Samgönguráðuneyti

813/2000

Reglugerð um breyting á reglugerð nr. 641/2000 um alþjónustu. - Brottfallin

1. gr.

10. gr. orðast svo:

Til að standa straum af greiðslu fjárframlaga samkvæmt 9. gr. skal innheimta jöfnunargjald sem rennur til Póst- og fjarskiptastofnunar. Tekjur af jöfnunargjaldi skulu varðveittar í sérstökum sjóði sem skal vera sérstaklega aðgreindur í bókhaldi Póst- og fjarskiptastofnunar.

Jöfnunargjald skal leggja á fjarskiptafyrirtæki sem starfrækja almenn fjarskiptanet og/ eða almenna talsímaþjónustu.

Gjaldstofn jöfnunargjalds er bókfærð velta af starfsemi samkvæmt 2. mgr. Með veltu er hér átt við rekstrartekjur (heildarrekstrartekjur) af gjaldskyldri starfsemi hér á landi. Reki gjaldskyldur aðili samhliða aðra starfsemi skal heildarveltu skipt hlutfallslega og skal bókhaldi hins gjaldskylda aðila hagað þannig að sérstaklega skal haldið aðgreindri veltu af gjaldskyldri starfsemi, sbr. 2. mgr. Jöfnunargjald má draga frá tekjum greiðanda á því rekstrarári þegar stofn þess myndaðist.

Um álagningu og innheimtu jöfnunargjalds fer samkvæmt ákvæðum VIII.-XIV. kafla laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, og stjórnvaldsfyrirmælum settum samkvæmt þeim, eftir því sem við getur átt.

2. gr.

Við bætist ákvæði til bráðabirgða er orðast svo:

Ákvæði til bráðabirgða.

Fyrirframgreiðsla upp í álagningu jöfnunargjalds á árinu 2001 skal fara fram með eingreiðslu þann 1. desember 2000. Skal fjárhæð fyrirframgreiðslu vera jafnhá 0,18% af helmingi veltu rekstrarársins 1999 eins og hún er skilgreind í 3. mgr. 10. gr. Gjaldskyldir aðilar, sem hafa verið með gjaldskylda starfsemi á árinu 2000, skulu eigi síðar en 20. nóvember árið 2000 skila til skattstjóra upplýsingum um veltu ársins 1999, sbr. 3. mgr. 10. gr. og ákvarðar skattstjóri fyrirframgreiðslu þeirra og tilkynnir þeim um þá ákvörðun eigi síðar en 24. nóvember 2000.

Ef gjaldskyldur aðili telur fyrirséð að velta ársins 2000 vegna mánaðanna júní til og með desember sé lægri en helmingur veltu ársins 1999, sbr. 3. mgr. 10. gr., getur hann óskað eftir lækkun fyrirframgreiðslunnar. Umsóknir um lækkun fyrirframgreiðslu skulu berast skattstjóra eigi síðar en 31. desember 2000. Úrskurður skattstjóra skal kveðinn upp innan 15 daga að jafnaði frá því að beiðni um lækkun barst. Úrskurður skattstjóra er kæranlegur til ríkisskattstjóra sem kveður upp endanlega úrskurð á stjórnsýslustigi.

 

3. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 15. gr. laga nr. 107/1999, um fjarskipti, öðlast þegar gildi.

 

Samgönguráðuneytinu, 6. nóvember 2000.

 

Sturla Böðvarsson.

Ragnhildur Hjaltadóttir.

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica