Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 28. mars 2024

Reglugerð með breytingum síðast breytt 22. jan. 2011

692/2003

Reglugerð um námsstyrki.

1. gr. Almenn skilyrði.

Nemendur á framhaldsskólastigi, sem fullnægja eftirtöldum skilyrðum, eiga rétt til námsstyrkja til jöfnunar á fjárhagslegum aðstöðumun vegna búsetu svo sem nánar er kveðið á um í reglugerð þessari:

a. Nemandi stundar reglubundið nám á framhaldsskólastigi hér á landi, sem ekki er á háskólastigi eða gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi, enda sé um að ræða a.m.k. eins árs skipulagt nám við framhaldsskóla sem fellur undir ákvæði laga um framhaldsskóla nr. 80/1996, með áorðnum breytingum. Námsstyrkjanefnd er heimilt að styrkja annað hliðstætt nám á framhaldsskólastigi.
b. Nemandi getur ekki stundað sambærilegt nám frá lögheimili eða öðrum jafngildum dvalarstað.
c. Nemandi nýtir ekki rétt til láns úr Lánasjóði íslenskra námsmanna eða nýtur hliðstæðrar fyrirgreiðslu.

Hámarksaðstoðartími er fjögur ár eða 8 annir.

2. gr. Skilgreiningar.

Í reglugerð þessari hafa eftirfarandi hugtök þá merkingu sem hér greinir:

a. Reglubundið nám. Nemandi telst stunda reglubundið nám hafi hann tekið próf til fullnustu a.m.k. 12 eininga námi á önn sem telst hluti af skipulögðu námi skóla eða skóli staðfestir námsárangur með ástundunarvottorði, ef námi lýkur ekki með prófi. Ef námi er ekki lokið vegna veikinda skal skóli staðfesta móttöku á fullgildu læknisvottorði. Heimilt er að miða við sex einingar ef um lokaönn er að ræða og nemandi hefur lokið a.m.k. 12 einingum á undangenginni önn.
b. Sambærilegt nám. Við mat á því hvort sambærilegt framhaldsskólanám verður stundað í heimabyggð eða ekki ræður eigið mat umsækjanda á eðli og gæðum skóla eða einstakra námsáfanga.
c. Fjölskylda. Með hugtakinu fjölskylda er átt við foreldra nemanda, sé þeim til að dreifa - nánar tiltekið kynforeldra, stjúpforeldra, fósturforeldra eða kjörforeldra, en ella ömmur og afa nemanda; maka samkvæmt hjúskap aðila, maka samkvæmt staðfestri samvist eða maka samkvæmt skráðri sambúð í þjóðskrá; svo og börn nemanda, þ.m.t. kynbörn, stjúpbörn, fósturbörn eða kjörbörn.
d. Dvalarstyrkur. Dvalarstyrkur samanstendur af ferðastyrk til og frá námsstað við upphaf og lok námsannar, fæðisstyrk og húsnæðisstyrk.
e. Styrkur til skólaaksturs. Styrkur til skólaaksturs samkvæmt 6. gr. er ferðastyrkur sem úthlutað er til umsækjenda sem ekki njóta dvalarstyrks samkvæmt 4. gr. reglugerðarinnar.

3. gr. Námsstyrkjanefnd og LÍN.

Námsstyrkjanefnd úthlutar styrkjum til styrkhæfra nemenda að jafnaði einu sinni á ári. Umsækjandi skal skila umsókn til nefndarinnar á því formi er námsstyrkjanefnd ákveður.

Nefndin auglýsir eftir umsóknum fyrir 1. september ár hvert og skulu umsóknir vegna haustannar hafa borist nefndinni fyrir 15. október sama ár. Nefndin skal auglýsa eftir umsóknum vegna vor- og sumarannar fyrir 1. janúar ár hvert og skulu umsóknir hafa borist nefndinni fyrir 15. febrúar sama ár. Námsstyrkjanefnd er heimilt að veita umsókn viðtöku eftir auglýstan umsóknarfrest og skerða þá styrkinn um einn hundraðshluta fyrir hvern dag fram yfir frestdag, þó að hámarki um 30 hundraðshluta samtals. Berist umsókn meira en 30 dögum eftir auglýstan umsókarfrest skal hún tekin til afgreiðslu með umsóknum næstu annar og mögulegur styrkur koma til útborgunar í lok þeirrar annar. Nefndinni er óheimilt að taka við umsókn sem berst meira en fjórum mánuðum eftir auglýstan umsóknarfrest. Þrátt fyrir þetta skal réttarstaða allra umsækjenda taka mið af skráningu í þjóðskrá þann dag sem auglýstur umsóknarfrestur rennur út. Þrátt fyrir þetta skal réttarstaða allra umsækjenda taka mið af skráningu í þjóðskrá þann dag sem auglýstur umsóknarfrestur rennur út. Síðasti dagur til að gera athugasemdir eða skila inn gögnum er 1. september ár hvert vegna námsársins á undan.

Námsstyrkjanefnd hefur starfsstöð í húsakynnum Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) og annast sjóðurinn alla umsýslu og nauðsynlega framkvæmd fyrir nefndina. LÍN tekur m.a. við umsóknum um námsstyrki, sér um úrvinnslu þeirra, leitar eftir upplýsingum frá skólum um hvort nemandi teljist hafa stundað reglubundið nám, sbr. 2. gr., og annast útborgun námsstyrkja.

Til staðfestingar á því að nemandi stundi reglubundið nám á framhaldsskólastigi ber viðkomandi framhaldsskóla, að ósk námsstyrkjanefndar, að láta nefndinni í té upplýsingar þar að lútandi áður en útborgun námsstyrkja fer fram.

Útborgun námsstyrkja skal fara fram í tvennu lagi og við það miðað að greiðsludagar séu sem næst 10. janúar, 10. júní og 1. september ár hvert. Almenn skilyrði útborgunar eru að skóli hafi staðfest námsárangur eða námsástundun nemandans í lok haustannar, í lok vorannar og lok sumarannar. Sérstök skilyrði fyrir útborgun námsstyrks vegna sumarannar eru að nemandi hafi ekki nýtt sér rétt til að sækja um námsstyrk á næstliðinni haust- eða vorönn.

Athugasemdir við niðurstöður námsstyrkjanefndar skulu vera skriflegar og studdar gögnum eftir eðli máls. Þær skulu berast innan 30 daga frá birtingu á niðurstöðu nefndarinnar.

4. gr. Dvalarstyrkir.

Skilyrði fyrir veitingu dvalarstyrks er að:

a. Nemandi stundi reglubundið framhaldsnám hér á landi sem ekki er á háskólastigi eða gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi, sbr. a-lið 2. gr.
b. Nemandi geti ekki stundað sambærilegt nám frá lögheimili sínu, sbr. skilgreiningu í b-lið 2. gr.
c. Nemandi verði að vista sig a.m.k. 30 km frá lögheimili og fjarri fjölskyldu vegna námsins. Heimilt er að veita dvalarstyrk þótt fjarlægð skv. 1. málsl. sé styttri en 30 km, ef samgöngur til og frá skóla eru nemanda sérstaklega erfiðar m.a. með tilliti til veðráttu og ástands vega eða vegna skorts á almenningssamgöngum.

5. gr. Upphæð dvalarstyrks.

Fullur dvalarstyrkur nær til ferðastyrks, fæðisstyrks og húsnæðisstyrks. Námsstyrkjanefnd ákveður upphæð fulls dvalarstyrks með hliðsjón af heildarfjárhæð sem veitt er til jöfnunar á námskostnaði á fjárlögum ár hvert og fjölda umsókna.

Nemandi þarf að leggja fram staðfestingu skóla á greiðslu fyrir dvöl á heimavist eða í sambærilegu húsnæði á vegum skóla eða staðfestingu fyrir greiðslu á húsaleigu til að fá fullan dvalarstyrk.

Greiði nemandi ekki húsaleigu nemur mögulegur dvalarstyrkur sömu upphæð og styrkur vegna skólaaksturs, sbr. 6. gr.

6. gr. Styrkir vegna skólaaksturs.

Þeir nemendur sem sækja nám frá lögheimili fjarri skóla geta átt rétt á styrk vegna skólaaksturs. Námsstyrkjanefnd ákveður upphæð akstursstyrks með hliðsjón af heildarfjárhæð sem veitt er til jöfnunar á námskostnaði á fjárlögum ár hvert og fjölda umsókna.

Styrkir vegna skólaaksturs skulu renna beint til nemenda enda uppfylli þeir eftirtalin skilyrði:

a. sækja skóla frá lögheimili sínu og fjölskyldu,
b. lögheimili er ekki í nágrenni skóla, sbr. yfirlit á fylgiskjali yfir staði, sem teljast í nágrenni skóla í þessu samhengi.

Til viðbótar akstursstyrk til nemenda er námsstyrkjanefnd heimilt að styðja þá skóla sem skipuleggja daglegan akstur fyrir nemendur sína. Upphæð þessi skal samsvara allt að 50% af fullum akstursstyrk fyrir hvern nemanda. Jafnframt er nefndinni heimilt að veita umsækjanda án fjöldskyldutengsla við skráð lögheimili undanþágu, sbr. a. lið 2. mgr., ef hann leggur fram opinbert vottorð um eignarhald sitt á lögheimilinu eða þinglýstan leigusamning til staðfestingar búsetu sinni. Jafnframt er nefndinni heimilt að veita umsækjanda án fjöldskyldutengsla við skráð lögheimili undanþágu, sbr. a. lið 2. mgr., ef hann leggur fram opinbert vottorð um eignarhald sitt á lögheimilinu eða þinglýstan leigusamning til staðfestingar búsetu sinni.

7. gr. Sérstakur styrkur vegna efnalítilla nemenda.

Samþykki námsstyrkjanefnd að auglýsa eftir umsóknum um veitingu sérstaks styrks vegna efnalítilla nemenda, ákvarðar nefndin upphæð styrksins með hliðsjón af heildarfjárhæð sem veitt er til sérstakra styrkja á fjárlögum ár hvert og fjölda umsókna.

8. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt 8. gr. laga um námsstyrki nr. 79/2003 og öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 576/2002 með síðari breytingum.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.