Fara beint í efnið

Prentað þann 19. apríl 2024

Breytingareglugerð

982/2012

Reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 1100/2006, um vörslu og tollmeðferð vöru.

1. gr.

Við 33. gr. reglugerðarinnar bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:

Áfengisgjöld skulu ekki skuldfærð við innflutning áfengis. Tollstjóri skal þó veita þeim sem eru skráðir innflytjendur áfengis, sbr. 3. gr. áfengislaga nr. 75/1998, greiðslufrest á áfengisgjaldi, enda séu lagðar fram fjártryggingar. Tollstjóri skal meta fjárhæð tryggingar eftir umfangi innflutnings hjá viðkomandi aðila og áætluðum skuldfærðum gjöldum á hverju gjaldtímabili. Trygging getur verið í formi reiðufjár eða bankaábyrgðar eða öðru því formi sem tollstjóri metur fullnægjandi.

Tollstjóra er heimilt að falla frá kröfu um framlagningu fjártryggingar skv. 1. mgr. að uppfylltum vissum skilyrðum, m.a. að viðkomandi hafi staðið í skilum með opinber gjöld, hafi stundað reglubundinn innflutning á áfengi sem sambærilegur er með tilliti til álagðra áfengisgjalda a.m.k. undanfarin 2 ár, stjórnarmenn, framkvæmdastjóri og prókúruhafar hafi óflekkað mannorð og hafi ekki á síðustu 10 árum fengið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt hegningarlögum eða öðrum lögum, s.s. tollalögum og skattalögum. Tollstjóri skal setja nánari reglur um hvaða skilyrði þurfi að vera uppfyllt svo fallið verði frá kröfu um fjártryggingu.

2. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 31. gr. tollalaga, nr. 88/2005, með síðari breytingum, öðlast gildi samdægurs. Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 8. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað nr. 15/2005 bindur reglugerð þessi alla þegar við birtingu.

Fjármála- og efnahagsráðuneytinu, 21. nóvember 2012.

F. h. r.

Guðmundur Árnason.

Ögmundur Hrafn Magnússon.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.