Fara beint í efnið

Prentað þann 28. mars 2024

Stofnreglugerð

938/2002

Reglugerð um vörur unnar úr eðalmálmum.

I. KAFLI Gildissvið og skilgreiningar.

1. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi tekur til framleiðslu á vörum sem unnar eru úr eðalmálmum í atvinnuskyni og til innflutnings, kaupa og sölu á þeim.

2. gr. Skilgreiningar.

Í reglugerð þessari merkir:

  1. Ábyrgðarstimplar: Stimplar sem eru notaðir til að auðkenna vörur unnar úr eðalmálmum. Greinast þeir í nafnastimpla, hreinleikastimpla, staðarmerki og ártöl.
  2. Nafnastimpill: Stimpill sem er samþykktur, merktur og skráður hjá Löggildingarstofu og auðkennir framleiðanda eða innflytjanda vöru sem unnin er úr eðalmálmum þannig að hægt er að rekja uppruna hennar.
  3. Hreinleikastimpill: Stimpill sem sýnir skýrlega hversu mikið magn af hreinu gulli, silfri, platínu eða palladíum er í viðkomandi vöru.
  4. Eðalmálmar: Gull sem inniheldur 375 þúsundhluta eða meira af hreinu gulli, silfur sem inniheldur 800 þúsundhluta eða meira af hreinu silfri, platína sem inniheldur 850 þúsundhluta eða meira af hreinni platínu og palladíum sem inniheldur 500 þúsundhluta eða meira af hreinu palladíum.

II. KAFLI. Stimplar.

3. gr. Nafnastimplar.

Nafnastimplar skulu vera bókstafir eða tákn. Bókstafir skulu mynda nafn rétthafa nafnastimpils eða firmaheiti eða styttingu/skammstöfun þess. Löggildingarstofa skal ekki viðurkenna tákn nema þau hafi verið viðurkennd af Einkaleyfastofu með skráningu í vörumerkjaskrá í nafni þess er óskar eftir skráningu nafnastimpils. Andmælafrestur vegna skráningar í vörumerkjaskrá skal vera liðinn. Tákn skulu vera á skrá skráð af rétthafa nafnastimpils í vörumerkjaskrá.

4. gr. Umsókn.

Sækja skal um viðurkenningu og skráningu á nafnastimpli hjá Löggildingarstofu. Umsóknin skal vera á því formi sem Löggildingarstofa ákveður. Í henni skal koma fram:

  1. Nafn, kennitala og heimilisfang umsækjanda.
  2. Nákvæm lýsing á stimplinum á myndrænu formi.
  3. Umsóknardagur.
  4. Vottorð Einkaleyfastofu um skráningu í vörumerkjaskrá ef um tákn er að ræða.
  5. Aðrar upplýsingar sem Löggildingarstofa telur nauðsynlegar svo hún geti sinnt eftirlitshlutverki sínu.

Löggildingarstofa skal taka umsóknir til afgreiðslu í þeirri röð sem þær berast og skal miða við þann tíma sem fullnægjandi umsókn liggur fyrir. Skal Löggildingarstofa afhenda umsækjanda staðfestingu á móttöku umsóknar þar sem fram kemur hvenær fullnægjandi umsókn var móttekin.

5. gr. Nafnastimplaskrá.

Löggildingarstofa skal halda skrá yfir viðurkennda nafnastimpla. Skráin skal lýsa með skýrum hætti útliti stimpilsins. Þá skal koma fram nafn, kennitala og heimilisfang rétthafa. Skráin skal birt með rafrænum hætti auk þess sem hún skal vera öllum aðgengileg á skrifstofu Löggildingarstofu.

6. gr. Skráning og afskráning.

Aðeins má skrá nafnastimpil sem uppfyllir kröfur 3. gr. og líkist ekki svo nafnastimpli sem er á skrá Löggildingarstofu að ruglingi geti valdið að mati Löggildingarstofu.

Hafi nafnastimpill verið tekinn af skrá Löggildingarstofu má ekki skrá samskonar nafnastimpil í þrjú ár frá því stimpillinn var tekinn af skránni nema sá sem skráður var fyrir stimplinum veiti samþykki sitt fyrir því.

Þegar ákvörðun hefur verið tekin um viðurkenningu á nafnastimpli skal Löggildingarstofa færa stimpilinn inn á skrá Löggildingarstofu og tilkynna umsækjanda um skráninguna. Ef skráningu er hafnað skal Löggildingarstofa tilkynna umsækjanda um það.

Löggildingarstofa skal taka stimpla af skránni fari sá sem skráður er fyrir nafnastimpli fram á það eða hann hættir starfsemi.

Sá sem skráður er fyrir nafnastimpli skal tilkynna Löggildingarstofu ef hann hættir starfsemi, eða flytur hana. Einnig skal Löggildingarstofu tilkynnt þegar fyrirtæki breytir um nafn. Skal Löggildingarstofa þá meta hvort að nafnastimpill getur áfram verið óbreyttur á skrá Löggildingarstofu.

7. gr. Hreinleikastimplar.

Hreinleikastimplar skulu vera skýrir og læsilegir og hafa eftirfarandi gildi.
Gull: 916, 750, 585, 375.
Silfur: 800, 830, 925 eða 800S, 830S, 925S.
Platína: 950, 900, 850 eða 950Pt, 900Pt, 850Pt.
Palladíum: 950, 500 eða 950Pd, 500Pd.

Ef silfurvara inniheldur a.m.k. 925 þúsundhluta af silfri er heimilt að auðkenna hreinleika hennar með orðinu "sterling".

8. gr. Erlendir stimplar.

Hreinleikastimplar, nafnastimplar og opinberir eftirlitsstimplar sem notaðir eru í ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins eru jafngildir innlendum stimplum, enda sé opinbert eftirlit með hreinleika eðalmálma sambærilegt eftirliti hér á landi að mati Löggildingarstofu. Þegar um nafnastimpla er að ræða skal vera unnt að rekja hver framleiðandi vörunnar er og hann skal geta sýnt fram á rétt sinn til að nota stimpilinn.

Vörur sem fluttar eru inn frá öðrum löndum en viðurkennd eru samkvæmt 1. mgr. skulu bera íslenska stimpla.

III. KAFLI Notkun ábyrgðarstimpla.

9. gr. Merkingar á vörum.

Ábyrgðarstimpla má eingöngu nota á vörur sem unnar eru úr eðalmálmum.

Allar vörur unnar úr eðalmálmum í atvinnuskyni skulu bera hreinleikastimpil og nafnastimpil og er óheimilt að flytja slíkar vörur inn til landsins, selja þær eða bjóða til sölu nema þær beri slíka stimpla.

Vörur unnar úr eðalmálmum eða vörur sem líkjast þeim mega ekki bera stimpla sem líkjast svo stimplum samkvæmt reglugerð þessari að ruglingi geti valdið. Þó mega vörur ávallt bera stimpla sem heimilir eru á Evrópska efnahagssvæðinu.

Vörur sem ekki teljast unnar úr eðalmálmum skv. 4. tölul. 2. gr. má ekki markaðssetja sem slíkar eða sem vörur úr gulli, silfri, platínu eða palladíum. Ef hlutfall gulls, silfurs, platínu eða palladíums er lægra en fram kemur í 4. tölul. 2. gr. má markaðssetja vöruna sem vöru sem inniheldur gull, silfur, platínu eða palladíum, enda komi skýrt fram að hlutfall þessara málma sé lægra en í eðalmálmum.

10. gr. Undanþágur.

Eftirtaldar vörur eru undanþegnar ákvæðum 9. gr. um stimplanotkun.

  1. Vörur sem eingöngu eru sýnishorn eða eingöngu eru ætlaðar til notkunar á vörusýningu.
  2. Vörur úr gulli, platínu eða palladíum sem vega minna en 1 gramm og vörur úr silfri sem vega minna en 3 grömm eða vörur sem eru svo smáar að ekki er mögulegt að stimpla þær.
  3. Vörur sem nota á til tannlækninga eða í öðru lækningaskyni.
  4. Hljóðfæri.
  5. Mynt sem er í fullu gildi.
  6. Vörur sem óumdeilanlega geta talist fornmunir.
  7. Úr og pennar.

Ef ekki er unnt að stimpla vöru án þess að skaða hana má staðfesta hreinleika hennar með vottorði sem Löggildingarstofa eða aðili á hennar vegum gefur út.

11. gr. Vörur sem unnar eru úr fleiri en einum eðalmálmi.

Ef vara er unnin úr fleiri en einum eðalmálmi telst varan unnin úr þeim málmi sem er óæðstur og skal varan stimpluð í samræmi við það. Miða skal við eftifarandi flokkun:

  1. Platína telst æðri en gull.
  2. Gull telst æðra en palladíum.
  3. Palladíum telst æðra en silfur.

Ef skilja má eðalmálmana í sundur eða skýrt er hvar skil þeirra liggja má þó stimpla hvern hluta vörunnar með þeim hreinleikastimpli sem við á.

12. gr. Notkun annarra efna með eðalmálmum.

Einungis er heimilt að nota önnur efni en eðalmálma í vörur unnar úr eðalmálmum ef eftirfarandi skilyrði eru uppfyllt:

  1. Skil milli eðalmálms og annarra efna skulu vera greinileg og er ekki heimilt að nota málma sem líkjast svo eðalmálmum að ruglingi geti valdið.
  2. Ef notaður er annar málmur en eðalmálmur skal, þar sem því verður við komið, auðkenna þann hluta vörunnar með þeim hætti að ljóst sé að ekki er um eðalmálm að ræða.
  3. Aðeins skal stimpla þann hluta vörunnar sem er úr eðalmálmi með hreinleikastimpli.

Vörur sem nauðsynlegt er að nota önnur efni en eðalmálma í svo þær þjóni tilgangi sínum, s.s. úr og pennar, falla ekki undir þessa grein.

13. gr. Ábyrgð.

Framleiðandi vöru sem unnin er úr eðalmálmum ber ábyrgð á að varan sé stimpluð í samræmi við reglugerð þessa. Ef um innflutta vöru er að ræða hvílir ábyrgðin á innflytjanda hennar.

IV. KAFLI. Eftirlit og gjaldtaka.

14. gr. Eftirlitsaðili.

Löggildingarstofa hefur eftirlit með framkvæmd laga um vörur unnar úr eðalmálmum og reglugerðar þessarar.

Löggildingarstofu er heimilt með samningi að fela faggiltri skoðunarstofu, sem hlotið hefur faggildingu í samræmi við gildandi lög og reglugerðir um starfsemi faggiltra óháðra skoðunarstofa, að annast eftirlitið á sína ábyrgð.

15. gr. Heimildir.

Löggildingarstofu og faggiltum skoðunarstofum sem starfa á vegum Löggildingarstofu er heimill aðgangur að starfsstöðvum framleiðenda, innflytjenda og seljenda vara sem unnar eru úr eðalmálmum við eftirlitið.

Framleiðanda, innflytjanda og seljanda vöru er skylt að kröfu Löggildingarstofu og faggiltra skoðunarstofa að veita allar upplýsingar og afhenda vörur til skoðunar eða prófunar, svo og hluti eða gögn sem nauðsynleg eru til að staðreyna að fylgt sé ákvæðum reglugerðar þessarar og laga um vörur unnar úr eðalmálmum.

Við eftirlitið skal þess gætt að sem minnst röskun verði á starfsemi eftirlitsskylds aðila.

16. gr. Sýnataka.

Löggildingarstofu er heimilt að taka sýni hjá eftirlitsskyldum aðila til staðfestingar á árituðu hlutfalli eðalmálms í söluvöru. Nær heimild þessi eingöngu til varnings sem talinn er úr eðalmálmum og fellur undir reglugerð þessa, sbr. 2. gr. Sýni skulu greind hjá opinberum aðila eða faggiltri prófunarstofu og skal þess gætt að sýnið skemmist ekki við rannsókn, þess sé vel gætt og skilað til eiganda/umráðamanns að rannsókn lokinni. Þó er Löggildingarstofu heimilt að framkvæma frekari próf, s.s. sýrupróf, ef brýna nauðsyn ber til við viðbótarrannsókn vegna gruns um að vara uppfylli ekki skilyrði reglugerðar þessarar.

Rannsókn skv. 1. mgr. skal lokið svo fljótt sem unnt er. Löggildingarstofa skal beita hlutlægum viðmiðum við töku sýna og skal ekki taka fleiri sýni en nauðsynlegt er miðað við atvik hverju sinni.

Ef rannsókn á sýni leiðir í ljós að hlutfall eðalmálms er minna en áritun segir til um uppfyllir varan ekki kröfur reglugerðarinnar.

17. gr. Úrræði Löggildingarstofu.

Komi í ljós að vara uppfyllir ekki þær kröfur sem mælt er fyrir um í reglugerð þessari og lögum um vörur unnar úr eðalmálmum getur Löggildingarstofa bannað sölu hennar. Sé um að ræða rökstuddan grun um brot getur Löggildingarstofa bannað sölu á viðkomandi vöru tímabundið.

Framleiðandi, innflytjandi eða seljandi, eftir því sem við á, skal bera þann kostnað sem hlotist getur vegna aðgerða Löggildingarstofu skv. 1. mgr.

Sé fyrirmælum Löggildingarstofu samkvæmt reglugerð þessari eða lögum um vörur úr eðalmálmum ekki hlítt getur Löggildingarstofa fylgt þeim eftir með ákvörðun um dagsektir sem lagðar skulu á viðkomandi framleiðanda, innflytjanda eða seljanda eða fyrirsvarsmenn hans. Slíkar dagsektir mega nema allt að 50.000 kr. á sólarhring. Ákvörðun um dagsektir skal tilkynnt bréflega á sannanlegan hátt þeim sem hún beinist að. Dagsektir eru aðfararhæfar og renna í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við innheimtuna.

18. gr. Gjaldtaka.

Fyrir viðurkenningu og skráningu á nafnastimpli skal greiða Löggildingarstofu 10.000 kr. Einstaklingar eða lögaðilar sem flytja inn, framleiða og/eða selja vörur sem falla undir reglugerð þessa skulu greiða Löggildingarstofu 12.000 kr. á ári vegna eftirlits stofnunarinnar, auk kostnaðar vegna sýnatöku og greiningar sýna. Ef sami einstaklingur eða lögaðili hefur fleiri en eina starfsstöð skal hann greiða gjald vegna hverrar starfsstöðvar. Gjaldið skal greitt 1. febrúar ár hvert fyrir síðasta almanaksár. Ef eftirlitsskyldur aðili hefur starfsemi á gjaldárinu skal gjaldið ákvarðað í hlutfalli við þann tíma sem starfsemin hefur varað á árinu. Aðför má gera til fullnustu kröfum vegna gjaldsins án undangengins dóms, úrskurðar eða sáttar.

Leiði eftirlit í ljós að vörur uppfylla ekki skilyrði reglugerðar þessarar greiðir viðkomandi framleiðandi, innflytjandi eða seljandi allan útlagðan kostnað sem hlýst af nauðsynlegri viðbótarrannsókn, svo sem kostnað við sýnatöku og greiningu sýna, ferðakostnað og annan kostnað sem er í beinum og efnislegum tengslum við eftirlitið.

Sá sem óskar staðfestingar á hreinleika málma, sbr. 2. mgr. 9. gr., skal greiða þeim er þjónustuna veitir gjald sem nemur þeim kostnaði sem felst í því að veita þjónustuna, svo sem vegna tækjakosts og mannafla.

V. KAFLI Ýmis ákvæði.

19. gr. Viðurlög.

Fyrir brot á reglugerð þessari skal refsa með sektum liggi ekki þyngri refsing við brotinu samkvæmt öðrum lögum. Dæma má jafnt lögaðila sem einstakling til greiðslu sekta vegna brota á reglugerðinni. Lögaðila má ákvarða sekt án tillits til þess hvort sök verði sönnuð á starfsmann lögaðilans.

20. gr. Aðlögun.

Ákvæði reglugerðarinnar um stimpla og notkun þeirra taka ekki til vara sem framleiddar eru eða fluttar inn fyrir 15. apríl 2003. Heimilt er til 1. janúar 2006 að bjóða til sölu vörur sem framleiddar hafa verið eða fluttar inn fyrir gildistöku reglugerðarinnar og bera ekki nafnastimpla eða hreinleikastimpla. Eftir þann tíma á 2. mgr. 10. gr. reglugerðar þessarar við um slíkar vörur.

21. gr. Reglugerðarheimild og gildistaka.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 14. gr. laga nr. 77/2002 um vörur unnar úr eðalmálmum og öðlast gildi við birtingu hennar.

Viðskiptaráðuneytinu, 18. desember 2002.

Valgerður Sverrisdóttir.

Atli Freyr Guðmundsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.