Fara beint í efnið

Prentað þann 29. mars 2024

Stofnreglugerð

346/1993

Reglugerð um starfsemi faggiltra óháðra skoðunarstofa.

I. KAFLI Gildissvið og skilgreiningar.

1. gr.

Reglugerð þessi tekur til starfsemi óháðra skoðunarstofa sem faggiltar eru af faggildingardeild Löggildingarstofunnar. Reglugerðinni er ætlað að tryggja að faggilt óháð skoðunarstofa uppfylli hið minnsta ákvæði sem lýst er í staðlaröðinni ÍST EN 45000, prEN45004:apríl 1993 Almennar reglur um rekstur óháðra skoðunarstofa.

Faggiltar óháðar skoðunarstofur eru hér eftir nefndar skoðunarstofur.

2. gr.

Í reglugerð þessari hafa eftirfarandi orð merkingu sem hér greinir:

Skoðun: Athugun á vöru, þjónustu, hönnun vöru, ferli eða verksmiðju til að ákvarða samræmi þeirra við tilteknar kröfur eða almennar kröfur og skal þá byggt á faglegum úrskurði.

Óháð skoðunarstofa: Aðili sem annast skoðun og uppfyllir hlutleysi þriðja aðila. Þegar um er að ræða skoðunarstofur á sviði lögmælifræði eða annarra skyldubundinna skoðana skal enginn einn aðili eða hópur aðila sem hefur hagsmuni af niðurstöðum skoðana eða prófana eiga meira en 40% af heild eða hafa ráðandi atkvæðaafl í stjórn skoðunarstofunnar, eignarhaldsfélögum eða öðrum tengdum félögum.

Þriðji aðili: Einstaklingur eða aðili sem er viðurkenndur sem óháður málsaðilum að því er varðar viðkomandi viðfangsefni.

Skoðunarskýrsla: Skjal þar sem greint er frá niðurstöðum skoðunar.

Skoðunarvottorð: Skjal þar sem greint er frá niðurstöðum skoðunar og úrskurði um mat á samræmi við settar kröfur.

Samræmismerki: Skrásett merki sem gefur til kynna að nægjanlegt traust megi bera til þess að skilgreind vara, ferli eða þjónusta sé í samræmi við tiltekinn staðal eða annað tiltekið normskjal.

II. KAFLI Starfsemi skoðunarstofa.

3. gr.

Skoðunarstofa skal uppfylla öll ákvæði í staðlaröðinni ÍST EN 45000, prEN45004:apríl 1993 Almennar reglur um rekstur óháðra skoðunarstofa.

4. gr.

Skoðunarstofa skal að öllu jöfnu framkvæma sjálf þær skoðanir sem hún hefur faggildingu fyrir. Henni er þó heimilt að leita til undirverktaka sem er faggiltur í samræmi við kröfur reglugerðar þessarar. Að öðrum kosti er skoðunarstofu skylt að leita heimildar hjá faggildingardeild Löggildingarstofunnar.

5. gr.

Ef skoðunarstofa stundar prófunarstarfsemi, skal slík starfsemi vera í samræmi við kröfur í reglugerð um starfsemi faggiltra prófunarstofa.

Ef undirverktaka er falið að annast prófun fyrir skoðunarstofu skal hann starfa í samræmi við kröfur í reglugerð um starfsemi faggiltra prófunarstofa.

6. gr.

Skoðunarstofa skal tilkynna viðskiptamönnum sínum skriflega ef breytingar verða á skoðunarreglum, verklagsreglum eða öðru er lýtur að framkvæmd skoðunar.

Ef við á, skal skoðunarstofa krefja viðskiptamenn sína um að skrásetja og varðveita allar kvartanir sem borist hafa og varða skoðaða einingu og hvaða úrbætur voru gerðar í framhaldi af því.

7. gr.

Skoðunarstofa skal setja sér skriflegar reglur um eftirlit með notkun viðskiptamanna sinna á skoðunarskýrslum, skoðunarvottorðum og samræmismerki og um viðbrögð við misnotkun viðskiptamanna á slíku.

Þá skal skoðunarstofan einnig setja sér skriflegar reglur um innköllun og ógildingu skoðunarskýrslna, skoðunarvottorða og samræmismerkja.

8. gr.

Skoðunarstofa skal hafa skjalavistunarkerfi. Vista skal skjöl sem varða hverja einstaka skoðun og lýsa m.a. framkvæmd skoðunar, mati á samræmi og umsjón, ásamt prófunar- og eftirlitsskýrslum þegar um slíkt er að ræða. Skjölin skulu vistuð á öruggan hátt í hæfilegan tíma og þannig að trúnaður við viðskiptamenn sé haldinn.

9. gr.

Upplýsa skal faggildingardeild Löggildingarstofunnar og viðkomandi stjórnvald um starfsemi skoðunarstofunnar, þegar þess er óskað.

10. gr.

Skoðunarstofa hefur rétt á því að nota faggildingarmerki. Merkið má einungis nota á skjölum sem að öllu leyti eða hluta varða skoðunarstarfsemina.

Skoðunarstofa getur aldrei framselt rétt til notkunar faggildingarmerkis.

11. gr.

Skoðunarstofa skal taka þátt í samráðsstarfsemi og samanburðarathugunum sem faggildingardeild Löggildingarstofunnar skipuleggur. Skoðunarstofan skal greiða allan kostnað sem af slíku hlýst.

12. gr.

Faggilding gildir til allt að fimm ára og skal í síðasta lagi að þeim tíma liðnum fara fram mat á skoðunarstofu, eins og um fyrsta mat sé að ræða. Eftirlit af hálfu faggildingardeildar Löggildingarstofunnar með faggiltri skoðunarstofu skal fara fram a.m.k. einu sinni á ári.

13. gr.

Þegar faggilt skoðunarstofa vísar til faggildingar sinnar skal hún tryggja að enginn vafi sé á umfangi faggildingarinnar né því í hverju hún felst.

Skoðunarstofa skal tilkynna faggildingardeild Löggildingarstofunnar skriflega og án tafar allar þær breytingar og frávik sem geta valdið því að faggildingarkröfur séu ekki uppfylltar. Skoðunarstofan skal tilnefna starfsmann sem annast samskipti við faggildingardeild Löggildingarstofunnar.

Ef faggilt skoðunarstofa uppfyllir ekki gildandi reglur, þá er faggildingardeild Löggildingarstofunnar heimilt að krefja skoðunarstofuna tafarlausra úrbóta, breyta umfangi faggildingar eða afturkalla faggildingu. Sé faggilding skoðunarstofu afturkölluð, skal hún í framhaldi af því þegar hætta allri tilvísun til áður faggiltrar stöðu sinnar. Kostnaður sem af hlýst greiðist af skoðunarstofunni.

14. gr.

Ef faggilt skoðunarstofa óskar eftir að segja faggildingu sinni upp, þá skal það gert með a.m.k. þriggja mánaða fyrirvara. Sé uppsögn tilkynnt með skemmri fyrirvara er skoðunarstofu skylt að greiða gjald sem nemur 50% af síðast greiddu eftirlitsgjaldi.

III. KAFLI Ýmis ákvæði.

15. gr.

Kostnað við faggildingu, árlegt eftirlit o.fl. sem tilgreindur er í gjaldskrá Löggildingarstofunnar, og viðskiptaráðherra setur, skal skoðunarstofan greiða á gjalddaga.

16. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er skv. 12. gr. laga nr. 100/1992, um vog, mál og faggildingu, öðlast gildi þegar við birtingu.

Viðskiptaráðuneytið, 20. ágúst 1993.

F. h. r.

Björn Friðfinnson.

Sveinn Þorgrímsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.