Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti

663/2013

Reglugerð um sérstaka úthlutun til skel- og rækjubáta skv. 1. tl. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 116,10. ágúst 2006, um stjórn fiskveiða. - Brottfallin

1. gr.

Þar sem takmarkaðar innfjarðarækjuveiðar voru stundaðar í Ísafjarðardjúpi, Skjálfanda og Eldey og engar innfjarðarrækjuveiðar voru stundaðar á Húnaflóa, Skagafirði, Öxarfirði og norðurfjörðum Breiðafjarðar á fiskveiðiárinu 2012/2013, skal á fiskveiðiárinu 2013/2014 úthluta aflamarki sem nemur samtals 664 þorskígildislestum til báta, sem hafa hlutdeild í innfjarðarækju á áðurgreindum svæðum.

Við útreikning uppbóta er miðað við að skerðingin verði ekki meiri en 30% frá meðalafla rækjuvertíðanna 1996/1997 - 2005/2006 að frádregnum afla í innfjarðarrækju fisk­veiði­ársins 2012/2013 á viðkomandi svæði. Verðmætastuðullinn fyrir rækju er 0,52, miðað við þorskígildi og koma 100 þorsk­ígildislestir í hlut báta frá Ísafirði, 148 þorsk­ígildis­lestir í hlut báta við Húnaflóa, 153 þorskígildislestir í hlut báta við Skagafjörð, 25 þorsk­ígildis­lestir í hlut báta á Skjálfanda, 201 þorskígildislest í hlut báta við Öxarfjörð, 23 þorsk­ígildis­lestir í hlut báta á Eldeyjarsvæði og 14 þorskígildislestir í hlut báts í norður­fjörðum Breiðafjarðar.

2. gr.

Þar sem engar hörpudisksveiðar voru stundaðar í Arnarfirði, Húnaflóa, Breiðafirði og Hvalfirði á fiskveiðárinu 2012/2013 skal á fiskveiðiárinu 2013/2014 úthluta aflamarki sem samtals nemur 1.185 þorskígildislestum til báta, sem aflahlutdeild hafa í hörpudiski á áðurgreindum svæðum.

Skipting bóta milli einstakra veiðisvæða er hlutfallslega sú sama og á fyrra fiskveiðiári, og koma 8 þorskígildislestir í hlut báta frá Arnarfirði, 40 þorskígildislestir í hlut báta við Húnaflóa, 1.108 þorskígildislestir í hlut báta við Breiðafjörð og 29 þorskígildislestir í hlut báts við Hvalfjörð.

3. gr.

Úthluta skal uppbótum til einstakra báta á grundvelli þeirrar aflahlutdeildar sem þeir hafa í rækju og skel á viðkomandi svæði og miðast við aflahlutdeild eins og hún er 1. ágúst 2013. Uppbæturnar skulu skiptast á eftirgreindar tegundir: Þorsk, ýsu, ufsa og steinbít, í hlutfalli við leyfilegt heildarmagn í þessum tegundum.

4. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt 3. mgr. 10. gr. laga nr. 116, 10. ágúst 2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, til að öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda 1. september 2013.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 10. júlí 2013.

Sigurður Ingi Jóhannsson
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Jóhann Guðmundsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica