Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 28. mars 2024

Reglugerð með breytingum síðast breytt 26. okt. 2008

120/2000

Reglugerð um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

I. KAFLI Almenn ákvæði.

1. gr.

Með tryggingar samkvæmt lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta fer sérstök stofnun er nefnist Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta, hér eftir nefndur sjóðurinn. Sjóðurinn er sjálfseignarstofnun og starfar í tveimur sjálfstæðum deildum með aðskilinn fjárhag og reikningshald, innstæðudeild og verðbréfadeild.

II. KAFLI Greiðslur úr sjóðnum.

2. gr.

Nú er aðildarfyrirtæki, að áliti Fjármálaeftirlitsins, ekki fært um að inna af hendi tafarlaust eða í nánustu framtíð greiðslu á andvirði innstæðu, verðbréfa eða reiðufjár sem viðskiptavinur hefur krafið aðildarfyrirtæki um endurgreiðslu á í samræmi við þá skilmála er gilda. Er þá sjóðnum skylt að greiða viðskiptavini aðildarfyrirtækis andvirði innstæðu úr innstæðudeild og andvirði verðbréfa og reiðufjár í tengslum við viðskipti með verðbréf úr verðbréfadeild samkvæmt því sem nánar er kveðið á um í þessari reglugerð. Álit Fjármálaeftirlitsins skal liggja fyrir eigi síðar en þremur vikum eftir að það fær fyrst staðfestingu á því að hlutaðeigandi aðildarfyrirtæki hafi ekki greitt viðskiptavini sínum eða staðið skil á verðbréfum eins og því bar að gera.

Greiðsluskylda sjóðsins verður einnig virk ef bú aðildarfyrirtækis er tekið til gjaldþrotaskipta í samræmi við lög um viðskiptabanka og sparisjóði og lög um verðbréfaviðskipti.

3. gr.

Með innstæðu skv. 2. gr. er átt við innstæðu sem tilkomin er vegna innláns eða millifærslu í hefðbundinni almennri bankastarfsemi og viðskiptabanka eða sparisjóði ber að endurgreiða samkvæmt skilmálum er gilda samkvæmt lögum eða samningum. Tryggingin nær hins vegar ekki til skuldabréfa, víxla eða annarra krafna sem útgefnar eru af viðskiptabanka eða sparisjóði í formi verðbréfa.

Með verðbréfum skv. 2. gr. er átt við verðbréf sem eru í vörslu, umsjón eða umsýslu aðildarfyrirtækis og því ber að endurgreiða eða standa skil á samkvæmt skilmálum er gilda um samskipti aðildarfyrirtækis og fjárfestis samkvæmt lögum eða samningum.

Með reiðufé skv. 2. gr. er átt við innborgað reiðufé fjárfestis til aðildarfyrirtækis í tengslum við viðskipti með verðbréf.

Undanskilin tryggingu skv. 2. gr. eru innstæður, verðbréf og reiðufé í eigu aðildarfyrirtækja, svo og móður- og dótturfyrirtækja þeirra, fyrir þeirra eigin reikning og innstæður, verðbréf og reiðufé sem tengjast málum þar sem sakfellt hefur verið fyrir peningaþvætti.

4. gr.

Komi til útgreiðslu úr sjóðnum skal stjórn sjóðsins ákveða hvernig útgreiðslu verði háttað og hvort gerð skuli krafa um að viðskiptavinir aðildarfyrirtækis sendi sjóðnum kröfur sínar skriflega. Sjóðurinn skal veita viðskiptamönnum aðildarfyrirtækja upplýsingar um útgreiðsluferlið.

Sjóðnum er heimilt að gera samninga við þriðja aðila um umsjón útgreiðslu úr sjóðnum, ráðstöfun fjármuna við útgreiðslu og tilkynningu til viðskiptamanna aðildarfyrirtækja.

