Fara beint í efnið

Prentað þann 28. mars 2024

Stofnreglugerð

870/2016

Reglugerð um kerfisáætlun fyrir uppbyggingu flutningskerfis raforku.

1. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi tekur til meðferðar kerfisáætlunar flutningsfyrirtækisins skv. 9. gr. a.-d. raforkulaga nr. 65/2003, með síðari breytingum.

2. gr. Undirbúningur kerfisáætlunar.

Flutningsfyrirtækið skal hafa samráð við Samband íslenskra sveitarfélaga, landshlutasamtök sveitarfélaga og þau sveitarfélög sem kunna að þurfa að gera breytingar á skipulagsáætlunum sínum vegna kerfisáætlunar.

Drög að kerfisáætlun skulu kynnt þessum aðilum og öðrum hagsmunaaðilum til sérstakrar umfjöllunar og ber þeim að skila athugasemdum innan sex vikna frá kynningu.

Þegar samráðsferli skv. ákvæði þessu er lokið skal flutningsfyrirtækið vinna greinargerð um athugasemdir sem bárust á kynningartíma, svör flutningsfyrirtækisins og rökstuðning fyrir endanlegri áætlun. Greinargerðin er hluti af kerfisáætlun og skal vera framsett sem fylgiskjal framlagðar kerfisáætlunar.

3. gr. Framlagning kerfisáætlunar.

Flutningsfyrirtækið skal árlega og eigi síðar en 1. september leggja fyrir Orkustofnun til samþykktar kerfisáætlun um uppbyggingu flutningskerfisins.

4. gr. Samráð vegna kerfisáætlunar.

Orkustofnun skal við yfirferð kerfisáætlunar hafa samráð við alla núverandi og væntanlega viðskiptavini flutningsfyrirtækisins, sbr. 2. mgr. 8. gr. raforkulaga nr. 65/2003 og gæta þess að tillit sé tekið til þess sem fram kemur í samráðsferlinu.

Eftir að Orkustofnun hefur fengið kerfisáætlun flutningsfyrirtækisins til meðferðar skv. 3. gr. skal stofnunin bjóða viðskiptavinum flutningsfyrirtækisins að koma á framfæri skriflegum athugasemdum vegna kerfisáætlunar. Frestur til þess að koma á framfæri athugasemdum er fjórar vikur.

Orkustofnun skal einnig kynna kerfisáætlun með auglýsingu í Lögbirtingablaðinu. Þar skal gefa væntanlegum viðskiptavinum flutningsfyrirtækisins færi á að koma á framfæri skriflegum athugasemdum vegna kerfisáætlunar. Frestur til þess að koma á framfæri athugasemdum er fjórar vikur.

Þeir aðilar sem telja sig vera væntanlega viðskiptavini flutningsfyrirtækisins skulu rökstyðja það sérstaklega. Orkustofnun metur hvort aðili hafi sýnt fram á með fullnægjandi hætti að hann geti talist væntanlegur viðskiptavinur flutningsfyrirtækisins.

Orkustofnun skal senda flutningsfyrirtækinu þær athugasemdir sem berast skv. 2. og 3. mgr. til umsagnar. Frestur flutningsfyrirtækisins til þess að koma á framfæri umsögn vegna framkominna athugasemda er fjórar vikur. Umsögn flutningsfyrirtækisins skal send viðskiptavinum og væntanlegum viðskiptavinum flutningsfyrirtækisins og þeim gefið færi á að koma á framfæri athugasemdum innan tveggja vikna.

Samhliða samráðsferli þessu getur Orkustofnun óskað eftir öllum gögnum og upplýsingum sem stofnunin telur nauðsynleg vegna meðferðar kerfisáætlunar.

Orkustofnun skal birta niðurstöður samráðsferlisins í ákvörðun stofnunarinnar um samþykkt eða synjun kerfisáætlunar.

5. gr. Ákvörðun Orkustofnunar.

Orkustofnun fer yfir kerfisáætlun flutningsfyrirtækisins með hliðsjón af markmiðum um öryggi, skilvirkni, áreiðanleika afhendingar, hagkvæmni, gæði raforku og stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

Eftir að Orkustofnun hefur farið yfir kerfisáætlun flutningsfyrirtækisins skal stofnunin taka ákvörðun um samþykkt eða synjun kerfisáætlunar. Orkustofnun getur einnig krafist þess að flutningsfyrirtækið geri breytingar á kerfisáætlun flutningsfyrirtækisins.

Ákvörðun Orkustofnunar skal liggja fyrir eigi síðar en 15. desember ár hvert.

6. gr. Upplýsingar í kerfisáætlun um framkvæmdaáætlun.

Í framkvæmdaáætlun kerfisáætlunar skal gera grein fyrir ákvörðunum um fjárfestingar í flutningskerfinu sem hafa þegar verið teknar á liðnu ári og fjárfestingar sem þarf að ráðast í á næstu þremur árum.

Eftirfarandi upplýsingar eiga að koma fram um einstakar framkvæmdir kerfisáætlunar:

  1. Upplýsingar um það hvernig framkvæmd fellur að markmiðum um öryggi, skilvirkni, áreiðanleika afhendingar og gæði raforku.
  2. Upplýsingar um það hvernig framkvæmd fellur að stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.
  3. Upplýsingar um það hvernig framkvæmd fellur að markmiðum um hagkvæmni, sbr. 8. gr.
  4. Tímaáætlun framkvæmdar þar sem fram koma upplýsingar um upphaf framkvæmda, áætlaðan framkvæmdatíma og verklok.
  5. Greining valkosta vegna hverrar framkvæmdar ásamt rökstuðningi fyrir þeim kosti sem valinn er. Greiningin skal að lágmarki innihalda upplýsingar um það hvernig valkostir samræmast markmiðum skv. 1. mgr. 5. gr.
  6. Upplýsingar um allar teljandi breytingar sem orðið hafa á framkvæmdum sem eru á framkvæmdaáætlunum flutningsfyrirtækisins sem þegar hafa verið samþykktar þ.m.t. breytingar á forsendum vegna hagkvæmnisútreikninga.
  7. Skilgreining á því hvernig viðkomandi framkvæmd stuðlar að auknu afhendingaröryggi samkvæmt markmiðum raforkulaga.
  8. Lýsing á þeim flutningsvirkjum sem fyrirhugað er að reisa m.a. upplýsingar um jarðstrengi, loftlínur, spennu á línum o.þ.h.

Ef einhver af framangreindum liðum (1-8) á ekki við um framkvæmd á framkvæmdaáætlun kerfisáætlunar skal gera grein fyrir því sérstaklega í kerfisáætlun.

7. gr. Upplýsingar í kerfisáætlun um langtímaáætlun kerfisáætlunar.

Langtímaáætlun kerfisáætlunar sýnir þá þætti í meginflutningskerfinu sem fyrirhugað er að byggja upp eða uppfæra á næstu tíu árum.

Eftirfarandi upplýsingar eiga að koma fram um þann valkost eða þá valkosti sem settir eru fram:

  1. Upplýsingar um það hvernig valkostur fellur að markmiðum um öryggi, skilvirkni, áreiðanleika afhendingar og gæði raforku.
  2. Upplýsingar um það hvernig valkostur fellur að stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.
  3. Upplýsingar um það hvernig valkostur fellur að markmiðum um hagkvæmni, sbr. 8. gr.
  4. Tímaáætlun framkvæmda á langtímaáætlun kerfisáætlunar.
  5. Upplýsingar um greiningu valkosta á langtímaáætlun. Greining skal að lágmarki innihalda upplýsingar um það hvernig valkostir samræmast markmiðum skv. 1. mgr. 5. gr.
  6. Skilgreining á því hvernig viðkomandi framkvæmd stuðlar að auknu afhendingaröryggi samkvæmt markmiðum raforkulaga.
  7. Upplýsingar um forsendur, sviðsmyndir og spár sem stuðst er við um þróun raforkuframleiðslu, raforkunotkun, markaðsþróun og raforkuflutning til annarra landa eftir því sem við á.

Ef einhver af framangreindum liðum (1-7) á ekki við um valkost á langtímaáætlun kerfisáætlunar skal gera grein fyrir því sérstaklega í kerfisáætlun.

8. gr. Markmið um hagkvæmni.

Í framkvæmdaáætlun skal koma fram hvernig framkvæmd fellur að markmiðum um hagkvæmni og skulu eftirfarandi upplýsingar koma fram:

Áætlaður heildarfjárfestingarkostnaður framkvæmdar og þau áhrif sem framkvæmdin hefur á rekstrarkostnað flutningskerfisins. Tiltaka skal kostnað við niðurrif eldri virkja ef við á og afskriftir vegna þeirra. Áætla skal hvaða áhrif framkvæmdin hefur á magn flutningstapa eftir því sem mögulegt er. Einnig skal taka fram hver arðsemi eigin fjár framkvæmdar og arðsemi heildarfjármagns framkvæmdar er. Að lokum skal koma fram hver áhrif framkvæmdar eru á flutningstekjur, þ. á m. vegna aukins orkuframboðs.

Hagkvæmnisútreikningar vegna framkvæmda sem fela í sér upplýsingar um það hvaða áhrif fjárfestingar á framkvæmdaáætlun hafa á eignastofn og afskriftir með tilliti til áætlunar um fluttar einingar. Upplýsingar sem koma fram skulu taka mið af áætlun um spennusetningu framkvæmda. Gera skal greinarmun á því til hvaða sviðsmynda er horft við útreikningana og birta niðurstöður í samræmi við það.

Langtímaáætlun skal innihalda mat á þjóðhagslegri hagkvæmni þess að styrkja flutningskerfið skv. 1. gr. raforkulaga nr. 65/2003. Þar skal meta þá valkosti sem kynntir eru í kerfisáætlun m.t.t. forsendna sem greining á valkostunum byggir á. Einnig skal tiltaka áætlaðan heildarfjárfestingarkostnað vegna framkvæmda sem tengjast valkostum.

9. gr. Eftirlit vegna kerfisáætlunar.

Orkustofnun hefur eftirlit með framkvæmd kerfisáætlunar og skal meta hvernig henni er fylgt eftir.

Orkustofnun getur kallað eftir öllum nauðsynlegum upplýsingum og gögnum frá flutningsfyrirtækinu við framkvæmd eftirlits með kerfisáætlun.

Flutningsfyrirtækinu ber að tilkynna Orkustofnun um ný flutningsvirki sem eru á framkvæmdaáætlun áður en þau eru tekin í notkun.

Óheimilt er að hefja framkvæmdir vegna flutningsvirkja áður en framkvæmdaáætlun kerfisáætlunar hefur verið samþykkt nema sérstakt leyfi skv. 2. mgr. 9. gr. raforkulaga nr. 65/2003 liggi fyrir.

10. gr. Lagastoð og gildistaka.

Reglugerð þessi er sett á grundvelli 9. gr. d. raforkulaga nr. 65/2003, með síðari breytingum, og öðlast þegar gildi.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 7. október 2016.

Ragnheiður Elín Árnadóttir
iðnaðar- og viðskiptaráðherra.

Erla Sigríður Gestsdóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.