Fara beint í efnið

Prentað þann 28. mars 2024

Stofnreglugerð

957/2006

Reglugerð um aðferðareiningar fyrir hin ýmsu þrep samræmismatsins og reglur um áfestingu og notkun CE-samræmismerkja sem ætlað er að nota í tilskipunum um tæknilega samhæfingu.

1. gr.

Á grundvelli sameiginlegu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 7/1994, frá 21. mars 1994, skal eftirtalin EB-gerð öðlast gildi hér á landi, með þeim breytingum og viðbótum sem leiðir af viðauka II við EES-samninginn (tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun), bókun I (um altæka aðlögun) og öðrum ákvæðum samningsins:

"Ákvörðun ráðsins nr. 93/465/EBE um aðferðareiningar fyrir hin ýmsu þrep samræmismatsins og reglur um áfestingu og notkun CE-samræmismerkja sem er ætlað er að nota í tilskipunum um tæknilega samhæfingu (Stj. tíð. EB nr. L220, 30.8.1993, bls. 23)".

2. gr.

Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar og EB-gerðin sem fela í sér að framangreind ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar nr. 93/465/EBE er felld inn sem liður 3.d. í kafla XIX, í viðauka II EES-samningsins, er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi ESB og er endurbirt sem fylgiskjal þessarar reglugerðar.

3. gr.

Aðilar sem bera ábyrgð á að framfylgt sé reglum um samræmismat, sem nota ber samkvæmt ákvæðum laga og reglna sem settar eru hér á landi til innleiðingar á ákvæðum í tilskipunum Evrópusambandsins um tæknilega samhæfingu skulu fylgja ákvæðum þessarar reglugerðar og reglna sem gilda á Evrópska efnahagssvæðinu, sbr. ákvæði í fylgiskjali þessarar reglugerðar um tæknilega samhæfingu á vörum og hafa verið valdar úr aðferðareiningum sem taldar eru upp í viðaukunum í ákvörðun ráðsins nr. 93/465/EBE sem og þeim almennu viðmiðunarreglum sem þar er kveðið á um.

Reglugerð þessi gildir einnig um reglur sem gilda um áfestingu CE-samræmismerkis sem kveðið er á um í lögum og reglum sem settar eru hér á landi til innleiðingar á ákvæðum í tilskipunum Evrópusambandsins, eins og nánar er kveðið á um í ákvörðun ráðsins nr. 93/465/EBE í fylgiskjali þessarar reglugerðar þar sem nánar er kveðið á um hvernig vörur eru hannaðar, framleiddar, markaðssettar, teknar í notkun og notaðar.

4. gr.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 27. gr. laga nr. 134/1995, um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu, með síðari breytingum og öðlast þegar gildi.

Viðskiptaráðuneytinu, 9. nóvember 2006.

Jón Sigurðsson.

Kristján Skarphéðinsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.