Umhverfisráðuneyti

837/1999

Reglugerð um ormahreinsun hunda - Brottfallin

Felld brott með:

REGLUGERÐ

um ormahreinsun hunda.

Markmið.

1. gr.

Markmið reglugerðar þessarar er að fyrirbyggja sýkingar hjá mönnum af völdum bandorma og spóluorma í hundum.

Gildissvið.

2. gr.

Reglugerð þessi gildir um hreinsun hunda vegna bandorma og spóluorma.

Til hreinsunar hunda gegn bandormum og spóluormum skal nota ormalyf sem embætti yfirdýralæknis hefur viðurkennt til þeirra nota.

Ábyrgð og framkvæmd.

3. gr.

Sveitarfélög eru ábyrg fyrir framkvæmd reglugerðar þessarar.

Hundeiganda eða umráðamanni hunds er skylt að láta ormahreinsa hund sinn árlega og ber hann allan kostnað af hreinsun hundsins.

Skylt er að hreinsa alla hunda 4 mánaða og eldri. Hundar þar sem búfjárhald er stundað og slátrun fer fram skulu ormahreinsaðir að liðinni aðalsláturtíð eða í síðasta lagi í desember ár hvert.

Nýgotnar tíkur og 3 - 4 vikna hvolpar skulu spóluormahreinsaðir sérstaklega samkvæmt leiðbeiningum dýralæknis. Hundeigandi skal framvísa vottorði um spóluormahreinsun við skráningu hundsins.

Eftirlit.

4. gr.

Heilbrigðisnefnd fer með eftirlit með framkvæmd reglugerðar þessarar.

Hundeigandi skal framvísa vottorði frá dýralækni um ormahreinsun hundsins ár hvert til viðkomandi sveitarfélags. Heilbrigðisnefnd getur í samráði við héraðsdýralækni heimilað að vottorð frá öðrum en dýralækni verði viðurkennd, ef sérstakar aðstæður krefjast þess.

Viðurlög og málsmeðferð.

5. gr.

Um valdsvið og þvingunarúrræði, málsmeðferð, úrskurði og viðurlög fer samkvæmt lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Gildistaka.

6. gr.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 4. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir að höfðu samráði við landbúnaðarráðuneytið. Þá er reglugerðin sett að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga hvað varðar skyldur sveitarfélaga, sbr. ákvæði 3. mgr. 9. gr. laganna. Reglugerðin öðlast gildi við birtingu.

Umhverfisráðuneytinu, 7. desember 1999.

Siv Friðleifsdóttir.

Magnús Jóhannesson.

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica