Utanríkisráðuneyti

800/2011

Reglugerð um eftirlit með þjónustu og hlutum sem geta haft hernaðarlega þýðingu. - Brottfallin

1. gr.

Almenn ákvæði.

Með reglugerð þessari eru sett nánari ákvæði um framkvæmd laga nr. 58/2010 um eftirlit með þjónustu og hlutum sem geta haft hernaðarlega þýðingu. Reglugerðin felur í sér ákvæði um eftirlit með hlutum með tvíþætt notagildi, varnartengdum vörum og miðlun þeirra samkvæmt alþjóðlegum skuldbindingum og/eða sem íslensk stjórnvöld hafa ákveðið að framfylgja á grundvelli yfirlýsingar ríkisstjórna aðildarríkja Evrópusambandsins og Fríverslunarsamtaka Evrópu um pólitísk skoðanaskipti, sem er hluti samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 2/1993.

2. gr.

Útflutningur hluta með tvíþætt notagildi.

Reglugerð ráðsins (EB) nr. 428/2009 frá 5. maí 2009 um að setja Bandalagsreglur um eftirlit með útflutningi, tilflutningi, miðlun og viðkomu hluta með tvíþætt notagildi skal öðlast gildi hér á landi, með þeirri uppfærslu sem getið er um í 2. mgr. og aðlögun sem getið er um í 4. gr. Reglugerðin er birt sem fylgiskjal 1 við reglugerð þessa ásamt I.-VI. viðauka við hana (Annex I-VI):

a)

I. viðauki (Listi sem vísað er til í 3. gr. reglugerðar þessarar);

b)

II. viðauki (Almennt útflutningsleyfi Bandalagsins nr. EU001) (sem vísað er til í 9. gr. reglugerðar þessarar);

c)

III. viðauki a (Sýnishorn eyðublaða fyrir einstakt eða heildarútflutningsleyfi) (sem vísað er til í 1. mgr. 14. gr. reglugerðar þessarar);

d)

III. viðauki b (Sýnishorn eyðublaða fyrir miðlunarþjónustuleyfi) (sem vísað er til í 1. mgr. 14. gr. reglugerðar þessarar);

e)

III. viðauki c (Sameiginleg atriði sem koma skulu fram í innlendum almennum útflutningsleyfum í innlendum Stjórnartíðindum) (sem vísað er til í b-lið 4. mgr. 9. gr. reglugerðar þessarar);

f)

IV. viðauki (Listi sem vísað er til í 1. mgr. 22. gr. reglugerðar þessarar);

g)

V. viðauki (Reglugerð sem felld er úr gildi ásamt síðari breytingum);

h)

VI. viðauki (Samsvörunartafla).



Enginn má flytja út hluti með tvíþætt notagildi án leyfis ráðherra. Listi yfir slíka hluti er birtur í I. viðauka við reglugerð ráðsins skv. 1. mgr., sem hefur verið uppfærður miðað við 27. september 2010 (COM(2010) 509 final).

3. gr.

Útflutningur varnartengdra vara.

Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2009/43/EB frá 6. maí 2009 um að einfalda skilmála og skilyrði vegna tilflutnings varnartengdra vara innan Bandalagsins skal öðlast gildi hér á landi 30. júní 2012, með þeirri uppfærslu sem getið er um í 2. mgr. og aðlögun sem getið er um í 4. gr., og skal henni beitt um útflutning varnartengdra vara til aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins eftir því sem við getur átt. Tilskipunin er birt sem fylgiskjal 2 við reglugerð þessa ásamt viðauka (Annex) við hana (listi yfir varnartengdar vörur).

Enginn má flytja út varnartengdar vörur án leyfis ráðherra. Listi yfir slíkar vörur er birtur í viðauka við tilskipun skv. 1. mgr., sem hefur verið uppfærður miðað við 21. febrúar 2011 (Sameiginlegur hergagnalisti Evrópusambandsins, 2011/C 86/01), og öðlast hann þegar gildi.

Ákvæði sameiginlegrar afstöðu ráðsins 2008/944/SSUÖ frá 8. desember 2008 um skilgreiningu á sameiginlegum reglum um eftirlit með útflutningi á hernaðarlegri tækni og búnaði skal eiga við um útflutning varnartengdra vara, að breyttu breytanda, þ.m.t. skilyrðin fyrir veitingu útflutningsleyfa skv. 2. gr. hennar.

Við veitingu útflutningsleyfa skv. 1. mgr. skal enn fremur taka tillit til aðgerða sem ákveðnar eru á grundvelli laga nr. 93/2008 um framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða.

4. gr.

Aðlögun.

Gerðir skv. 2. og 3. gr. skulu aðlagaðar með eftirfarandi hætti:

a)

ákvæði varðandi ríkisborgara, einstaklinga, fyrirtæki, stjórnvöld, opinberar stofnanir, tungumál, yfirráðasvæði eða aðildarríki Evrópusambandsins ("EB", "ESB", "bandalagsins" eða "sameiginlega markaðarins") eiga við um íslenska ríkisborgara, einstaklinga, fyrirtæki, stjórnvöld, opinberar stofnanir, tungumál, yfirráðasvæði eða Ísland, eftir því sem við á;

b)

ákvæði um tilkynningar eða skýrslugerðir til aðildarríkja Evrópusambandsins eða stofnana gilda ekki. Hið sama á við um ákvæði um gildistöku eða hvenær gerðir skuli koma til framkvæmda;

c)

tilvísanir í gerðir, sem eru hluti samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samningsins), eiga við um þau ákvæði íslensks réttar sem innleiða þær gerðir, eftir því sem við á;

d)

tilvísanir í gerðir, sem eru ekki hluti EES-samningsins, eiga við um hliðstæð ákvæði íslensks réttar, eftir því sem við á, þ.m.t. ákvæði tollalaga nr. 88/2005;

e)

vefsetur með upplýsingum um lögbær stjórnvöld á Íslandi er: www.utn.is/utflutningseftirlit.

f)

"Tilflutningur" milli landa samsvarar "útflutningi" hvað Ísland varðar.



5. gr.

Miðlunarþjónusta.

Enginn má stunda miðlunarþjónustu með varnartengdar vörur, án leyfis ráðherra, sem tilgreindar eru skv. 2. mgr. 3. gr.

6. gr.

Innflutningur.

Enginn má flytja inn eða láta hafa viðkomu hérlendis, án leyfis ráðherra, hluti sem geta nýst, í heild eða að hluta, í tengslum við þróun, framleiðslu, meðhöndlun, rekstur, viðhald, geymslu, greiningu, auðkenningu eða útbreiðslu efna-, sýkla- eða kjarnavopna eða annars kjarnasprengjubúnaðar eða þróun, framleiðslu, viðhald eða geymslu á flugskeytum sem geta borið slík vopn.

7. gr.

Flugskeyti.

Enginn má senda upp flugskeyti, án leyfis ráðherra, sem er 500 kg eða meira að þyngd og með 300 km fluggetu eða meira.

8. gr.

Framsal.

Framsal leyfis samkvæmt reglugerð þessari er óheimilt nema með leyfi ráðherra.

9. gr.

Undanþágur.

Utanríkisráðherra getur veitt undanþágu frá banni, sem er sett samkvæmt reglugerð þessari, þegar réttmætar ástæður eru fyrir hendi.

Eftirfarandi hlutir með tvíþætt notagildi og varnartengdar vörur eru undanþegin leyfisskyldu samkvæmt þessari reglugerð:

a)

vörur í erlendri eigu sem skilað er til útlanda eftir að hafa verið tímabundið fluttar inn í tengslum við prófun, sýningu, sýnikennslu eða opinberar æfingar;

b)

björgunartæki og búnaður sem flutt eru út í tengslum við hjálparstörf eða neyðaraðstoð;

c)

vopn sem eru háð útflutningsleyfi skv. vopnalögum nr. 16/1998;

d)

vörur sem eingöngu eru í beinni gegnumferð um íslenskt tollyfirráðasvæði, þegar sendandi og móttakandi eru staðsettir utan íslensks tollyfirráðasvæðis;

e)

vörur, tækni og þjónusta til notkunar um borð í skipum í íslenskri eigu sem sigla undir íslenskum fána og loftförum í íslenskri eigu í milliríkjaflugi;

f)

útflutningur íslenskra stjórnvalda, að því gefnu að eignarréttur sé ekki yfirfærður og að varan eða þjónustan sé notuð af íslenskum stjórnvöldum erlendis eða að viðtakandinn sé stjórnvald í NATO- eða ESB-ríki.



10. gr.

Viðurlög.

Hver sá sem brýtur gegn ákvæðum reglugerðar þessarar skal sæta viðurlögum skv. 13. gr. laga um eftirlit með þjónustu og hlutum sem geta haft hernaðarlega þýðingu nr. 58/2010, nema þyngri viðurlög liggi við samkvæmt öðrum lögum.

11. gr.

Gildistaka o.fl.

Reglugerð þessi, sem er sett með heimild í 14. gr. laga um eftirlit með þjónustu og hlutum sem geta haft hernaðarlega þýðingu nr. 58/2010, öðlast gildi 1. september 2011. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð um útflutningsleyfi o.fl. nr. 70/1993, ásamt síðari breytingum.

Beita skal ákvæðum þessarar reglugerðar um umsóknir sem voru lagðar fram fyrir gildistöku hennar, en ekki afgreiddar.

Utanríkisráðuneytinu, 25. júlí 2011.

Össur Skarphéðinsson.

Einar Gunnarsson.

Fylgiskjöl.
(sjá PDF-skjal)


Þetta vefsvæði byggir á Eplica