Félagsmálaráðuneyti

200/1994

Reglugerð um eigið eftirlit eigenda og forráðamanna með brunavörnum í atvinnuhúsnæði - Brottfallin

Efnisyfirlit:

1. Skilgreiningar.

2. Almenn ákvæði.

3. Skipulag eigin eldvarnaeftirlits.

4. Leiðbeiningar Brunamálastofnunar ríkisins.

1. Skilgreiningar.

1.1. Eigið eftirlit eigenda og forráðamanna:

Eigið eftirlit er daglegt og reglubundið eldvarnaeftirlit fyrirtækja og stofnana á eigin vegum og fyrir eigið fé. Hér er átt við eldvarnaeftirlit sem eigendur og forráðamenn eða starfsmenn þeirra annast eða aðilar á þeirra vegum, t.d. þjónustufyrirtæki eða sjálfstætt starfandi eldvarnaeftirlitsmenn.

1.2. Forráðamaður:

Með forráðamanni er átt við ábyrgan aðila, t.d. framkvæmdastjóra fyrirtækis, sem hefur húsnæðið til umráða og nýtir það til atvinnustarfsemi. Eigandi og forráðamaður geta verið einn og sami aðili.

1.3. Atvinnuhúsnæði:

Með atvinnuhúsnæði er í þessari reglugerð átt við húsnæði þar sem almenningur kemur saman, dvelst eða vistast og hverskonar atvinnustarfsemi fer fram.

Dæmi um slíkt atvinnuhúsnæði (ekki tæmandi upptalning):

Skrifstofur, verslanir, bankar, hótel, gistihús og gistiskálar, barnaheimili, heimavistir, skólar og dagvistarstofnanir, sjúkrahús, læknamiðstöðvar, heilsuhæli, dvalarstofnanir og dvalarheimili fyrir aldraða, stofnanir og vistheimili fyrir fatlaða, bókasöfn og lestrarsalir, listasöfn, byggðasöfn, leikhús, kvikmyndahús, hljómleikahús, sýningahús, íþróttahús, kirkjur og safnaðarheimili, flugstöðvarbyggingar, bensínafgreiðslur, olíubirgðastöðvar, sláturhús, loðdýrabú, alifuglabú, frystihús og önnur fiskverkunarhús, viðgerðarverkstæði, iðnaðar- og verksmiðjuhús og vörugeymslur.

Atvinnuhúsnæði í landbúnaði, þ.m.t. gripahús, hlöður og tilheyrandi geymsluhús, er sömuleiðis eftirlitsskylt.

1.4. Telst ekki atvinnuhúsnæði:

Íbúðarhúsnæði til einkanota, s.s. einbýlishús og fjölbýlishús, telst ekki atvinnuhúsnæði og er því undanskilið ákvæðum þessarar reglugerðar, nema þar fari fram önnur atvinnustarfsemi heldur en telst vera venjulegur heimilisiðnaður.

2. Almenn ákvæði.

2.1. Ábyrgð eigenda og forráðamanna.

Eigandi atvinnuhúsnæðis er ábyrgur fyrir því að það fullnægi kröfum um brunavarnir sem fram eru settar í lögum og reglugerðum um byggingar- og brunamál.

Forráðamanni atvinnuhúsnæðis er skylt að sjá til þess að það fullnægi kröfum um brunavarnir fyrir þá starfsemi sem í húsnæðinu fer fram á hverjum tíma.

Eigandi og/eða forráðamaður atvinnuhúsnæðis ber fulla ábyrgð á eigin brunavörnum, þ.e. að þær séu virkar og að haft sé reglubundið eftirlit með þeim. Jafnframt er þeim skylt að hlíta fyrirmælum eftirlitsmanna sveitarfélaga og opinberra stofnana um úrbætur sem eiga sér stoð í gildandi lögum og reglugerðum um brunavarnir og brunamál, byggingarmál, öryggismál og hollustuhætti.

2.2. Gildissvið og yfirumsjón.

Reglugerð þessi gildir um reglubundið eldvarnaeftirlit eigenda og forráðamanna atvinnuhúsnæðis á öllu landinu, sbr. skilgreiningu í I. kafla.

Slökkviliðsstjóri í hverju umdæmi hefur umsjón og eftirlit með því að kröfum í lögum og reglugerðum um brunavarnir og brunamál sé framfylgt, þ.m.t. að eigandi og/eða forráðamaður sinni eigin eldvarnaeftirliti. Hann skal hafa fullnægjandi samráð við aðra aðila er málið varðar, t.d. Brunamálastofnun ríkisins, Vinnueftirlit ríkisins, Hollustuvernd ríkisins, Rafmagnseftirlit ríkisins og brunatryggingafélög.

Komi upp ágreiningur um ábyrgð eða verkaskiptingu er varðar framkvæmd eftirlitsins sker Brunamálastofnun ríkisins úr þeim ágreiningi.

2.3. Markmið.

Reglugerð þessi og tilheyrandi leiðbeiningar hafa að geyma ákvæði um hvernig eigendum, forráðamönnum og starfsmönnum atvinnuhúsnæðis beri að haga eldvarnaeftirliti sínu til að auðvelda þeim að sinna því eins og þeim ber skylda til samkvæmt lögum.

Markmiðið er að fyrirbyggja eignatjón og/eða manntjón og koma í veg fyrir röskun á högum og/eða rekstrarstöðvun af völdum bruna.

2.4. Brot á lögum og reglum.

Nú kemur í ljós að eigendur og forráðamenn sinna ekki þeim kröfum sem fram eru settar í lögum nr. 41/1992 um brunavarnir og brunamál eða gildandi reglum og reglugerðum eða fyrirmælum eldvarnaeftirlitsmanna um úrbætur og gilda þá um meðferð málsins ákvæði VI. kafla laga nr. 41/1992 um brunavarnir og brunamál.

3. Skipulag eigin eldvarnaeftirlits.

3.1. Umsjónarmaður.

Eiganda eða forráðamanni ber að fela ákveðnum og ábyrgum starfsmanni það verkefni að hafa yfirumsjón með brunavörnum hússins og þjálfun starfsmanna varðandi innra eldvarnaeftirlit, fyrstu viðbrögð við eldi og slökkvistarf. Æskilegt er að þessi maður sé einn af eigendum eða stjórnendum viðkomandi fyrirtækis eða stofnunar.

A.m.k. einu sinni á ári skal umsjónarmaður gera sérstaka úttekt á eldvörnum og brunaöryggi í húsnæðinu öllu.

Þetta á þó ekki við um lítið húsnæði (undir 50 m2), þar sem fáir vinna (færri en 5) og starfsemin hefur ekki í för með sér sérstaka eldhættu, t.d. litlar verslanir og rakarastofur. Í slíkum tilvikum er ekki nauðsynlegt að tilnefna umsjónarmann með eldvörnum eða framkvæma sérstaka árlega úttekt á eldvörnum.

3.2. Fræðsla starfsfólks.

Þegar um stórar brunaáhættur, margt starfsfólk eða mikinn fólksfjölda er að ræða, eða þar sem eldhætta er mjög mikil vegna starfsemi eða vörubirgða, ber að huga sérstaklega að möguleikum starfsmanna til að ráða niðurlögum elds strax í upphafi. Almennt skulu starfsmenn fá haldgóða fræðslu og þjálfun í fyrstu viðbrögðum við eldi og slökkvistarfi viðeigandi slökkvibúnaður skal vera fyrir hendi og tiltækur. Í mjög stórum fyrirtækjum ber að þjálfa ákveðna starfsmenn í björgunar- og slökkvistarfi og hafa á staðnum nauðsynlegan búnað og tæki til þeirra hluta, sbr. 7. mgr. 18. gr. laga nr. 41/1992 um brunavarnir og brunamál.

3.3. Brunaæfingar.

Í atvinnuhúsnæði þar sem 30 manns eða fleiri starfa eða dveljast að staðaldri skal a.m.k. einu sinni á ári halda brunaæfingu. Hafa ber samráð við slökkviliðsstjóra um tilhögun slíkra æfinga eða leita aðstoðar hjá öðrum aðila sem slökkviliðsstjóri samþykkir og öðlast hefur viðurkenningu, t.d. eftir námskeið hjá Brunamálastofnun ríkisins.

3.4. Útkall slökkviliðs.

Umsjónarmaður skal hafa samband við slökkviliðið á staðnum og í samráði við það ganga frá skýrum leiðbeiningum fyrir starfsmenn um boðun slökkviliðs komi upp eldur í húsinu. Þetta ber einnig að gera þótt sjálfvirkt eldviðvörunarkerfi tengt slökkvistöð sé í húsinu.

3.5. Lokað um skemmri eða lengri tíma.

Þegar fyrirtæki eða stofnun er lokað um lengri eða skemmri tíma, t.d. vegna sumarleyfa, jóla eða páska, ber að framkvæma sérstaka skoðun með tilliti til eldhættu og brunavarna og gera ráðstafanir til þess að fylgst sé með húsnæðinu meðan á lokuninni stendur.

4. Leiðbeiningar Brunamálastofnunar ríkisins.

Brunamálastofnun gefur út leiðbeiningar um eigið eftirlit eigenda og forráðamanna með brunavörnum í atvinnuhúsnæði.

Fyrsta útgáfa ofangreindra leiðbeininga er birt með þessari reglugerð sem fylgiskjal og skulu eigendur og forráðamenn atvinnuhúsnæðis hafa hliðsjón af þeim leiðbeiningum, eftir því sem við á hverju sinni. Þeim ber jafnframt að leita ráðgjafar hjá slökkviliðsstjóra eða Brunamálastofnun ríkisins eftir því sem þörf krefur.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 30. gr. laga nr. 41/1992 um brunavarnir og brunamál og öðlast þegar gildi.

Félagsmálaráðuneytið, 7. apríl 1994.

Jóhanna Sigurðardóttir.

Sesselja Árnadóttir.

 

 

 

Fylgiskjal.

Leiðbeiningar

um eigið eftirlit eigenda og forráðamanna

með brunavörnum í atvinnuhúsnæði.

Efnisyfirlit:

1. Umgengni, þrif og reykingar.

2. Málmsuða og logskurður.

3. Raflagnir, rafmagnstæki og rafmagnsofnar.

4. Eldfim efni.

5. Vélknúin farartæki.

6. Brunahólfun.

7. Rýmingarleiðir.

8. Handslökkvitæki.

9. Slöngukefli.

10. Sérhæfður búnaður og tæki.

11. Að fyrirbyggja eða minnka tjón af völdum bruna. Ráð og leiðbeiningar.

1. Umgengni, þrif og reykingar.

1.1. Þrif og umgengni.

Halda skal atvinnuhúsnæði þrifalegu og safna saman rusli sem í gæti kviknað og fjarlægja það eða setja í viðurkennd málmílát.

Þar sem eldhætta er mikil, t.d. í verksmiðjuhúsum og álíka atvinnuhúsnæði, skulu ílát undir rusl vera með áfestu loki. Þannig skal frá ílátinu gengið að það velti ekki auðveldlega um koll og ber að tæma það daglega og eyða innihaldinu eða flytja á brott.

1.2. Ryk í lofti.

Í framleiðslufyrirtækjum, bílaverkstæðum og álíka atvinnuhúsnæði, þar sem unnið er með opinn eld, s.s. við málmsuðu, skal hafa í huga sprengihættu frá ryki í lofti. Undir vissum kringumstæðum getur ryk sem þannig hvirflast í lofti og kemst í snertingu við eld orsakað sprengingu og þar með eldhættu. Þess vegna ber að gera ráðstafanir til að fyrirbyggja ryk í lofti, t.d. með hæfilegri loftræstingu og loftraka auk fyrirbyggjandi ráðstafana gegn rykmyndun.

Hreinsa skal ló og ryk á stöðum sem auðvelt er að komast að. Kapalstokka, rörastokka og aðra staði sem erfitt er að komast að ber að hreinsa vandlega minnst einu sinni á ári og oftar ef þörf krefur.

1.3. Geymsla á vinnufatnaði.

Vinnufatnað í verksmiðjuhúsum og álíka atvinnuhúsnæði ber að hafa í sérstöku herbergi sem aðskilið er frá öðrum hlutum hússins með B60 eða A60 byggingarhlutum. Jafnframt ber að hafa fatnaðinn í lokuðum og loftræstum málmskápum.

Hreinsa skal slíka fataskápa og fatageymslur reglulega og aldrei skal geyma þar olíumettaðar tuskur eða brennanlegt rusl.

1.4. Rýmingarleiðir.

Þess skal gæta vandlega að undankomu- og útgönguleiðir séu ekki tepptar með vörubirgðum, húsgögnum eða öðrum búnaði.

1.5. Eldvarnabúnaður.

Eldvarnabúnað, t.d. handslökkvitæki, slöngukefli, vióvörunarkerfi og slökkvikerfi, skal umgangast með fullri gát og þrengja ekki að búnaðinum með vörum þannig að virkni sé hindruð eða aðgangur tepptur.

1.6. Reykingar.

Í atvinnuhúsnæði gildir almenn varúð við reykingar. Einungis ber að leyfa reykingar á nánar tilteknum stöðum, t.d. skrifstofuherbergi einstaklinga, eða afmörkuðu svæði í matsal ef um það er fullt samkomulag. Reykingasvæði ættu að vera greinilega merkt.

1.7. Svæði utan húss.

Gæta skal þess að á milli bygginga og brennanlegra vörubirgða á útisvæði sé ekki safnað upp rusli eða afgangsefnum, þannig að aukin hætta sé á útbreiðslu elds eða slökkviliðið hafi ekki nægilega greiðan aðgang að byggingum og vörubirgðum.

1.8. Lok vinnudags.

Þar sem eldhætta á vinnusvæði er mikil, t.d. í málningarverksmiðjum, bílaverkstæðum og gúmmívinnustofum, eða utanhúss á verkstæðalóðum þar sem framleiðsla á sér stað, skal í lok vinnudags setja ílát með eldfimum vökva o.þ.h. í örugga geymslu.

Yfirfara skal húsnæði og vinnusvæði áður en það er yfirgefið. Líta skal eftir því að verkfæri, eldhústæki eða annar búnaður sé ekki raftengdur, nema svo eigi að vera og tryggilega sé frá þeim gengið. Einnig skal líta eftir því að falinn eldur eða neistar leynist hvergi eða önnur sérstök eldhætta sé fyrir hendi.

2. Málmsuða og logskurður.

2.1. Málmsuða og logskurður fari fram á löggiltum verkstæðum.

Málmsuða (logsuða, rafsuða, hlífðargassuða) og logskurður skal almennt fara fram á löggiltum verkstæðum ef þess er kostur og aðstæður leyfa án verulega aukins tilkostnaðar.

2.2. Málmsuða og logskurður utan löggiltra verkstæða.

Sé verið að málmsjóða eða logskera utan löggiltra verkstæða skal kunnáttumaður annast verkið. Þess skal m.a. gætt að suðutæki og vélar séu í fullkomnu lagi og búin öryggislokum. Öryggishanskar og ventillyklar skulu vera fyrir hendi.

2.3. Almennar aðstæður á vinnustað.

Aldrei má málmsjóða eða logskera þar sem sérstök eldhætta er fyrir hendi eða eldnæm efni eru notuð og geymd (eldfimur vökvi eða gas, timbur, spónn, vefnaðarvara, gúmmí) eða í vörugeymslum, nema tryggilegar ráðstafanir hafi verið gerðar til öryggis.

Hreinsa skal burt öll eldfim efni af gólfi þar sem málmsuða eða logskurður fer fram áður en vinna hefst. Brennanlega muni og byggingarhluta skal verja gegn neistaflugi með eldþolnum skermum, yfirbreiðslum eða á annan hátt.

Gaumgæfa skal að rifum og skotum þar sem eldnæm efni geta leynst, t.d. plasteinangrun í veggjum.

Þétta ber í sprungur og holur á vinnusvæðinu og æskilegt er að væta svæðið vel með vatni fyrir og meðan á málmsuðu stendur.

2.4. Öryggisráðstafanir.

Þar sem málmsuða eða logskurður fer fram skal hafa viðeigandi slökkvibúnað, sem fer eftir umfangi verksins. I mörgum tilvikum nægir að hafa handslökkvitæki af réttri stærð og gerð, sbr. 8. kafla. Einnig er æskilegt að fyrir hendi sé ílát með sandi og skóflu.

Séu aðstæður varasamar skal sérstakur öryggisvörður vera á staðnum meðan á vinnu stendur og fyrst á eftir.

2.5. Að vinnu lokinni.

Fara skal vandlega yfir allt vinnusvæðið þegar málmsuðu eða logskurði er lokið, tilkynna ábyrgum stjórnanda, t.d. verkstjóra, að vinnu sé hætt og fara með suðutæki og gashylki á öruggan stað til geymslu.

Hafa skal síðan fullan vara á sér í að minnsta kosti klukkustund frá verklokum.

3. Raflagnir, rafmagnstæki og rafmagnsofnar.

3.1. Ástand rafbúnaðar, eftirlit og viðhald.

Raflagnir og rafbúnaður skal ætíð vera í fullkomnu lagi og vel við haldið. Fylgjast skal reglulega með búnaðinum og láta fagmenn annast allar viðgerðir. Gera skal strax við brotinn rafbúnað, s.s. tengla og rofa, og skipta um gallaðar lausataugar og annað sem úr lagi fer.

Rafmagnsvélar og rafmagnshitara skal yfirfara reglulega og gaumgæfa að slík tæki yfirhitni ekki og halda þeim hreinum og þurrum. Gæta skal þess að rafleiðslur verði ekki fyrir hnjaski og liggi ekki við hlið olíuleiðslu eða hitarörs. Forðast skal að nota bráðabirgðaleiðslur og lausar raflagnir. Raftengdar vélar og laus rafmagnstæki skulu standa á traustum grunni. Öryggishlífar og annar öryggisbúnaður skal vera í fullkomnu lagi.

3.2. Umgengni.

Starfsfólki þarf að kenna rétta umgengni við rafbúnað hvers fyrirtækis. Raflagnir og allan rafbúnað skal umgangast með aðgát og verja gegn ryki, bleytu og tærandi efnum, s.s. klórefnum og ammóníaki.

Ekki má þurrka fatnað eða annað eldnæmt efni við rafmagnsofna nema Rafmagnseftirlit ríkisins hafi viðurkennt þá til slíkra nota, t.d. rafmagnsþilofna með sérstökum hitaskynjurum.

Kaffivélar, útvarpstæki, sjónvarpstæki, hitaplötur, færanlega rafmagnsofna, þurrktæki, hitablásara og önnur slík laustengd rafmagnstæki ber að taka úr sambandi þegar vinnu lýkur.

Tryggilega skal ganga frá sítengdum rafbúnaði, s.s. tölvum og faxtækjum, þannig að ekki stafi af þeim eldhætta.

3.3. Rafmagnstæki í nánd við eldfim efni.

Almennt bann er við því að hafa rafmagnstæki tengd í nánd við eldfim efni og aldrei án sérstaks eftirlits og þá með því skilyrði að viðeigandi slökkvibúnaður sé tiltækur. Glóðarperur og ljósahundar

mega ekki vera of nærri eldfimum efnum og öryggisgler skal vera á öllum slíkum ljósabúnaði

3.4. Rafmagnsofnar til upphitunar.

Séu rafmagnsofnar notaðir til upphitunar á vinnustöðum skal hafa ofna sem Rafmagnseftirlit ríkisins viðurkennir. Ekki má hlaða brennanlegum vörum eða varningi upp að rafhitaofnum.

3.5. Eldhús og kaffistofur.

Í eldhúsum skal að jafnaði hafa handslökkvitæki og eldvarnateppi og í kaffistofum handslökkvitæki.

4. Eldfim efni.

4.1. Meðferð og notkun eldfimra efna.

Gæta skal fyllsta öryggis við meðferð og notkun eldfimra efna og afla upplýsinga þar að lútandi hjá framleiðanda eða söluaðila efnisins og leita ráðgjafar hlutaðeigandi yfirvalda sem með þau mál fara (Vinnueftirlits ríkisins, Hollustuverndar ríkisins og Brunamálastofnunar ríkisins) eftir því sem þörf krefur eða ástæða þykir til.

4.2. Starfsfólk og umgengni.

Starfsmenn sem vinna með eldfim efni, s.s. vökva eða gas, skulu fá haldgóða fræðslu um meðferð og notkun efnanna og þá eld- og sprengihættu sem af þeim getur stafað. Jafnframt skulu starfsmennirnir fá þjálfun í meðferð handslökkvitækja og réttum viðbrögðum við eldi.

4.3. Opinn eldur eða glóð.

Aldrei skal vera með opinn eld eða glóð (sígarettur, pípur, vindla) þar sem eldfim efni eru geymd eða verið er að vinna með þau.

Gæta skal þess að olíumettaður tvistur eða klútar, sem valdið geta sjálfsíkveikju, séu ekki geymdir í námunda við mjög eldfim eða sýrumenguð efni.

4.4. Geymsla á eldfimum efnum.

Á vinnustað skal ekki hafa meira magn eldfimra efna en nauðsynlegt er hverju sinni. Gera skal ætíð ráðstafanir til að hindra leka á eldfimum vökva eða gasi.

Eldfim efni í miklu magni skal geyma í sérstakri útigeymslu eða innan húss í til þess gerðum traustum og aðskildum rýmum. Takmarkað magn eldfimra efna má þó hafa á vinnusvæðinu, en í traustum ílátum og læstum málmskápum. Laus ílát á vinnustað skulu vera gerð fyrir það efni sem þau geyma.

Jafnframt er vísað í eftirfarandi rit Brunamálastofnunar ríkisins: Reglugerð um eldfima vökva og Reglugerð um forðageymslur fyrir F-gas í húsi einu sér, hluta byggingar, útigeymslu eða útisvæði.

4.5. Takmarka ber notkun mjög eldfimra efna.

Við hreinsun og límingu og álíka starfsemi ber að nota efni sem ekki eru eldfim og reyna þannig eftir því sem kostur er að komast hjá notkun mjög eldfimra efna, s.s. bensíns og þynnis.

4.6. Neistar og stöðurafmagn.

Gæta skal ítrustu varfærni varðandi rafmagn þar sem unnið er með eld- og sprengifim efni. Jarðtengja skal rafmagnsleiðslur og viðhalda góðum loftraka á vinnusvæðinu (65% eða meira) þar sem hætta getur verið á myndun neista og stöðurafmagns. Þrífa skal sprautuklefa og loftpípur frá slíkum klefum reglulega og nota ber verkfæri sem ekki valda neistaflugi.

4.7. Leiðslur og öryggisbúnaður.

Leiðslur fyrir eldfim efni (vökva eða gas)-skulu vera traustar og vel merktar og hafa áberandi lit. Neyðarhnappar, straumrofar og lokar skulu sömuleiðis vera merktir og þannig staðsettir, að þeir séu vel aðgengilegir fyrir öryggisverði og slökkvilið, einnig þótt eldur hafi komið upp á vinnusvæðinu.

4.8. Handslökkvitæki og sérhæfður slökkvibúnaður.

Á vinnusvæðum skulu vera handslökkvitæki af réttri stærð og gerð, sbr. 8. kafla í þessum leiðbeiningum.

Í atvinnuhúsnæði, t.d. þar sem unnið er með eldfima vökva, getur þurft að hafa öflugar brunavarnir, t.d. sjálfvirk slökkvikerfi. Rétt er að leita ráðgjafar í slíkum tilvikum, t.d. hjá slökkviliðsstjóra eða Brunamálastofnun ríkisins.

5. Vélknúin farartæki.

5.1. Geymsla.

Vélknúin farartæki í eigu fyrirtækja eða í notkun hjá þeim, t.d. bíla, flutningavagna, vörulyftara og vinnuvélar allskonar, ber að geyma á öruggum eða afgirtum stað utan húss eða í sérstökum læstum rýmum innan húss, sem aðskilin eru frá öðrum hlutum byggingarinnar. Sérstaklega ber að forðast að geyma vélknúin farartæki innan húss í framleiðslusölum eða vörugeymslum.

5.2. Ýmis öryggisatriði.

Ekki má setja eldsneyti á vélknúið farartæki né tappa því af innan húss. Ef unnið er að viðgerð á eldsneytisgeymi eða hleðslu á rafgeymi skal gæta ítrustu varúðar, bæði er varðar val á vinnustað og örugg vinnubrögð.

Aldrei má fara með vélknúið farartæki inn í húsnæði eða inn á svæði þar sem eldfim, sprengifim eða eitruð efni eru geymd, nema gætt sé ítrustu varúðarráðstafana.

5.3 Ferming og afferming.

Þar sem verið er að ferma eða afferma bíla eða flutningavagna skal gæta fyllsta öryggis gagnvart eldhættu og hafa réttan slökkvibúnað tiltækan, t.d. viðurkennd handslökkvitæki (dufttæki eða kolsýrutæki).

6. Brunahólfun.

6.1. Samþykkt slökkviliðsstjóra og byggingarfulltrúa.

Gerðar eru mismunandi kröfur um brunahólfun atvinnuhúsnæðis og fer það eftir gerð byggingar (steinhús, timburhús) og notkun (kirkja, skóli, samkomuhús, hraðfrystihús, vélaverkstæði) hverjar kröfurnar eru.

- Eigandi og/eða forráðamaður atvinnuhúsnæðis sem þegar er í rekstri skal óska eftir úttekt slökkviliðsstjóra og byggingarfulltrúa á brunahólfun þess til að fá fullvissu um að hún fullnægi kröfum um brunavarnir.

- Áður en nýtt atvinnuhúsnæði er tekið í notkun skal liggja fyrir vottorð slökkviliðsstjóra og byggingarfulltrúa þess efnis, að brunavarnir hússins, þ.m.t. brunahólfun þess, séu fullnægjandi.

- Sérstök úttekt skal fara fram ef breyting verður á starfseminni þess eðlis að kröfur um brunahólfun skerpast eða ef breyting verður á skipulagi húsnæðisins þannig að brunahólfun breytist.

6.2. Eftirlit og viðhald.

Eigendur og forráðamenn skulu hafa eftirlit með því að hin samþykkta brunahólfun sé ætíð í fullkomnu lagi.

- Líta skal eftir því að hurðir og hlerar í gólfum, loftum og veggjum séu í góðu ástandi og virk.

- Auðvelt skal vera að loka eldvarnarhurðum og þær skulu hafa lokunarbúnað sem hentar starfseminni án þess að hætta skapist á því að hin tilætlaða brunahólfun rýrist. Þurfi eldvarnarhurðir að standa opnar vegna flutninga á vörum eða annars umgangs skal gera viðeigandi ráðstafanir, t.d. hafa á þeim segulgrip sem tengjast sjálfvirku eldviðvörunarkerfi.

- Þegar starfsemi lýkur skal sérstaklega líta eftir því að brunahólfunin sé virk (eldvarnarhurðir lokaðar eða sjálfvirk lokun þeirra tryggð). Sama er að segja um hlera fyrir vöruopum í gólfum, loftum eða veggjum.

6.3. Ýmsar ráðstafanir.

Líta skal sérstaklega eftir því að hvergi séu annmarkar sem rýra tilskilda brunahólfun.

