkenna vestari enda gildrulagnar með hvítu blikkljósi og radarspegli.

Óheimilt er að hafa önnur veiðarfæri um borð en gildrur meðan á krabbaveiðum stendur eða meðan gildrur eru lagðar eða þeirra er vitjað.

5. gr.

Veiðibann.

Ekki er heimilt að koma með að landi karlkyns trjónukrabba sem eru undir 60 mm skjaldarbreidd, karlkyns grjótkrabba undir 100 mm skjaldarbreidd eða karlkyns gadda­krabba undir 90 mm skjaldarbreidd.

Ekki er heimilt að koma með að landi lifandi kvenkynskrabba af öllum tegundum (sjá skýringarmyndir í fylgiskjali).

Allar veiðar með gildrum eða gildrulagnir eru bannaðar á skilgreindum humarsvæðum sbr. reglugerð nr. 214/2010 um humarveiðar með síðari breytingum.

6. gr.

Afladagbækur.

Auk skila á afladagbókum samkvæmt reglugerð nr. 557/2007 um afladagbækur skal skipstjóri senda Hafrannsóknastofnuninni vikulega, á mánudegi, upplýsingar um afla og veiðisvæði undanfarandi viku á því formi sem Hafrannsóknastofnun ákveður, óski stofn­unin eftir slíku.

7. gr.

Vigtun og skráning.

Við vigtun gilda ákvæði reglugerðar um vigtun og skráningu sjávarafla, með síðari breyt­ingum.

8. gr.

Refsingar og viðurlög.

Fiskistofu er heimilt að svipta skip leyfi til krabbaveiða vegna brota á ákvæðum leyfis­bréfa og ákvæðum laga og reglugerða, sem lúta að stjórn veiða og nýtingu nytja­stofna. Missi skip leyfi til veiða í atvinnuskyni fellur jafnframt úr gildi leyfi til veiða þessara tegunda.

Brot varða viðurlögum samkvæmt 15.-17. gr. laga nr. 79/1997, um veiðar í fisk­veiði­landhelgi Íslands og lögum nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar.

9. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt 2. mgr. 6. gr. og 2. mgr. 7. gr. laga nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og lögum nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar. Reglugerðin öðlast gildi 1. október 2014.

10. gr.

Ákvæði til bráðabirgða.

Tilraunaveiðileyfi á kröbbum í gildrur í Faxaflóa, sem eru í gildi við gildistöku þessarar reglugerðar halda gildi sínu þar til Fiskistofa hefur úthlutað veiðileyfum skv. 2. gr. reglu­gerðarinnar. Ráðherra er heimilt að veita undanþágu frá gerð gildra skv. 4. gr. að hámarki í 12 mánuði frá gildistöku reglugerðarinnar.

Fiskistofa skal auglýsa eftir umsóknum um leyfi til veiða á kröbbum á fiskveiðiárinu 2014/2015 eigi síðar en 1. október 2014 og skal umsóknarfrestur vera 10 dagar.

Reglugerð þessa skal endurskoða innan eins árs frá gildistöku sérstaklega með tilliti til reynslu af skiptingu veiðisvæða, fjölda leyfa og úthlutun leyfa skv. 2. gr. og 3. gr.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 22. september 2014.

F. h. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra,

Jóhann Guðmundsson.

Baldur P. Erlingsson.

Fylgiskjal.
(sjá PDF-skjal)


Þetta vefsvæði byggir á Eplica