Fara beint í efnið

Prentað þann 28. mars 2024

Stofnreglugerð

71/1991

Reglugerð um innflutning og viðurkenningu á neyðarsendibaujum á 406 Mhz

1. gr.

Póst- og símamálastofnun skal heimila innflutning og annast viðurkenningu á neyðarsendibaujum á tíðninni 406,025 MHz til nota í skipum í samræmi við ákvæði reglugerðar þessarar.

2. gr.

Heimilt er að flytja inn og nota neyðarsendibaujur, sem hlotið hafa viðurkenningu hjá löggiltum viðurkenningarstofnunum í öðrum löndum Evrópu.

Með beiðni innflytjanda um innflutning skal fylgja viðurkenningarvottorð ásamt upplýsingum um á hvaða reglum erlend viðurkenning er byggð.

3. gr.

Áður en heimild er veitt samkvæmt 2. gr. skal umsækjandi afhenda handbók yfir neyðarsendibaujuna með nákvæmri tæknilegri lýsingu og notkunarreglum. Þar skal m.a. koma fram hver áætlaður endingartími baujunnar og rafhlaða hennar er og hversu lengi hún getur sent út á þeim rafhlöðum sem með henni fylgja.

4. gr.

Heimildir til innflutnings samkvæmt 2. gr. falla úr gildi 31. desember 1991 og taka þá gildi nýjar reglur um viðurkenningu neyðarsendibauja á tíðninni 406,025 MHz. Ekki verður skylt að skipta út baujum, sem settar verða í skip til og með 31. desember 1991 og ekki fá varanlega viðurkenningu fyrr en að 8 árum liðnum.

5. gr.

Áður en innflytjandi eða seljandi afhendir notanda neyðarsendibauju skal hann tryggja að radíóeftirliti Póst- og símamálastofnunar hafi verið send umsókn um starfræksluleyfi fyrir baujuna.

Radíóeftirlitið skal skrá upplýsingar um neyðarsendibaujuna í leyfisbréf skipa.

6. gr.

Stranglega er bannað að ræsa neyðarsendibaujur, nema skip sé í sjávarháska.

7. gr.

Í minniseiningu hverrar neyðarsendibauju skal stimpla upplýsingar um skip í samræmi við viðauka við þessar reglur. Í reit 27 til 36 skal stimpla töluna 251. Í reit 40 til 75 skal setja 6 stafi, sem mynda einkennisnúmer skipsins, sem neyðarsendibaujan verður sett í. Radíóeftirlitið úthlutar einkennisnúmerum í samræmi við alþjóðaradíóreglugerð. Seljandi neyðarsendibauju er ábyrgur fyrir því að framangreindar upplýsingar hafi verið stimplaðar í baujuna áður en hún er afhent notanda. Að öðru leyti skulu upplýsingar í minniseiningu baujunnar vera í samræmi við viðauka I. Í viðauka II er sýnd kóðunaraðferðin, sem nota skal í baujuna.

8. gr.

Óheimilt er að flytja neyðarsendibaujur milli skipa, nema að sótt hafi verið fyrirfram til radíóeftirlitsins um flutninginn og breytt hafi verið stimpluðu einkennisnúmeri í baujunni til samræmis við það skip, sem baujan er flutt í.

9. gr.

Að öðru leyti en kveðið er á um í 1.-8. gr. í reglugerð þessari skal rekstur neyðarsendibauja á tíðninni 406,025 MHz vera í samræmi við reglugerð nr. 493/1988 um rekstur radíóstöðva.

10. gr.

Brot gegn reglugerð þessari varða refsingu samkvæmt lögum um fjarskipti.

11. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt lögum um fjarskipti nr. 73/1984 staðfestist hér með til að öðlast þegar gildi og birtist til eftirbreytni öllum þeim, sem hlut eiga að máli.

Samgönguráðuneytið, 8. febrúar 1991.

Steingrímur J. Sigfússon.

Ragnhildur Hjaltadóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.