Fara beint í efnið

Prentað þann 29. mars 2024

Breytingareglugerð

938/2014

Reglugerð um (3.) breytingu á reglugerð nr. 651/2001 um útrýmingu á riðuveiki og bætur vegna niðurskurðar.

Birta efnisyfirlit

1. gr.

Á eftir skilgreiningu á "Fjárskipti" í 2. mgr. 1. gr. kemur ný skilgreining í 3. mgr. svohljóðandi:

Línubrjótar: Sauðfé sem fer eða er flutt yfir varnarlínu án heimildar.

2. gr.

Á eftir 1. málsl. 2. mgr. 4. gr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi:

Matvælastofnun getur heimilað sameiningu tiltekinna hjarða innan sýktra svæða hafi ekki greinst riða á viðkomandi bæjum í 20 ár og aðrar ástæður mæla ekki gegn því að hjarðirnar verði sameinaðar. Skal þá sérstaklega litið til stöðu annarra sjúkdóma og þess hvort riða hafi greinst á nærliggjandi bæjum þar sem fé gengur eða hefur gengið saman í heimalöndum og á afréttum á undanförnum fimm árum.

3. gr.

Á eftir 2. málsl. 1. mgr. 8. gr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi:

Eigandi sauðfjárins ber ábyrgð á flutningi gripanna á sláturstað, flutningskostnaði og sláturkostnaði. Heimilt er að taka tillit til þess við samningsgerðina sbr. 3. mgr. 15. gr.

4. gr.

1. tl. 2. mgr. 13. gr. verður svohljóðandi:

Beingreiðslur greiðast samkvæmt gildandi samningi um framleiðslu sauðfjárafurða milli Bændasamtaka Íslands og ríkisstjórnar Íslands. Beingreiðslur miðast við greiðslumark lögbýlisins. Gæðastýringagreiðslur skulu miðast við sömu framleiðsluforsendur og afurðatjónsbætur skv. 2. lið þessarar greinar. Ef niðurskurður fer fram skulu álagsgreiðslur vegna gæðastýringar þó því aðeins greiddar að uppfyllt hafi verið skilyrði til slíkra greiðslna samkvæmt gildandi reglum þar um. Um fyrirkomulag greiðslna og gjalddaga skulu gilda ákvæði reglugerðar um greiðslumark sauðfjár á lögbýlum.

5. gr.

Á eftir 16. gr. kemur ný grein, 17. gr., svohljóðandi og breytist númeraröð annarra greina samkvæmt því:

17. gr.

Bætur vegna línubrjóta skulu greiðast úr ríkissjóði.

Bætur fyrir ær skulu ákvarðaðar í samræmi við auglýsingu ríkisskattstjóra um verðmætamat á búpeningi við framtal eigna, að viðbættu 60% álagi, sem greiðist vegna minni afurða gemlinga á fyrsta ári. Frá framangreindri bótafjárhæð kemur til frádráttar verðmæti nýttra afurða sem miðast við 20 kg kjöts í holdafyllingar- og fituflokki FR3 sbr. viðauka I í reglugerð nr. 882/2010 um gæðamat, flokkun og merkingu sláturafurða, samkvæmt meðalverði í verðskrá á tímabilinu frá miðbiki til loka septembermánaðar ár hvert, hjá þeim sláturleyfishafa sem ætla má að eigandi gripanna hefði lagt inn hjá.

Bætur fyrir hrúta skulu ákvarðaðar í samræmi við auglýsingu ríkisskattstjóra um verðmætamat á búpeningi við framtal eigna. Frá framangreindri bótafjárhæð kemur til frádráttar verðmæti nýttra afurða sbr. 2. ml. 1. mgr.

Bætur eru ekki greiddar fyrir lömb, þar sem verðmæti afurða er greitt til skráðs eiganda.

6. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í lögum nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, með síðari breytingum, lögum nr. 66/1998 um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr, ásamt síðari breytingum og lögum nr. 99/1993 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvöru, ásamt síðari breytingum. Reglugerðin öðlast þegar gildi.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 15. október 2014.

F. h. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra,

Ólafur Friðriksson.

Rebekka Hilmarsdóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.