Brottfallnar reglugerðir

486/1998

Reglugerð um gerð og útbúnað smáfiskaskilju. - Brottfallin

REGLUGERÐ

um gerð og útbúnað smáfiskaskilju.

 

 

1. gr.

Smáfiskaskilja er útbúnaður, sem komið er fyrir í togveiðarfærum í þeim tilgangi að flokka fisk eftir stærð í vörpunni, þannig að smærri fiskur skiljist lifandi úr vörpunni. Smáfiskaskilja skal ekki hafa áhrif á uppsetningu og eiginleika vörpunnar að öðru leyti.

2. gr.

Ef togveiðar á ákveðnum svæðum eru í skyndilokunum eða reglugerðum, sem gefnar eru út með stoð í lögum nr. 79, 26. maí 1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, bundnar því skilyrði, að varpan sé útbúin smáfiskaskilju, skal eingöngu nota þær gerðir skilja, sem ráðuneytið hefur viðurkennt að fenginni umsögn Hafrannsóknastofnunarinnar. Í viðaukum við reglugerð þessa skal birta hvaða gerðir smáfiskaskilja eru viðurkenndar og hvernig þeim skuli komið fyrir í vörpunni.

3. gr.

Brot á reglugerð þessari varða viðurlögum samkvæmt ákvæðum 17. gr. laga nr. 79, 26. maí 1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands. Með mál út af brotum skal farið að hætti opinberra mála. Ólögleg veiðarfæri skulu upptæk samkvæmt ákvæðum 20. gr.laga nr. 79/1997.

4. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt ákvæðum 14. gr. laga nr. 79, 26. maí 1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands til að öðlast gildi 1. september 1998. Frá sama tíma er felld úr gildi reglugerð nr. 104, 5. febrúar 1997, um gerð og útbúnað smáfiskaskilju með síðari breytingum og viðauka nr. 297, 14. maí 1997.

 

Sjávarútvegsráðuneytinu 4. ágúst 1998.

Þorsteinn Pálsson.

Árni Kolbeinsson.

 

VIÐAUKI 1.

Tegund skilju - SORT-X.

Lýsing á skilju

SORT-X skilja er gerð úr þremur stálgrindum, tveimur með a.m.k. 55 mm rimlabili og einni svokallaðri stoppgrind, sem er klædd með segldúk (PVC-dúk). Grindunum er komið fyrir í nethólki þar sem grindurnar eru saumaðar í hver á eftir annarri og koma í staðinn fyrir efra byrði nethólksins. Í nethólknum er grindunum komið fyrir aftast, þannig að framan við grindurnar er framlenging. SORT-X skiljan er sett í vörpuna milli belgs og poka.

Grindurnar eru úr ryðfríu stáli. Rimlar grindanna liggja samsíða belg vörpunnar. Aftasta grindin er klædd segldúk. Fremri jaðar miðgrindarinnar er festur við afturjaðar fremstu grindarinnar, og aftasta grindin síðan við miðgrindina. Við jaðra grindanna eru festar flotkúlur til að vega á móti þyngd skiljunnar í sjó. Til að tryggja að skiljan dragist klár eru keðjur frá fremra horni í aftara horn grindanna báðum megin. Á efra byrði belgsins er allt net ofan við grindurnar fjarlægt til að hleypa fiski út.

Ísetning skilju

Ísetning ef notuð er SORT-X skilja þar sem stærð grindanna er eftirfarandi:

Fremsta grind:

1500 x 1167 mm

Miðgrind:

1200 x 1167 mm

Aftasta grind:

1800 x 1167 mm

Sá hluti nethólksins, sem grindurnar eru festar í, er úr tvöföldu neti og er 114 upptökur að ummáli og 39,5 síður að lengd. Lágmarksmöskvastærð, miðað við innanmál, skal vera 135 mm.

Framan við þann hluta, sem grindurnar eru saumaðar í, skal vera 9,5 metra langur nethólkur úr tvöföldu neti. Þessi nethólkur er víðastur fremst og mjókkar síðan aftur að þeim hluta, sem grindurnar eru saumaðar í. Fremst er ummál nethólksins 154 upptökur en fer niður í 114 upptökur á 41,5 síðum. Síðan kemur 20,5 síðna hluti þar sem ummálið 114 upptökur.

Ísetning ef notuð er SORT-X skilja þar sem stærð grindanna er eftirfarandi:

Fremsta grind:

1000 x 1167 mm

Miðgrind:

750 x 1167 mm

Aftasta grind:

1000 x 1167 mm

Notað er net með 135 mm möskvastærð að innanmáli.

Sá hluti nethólksins, sem grindurnar eru festar í, er úr tvöföldu neti og er 112 upptökur að ummáli og 26 síður að lengd.

Framan við þann hluta, sem grindurnar eru saumaðar í, skal vera 7,5 metra langur nethólkur úr einföldu neti. Þessi nethólkur er víðastur fremst og mjókkar síðan aftur að þeim hluta, sem grindurnar eru saumaðar í. Fremst er ummál nethólksins 144 upptökur en fer niður í 116 upptökur á 53,5 síðum.

 

VIÐAUKI 2.

Tegund skilju - "Stundaglas"-(Ex-it).

Lýsing á skilju

Skiljan er nethólkur, sem er mjórri í miðjunni en til endanna, og er í fremri hluta hans komið fyrir tveimur trapisulöguðum grindaeiningum, sem hvor um sig er samsett úr fjórum grindum. Skammhliðar grindaeininganna snúa saman og á milli þeirra er net eða gúmmímotta. Grindurnar, sem eru úr ryðfríu stáli, eru lásaðar saman þannig að rimlarnir liggi samsíða belg vörpunnar og er sett á þær flot til mótvægis við þyngd þeirra. Lágmarksmöskvastærð, miðað við innanmál, skal vera 135 mm í skiljuhólki.

Ísetning skilju

Skiljunni er komið fyrir í vörpunni milli belgs og poka og framan við hana skal aftasti hluti skornabelgs ("mouth"-stykki) vera í samræmi við neðangreinda lýsingu eftir því hvort um stærri eða minni gerð er um að ræða.

Stærð grinda í hvorri grindaeiningu skal vera:

Fremsta grind:   0,82

0,71 x 0,50 m

Fremri miðgrind:           0,70

0,59 x 0,50 m

Aftari miðgrind: 0,58

0,47 x 0,50 m

Aftasta grind:                0,46

0,35 x 0,50 m

Bil á milli rimla í grindunum skal vera a.m.k. 60 mm og á milli eininganna er net eða gúmmímotta sem er 2,12 m að lengd.

Um tvær stærðir af nethólkum er að ræða sem grindaeiningunum er komið fyrir í.

Stærri gerð

Ummál skiljuhólks er; að framanverðu 122 möskvar, í miðju 62 möskvar og að aftanverðu 122 möskvar. Lengd skiljuhólks er 7,15 m eða 45,5 síður.

Skornir eru geirar úr 45,5 síðna netbyrði þannig að byrðið mjókkar með skurði 1S-4L inn að miðju um 15 möskva hvoru megin og eykst síðan um sama möskvafjölda frá miðju að hinum enda byrðisins. Þetta á bæði við um yfir- og undirbyrði nema framanvert undirbyrði er einum möskva styttra en yfirbyrðið á móti. Byrðin eru fest saman á jöðrunum og eru geirarnir festir við til stýringar og styrktar.

Í efra byrði hólksins, 6,5 síðum frá framenda, er skorið op, sem er 42 möskvar að framanverðu, 13,5 síður aftur að miðju og 20 möskvar að aftanverðu, þ.e. 2,5 síðum framan við miðju hólksins. Í þessu opi er grindaeiningunum komið fyrir.

Aftasti hluti skornabelgs ("mouth"-stykki) skal vera 14,2 m langt, skorið 2S-2L.

A. Ef notaður er 157 mm heilmöskvi er stykkið 120 upptökur að framanverðu og endar í 61 upptöku að aftan þar sem skiljan saumast við. Síðufjöldi í stykkinu skal vera 90,5.

B. Ef notaður er 150 mm heilmöskvi er stykkið 126 upptökur að framanverðu og endar í 64 upptökum að aftan þar sem skiljan saumast við. Síðufjöldi í stykkinu skal vera 94,5.

Stykkið skal sett við belg þar sem ummálið er það sama, þ.e. þar sem sami möskvafjöldi er í belg og stykki ef um sömu möskvastærð er að ræða. Annars skal ummál strekks nets ráða

Minni gerð

Ummál skiljuhólks er; að framanverðu 102 möskvar, í miðju 62 möskvar og að aftanverðu 102 möskvar. Lengd skiljuhólks er 6,36 m eða 40,5 síður.

Skornir eru geirar úr 40,5 síðna netbyrði þannig að byrðið mjókkar með skurði 1S-2L inn að miðju um 10 möskva hvoru megin og eykst síðan um sama möskvafjölda frá miðju að hinum enda byrðisins. Þetta á við um bæði yfir- og undirbyrði nema framanvert undirbyrði er einum möskva styttra en yfirbyrðið á móti. Byrðin eru fest saman á jöðrunum og eru geirarnir festir við til stýringar og styrktar.

Í efra byrði hólksins, 3 síðum frá framenda, er skorið op, sem er 38 möskvar að framanverðu, 13,5 síður aftur að miðju og 16 möskvar að aftanverðu, þ.e. 3,5 síðum framan við miðju hólksins. Í þessu opi er grindaeiningunum komið fyrir.

Aftasti hluti skornabelgs ("mouth"-stykki) skal vera 12,8 m langt, skorið 2S-2L.

A. Sé notaður 170 mm heilmöskvi er stykkið 100 upptökur að framanverðu og endar í 50 upptökum að aftan þar sem skiljan saumast við. Síðufjöldi í stykkinu skal vera 75,5.

B. Sé notaður 150 mm heilmöskvi er stykkið 110 upptökur að framanverðu og endar í 53 upptökum að aftan þar sem skiljan saumast við. Síðufjöldinn í stykkinu skal þá 85,5.

Stykkið skal sett við belg þar sem ummálið er það sama, þ.e. þar sem sami möskvafjöldi er í belg og stykki, ef um sömu möskvastærð er að ræða. Annars skal ummál strekks nets ráða

 

 

Sjávarútvegsráðuneytinu 4. ágúst 1998.

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica