Sjávarútvegsráðuneyti

540/2000

Reglugerð um greiðslu gjalds til Þróunarsjóðs sjávarútvegsins fiskveiðiárið 2000/2001. - Brottfallin

REGLUGERÐ

um greiðslu gjalds til Þróunarsjóðs sjávarútvegsinsfiskveiðiárið 2000/2001.

 

1. gr.

Eigendur fiskiskipa sem fá úthlutað aflaheimildum þann 1. september 2000 skulu greiða gjald er nemur 1.230 krónum á hvert úthlutað þorskígildstonn miðað við verðmætahlutföll einstakra tegunda samkvæmt 3. gr. Gjaldið fellur í gjalddaga með þremur jöfnum greiðslum; þann 1. september 2000, 1. janúar 2001 og 1. maí 2001. Eigandi fiskiskips er fær úthlutun á öðrum tíma innan fiskveiðiársins skal greiða jafnhátt gjald vegna þeirrar úthlutunar. Gjaldið fellur í gjalddaga með þremur jöfnum greiðslum. Fari úthlutun fram á fyrsta ársþriðjungi fiskveiðiársins fellur gjaldið í gjalddaga þann 1. janúar 2001, 1. maí 2001 og 1. september 2001. Fari úthlutun fram á öðrum ársþriðjungi fiskveiðiársins fellur gjaldið í gjalddaga 1. maí 2001, 1. september 2001 og 1. janúar 2002.  Fari úthlutun fram á þriðja ársþriðjungi fiskveiðiársins fellur gjaldið í gjalddaga 1. september 2001, 1. janúar 2002 og 1. maí 2002.

Fari stjórn fiskveiða krókabáta fram með öðrum hætti en úthlutun aflaheimilda á grundvelli aflahlutdeildar eða krókaaflahlutdeildar skal eigandi báts greiða 1.230 kr. af hverju lönduðu þorskígildistonni viðkomandi báts, í tegundum þar sem hann er ekki bundinn aflatakmörkunum en sæta ákvörðun um heildarafla, á tímabilinu 1. ágúst 1999 til 31. júlí 2000 miðað við skráningu aflans í aflaupplýsingakerfi Fiskistofu. Miða skal við verðmætastuðla samkvæmt 3. gr. Gjaldið fellur í gjalddaga með þremur jöfnum greiðslum; 1. september 2000, 1. janúar 2001 og 1. maí 2001.

 

2. gr.

Hafi greiðsla fyrir gjald skv. 1. gr. ekki borist innan mánaðar frá gjalddaga á þann bankareikning sem tilgreindur er á reikningi skv. 4. gr. fellur veiðileyfi viðkomandi fiskiskips niður án frekari viðvörunar. Hæstu lögleyfðu dráttarvextir reiknast á vanskil frá gjalddaga ef ekki er greitt innan mánaðar frá gjalddaga.

 

3. gr.

Við útreikning þorskígildisstuðla við álagningu gjalds skv. 1. gr. skal miða við eftirfarandi þorskígildisstuðla: Þorskur 1,00, ýsa 1,15, ufsi 0,50, karfi 0,55, steinbítur 0,65, grálúða 1,65, skarkoli 1,25, langlúra 0,70, þykkvalúra 1,20, skrápflúra 0,50, sandkoli 0,50, loðna 0,03, síld 0,06, norsk-íslensk síld 0,04, humar (slitinn) 6,85, rækja 0,90 og hörpudiskur 0,30.

 

4. gr.

Fiskistofa annast innheimtu gjaldsins og sendir eiganda fiskiskips reikning vegna gjalds þessa. Á reikningi skal koma fram að um sé að ræða innheimtu á gjaldi skv. lögum nr. 92/1994 um Þróunarsjóð sjávarútvegsins sem renni til Þróunarsjóðs. Ennfremur skal koma fram úthlutað magn eða viðmiðunarafli viðkomandi fiskiskips, gjald á þorskígildistonn, heildarfjárhæð gjalds, gjalddagar gjaldsins og aðrir greiðsluskilmálar ásamt númeri bankareiknings sem greiða ber inn á. Gjaldið er ekki endurkræft enda þótt úthlutuð þorskígildistonn verði ekki nýtt. Eigandi fiskiskips er gjaldskyldur vegna úthlutaðra þorskígildistonna þótt aflaheimildir verði framseldar á annað fiskiskip.

 

5. gr.

Fiskistofa skal halda fjárreiðum vegna innheimtu þessarar aðgreindum frá bókhaldi sínu og skal standa Þróunarsjóði sjávarútvegsins skil á innheimtu gjaldsins eins fljótt og auðið er, þó ekki sjaldnar en einu sinni í mánuði. Þróunarsjóður sjávarútvegsins skal greiða Fiskistofu samkvæmt reikningi kostnað vegna innheimtu þeirrar sem Fiskistofa annast skv. reglugerð þessari.

 

6. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt ákvæðum laga nr. 92/1994 um Þróunarsjóð sjávarútvegsins með síðari breytingum og öðlast þegar gildi.

 

Sjávarútvegsráðuneytinu, 25. júlí 2000.

 

Árni M. Mathiesen.

Kristín Haraldsdóttir 

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica