Fjármálaráðuneyti

1061/2004

Reglugerð um framkvæmd fjárlaga og ábyrgð á fjárreiðum ríkisstofnana í A-hluta. - Brottfallin

I. KAFLI
Markmið, helstu hugtök og gildissvið.
1. gr.
Markmið.

Markmið reglugerðar þessarar er að stuðla að skilvirkum rekstri ráðuneyta og stofnana þannig að hann verði innan heimilda fjárlaga og að stjórnendur beri ábyrgð á fjárreiðum í samræmi við 49. gr. laga nr. 88/1997, um fjárreiður ríkisins og ákvæði laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Í rekstri ráðuneyta og ríkisstofnana skal virða fjárheimildir og þau lög og reglur sem um starfsemina gilda. Stjórnendur skulu ennfremur vinna að stefnumótun og samningsgerð í samræmi við sjónarmið um árangursstjórnun í ríkisrekstri. Jafnframt skulu stjórnendur gæta þess að fylgt verði einstökum markmiðum og stefnumiðum, sem sett kunna að verða af þar til bærum aðilum.


2. gr.
Orðskýringar.

Merking orða í reglugerð þessari er sem hér segir:
Stofnun er ríkisaðili sem telst til æðstu stjórnar ríkisins, svo og ráðuneyti og ríkisstofnun, sbr. 2. mgr. 3. gr.

Forstöðumaður er embættismaður í skilningi 22. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, sem borið getur ábyrgð skv. 38. gr. sömu laga.

Ársáætlun merkir fyrirhugaða ráðstöfun og dreifingu fjárheimilda stofnunar á árinu miðað við áætluð útgjöld hennar og takmarkast af fjárheimildum ársins, sbr. 8. gr.

Ófyrirséð útgjöld merkja útgjöld sem stafa af atvikum sem ekki voru séð fyrir við afgreiðslu fjárlaga og leiða til greiðsluskyldu ríkissjóðs umfram heimildir í fjárlögum sbr. 33. gr. laga nr. 88/1997.

Safnliður er sérstakur óskiptur liður í fjárlögum, þar sem veitt er heimild til þess að ráðstafa fjármunum vegna nánar tilgreindra verkefna.

Árangursstjórnun felur í sér setningu og uppgjör markmiða og fjárhagsáætlana.

Fjárheimild samanstendur af útgjöldum að frádregnum tekjum stofnana skv. fjárlögum, millifærslum af safnliðum, launa og verðlagsbótum, fjáraukalögum, auk innistæðna eða skulda sem færast milli ára.


3. gr.
Gildissvið.

Reglugerðin tekur til forstöðumanna og stjórna stofnana þegar þessir aðilar taka ákvarðanir um rekstur og nýtingu fjármuna samkvæmt heimildum í fjárlögum. Reglugerðin tekur ennfremur til ráðuneyta við eftirlit með framkvæmd forstöðumanna og stjórna stofnana á fjárreiðum stofnana og þegar þau taka ákvarðanir skv. lögum nr. 88/1997, þ. á m. um ráðstöfun safnliða.

Fjármálaráðuneytið gerir í samráði við hlutaðeigandi ráðuneyti lista yfir þær stofnanir sem reglugerð þessi tekur til.


II. KAFLI
Skipulag og verkaskipting.
4. gr.
Almennt eftirlit og samræming.

Fjármálaráðuneytið hefur almennt eftirlit með framkvæmd fjárlaga og veitir almennar leiðbeiningar þar um. Það fylgist með því að heildarútgjöld stofnana séu í samræmi við fjárheimildir.

Ráðuneytið skal fylgjast með því hvernig eftirliti annarra ráðuneyta er háttað með fjárreiðum stofnana, sem undir þau heyra. Í því skyni getur það kallað eftir upplýsingum frá einstökum ráðuneytum um fjárhagsafkomu stofnana og fyrirhugaðar aðgerðir til að framfylgja áformum fjárlaga.


5. gr.
Einstök ráðuneyti.

Hvert ráðuneyti fer með yfirstjórn þeirra mála sem undir það heyra, skv. nánari fyrirmælum í lögum. Þegar Alþingi hefur samþykkt fjárveitingu má ráðstafa henni samkvæmt fjárlögum, án frekari staðfestingar fjármálaráðuneytis.

Ráðuneyti ákveða þau stefnumið sem hafa skal að leiðarljósi við framkvæmd einstakra mála og hafa frumkvæði að gerð árangursstjórnunarsamninga. Ráðuneytin hafa eftirlit með fjárreiðum stofnana sem undir þau heyra.


6. gr.
Stjórnun stofnunar.

Forstöðumaður ber ábyrgð á því að rekstrarútgjöld og rekstrarafkoma stofnunarinnar sé í samræmi við fjárheimildir og að fjármunir séu nýttir á árangursríkan hátt, sbr. 49. gr. laga nr. 88/1997.

Þegar gert er ráð fyrir því að stjórn stofnunar beri ábyrgð á rekstri, fjárreiðum og reikningsskilum hennar og skipaður er forstöðumaður til þess að annast um þessi verkefni, skv. nánari fyrirmælum í sérlögum, skal ráðuneyti gæta þess að í erindisbréfi forstöðumanns og eftir atvikum í skipunarbréfi stjórnar sé kveðið á um skýra verkaskiptingu á milli stjórnar stofnunar og forstöðumanns.


III. KAFLI
Framkvæmd fjárlaga.
7. gr.
Um áætlanagerð stofnana.

Í samræmi við áherslur og markmiðssetningu um árangursstjórnun, bera forstöðumenn ábyrgð á gerð langtímaáætlunar stofnunar, ársáætlunar og ársskýrslu. Langtímaáætlunin skal endurspegla stefnumörkun og megináherslur starfseminnar. Ráðuneyti ber skylda til að taka afstöðu til langtímaáætlunar stofnana. Ársáætlunin skal rúmast innan fjárheimilda auk þess að tilgreina einstök markmið og mælikvarða á árangur í starfi stofnunar.

Í ársskýrslu skal koma fram samanburður á útgjöldum og fjárheimildum, auk talnalegs samanburðar á markmiðum ársins og útkomu.


8. gr.
Ársáætlun.

Í október ár hvert skal ráðuneyti kynna stofnunum þær fjárveitingar sem áætlað er að séu til ráðstöfunar á árinu skv. frumvarpi til fjárlaga næsta árs. Forstöðumönnum ber að skila ársáætlun til ráðuneytis í síðasta lagi fyrir lok desember ár hvert. Áætlunin skal rúmast innan ramma fjárheimilda og byggja á bráðabirgðauppgjöri stofnunar. Þá skal gerð grein fyrir dreifingu útgjalda innan ársins. Dreifingin skal sundurliðuð eftir yfirviðfangsefnum, launagjöldum, öðrum rekstrargjöldum, eignakaupum, tilfærslum og sértekjum.

Fyrir miðjan janúar ár hvert skal ráðuneyti taka afstöðu til og staðfesta ársáætlun stofnunar með eða án breytinga. Eftir þann tíma er fjárheimildum dreift á mánuði innan ársins í upplýsingakerfi ríkisins.

Jafnskjótt og endanlegt uppgjör fyrra árs liggur fyrir, skal forstöðumaður endurskoða ársáætlun stofnunar ef tilefni verður til og senda ráðuneyti til nýrrar afgreiðslu sbr. 2. mgr.


9. gr.
Miðlun upplýsinga.

Forstöðumenn skulu, innan þess tíma sem Fjársýsla ríkisins ákveður, standa skil á upplýsingum þannig að bókhaldskerfi ríkisins gefi á hverjum tíma sem réttasta mynd af fjárhagsstöðu stofnana.

Fjársýsla ríkisins skal svo fljótt sem við verður komið gera upplýsingar um útgjöld stofnana sem skila ber skv. 1. mgr. aðgengilegar fyrir ráðuneyti þannig að þær nýtist þeim til eftirlits.

Ársfjórðungslega tekur fjármálaráðuneytið saman yfirlit um framkvæmd fjárlaga og gerir ríkisstjórn og fjárlaganefnd Alþingis grein fyrir niðurstöðunum.


10. gr.
Safnliðir.

Telji stofnun að þær aðstæður hafi skapast að hún geti óskað eftir viðbótarheimild af safnlið fjárlaga sem ætlað er að mæta tilgreindum útgjöldum, skal hún gera ráðuneyti grein fyrir tilefninu. Ráðuneyti skal svo fljótt sem auðið er taka afstöðu til slíkrar beiðni og tilkynna stofnun niðurstöðu sína. Fallist ráðuneyti á beiðnina skal leiðrétta ársáætlun á sama tíma og útgjöldin falla til.


11. gr.
Ófyrirséð greiðsluskylda.

Telji ráðuneyti að á stofnun falli ófyrirséð útgjöld, skal ráðuneyti þegar gera fjármálaráðuneytinu grein fyrir stöðu málsins. Fjármálaráðuneyti metur, að höfðu samráði við viðkomandi ráðuneyti, hvort útgjöldin séu ófyrirséð og leiði til greiðsluskyldu ríkissjóðs, sbr. 33. gr. laga nr. 88/1997. Fjármálaráðuneytið upplýsir ráðuneyti um niðurstöðu sína eins fljótt og auðið er. Niðurstaðan skal byggð á viðmiðunarreglum fjármálaráðuneytisins um rammafjárlagagerð.

Séu gerðir kjarasamningar sem kveða á um frekari útgjöld en fjárlög gera ráð fyrir skal fjármálaráðuneytið meta áhrif þeirra eins fljótt og auðið er.

Falli greiðsluskylda á ríkissjóð samkvæmt þessari grein leitar fjármálaráðherra heimildar Alþingis til greiðslu útgjaldanna í samræmi við nánari fyrirmæli 33. gr., 34. gr. og 44. gr. laga nr. 88/1997.


12. gr.
Eftirlit með ársáætlun.

Við rekstur stofnunar skal forstöðumaður gæta þess að samræmi sé á milli útgjalda hennar og áætlunar í lok hvers tímabils innan ársins.

Ráðuneyti skal reglubundið og ekki sjaldnar en þriðja hvern mánuð bera saman áætlun og útgjöld. Komi í ljós eftir könnun ráðuneytis á útgjöldum stofnunar, eða að fengnum upplýsingum forstöðumanns, að útgjöld stofnunar eru meira en 4% umfram áætlun hennar skal ráðuneyti hafa frumkvæði að því að leita skýringa og beita sér fyrir að forstöðumaður grípi til nauðsynlegra aðgerða til að færa útgjöld að heimildum.


13. gr.
Skuldbindingar.

Forstöðumanni og stjórn stofnunar er óheimilt að stofna til annarra fjárskuldbindinga en þeirra sem gert er ráð fyrir í fjárlögum, nema að því leyti sem slíkt rúmast innan reglna fjármálaráðuneytis, nr. 83/2000 um láns- og reikningsviðskipti A-hluta ríkisstofnana. Skuldbindingar sem stafa af hefðbundnum greiðslufresti í viðskiptum falla hér ekki undir, enda byggist þær á ákvörðunum, sem gert hefur verið ráð fyrir í ársáætlun, sbr. 32. gr. laga nr. 88/1997.


IV. KAFLI
Skyldur forstöðumanna.
14. gr.
Almennt.

Forstöðumaður ber ábyrgð á því að stofnun sem hann stýrir, starfi samkvæmt lögum og erindisbréfi. Jafnframt ber forstöðumaður ábyrgð á að útgjöld hennar séu í samræmi við fjárheimildir og að fjármunir séu nýttir á árangursríkan hátt, sbr. 38. gr. laga nr. 70/1996. Forstöðumaður ber ennfremur ábyrgð á því að fjárreiður og rekstur stofnunar sé í samræmi við þær áætlanir sem gerðar hafa verið til lengri og skemmri tíma, sbr. 7. og 8. gr.


15. gr.
Skylda til þess að tilkynna um veruleg umframútgjöld.

Forstöðumaður skal gæta þess að samræmi sé á milli útgjalda og ársáætlunar. Komi í ljós að heildarútgjöld að frádregnum tekjum eru meira en 4% umfram áætlun stofnunar skal forstöðumaður tafarlaust skýra stjórn hennar og ráðuneyti frá því, hverjar séu ástæður þess og hvernig hann hyggst bregðast við þeim.

Það leysir forstöðumann stofnunar ekki undan skyldum sínum, að hafa tilkynnt um veruleg umframútgjöld stofnunar til ráðuneytis. Honum ber jafnt sem áður skylda til þess að leita allra mögulegra úrræða til þess að bregðast við þeim vanda sem upp er kominn.


16. gr.
Erindisbréf.

Ráðherra setur sérhverjum forstöðumanni erindisbréf þar sem tilgreind skulu helstu markmið til lengri og skemmri tíma og hverjar skuli vera skyldur hans í þeim efnum.

Í erindisbréfi skal gæta þess að glögg verkaskipting sé á milli stjórnar stofnunar og forstöðumanns.

Í erindisbréfi skulu helstu verkefni forstöðumanns tilgreind. Fjalla skal sérstaklega um þau verkefni sem lúta að samskiptum ráðuneytis og forstöðumanns um gerð ársáætlunar, sbr. 8. gr. og um framkvæmd þeirra. Jafnframt skal kveða á um skyldu forstöðumanns til þess að upplýsa ráðuneyti um það þegar útgjöld stofnunar eru umfram ársáætlun, skv. 15. gr. og um skyldu forstöðumanns til þess að standa skil á upplýsingum skv. 9. gr.


V. KAFLI
Sérstök úrræði vegna umframútgjalda.
17. gr.
Útgjöld umfram ársáætlun.

Þegar ráðuneyti fær vitneskju um að útgjöld stofnunar eru meira en 4% umfram ársáætlun hennar skal það fara yfir skýringar forstöðumanns, sbr. 1. mgr. 15. gr. og ef nauðsyn krefur afla nauðsynlegra viðbótarskýringa hjá forstöðumanni og stjórn viðkomandi stofnunar. Ráðuneyti getur sett forstöðumanni og stjórn stofnunar allt að fimm daga frest til þess að skila nauðsynlegum gögnum og upplýsingum. Ráðuneyti leggur síðan sjálfstætt mat á framkomnar skýringar.


18. gr.
Frumkvæði ráðuneytis.

Ráðuneyti ber ábyrgð á því að forstöðumaður grípi til nauðsynlegra úrræða til þess að ráða bót á rekstrarvandanum. Það getur sett forstöðumanni og eftir atvikum stjórn stofnunar tímafrest til þess að bregðast við fyrirmælum sínum um úrbætur.


19. gr.
Áminning.

Komi í ljós að forstöðumaður hefur gerst brotlegur við starfsskyldur sínar, en ekki er nægilegt tilefni til þess að veita honum lausn um stundarsakir, sbr. 3. mgr. 26. gr. laga nr. 70/1996, skal hlutaðeigandi stjórnvald veita honum áminningu sbr. 21. gr. sömu laga.

Áður en forstöðumanni er veitt áminning skal honum send skrifleg greinargerð um þær ávirðingar sem á hann eru bornar og gefa honum kost á að skýra mál sitt.

Áminning skal vera skrifleg og jafnframt greindar ástæður hennar.


20. gr.
Lausn frá embætti.

Komi í ljós óreiða á bókhaldi, fjárreiðum eða að útgjöld eru ítrekað eða verulega, sbr. 2. mgr. 12. gr., umfram fjárheimildir, skal hlutaðeigandi stjórnvald, ráðuneyti eða stjórn stofnunar meta hvort veita skuli forstöðumanni áminningu skv. 2. mgr. 26. gr. og 2. mgr. 38. gr. laga nr. 70/1996 eða lausn um stundarsakir skv. 3. mgr. 26. gr. sömu laga.

Hafi forstöðumaður gerst sekur um stórfellda eða ítrekaða vanrækslu skal veita honum lausn um stundarsakir. Áður en ákvörðun er tekin um lausn um stundarsakir vegna ítrekaðrar vanrækslu skal áminning liggja fyrir, sbr. 19. gr. Ráðuneyti eða það stjórnvald sem veitir lausn, sbr. 31. gr. laga nr. 70/1996 skal tryggja að mál sé nægilega upplýst.

Ef forstöðumaður óskar skal rökstyðja ákvörðun um lausn um stundarsakir. Ef annað stjórnvald en ráðherra hefur tekið ákvörðun um lausn má bera hana undir hlutaðeigandi ráðherra.

Ef forstöðumanni er veitt lausn um stundarsakir skal máli hans vísað til nefndar skv. 27. gr. laga nr. 70/1996.

Um lausn forstöðumanns skal að öðru leyti gæta ákvæða VI. kafla laga nr. 70/1996 eftir því sem við á.


VI. KAFLI
Gildistaka.
21. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt 51. gr. laga nr. 88/1997 um fjárreiður ríkisins og öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð um sama efni nr. 116 frá 13. febrúar 2001.


Fjármálaráðuneytinu, 22. desember 2004.

Geir H. Haarde.
Baldur Guðlaugsson.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica