Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 19. mars 2024

Reglugerð með breytingum síðast breytt 12. mars 2020

1160/2011

Reglugerð um mælieiningar.

1. gr. Gildissvið.

Á Íslandi skal nota alþjóðlega SI-mælieiningakerfið.

Viðauki sem birtur er með reglugerð þessari hefur að geyma alþjóðlega SI-mælieiningakerfið en það er samræmt mælieiningakerfi sem Almenna þingið fyrir vog og mál (CGPM) hefur samþykkt. Mælieiningar sem fram koma í viðauka eru nefndar SI-mælieiningar.

Neytendastofa getur gefið út leiðbeiningar um notkun mælieininga og tekið afstöðu til álita- og ágreiningsmála varðandi notkun þeirra.

2. gr.

Ákvæði 1. gr. gilda fyrir mæligrunna, mælitæki, mælingar og upplýsingar um niðurstöður mælinga og magn vöru.

Ákvæðin gilda ekki um mælingar og niðurstöður mælinga til einkanota.

Þessi reglugerð hefur ekki áhrif á þær mælieiningar sem notaðar eru í siglingum, flugi eða járnbrautasamgöngum, þótt þær séu ekki SI-mælieiningar, ef mælt er fyrir um þær í alþjóðlegum samþykktum og samningum sem eru bindandi fyrir Ísland.

3. gr. Merkingar.

Viðbótarmerking: merkir í skilningi þessarar reglugerðar eina eða fleiri merkingar, sem sýndar eru í öðrum mælieiningum en SI-mælieiningum.

Heimilt er að nota viðbótarmerkingar samhliða SI-mælieiningu til að forðast hindranir í milliríkjaviðskiptum.

Merking í SI-mælieiningum skal gerð með áberandi hætti. Viðbótarmerkingar skulu ekki vera með stærra letri en tilsvarandi merkingar sem táknaðar eru með SI-mælieiningum.

Þrátt fyrir ákvæði þessarar greinar skal álestrarbúnaður mælitækja vera með SI-mælieiningum, nema annað sé sérstaklega leyft í lögum eða reglum settum samkvæmt þeim.

4. gr.

Fyrir framleiðsluvörur og búnað, íhluta fyrir og hluta af framleiðsluvörum eða búnaði, sem nauðsynlegir eru til viðbótar eða í stað íhluta eða hluta af vörum og búnaði, sem voru á markaði eða í notkun fyrir 1. janúar 1993 er heimilt, þrátt fyrir ákvæði þessarar reglugerðar, að nota áfram þær mælieiningar sem eru ekki heimilar eða eru ekki lengur heimilar.

Þó er heimilt að krefjast þess að álestrarbúnaður mælitækja sýni SI-mælieiningar.

5. gr. Takmarkað stafamengi.

Staðallinn ÍST-ISO 2955, "Gagnavinnsla - táknun SI og annarra mælieininga sem eru notaðar í kerfi með takmörkuð stafamengi", skal gilda fyrir gagnasamskipti með tölvum og fyrir annan búnað sem notar takmarkað stafamengi.

6. gr. Stjórnsýsla.

Ákvörðunum sem Neytendastofa tekur á grundvelli reglugerðar þessarar má skjóta til áfrýjunarnefndar neytendamála sem starfar á grundvelli 4. gr. laga nr. 62/2005, um Neytendastofu og talsmann neytenda.

Ákvörðun Neytendastofu verður ekki borin undir dómstóla fyrr en úrskurður áfrýjunarnefndar neytendamála liggur fyrir.

7. gr. Innleiðing.

Reglugerð þessi er sett með hliðsjón af ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 253/2019 frá 25. október 2019, um breytingu á II. viðauka við EES-samninginn og til að taka upp í innlendan rétt ákvæði tilskipunar 80/181/EBE um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi mælieiningar eins og henni hefur verið breytt með tilskipunum ráðsins 85/1/EBE og 89/617/EBE, tilskipunum Evrópuþingsins og ráðsins 1999/103/EB og 2009/3/EB og tilskipun framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2019/1258 með þeim breytingum og viðbótum sem leiðir af II. viðauka, bókun 1 við EES-samninginn og öðrum ákvæðum hans.

8. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með heimild í lögum nr. 91/2006, um mælingar, mæligrunna og vigtarmenn.

Reglugerð þessi öðlast þegar gildi. Um leið fellur úr gildi reglugerð nr. 128/1994, um mælieiningar og reglugerð nr. 75/2001, um breytingar á þeirri reglugerð.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.