Sjóðurinn tekur ákvörðun, í samráði við Fjármálaeftirlitið, um lengd þess frests sem viðskiptavinir aðildarfyrirtækis hafa til að gera kröfu á sjóðinn. Fresturinn má þó ekki vera styttri en fimm mánuðir í því tilviki þegar viðskiptavinir aðildarfyrirtækis eiga kröfu á sjóðinn í tengslum við viðskipti með verðbréf en eigi lengri en tveir mánuðir þegar innstæðueigendur eiga kröfu á sjóðinn. Sjóðurinn getur þó ekki hafnað kröfu um greiðslu úr sjóðnum með tilvísun til nefnds frests hafi viðskiptavinur aðildarfyrirtækis með sannanlegum hætti ekki haft möguleika á að setja fram kröfu á hendur sjóðnum í tæka tíð.

Sjóðnum er heimilt að fá upplýsingar frá viðkomandi aðildarfyrirtæki, eða þrotabúi þess, um eignir viðskiptamanna hjá aðildarfyrirtæki á þeim degi sem Fjármálaeftirlitið gefur út álit skv. 2. gr. eða þegar úrskurður er kveðinn upp um töku bús aðildarfyrirtækis til gjaldþrotaskipta.

Ef bú aðildarfyrirtækis er tekið til gjaldþrotaskipta skulu viðskiptavinir þess lýsa kröfum í búið áður en þeir gera kröfu á sjóðinn skv. 1. mgr.

5. gr.

Krafa skal reiknuð miðað við eign viðskiptamanna aðildarfyrirtækis þann dag sem Fjármálaeftirlitið gefur út álit, skv. 2. gr., eða þann dag sem úrskurður er kveðinn upp um töku bús aðildarfyrirtækis til gjaldþrotaskipta. Miða skal við þann dag sem fyrr kemur upp.

Sjóðnum er heimilt að nýta sér kröfur viðkomandi aðildarfyrirtækis á hendur viðskiptamanni til skuldajafnaðar gegn kröfu viðskiptamanns á greiðslu andvirðis innstæðu.

6. gr.

Nú hrökkva eignir viðkomandi deildar sjóðsins ekki til þess að greiða heildarfjárhæð tryggðra innstæðna, verðbréfa og reiðufjár í hlutaðeigandi aðildarfyrirtæki og skal þá greiðslu úr hvorri deild skipt þannig milli kröfuhafa að heildarkrafa hvers þeirra allt að 1,7 millj. kr. er bætt að fullu en allt sem umfram er þessa fjárhæð skal bætt hlutfallslega jafnt eftir því sem eignir hvorrar deildar hrökkva til. Fjárhæð þessi er bundin við gengi evru (EUR) miðað við kaupgengi hennar 5. janúar 1999. Sjóðurinn verður ekki síðar krafinn um frekari greiðslu þótt tjón kröfuhafa hafi ekki verið bætt að fullu.

Hrökkvi eignir sjóðsins ekki til og stjórn hans telur til þess brýna ástæðu er henni heimilt að taka lán til að greiða kröfuhöfum.

7. gr.

Hvíli greiðsluskylda á sjóðnum gagnvart innstæðueiganda ber að inna greiðslu af hendi eigi síðar en þremur mánuðum frá því að álit Fjármálaeftirlitsins liggur fyrir, sbr. 2. gr. eða úrskurður hefur verið kveðinn upp um töku bús aðildarfyrirtækis til gjaldþrotaskipta.

Hvíli greiðsluskylda á sjóðnum gagnvart viðskiptavini aðildarfyrirtækis í tengslum við viðskipti með verðbréf ber að inna greiðslu af hendi eigi síðar en þremur mánuðum eftir að lögmæti og fjárhæð kröfu er staðfest.

Unnt er að draga greiðslu skv. 1. og 2. mgr. uns dómur liggur fyrir í málum sem varða peningaþvætti skv. 4. mgr. 3. gr.

Viðskiptaráðherra getur við sérstakar aðstæður, að fengnu áliti Fjármálaeftirlitsins, veitt sjóðnum allt að þriggja mánaða frest til viðbótar við frest skv. 1. og 2. mgr. Viðskiptaráðherra er, að fengnu áliti Fjármálaeftirlitsins, heimilt að framlengja frest til að greiða innstæðueigendum einu sinni eða tvisvar í viðbót, í hvort sinn að hámarki um þrjá mánuði.

Sjóðurinn skal tilkynna þeim er kröfu gerir skriflega um niðurstöðu sína um greiðsluskyldu sjóðsins. Tilkynning þriðja aðila skv. 2. mgr. 4. gr. jafngildir tilkynningu sjóðsins.

8. gr.

Áður en greiðsla á kröfu verður innt af hendi úr sjóðnum skal sjóðurinn staðreyna hvort greiðsla á kröfunni hafi fengist að einhverju eða öllu leyti frá aðildarfyrirtæki og skulu þær greiðslur dragast að fullu frá greiðslu úr sjóðnum.

Komi til greiðslu úr sjóðnum yfirtekur hann kröfu kröfuhafa á hendur hlutaðeigandi aðildarfyrirtæki eða þrotabúi.

9. gr.

Nú er innlánsreikningur eða reikningur viðskiptamanns í tengslum við viðskipti með verðbréf sameiginlegur, skal þá hlutur hvers kröfuhafa gilda við útreikning á greiðslu.

10. gr.

Nú á innstæðueigandi eða viðskiptavinur aðildarfyrirtækis í tengslum við viðskipti með verðbréf ekki ótvíræðan rétt til innstæðna, verðbréfa eða reiðufjár á reikningi, skal þá sá sem á ótvíræðan rétt njóta greiðslu úr sjóðnum, að því gefnu að hlutaðeigandi finnist eða unnt sé að finna hann fyrir þann dag sem Fjármálaeftirlitið gefur út álit sitt skv. 2. gr. eða úrskurður hefur verið kveðinn upp um töku bús aðildarfyrirtækis til gjaldþrotaskipta. Ef fleiri en einn eiga ótvíræðan rétt til innstæðna, verðbréfa eða reiðufjár skal hlutur hvers þeirra tekinn til greina við útreikning á greiðslu. Þessi grein gildir ekki um sameiginlega fjárfestingu í verðbréfum.

11. gr.

Sjóðstjórn skal úrskurða um ágreining um greiðsluskyldu.

III. KAFLI Erlend útibú.

12. gr.

Útibúum erlendra viðskiptabanka, sparisjóða, fyrirtækja í verðbréfaþjónustu og lánastofnana annarra en viðskiptabanka og sparisjóða, sem starfa hér á landi en hafa staðfestu í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu, er heimil aðild að sjóðnum vegna innstæðna, verðbréfa og reiðufjár sem ekki er tryggt á sambærilegan hátt á Evrópska efnahagssvæðinu.

Um greiðslu útibúsins til sjóðsins skal fara eftir ákvæðum reglugerðar þessarar svo og um greiðslu sjóðsins til kröfuhafa eftir því sem við á.

Útibú skal upplýsa viðskiptavini um það tryggingakerfi sem útibúið á aðild að. Viðskiptavinum skal greint frá því að viðbótartrygging falli niður og hvenær hún falli úr gildi. Útibú skal á afgreiðslustöðum sínum hafa til reiðu skriflegar upplýsingar um aðild sína að sjóðnum. Skulu upplýsingarnar vera á íslensku og ávallt til reiðu þannig að auðvelt sé að nálgast þær.

13. gr.

Erlend útibú sem óska eftir aðild að sjóðnum skv. 12. gr. skulu leggja fram skriflega aðildarumsókn til stjórnar sjóðsins. Stjórn sjóðsins skal meta þær viðbótartryggingar, sem útibúið verður aðili að, iðgjöld sem því ber að greiða svo og gerð samstarfssamninga sem kunna að vera nauðsynlegir milli sjóðsins og erlendra tryggingakerfa.

Sjóðurinn getur krafið útibú um hvers kyns upplýsingar er lúta að aðild þess að sjóðnum. Í samstarfssamningum á milli sjóðsins og erlendra tryggingakerfa skal m.a. kveða á um upplýsingagjöf, samstarf um að tryggja að innstæðueigendur og viðskiptavinir í tengslum við viðskipti með verðbréf fái greiðslu fljótt og örugglega og um hvaða áhrif gagnkrafa, sem gæti gefið tilefni til skuldajafnaðar hjá annað hvort sjóðnum eða hinu erlenda tryggingakerfi, hafi á bætur sem innstæðueigendum eða viðskiptavinum í tengslum við viðskipti með verðbréf eru greiddar samkvæmt öðru kerfinu.

Sjóðurinn skal krefja útibúið um greiðslu iðgjalds vegna viðbótartryggingar. Við mat á greiðslu iðgjalds skal sjóðurinn líta svo á að trygging hans takmarkist við þá tryggingu sem hann veitir umfram trygginguna sem veitt er skv. hinu erlenda tryggingakerfi, óháð því hvort erlenda tryggingakerfið greiði í reynd fyrir innlán, verðbréf og reiðufé sem eru ótiltæk á yfirráðasvæði þess. Við mat á iðgjaldi skv. þessari mgr. skal miðað við að það sé sambærilegt og iðgjald aðildarfyrirtækja skv. lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta miðað við þá vernd sem veitt er.

14. gr.

Greiða skal úr sjóðnum til innstæðueigenda í útibúi skv. 12. gr. eða viðskiptavinar útibús í tengslum við viðskipti með verðbréf þegar gengið hefur verið úr skugga um að innstæðueigandi eða viðskiptavinur útibús í tengslum við viðskipti með verðbréf hafi rétt til viðbótartrygginga og fyrir liggur yfirlýsing frá lögbærum yfirvöldum viðkomandi aðildarríkis á Evrópska efnahagssvæðinu að innlán, verðbréf eða reiðufé séu ótiltæk.

15. gr.

Erlend útibú sem hafa staðfestu utan Evrópska efnahagssvæðisins og starfa hér á landi skulu vera aðilar að sjóðnum, enda sé slíkt útibú ekki aðili að sambærilegu tryggingakerfi í heimaríki sínu. Skal trygging innstæðna og fjármuna í eigu viðskiptavina í tengslum við viðskipti með verðbréf vera með sama hætti og aðildarfyrirtækis með staðfestu hér á landi.

Erlend útibú sem óska eftir aðild að sjóðnum skv. þessari gr. skulu leggja fram skriflega aðildarumsókn til stjórnar sjóðsins. Stjórn sjóðsins skal meta þær tryggingar, sem útibúið verður aðili að, iðgjöld sem því ber að greiða svo og gerð samstarfssamninga sem kunna að vera nauðsynlegir milli sjóðsins og erlendra tryggingakerfa. Við mat á iðgjaldi skv. þessari mgr. skal miðað við að það sé sambærilegt og iðgjald aðildarfyrirtækja skv. lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta miðað við þá vernd sem veitt er.

Erlend útibú skulu upplýsa viðskiptavini um þau tryggingakerfi sem þau eiga aðild að. Útibú skal á afgreiðslustöðum sínum hafa til reiðu skriflegar upplýsingar um aðild sína að sjóðnum. Skulu upplýsingarnar vera á íslensku og ávallt til reiðu þannig að auðvelt sé að nálgast þær.

IV. KAFLI Ýmis ákvæði.

16. gr.

Ávöxtun á fé sjóðsins skal við það miðuð að sjóðurinn verði sem hæfastur til að gegna hlutverki sínu. Að lágmarki fjórðungur af fé sjóðsins skal bundinn í verðbréfum með ábyrgð ríkissjóðs.

17. gr.

Reglugerð þessi er sett skv. heimild í 18. gr. laga nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta og öðlast hún þegar gildi. Jafnframt er úr gildi felld reglugerð nr. 21/1997 um Tryggingarsjóð viðskiptabanka og tilhögun á greiðslum úr tryggingasjóðum innlánsstofnana.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.