- Þar sem óþarfa göt eða rifur eru í gólfum, veggjum eða loftum skal fylla upp í þau. Sömuleiðis skal þétta kringum reykrör, loftstokka, pípur og rafkapla sem fara í gegnum brunahólfandi skil og þétta meðfram falsi hurða og hlera. Einungis ber að nota viðurkennd þéttiefni.

- Aldrei má setja kíla undir eldvarnarhurðir til að halda þeim opnum eða teppa lokun þeirra á annan hátt, nema sérstök og stöðug öryggisvarsla sé á staðnum meðan það ástand varir.

7. Rýmingarleiðir.

7.1. Samþykkt slökkviliðsstjóra og Vinnueftirlits ríkisins.

Gerðar eru misstrangar kröfur um rýmingarleiðir (flóttaleiðir) í atvinnuhúsnæði og gilda þar um reglur sem Brunamálastofnun ríkisins ákveður og vísast til þeirra. Reglur Vinnueftirlits ríkisins gilda þar sem þær kunna að vera strangari.

- Eigendur og forráðamenn atvinnuhúsnæðis þar sem 30 manns eða fleiri starfa eða dveljast skulu sjá til þess að skipulag rýmingarleiða hafi verið tekið út og samþykkt af slökkviliðsstjóra.

- Sérstök úttekt skal fara fram ef breyting verður á starfseminni þess eðlis, að kröfur um rýmingarleiðir skerpast eða ef breyting verður á skipulagi hússins þannig að rýmingarleiðir breytast.

7.2. Ýmis skilyrði.

- Húsgögn, vörur eða annað má ekki teppa útgönguleiðir. Þótt leyft kunni að vera að hafa húsgögn eða annan búnað í rýmingarleiðum þegar það er ekki talið hindra flótta úr eldi að mati slökkviliðsstjóra og fulltrúa Vinnueftirlits ríkisins, er það algjört skilyrði að þau séu úr efnum sem ekki eru sérlega reykmyndandi eða gefa frá sér eitraðar lofttegundir við bruna.

- Læsingarbúnaður á hurðum í flóttaleið skal vera þannig að auðvelt sé að opna þær í flóttaátt, t.d. útidyr að innanverðu, án þess að nota lykil. Sé óskað eftir annarri tilhögun ber að afla samþykkis slökkviliðsstjóra.

- Gæta skal þess að flóttaleiðir séu vel merktar og auðrataðar. Útgönguljós og neyðarlýsing skal vera fyrir hendi og í góðu lagi þar sem slíks er krafist í reglum og reglugerðum um brunavarnir og brunamál eða í brunahönnun sem Brunamálastofnun ríkisins hefur samþykkt eða á brunavarnauppdrætti sem byggingarnefnd hefur samþykkt.

7.3. Viðvörun um eld.

Þótt um sé að ræða byggingu þar sem ekki er krafist sjálfvirks brunaviðvörunarkerfis í lögum eða reglugerðum um byggingar- og brunamál, ber ætíð að skipuleggja með hvaða hætti viðvörun til starfsfólks um eld í húsinu skal fara fram, t.d. með sérstöku kallkerfi eða á annan hátt.

Eigendum og forráðamönnum atvinnuhúsnæðis ber ætíð að huga að þessum öryggisatriðum og finna á þeim viðunandi lausn og hafa samráð við slökkviliðsstjóra og fulltrúa Vinnueftirlits ríkisins eftir því sem þörf krefur.

Sjá jafnframt 3. kafla (Skipulag eigin eldvarnaeftirlits) í Reglugerð um eigið eftirlit eigenda og forráðamanna með brunavörnum í atvinnuhúsnæði.

8. Handslökkvitæki.

8.1. Ýmsar gerðir handslökkvitækja.

Handslökkvitæki eru af ýmsum gerðum og stærðum. Til upplýsingar má nefna að algeng handslökkvitæki í atvinnuhúsnæði eru:

Gerð:
Dufttæki
Vatnstæki
Kolsýrutæki
Froðutæki
Léttvatnstæki

Slökkviefni:
ABCE-duft
Vatn
CO2
Vatn og froða
Vatn og AFFF-íblanda

Stærð:
6 og 12 kg
9-10 1
2 og 6 kg
9-10 1
9-10 1

Við val á handslökkvitækjum ber að leita réttrar ráðgjafar, t.d. hjá slökkviliðsstjóra, og hafa jafnframt hliðsjón af leiðbeiningum, reglum og reglugerðum Brunamálastofnunar ríkisins og Vinnueftirlits ríkisins. Söluaðila tækjanna ber einnig að veita fullnægjandi upplýsingar um notkun þeirra og virkni.

8.2. Opinberar reglur og leiðbeiningar um handslökkvitæki.

Um handslökkvitæki vísast í eftirfarandi rit frá Brunamálastofnun ríkisins: Reglur um eftirlit og viðhald handslökkvitækja og Leiðbeiningar um val og staðsetningu handslökkvitækja.

Fara ber eftir reglum þessum og leiðbeiningum og einnig fyrirmælum slökkviliðsstjóra, en hér á eftir verður einungis getið þeirra höfuðatriða sem eigendur og forráðamenn atvinnuhúsnæðis þurfa að hafa sérstaklega í huga.

8.3. Ábyrgð og skyldur eigenda og forráðamanna.

Þar sem handslökkvitæki eru staðsett í atvinnuhúsnæði bera eigandi og forráðamaður fulla ábyrgð á því að daglegt og reglubundið eftirlit með þeim fari fram eins og tilgreint er í riti Brunamálastofnunar ríkisins: Reglur um eftirlit og viðhald handslökkvitækja.

Þeir bera einnig ábyrgð á því að árlegt eftirlit og nauðsynlegt viðhald, áfylling á tæki og þrýstiprófun hylkja fari fram og sé framkvæmt af viðurkenndum aðila eins og reglurnar segja til um.

8.4. Viðurkennd handslökkvitæki.

Handslökkvitæki í atvinnuhúsnæði skulu hljóta viðurkenningu Brunamálastofnunar ríkisins og skulu fullnægja stöðlum sem stofnunin samþykkir.

Seljendur handslökkvitækja skulu því geta sýnt fram á það með sérstöku vottorði frá Brunamálastofnun ríkisins að tækin séu viðurkennd.

Þess ber að krefjast af seljanda að á handslökkvitæki séu skýrar leiðbeiningar á íslensku um notkun þess.

9. Slöngukefli.

9.1. Slöngukefli (slöngurúllur, brunaslöngur).

Slöngukefli er brunaslanga upprúlluð á kefli sem hengt er á vegg. Oft eru slöngukefli höfð í ólæstum málmkassa til hlífðar gegn hnjaski.

Til upplýsingar skal getið að slöngukefli er "vatnsfyllt" þegar inntaksloki vatnsleiðslunnar gegnum húsið að slöngukefli er opinn og vatn stendur því á fæðilögninni allt að veggloka við keflið. Þetta er algengast og nær undantekningarlaust haft þannig í upphituðum húsum þar sem ekki er sérstök hætta á að vatn frjósi í leiðslum. Slöngukefli er "vatnstómt" þegar inntakslokinn er hafður lokaður og fæðilögnin er vatnstóm að loka slöngukeflis.

9.2. Vatnsmagn og vatnsþrýstingur.

Slöngukefli er ætlað að gefa vatn til slökkvistarfs í tilskildu lágmarks magni og við þann lágmarks vatnsþrýsting inn á slönguna sem gefur tilætlaða kastlengd á vatnsbununni frá slöngustútnum.

Ber að tryggja að ofangreindum lágmarkskröfum sé fullnægt, þ.m.t. að velja rétta slönguvídd miðað við lengd hennar og tilætlað vatnsrennsli og sömuleiðis að velja " rétta vídd á slöngustút miðað við tilætlaða kastlengd vatnsbununnar.

9.3. Eftirlit og viðhald.

Fylgjast skal með því að inntaksloki fæðileiðslu vatnsfylltra slöngukefla sé ætíð opinn og inntaksloki fyrir vatnstóm slöngukefli sé aðgengilegur fyrir slökkviliðið og auðvelt sé að opna hann.

Fylgjast ber með því að ekki séu sýnilegir skaðar á veggloka, slöngu og stút, t.d. um leið og reglubundið eftirlit fer fram á handslökkvitækjum.

9.4. Viðurkenningar og leiðbeiningar á íslensku.

Slöngukefli skulu vera viðurkennd af Brunamálastofnun ríkisins. Þess ber að krefjast af seljanda að framan á kassa slöngukeflis eða á veggnum við hliðina séu skýrar leiðbeiningar á íslensku um notkun þess. Einnig skulu þar vera upplýsingar um lengd og vídd slöngunnar og stærð á slöngustút. Jafnframt vísast í eftirfarandi rit Brunamálastofnunar ríkisins: Reglur um brunahana, brunaleiðslur og slöngukefli til brunavarna.

10. Sérhæfður búnaður og tæki.

10.1. Ýmis sérhæfður búnaður til brunavarna.

Hér á landi er til margskonar sérhæfður búnaður til brunavarna, s.s. viðvörunarkerfi og slökkvikerfi af ýmsum stærðum og gerðum, sjálfvirkur og/eða handvirkur. Eftirfarandi er nefnt til upplýsingar: Brunaviðvörunarkerfi (eldviðvörunarkerfi), vatnsúðakerfi (sprinkler), halonkerfi (1301), kolsýrukerfi (CO2), duftkerfi, froðukerfi, léttvatnskerfi, reykræstibúnaður, brunalokur ásamt stýribúnaði, útgönguljós, neyðarlýsing og lokunarbúnaður fyrir hurðir.

10.2. Prófun og úttekt áður en kerfi er tekið í notkun.

Eiganda, eða forráðamanni sé það á hans vegum, ber að sjá til þess að búnaður og kerfi hafi verið prófuð og tekin út í viðurvist hönnuðar, slökkviliðsstjóra og annarra er málið varðar áður en það er tekið í notkun. Eigandi, eða forráðamaður sé það á hans vegum, og slökkviliðsstjóri skulu staðfesta þetta með undirskrift sinni og skrásetja í sérstaka viðhaldsbók sem geyma skal í læstri hirslu, t.d. við stjórnstöð kerfis eða á öðrum öruggum stað sem er aðgengilegur fyrir eftirlitsaðila.

Þegar um er að ræða meiriháttar viðvörunar- og slökkvikerfi eða sérhæfðan búnað sem veitir sérstakan afslátt á iðgjöldum brunatrygginga, ber að tilkynna Brunamálastofnun ríkisins og viðkomandi brunatryggingafélagi um lokaúttekt fyrir notkun og síðan um sérhverja árlega aðalúttekt.

10.3. Leiðbeiningar á íslensku.

Þess ber að krefjast af seljanda að hann útvegi skýrar leiðbeiningar á íslensku um meðferð og notkun sérhæfðs búnaðar og kerfa til brunavarna. Leiðbeiningarnar skulu vera sýnilegar á áberandi stað, t.d. við stjórnstöð kerfis.

Jafnframt vísast í eftirfarandi rit Brunamálastofnunar ríkisins: Reglur um sjálfvirk brunaviðvörunarkerfi og Reglur um viðhald og eftirlit með úðakerfum.

10.4. Viðurkenndur þjónustuaðili.

Eigandi, eða forráðamaður sé það á hans vegum, skal sjá til þess að stöðugt sé fylgst með virkni sérhæfðs búnaðar og kerfa, s.s. brunaviðvörunarkerfa og vatnsúðakerfa. Hann skal einnig sjá til þess að viðurkenndur þjónustuaðili annist reglubundið eftirlit, viðhald og viðgerðir á slíkum búnaði og kerfum. Heiti og símanúmer þjónustuaðila skal vera sýnilegt á áberandi stað, t.d. við stjórnstöð kerfis.

10.5. Árleg prófun og úttekt.

Eigandi, eða forráðamaður sé það á hans vegum, skal sjá til þess að þjónustuaðili geri a.m.k. árlega sérstaka prófun og úttekt á ástandi og virkni hins sérhæfða búnaðar og kerfa, allt í samræmi við leiðbeiningar framleiðanda eða söluaðila kerfisins og reglur Brunamálastofnunar ríkisins þegar slíkar eru fyrir hendi.

Skal slökkviliðsstjóra tilkynnt um úttektina með hæfilegum fyrirvara og honum gefinn kostur á að vera viðstaddur. Skrásetja skal prófun og úttekt í sérstaka viðhaldsbók sem geyma skal í læstri hirslu, t.d. við stjórnstöð kerfis.

10.6. Bilanir og gallar.

Komi fram alvarlegar bilanir eða gallar skal þegar í stað ráða bót á þeim.

Slökkviliðsstjóri ákveður hæfilegan frest til úrbóta á minniháttar bilunum eða göllum og sömuleiðis ef um er að ræða minniháttar búnað eða kerfi.

Sé gert ráð fyrir að úrbæturnar taki lengri tíma og sé um meiriháttar búnað eða kerfi að ræða ber að hafa samráð við viðkomandi tryggingafélag um málið.

Skrásetja skal viðhald og viðgerðir í sérstaka viðhaldsbók sem geyma skal í læstri hirslu, t.d. við stjórnstöð kerfis.

11. Að fyrirbyggja eða minnka tjón af völdum bruna. Ráð og leiðbeiningar.

Eftirfarandi ber fyrst og fremst að líta á sem ráð og leiðbeiningar en ekki tvímælalausa ábyrgð eða skyldu. Skýrt skal tekið fram að slökkviliðið (slökkviliðsstjóri) tekur við allri stjórn á brunastað þegar það kemur á vettvang og venjulega einnig á aðgerðum til björgunar verðmæta eftir bruna. Það sem hér er sagt á því einkum við um slökkvistarf og björgunaraðgerðir starfsmanna fyrirtækis eða stofnunar áður en slökkviliðið tekur við stjórn og síðan eftir að það er farið af vettvangi og hefur látið af stjórn. Sömuleiðis á það einkum við um stórframleiðslu- og iðnfyrirtæki eða vörugeymsluhús, en getur að sjálfsögðu einnig átt við um annað atvinnuhúsnæði eftir atvikum.

Hafa skal fullt samráð við lögregluyfirvöld og Brunamálastofnun ríkisins um allar aðgerðir á brunastað vegna hugsanlegrar lögreglurannsóknar eða brunarannsóknar eftir brunann. Ef slíkt samráð er vanrækt getur verið hætta á að mikilvægum vísbendingum eða öðrum sönnunargögnum verði spillt.

Eftirfarandi ber að hafa í huga:

- Að eigendur og forráðamenn mannvirkja geri sér ljósa þá skyldu að bjarga verðmætum eftir bruna eftir því sem kostur er.

- Að hafa yfirbreiðslur, færanlegan ljósabúnað með rafhlöðum, ryðvarnarolíu og búnað til að ná upp vatni af gólfi tiltækt eða vita hvert skal leita eftir slíkri aðstoð.

- Að stafla viðkvæmum vörum ekki á gólf, heldur t.d. á palla, einkum á neðstu hæð eða kjallara.

- Að hafa ekki plastefni eða annan slíkan varning, sem gefur frá sér tærandi eða eitraðan reyk í bruna, innan um viðkvæmar eða verðmætar vörur eða tæki, ef unnt er að komast hjá slíku.

- Að sjá til þess að framleiðslusalir, vörugeymslur og önnur slík rými hafi fullnægjandi niðurföll í gólfi og að hægt sé að koma við reykræstingu strax eftir bruna.

- Að nota ekki meira vatn við slökkvistarf en nauðsyn krefur og fjarlægja vatn af gólfi eins fljótt og mögulegt er eftir bruna. Í því sambandi ber t.d. að huga að því að gólfniðurföll séu ekki stífluð.

- Að reykræsta vel eftir bruna og þurrka og hita upp húsnæðið.

- Að huga strax að vélum og tækjum, m.a. hvort þau hafi blotnað, og æskilegt er t.d. að smyrja þau með olíum sem hrinda frá sér vatni.

- Að huga sérstaklega að viðkvæmum og verðmætum vélum, búnaði og vörum og breiða yfir eða flytja á brott ef mögulegt er.

- Ef hætta er á tæringu eftir bruna í plasti (t.d. PVC), ber að leita eftir aðstoð hjá fyrirtækjum sem sérhæfa sig í björgun verðmæta eftir bruna.

- Að gera ráðstafanir til að hindra óviðkomandi umferð í húsi eftir bruna.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica