Samgönguráðuneyti

509/2000

Reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 505/1997 um grunnpóstþjónustu. - Brottfallin

509/2000

REGLUGERÐ
um breytingu á reglugerð nr. 505/1997 um grunnpóstþjónustu.

1. gr.

1. mgr. 3. gr. orðist svo:

1. Íslenska ríkið hefur einkarétt á póstmeðferð eftirfarandi póstsendinga:
2. Bréfa í umslögum eða sambærilegum umbúðum með sýnilegri áritun, allt að 250 g að þyngd án tillits til innihalds. Einkarétturinn fellur þó niður sé burðargjald slíkra sendinga meira en fimmfalt burðargjald fyrir bréf sem falla undir lægsta gjaldflokk samkvæmt gjaldskrá.Annarra ritaðra orðsendinga eða prentaðra tilkynninga með utanáskrift og sérstöku innihaldi sem eru innan þeirra marka um þyngd og burðargjald er greinir í 1. tölul., þar með talinna póstkorta.


2. gr.
1. mgr. 9. gr. orðist svo:
Sendandi bréfapóstsendingar getur gegn sérstöku gjaldi auk hins almenna burðargjalds fengið tekna ábyrgð á sendingunni. Sendandi getur valið milli þess að ábyrgðarsendingin afhendist skráðum viðtakanda eða umboðsmanni hans einum eða megi öðrum kosti afhendast öðru heimilisfólki eða í afgreiðslu á vinnustað viðtakanda. Í allri kynningu á ábyrgðarþjónustu skal tekið skýrt fram hvaða skilmálar og sérstakt gjald gildi fyrir sitt hvora tegund ábyrgðarsendingar. Ábyrgðarsendingar frá útlöndum skulu afhentar skráðum viðtakanda einum eða umboðsmanni hans. Innlendar ábyrgðarsendingar skulu bera áritunina "Ábyrgð" ásamt viðbótarorðum sem gefa til kynna hvor afhendingarmátinn eigi að gilda. Ábyrgðarsendingar til útlanda skulu bera áritunina "Ábyrgð" eða "Recommandé" á vinstri hlið utanáskriftarmegin.


3. gr.
5. mgr. 9. gr. orðist svo:
Miðann sem og áletrun sbr. 1. mgr. skal setja utanáskriftarmegin eftir því sem unnt er í efra vinstra horn eða fyrir neðan nafn og póstfang sendanda ef svo ber undir eða ef um er að ræða sendingar í spjaldformi fyrir ofan utanáskriftina á greinilegan hátt.


4. gr.
1. mgr. 14. gr. orðist svo:
Verðsendingar og póstávísanir skal aðeins afhenda eða borga út gegn kvittun viðtakanda eða umboðsmanns hans. Hafi sendandi með áletrun á sendingunni tilkynnt að hún skuli einvörðungu afhendast viðtakanda sjálfum ber honum að kvitta fyrir sendingunni og er kvittun umboðsmanns ekki tekin gild. Ábyrgðarsendingar skulu að vali sendanda afhendast skráðum viðtakanda eða umboðsmanni hans eða á heimili eða í afgreiðslu á vinnustað sbr. 9. gr. Bögglar afhendist skráðum viðtakanda en náist ekki til hans við afhendingu er heimilt að afhenda þá á heimili eða afgreiðslu á vinnustað. Takist afhending sendinga samkvæmt þessari málsgrein samt sem áður ekki skal viðtakanda tilkynnt með skriflegum hætti hvar hann eða umboðsmaður hans geti nálgast sendinguna.


5. gr.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt 46. gr. laga nr. 142/1996 um póstþjónustu, sbr. lög um breytingu á þeim lögum nr. 72/1998, til þess að öðlast þegar gildi og birtist til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli.


Samgönguráðuneytinu, 6. júlí 2000.

Sturla Böðvarsson.
Halldór S. Kristjánsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica