Fara beint í efnið

Prentað þann 28. mars 2024

Stofnreglugerð

513/1998

Reglugerð um innflutning, sölu og uppsetningu á GMDSS fjarskiptabúnaði í skip.

1. gr.

Skammstafanir í reglugerð þessari hafa eftirfarandi merkingu:

CEPT: Conference Européenne des Posts et Telecommunications.

ETSI: European Telecommunications Standards Institute.

GMDSS: Global Maritime Distress and Safety System.

IEC: International Electrotechnical Commission.

2. gr.

Ýmsar gerðir fjarskiptabúnaðar fyrir skip hafa hlotið gerðarsamþykki á grundvelli CEPT reglna. Á undanförnum árum hafa verið birtir ETSI og IEC staðlar fyrir sams konar búnað, sem taka mið af fyrirhuguðum breytingum á fjarskiptum við skip í sambandi við innleiðingu GMDSS. Með tilkomu þessara staðla hefur notkun fyrri CEPT reglna verið hætt. Með þessari reglugerð er heimild til innflutnings, sölu og uppsetningar fjarskiptabúnaðar sem ætlaður er til notkunar í skipum í samræmi við ákvæði um GMDSS en hefur ekki verið prófaður og samþykktur með tilvísun til ETSI eða IEC staðla felld úr gildi í áföngum.

3. gr.

Frá og með gildistöku þessarar reglugerðar skulu gilda fyrir fjarskiptabúnað sem framleiddur er, fluttur inn og seldur til uppsetningar og notkunar í íslenskum skipum staðlar gefnir út af ETSI og IEC.

4. gr.

Þrátt fyrir ákvæði 3. gr. skal heimilt fram til 1. janúar 2001 að setja á markað, selja og setja upp búnað sem þegar hefur hlotið gerðarsamþykki með tilvísun í reglur CEPT og framleiddur er sannanlega fyrir 1. janúar 1999.

5. gr.

Þangað til að öðruvísi verður ákveðið gilda ekki takmarkanir um notkunargildistíma búnaðar með gerðarsamþykki samkvæmt CEPT reglum enda hafi búnaðurinn verið settur upp í viðkomandi skipi fyrir 1. janúar 2001.

6. gr.

Ákvæði 3. og 4. gr. gilda að því er varðar uppsetningu jafnframt fyrir skip sem keypt eru til landsins með fjarskiptabúnaði og fyrir búnað sem settur er í íslensk skip erlendis.

7. gr.

Póst- og fjarskiptastofnun er falið í samræmi við 3. gr. laga um fjarskipti nr. 143/1996 að hafa eftirlit með framkvæmd þessarar reglugerðar.

8. gr.

Um viðurlög við brotum á reglugerð þessari fer samkvæmt 38. gr. laga um fjarskipti nr. 143/1996.

9. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt 40. gr. laga um fjarskipti nr. 143/1996 og í samræmi við tilskipun 96/98/EB um skipsbúnað. Reglugerð þessi staðfestist hér með til að öðlast þegar gildi.

Samgönguráðuneytinu, 18. ágúst 1998.

Halldór Blöndal.

Jón Birgir Jónsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.