Landbúnaðarráðuneyti

859/2002

Reglugerð um innflutning loðdýra.

1. gr.
Yfirstjórn og skilgreiningar.

Embætti yfirdýralæknis og héraðsdýralæknar annast eftirlit með því að reglum um heilbrigði, innflutning og einangrun loðdýra sé framfylgt.

Í reglugerð þessari er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
Loðdýr, eru minkar og refir, en einnig önnur dýr sem alin eru vegna verðmætis skinnanna, landbúnaðarráðherra sker úr um hvort dýrategund telst til loðdýra eða ekki.

Loðdýrarækt, þegar dýr eru alin vegna verðmætis skinnanna, eingöngu eða aðallega, enda skinnin ætluð til sölu.

Sóttvarnarstöð, nefnist hús eða aðstaða til geymslu á innfluttum loðdýrum, sem viðurkennd er af landbúnaðarráðuneytinu, að fenginni umsögn yfirdýralæknis.


2. gr.
Innflutningur.

Óheimilt er að flytja til landsins loðdýr nema með leyfi landbúnaðarráðherra, að fenginni umsögn embættis yfirdýralæknis. Skrifleg umsókn skal send til landbúnaðarráðuneytisins ásamt upplýsingum um hvaðan dýrin koma, tegund, fjölda þeirra, kyn og aldur. Þau bú sem óskað er eftir að flytja dýr frá þurfa að hafa hlotið samþykki fagráðs í loðdýrarækt.

Óheimilt er að flytja inn læður sem átt hafa hvolpa.

Ekki er heimilt að veita innflutningsleyfi fyrir loðdýrum til Íslands nema fyrir liggi skriflegar upplýsingar heilbrigðisyfirvalda í viðkomandi landi um að eigi hafi orðið vart smitsjúkdóma undanfarin þrjú ár á því búi eða 5 km umhverfis það bú sem flytja á dýrin frá.

Öll þau bú eða staðir sem flutt er frá þurfa að vera og hafa verið laus við plasmacytosis (aleutian disease), refafár/minkafár (distemper) og veiruskitu í mink (mink viral enteritis) síðastliðin 3 ár. Einnig skulu dýr sem flutt verða inn prófuð fyrir plasmacytosis og veiruskitu í mink. Refur þarf auk þess að vera laus við refavanka (encephalitozoonosis, nosematosis) og maurakláða (scabies).

Auk þessa getur embætti yfirdýralæknis krafist frekari rannsókna eða annarra vottorða með viðkomandi dýrum eða búi telji yfirdýralæknir þörf á.

Óheimilt er að flytja til landsins dýr sem hafa verið bólusett fyrir smitsjúkdómum. Heimilt er að flytja inn óbólusett dýr frá búum sem hafa bólusett til öryggis gegn smitsjúkdómum enda búið með vottorð þarlendra opinberra dýralækna um að enginn smitsjúkdómur hafi komið upp á viðkomandi búi og í nánasta umhverfi þess síðastliðin 3 ár. Við innflutning frá búum sem hafa bólusett samkvæmt ofangreindu skal yfirdýralæknir setja fram kröfur um auknar sýnatökur bæði á þeim búum sem flutt er frá og meðan á einangrun stendur.


3. gr.
Skoðun.

Strax og dýrin koma til landsins skulu þau skoðuð af embættisdýralækni sem ganga skal úr skugga um að þau séu heilbrigð og að þeim fylgi tilskilin vottorð og aðrar þær upplýsingar sem krafist var er innflutningsleyfi var veitt.


4. gr.
Sóttvarnarstöð og einangrun.

Ef innflutt loðdýr reynast heilbrigð og fullnægja að öðru leyti settum skilyrðum skulu þau sett beint inn á áður viðurkennda sóttvarnarstöð. Dýrunum skal haldið í einangrun eins lengi og yfirdýralæknir telur nauðsynlegt, en eigi skemur en 24 vikur.

Sóttvarnarstöð fyrir loðdýr skal uppfylla öll skilyrði um dýrheldni búra og húsa samkvæmt reglugerð um aðbúnað loðdýra. Einnig skal húsið vera afgirt þannig að sauðfé, hross eða nautgripir komist ekki í snertingu við það.

Umgengnisreglur skulu ákvarðast af yfirdýralækni hverju sinni og skal héraðsdýralæknir yfirfara og samþykkja aðstöðuna áður en innflutningsleyfi er veitt.

Úrgang frá einangrunarstöð má ekki fjarlægja fyrr en að lokinni einangrun og skal hann þá meðhöndlaður eins og annar úrgangur. Komi hins vegar upp sjúkdómur skal öllum úrgangi eytt samkvæmt fyrirmælum yfirdýralæknis.

Að einangrunartíma loknum skal prófa alla minka sem selja á frá búinu fyrir plasmacytosis. Einnig skal prófa fyrir öðrum sjúkdómum sé þess talin þörf af yfirdýralækni.

Ef loðdýrabúi í rekstri er breytt í sóttvarnarstöð skulu gerðar til þess sömu kröfur og gerðar eru til sóttvarnarstöðva og skal búið sækja um leyfi til landbúnaðarráðuneytisins, sbr. 7. gr. Allt búið telst vera í einangrun. Búið sem flutt er inn á skal hafa verið viðurkennt A-bú samkvæmt reglugerð um aðbúnað loðdýra 3 síðastliðin ár þar á undan. Áður en einangrun er aflétt skulu öll fullorðin dýr (eldri en 6 mánaða), á búinu og/eða ásetningsdýr prófuð fyrir plasmacytosis. Einnig skal prófa fyrir öðrum sjúkdómum sé þess talin þörf af yfirdýralækni.


5. gr.
Leyfisveiting og afturköllun leyfis.

Allir þeir sem reka sóttvarnarstöð fyrir loðdýr, skulu hafa til þess skriflegt leyfi landbúnaðarráðuneytisins. Umsókn um leyfi til þess að reka sóttvarnarstöð, skal senda landbúnaðarráðuneytinu, sem aflar umsagnar yfirdýralæknis. Ennfremur skal fylgja umsókn lýsing á stærð og gerð húsnæðis stöðvarinnar.

Landbúnaðarráðuneytið getur afturkallað leyfi til reksturs sóttvarnarstöðvar, ef ástæða þykir til t.d. vegna sjúkdóma eða alvarlegra eða ítrekaðra brota á settum reglum, án þess að bætur komi fyrir.

Ef um alvarleg eða ítrekuð brot er að ræða getur landbúnaðarráðuneytið, að fengnum tilmælum yfirdýralæknis, einnig látið lóga bótalaust, á kostnað eiganda, öllum þeim dýrum sem í einangrun eru.


6. gr.
Framkvæmd einangrunar.

Í upphafi einangrunar skal yfirdýralæknir afhenda eiganda eða umráðamanni dýranna skrifleg fyrirmæli um hvaða varúðarráðstafanir séu nauðsynlegar til að varna því að smitsjúkdómar berist frá eða í hin innfluttu dýr og hvernig haga beri sýnatökum meðan á einangrun stendur. Hundahald á einangrunarstöð er bannað meðan á einangrun stendur. Ketti sem haldið er á einangrunarbúum skal bólusetja fyrir kattafári (feline panleukopenia).

Meðan innflutt dýr eru í einangrun skulu þau skoðuð reglulega af embættisdýralækni samkvæmt nánari fyrirmælum yfirdýralæknis. Eigandi eða umráðamaður skal veita nauðsynlega aðstoð við skoðun dýranna. Umráðamaður dýranna skal án tafar gera embættisdýralækni viðvart ef upp kemur sjúkdómur í dýrunum. Öll hræ skal senda strax til rannsóknar. Embættisdýralæknir hlutast til um, í samráði við yfirdýralækni, að staðfest sé um hvaða sjúkdóm sé að ræða. Skal hann í samráði við yfirdýralækni þegar gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu og tjón af völdum sjúkdómsins.


7. gr.
Smitsjúkdómar.

Komi upp smitsjúkdómur í innfluttum loðdýrum meðan þau eru í einangrun er landbúnaðarráðherra, að fenginni tillögu yfirdýralæknis, heimilt að láta lóga öllum dýrum í einangrunarstöðinni bótalaust, á kostnað eiganda. Hræjum og öðru er smithætta getur stafað af skal eyða á tryggilegan hátt að fyrirmælum yfirdýralæknis og er eiganda innfluttu dýranna skylt að leggja fram nauðsynlega vinnu við hreinsun og sótthreinsun að lokinni slátrun.

Sé talið nauðsynlegt að eyða búrum eða öðrum útbúnaði skal það gert á kostnað eiganda, bótalaust af hálfu ríkissjóðs.


8. gr.
Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með heimild í lögum um innflutning dýra nr. 54/1990 og lögum um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr nr. 66/1998.

Jafnframt eru felld úr gildi ákvæði 3.-10. gr. reglugerðar um loðdýrarækt og innflutning loðdýra nr. 444/1982. Reglugerðin tekur þegar gildi.


Landbúnaðarráðuneytinu, 9. desember 2002.

Guðni Ágústsson.
Atli Már Ingólfsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica