Fjármálaráðuneyti

297/2003

Reglugerð um arðsfrádrátt.

1. gr.

Frá tekjum hlutafélaga, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og félaga og samlaga sem falla undir 2. og 4. tölul. 1. mgr. 2. gr. sömu laga má draga þá fjárhæð sem þessir lögaðilar hafa fengið greidda í arð, skv. 4. tölul. C-liðar 7. gr. laganna, af hlutum og hlutabréfum í félögum, er greinir í 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. laganna.


2. gr.

Ákvæði 1. gr. skal einnig taka til arðs frá hlutafélögum sem skráð eru erlendis ef það félag sem arðinn fær sýnir fram á að hagnaður hins erlenda félags hafi verið skattlagður með sambærilegum hætti og gert er hér á landi.

Til þess að hagnaður erlends félags teljist skattlagður með sambærilegum hætti þurfa eftirfarandi skilyrði að vera uppfyllt:

1. Það skatthlutfall sem lagt er á hagnað erlends félags skal eigi vera lægra en almennt skatthlutfall í einhverju aðildarríkja Efnahags- og framfarastofnunarinnar í París (OECD), hvort sem skatturinn rennur til ríkis, fylkis eða sveitarfélags.
2. Hagnaður félagsins skal hafa verið skattlagður í heimilisfestisríki þess með tekjuskatti en ekki einvörðungu lögð á félagið tiltekin gjöld sem taka ekki mið af tekjum þess.
3. Skattareglur heimilisfestisríkis félagsins heimili eigi frádrátt frá tekjum vegna útgreidds arðs.
4. Hagnaður, sem skattstofn, hjá erlenda félaginu hafi verið ákvarðaður á grundvelli sömu meginsjónarmiða og liggja að baki ákvörðun hagnaðar samkvæmt lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.


3. gr.

Arður frá félögum sem hafa starfsleyfi alþjóðlegs viðskiptafélags sbr. lög nr. 31/1999, um alþjóðleg viðskiptafélög, er ekki frádráttarbær.


4. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 9. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum og öðlast þegar gildi.


Fjármálaráðuneytinu, 16. apríl 2003.

F. h. r.
Baldur Guðlaugsson.
Maríanna Jónasdóttir.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica