Fjármálaráðuneyti

24/1989

Reglugerð um húsnæðissparnaðarreikninga - Brottfallin

REGLUGERÐ

um húsnæðissparnaðarreikninga.

 

1. gr.

Innlegg manna á húsnæðissparnaðarreikninga skapa rétt til skattafsláttar er nemur fjórðungi árlegs innleggs innan þeirra marka og með þeim skilyrðum sem í reglugerð þessari og lögum nr. 49/1985, um húsnæðissparnaðarreikninga, greinir.

 

Húsnæðissparnaðarreikningar.

2. gr.

Húsnæðissparnaðarreikningar eru sérstakir reikningar við innlenda banka eða sparisjóði sem bera skulu nafn og kennitölu eiganda.

Húsnæðissparnaðarreikningar skulu á hverjum tíma njóta bestu ávöxtunarkjara al­mennra innlánsreikninga í viðkomandi banka eða sparisjóði.

Húsnæðissparnaðarreikninga geta þeir menn stofnað sem bera ótakmarkaða skattskyldu hér á landi skv. 1. gr. laga nr. 75/1981 og náð hafa 16 ára aldri.

Hver maður getur aðeins átt einn húsnæðissparnaðarreikning í senn. Í samningi um húsnæðissparnaðarreikning skal tekið fram hvort reikningseigandi eigi við úttekt af reikningnum rétt á láni frá viðkomandi banka eða sparisjóði, hvert hlutfall það lán sé af innstæðunni og með hvaða kjörum slík lán standi til boða.

 

3. gr.

Í samningi um húsnæðissparnaðarreikning skal kveðið á um sparnað allan binditíma reikningsins skv. 4. gr. Á hverju heilu tekjuári skal lágmarksfjárhæð vera 12 000 kr. en hámarksfjárhæð 120 000 kr.

Sparifé skv. 1. mgr. leggist inn á reikninginn eigi sjaldnar en á hverjum ársfjórðungi almanaksársins og nemi á ársfjórðungi eigi lægri fjárhæð en 3 000 kr. og eigi hærri fjárhæð en 30 000 kr.

Samið skal fyrirfram til a.m.k. eins árs í senn um jöfn mánaðarleg eða ársfjórðungsleg innlegg en umsaminni fjárhæð má breyta árlega miðað við upphaf almanaksárs innan þeirra marka sem getur í 1. og 2. mgr. Þó er heimilt að semja fyrirfram um lækkun á umsömdum sparnaði miðað við ársfjórðunga.

Fjárhæðir í 1. og 2. mgr. eru grunnfjárhæðir, miðaðar við byggingarvísitölu þann 31. desember 1984. Skulu þær breytast árlega, t.d. vegna innborgana á árinu 1989, miðað við breytingu byggingarvísitölu frá 31. des. 1984 til 31. des. 1988. Ríkisskattstjóri skal fyrir upphaf tekjuárs birta nýju fjárhæðirnar.

 

4. gr.

Húsnæðissparnaðarreikningar skulu bundnir til 10 ára, talið frá upphafi þess mánaðar er sparnaður hófst. Að þeim tíma liðnum er innstæða til frjálsrar ráðstöfunar reikningseiganda. Þeir sem orðnir eru 67 ára eða eru 75% öryrkjar geta þó fengið fé sitt til frjálsrar ráðstöfunar að fimm árum liðnum. Reikningseigandi má framlengja sparnaðar- og binditíma umfram tíu ár, um eitt ár í senn, þó mest um fimm ár.

Kaupi reikningseigandi íbúðarhúsnæði til eigin nota eða hefji byggingu slíks húsnæðis skal innstæða þó laus frá þeim tíma er hann staðfestir kaupin eða bygginguna við banka eða sparisjóð með framvísun kaupsamnings eða vottorðs byggingarfulltrúa um að bygging sé hafin, þó aldrei fyrr en full þrjú ár eru liðin frá því að fyrst var lagt inn á reikninginn. Sama gildir ef reikningseigandi hefur lagt í verulegar endurbætur á eigin íbúðarhúsnæði enda nemi kostnaður við endurbæturnar a.m.k. 20% af fasteignamati húsnæðisins í ársbyrjun og reikningseigandi framvísi vottorði skattstjóra þar að lútandi. Úttektarfjárhæð má þó eigi fara fram úr kostnaði við endurbæturnar.

 

5. gr.

Reikningseigandi getur ekki framselt, veðsett né á annan hátt ráðstafað innstæðu sinni á húsnæðissparnaðarreikningi. Innstæðan er undanþegin aðför skuldheimtumanna. Verði reikningseigandi gjaldþrota fellur binding innstæðu niður. Við andlát innstæðueiganda rennur innstæðan til dánarbúsins án bindingar. Komi til skilnaðar má skipta inneign á reikningum milli hjónanna en slík skipting hefur engin áhrif á binditíma reikninganna.

 

Framkvæmd skattafsláttar.

6. gr.

Skattstjóri reiknar út skattafslátt skv. 1. gr. við álagningu, sbr. X. kafla laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, í fyrsta sinn við álagningu 1989 vegna innleggs á árinu 1988.

 

7. gr.

Um ráðstöfun skattafsláttar skv. 1. gr. og millifærslu milli hjóna á álagningarárinu 1989 og síðar skulu ákvæði A-liðs 68. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, um persónuafslátt, gilda eftir því sem við getur átt.

 

8. gr.

Ákvæði VIIL- XIV. kafla laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, skulu gilda um ákvörðun skattafsláttar skv. 1. gr.

 

Frávik frá reglum um húsnæðissparnaðarreikninga.

9. gr.

Dragist innborgun umsamins innleggs eða hluta þess fram yfir lok þess ársfjórðungs er það skyldi lagt inn samkvæmt samningi við banka eða sparisjóð samkvæmt 3. gr. skapar sá hluti innleggs, sem dregst fram yfir lok ársfjórðungs, ekki rétt til skattafsláttar.

Hafi ekki verið gerð skil á öllu umsömdu innleggi fyrir lok almanaksárs skapar innlegg ársins engan rétt til skattafsláttar og skal skattstjóri þá gera reikningseiganda að endurgreiða þann skattafslátt sem honum hefur nýst vegna innleggs á reikninginn á næstu tveimur árum þar á undan að viðbættu 25% álagi. Sama gildir brjóti reikningseigandi að öðru leyti í verulegum atriðum þau skilyrði sem um reikningana gilda.

Verði ekki af kaupum, þrátt fyrir gerð kaupsamnings skv. 2. mgr. 4.gr., skal leggja úttekið fé aftur inn á reikning innan þriggja mánaða frá því að ljóst er að ekki varð af kaupunum. Ella skal endurgreiða allan nýttan skattafslátt að viðbættu 25% álagi, sbr. þó 1. mgr. 97. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

Hafi gjaldþol manns skerst verulega vegna þeirra atvika er greinir í 66. gr. laga nr. 75/ 1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, eftir að samið var um stofnun húsnæðissparnaðarreiknings skulu ákvæði 2. mgr. þó ekki gilda ef ætla má að þessi atvik hafi gert honum ókleift að standa við samning um reglubundinn sparnað.

Brot á samningi um reglubundinn sparnað breytir engu um binditíma reiknings skv. 4. gr.

 

Gildistaka.

10. gr.

Reglugerð þessi er sett með heimild í 8. gr. laga nr. 49/1985, um húsnæðissparnaðarreikn­inga, og öðlast þegar gildi.

 

Fjármálaráðuneytinu, 17. janúar 1989.

 

Ólafur Ragnar Grímsson.

Ari Edwald.

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica