Viðskiptaráðuneyti

792/2002

Reglugerð um löggildingu kaldavatnsmæla. - Brottfallin

1. gr.
Gildissvið.

Reglugerð þessi mælir fyrir um prófanir og löggildingu kaldavatnsmæla sem eru löggildingarskyldir sbr. 5. gr. í lögum nr. 100/1992 um vog, mál og faggildingu.


2. gr.
Skilgreiningar.
Frumsannprófun (EBE-frumsannprófun)

er aðferð til að sannreyna að framleiðsla tækis sé í samræmi við viðurkennda frumgerð og standist mælifræðilegar kröfur, m.a. um heimiluð hámarksfrávik og merkingar. Aðferðinni er lýst nánar í viðeigandi reglugerðum.

Gerðarviðurkenning (EBE-gerðarviðurkenning) byggir á ítarlegri gerðarprófun, þar sem prófað hefur verið eftir kröfum viðkomandi tilskipana og reglugerða eða annarra kröfuskjala. Gerðarviðurkenning er forsenda frumsannprófunar og markaðssetningar eftir öðrum leiðum.

Heimiluð hámarksfrávik eru stærstu gildi sem leyfð eru fyrir frávik í reglugerðum, stöðlum og öðrum kröfuskjölum fyrir tiltekin mælitæki.

Mæligrunnur merkir áþreifanlegan mælikvarða, mælitæki eða mælibúnað til þess að skilgreina, raungera, varðveita eða birta einingu eða gildi eðlisfræðistærðar til þess að flytja þessa einingu eða stærð yfir á önnur mælitæki með samanburði.


3. gr.
Hæfniskröfur.

Löggildingaraðili skal uppfylla þær hæfniskröfur sem fram koma í reglugerð nr. 648/2000 um starfshætti þeirra sem annast löggildingar mælitækja í umboði Löggildingarstofu.

Prófunarmaður skal vera vél- eða málmiðnaðarmaður eða hafa sambærilega menntun og hafa yfir að ráða nægilegri tæknikunnáttu til að annast löggildingar kaldavatnsmæla og meta ástand þeirra út frá prófunum eða skoðunum. Tryggt skal að kunnáttu hans sé haldið við með endurmenntun. Hann skal kunna skil á þeim reglum sem iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið setur varðandi kaldavatnsmæla.

Tæknilegur stjórnandi skal vera verkfræðingur eða tæknifræðingur og hafa þekkingu á kaldavatnsmælum og reynslu af löggildingu þeirra. Undanþágu má gera frá framangreindum skilyrðum um þekkingu og reynslu ef viðkomandi hefur menntun eða starfsreynslu og þjálfun sem faggildingarsvið Löggildingarstofu telur fullnægjandi. Tæknilegur stjórnandi er ábyrgur fyrir öllum löggildingum sem löggildingaraðili vinnur.


4. gr.
Mælitæki notuð við löggildingu.

Allir mæligrunnar, sem löggildingaraðili notar í tengslum við löggildingar kaldavatnsmæla, skulu vera kvarðaðir og skal kvörðunin rekjanleg til landsmæligrunna á Íslandi.

Löggildingaraðili skal hafa yfir að ráða nauðsynlegum mælitækjum til að staðfesta að umhverfi kaldavatnsmælis henti honum.


5. gr.
Aðstæður.

Flutningur löggilts kaldavatnsmælis frá prófunarstofu á notkunarstað skal uppfylla kröfur gæðakerfis um flutning.

Uppsetning löggildingarskylds kaldavatnsmælis skal vera í samræmi við ákvæði í reglugerðum, stöðlum og fyrirmæli framleiðanda um umhverfisaðstæður og frágang.

Kaldavatnsmælar eru löggiltir á prófunarstofu þar sem tryggt hefur verið með faggildingu að kröfum um umhverfisþætti er fullnægt.


6. gr.
Löggildingarhæfni.

Löggildingarhæfni kaldavatnsmælis skal staðfest með því að skoða eða prófa hvort hann uppfylli eftirfarandi atriði:

1. Ákvæði reglugerða um markaðssetningu kaldavatnsmæla.
2. Að merkingar og áletranir séu í samræmi við kröfur reglugerða um markaðssetningu kaldavatnsmæla.
3. Að aðstæður og notkun henti kaldavatnsmælinum.
4. Að mælifræðilegir eiginleikar séu í samræmi við kröfur staðla og reglugerða um markaðssetningu kaldavatnsmæla, þetta skal staðfest með prófun. Einkum er um að ræða staðfestingu þess að kröfum um heimiluð hámarksfrávik sé fullnægt við þrenns konar rennsli.
5. Að kaldavatnsmælirinn sé innsiglaður frá frumsannprófunaraðila.
6. Löggildingarstofa getur heimilað löggildingar eldri mælagerða þó að ákvæðum 1., 2. og 5. liðar sé ekki fullnægt.

Staðfesta má löggildingarhæfni nýrra mæla út frá gögnum um frumsannprófun og staðfesta má löggildingarhæfni safns kaldavatnsmæla í notkun með úrtaksprófun.


7. gr.
Löggilding kaldavatnsmæla.

Ekki má taka kaldavatnsmæli í notkun nema að undangenginni löggildingu.

Í samræmi við 10. gr. laga nr. 100/1992 um vog, mál og faggildingu, ber ábyrgðarmanni kaldavatnsmælis að sjá til þess að hann sæti reglubundnu eftirliti og uppfylli þær kröfur sem til hans eru gerðar samkvæmt lögum og reglugerðum og að löggilding hans sé ætíð í gildi.

Kaldavatnsmæli má löggilda hafi löggildingarhæfni hans eða þess mælasafns, sem hann tilheyrir, verið staðfest með skoðun og prófun. Sé kaldavatnsmælir löggildingarhæfur er festur á hann löggildingarmiði með ártali löggildingar og telst hann þá löggiltur. Einnig er mælirinn innsiglaður ef þörf krefur.

Ef prófunarstofa með starfsleyfi til löggildingar kaldavatnsmæla annast einnig stillingu og viðgerðir þeirra skal halda þeim verkþáttum greinilega aðskildum frá löggildingunum í samræmi við kröfur staðla.


8. gr.
Tíðni löggildinga.

Tímabil löggildingar kaldavatnsmæla miðast við heil ár og hefst löggildingartímabilið 1. dag næsta mánaðar eftir að löggilding fer fram. Viðmiðunartímar fyrir gildistíma löggildinga kaldavatnsmæla eru sem hér segir:

1. Löggilding fyrir nýja mæla, sem vinna eftir aflfræðilegum lögmálum og eru fyrir málrennsli allt að 2,5 m³/h gildir í 9 ár.
2. Löggilding fyrir nýja mæla, sem vinna eftir aflfræðilegum lögmálum og eru fyrir málrennsli frá og með 2,5 m³/h til og með 10 m³/h gildir í 6 ár.
3. Löggilding fyrir nýja mæla, sem vinna eftir aflfræðilegum lögmálum og eru fyrir málrennsli yfir 10 m³/h gildir í 5 ár.
4. Löggilding fyrir nýja rafeindamæla gildir í 12 ár.
5. Ef unnt er að sýna fram á með úrtaksprófun að kaldavatnsmælar í notkun standist settar kröfur, sem um mælana gilda, er heimilt að framlengja gildistíma viðkomandi mælasafns um allt að 5 ár.

Þrátt fyrir viðmiðunartímana hér að ofan fer gildistími löggildinga á kaldavatnsmælum eftir gerð mæla, gæðum vatns og aðstæðum. Rekstraraðili dreifiveitu og/eða eigandi mælasafns má gera tillögu til Löggildingarstofu um aðra lengd löggildingartímabils en að ofan greinir.

Leggja skal aðferðir við úrtaksprófanir til samþykkis fyrir Löggildingarstofu.


9. gr.
Afturköllun löggildingar.

Löggildingin fellur úr gildi, þrátt fyrir að gildistími skv. 8. gr. sé ekki liðinn, ef:

a) kaldavatnsmælir bilar,
b) innsigli er rofið,
c) viðgerð er framkvæmd á kaldavatnsmælinum sem áhrif getur haft á mæliniðurstöðu hans,
d) frávik eru meiri en tvöföld heimiluð hámarksfrávik.


10. gr.
Skýrslugerð.

Skýrslugerð skal vera í samræmi við verklagsreglur og reglugerð nr. 648/2000 um starfshætti þeirra sem annast löggildingar mælitækja í umboði Löggildingarstofu.

Eftirfarandi upplýsingar skulu m.a. koma fram í prófunarskýrslum sem lagðar eru til grundvallar löggildingu:

a) Umsögn um merkingar.
b) Fjöldi mæla í safni og hve margir þeirra voru prófaðir.
c) Frávik við mælingu.
d) Aðstæður.

Þessar upplýsingar skulu vera aðgengilegar starfsmönnum Löggildingarstofu.


11. gr.
Málskot.

Komi upp ágreiningur um úrskurð Löggildingarstofu um einhver atriði varðandi ákvæði eða beitingu þessarar reglugerðar má skjóta málinu til ráðherra.


12. gr.
Gildistaka.

8. gr. um gildistíma á við um nýja mæla. Rekstraraðili dreifiveitu og/eða eigandi eldri mæla gerir tillögur um úrtaksprófanir vegna framlengingar gildistíma þeirra. Fylgjast skal með ástandi eldra mælasafns jafnvel þótt þeir mælar verði ekki löggiltir en veita skal aðlögunartíma, 9 ár. Að þeim tíma liðnum skulu allir mælar hafa hlotið löggildingu skv. 7. gr. og 8. gr.

Reglugerð þessi er sett með heimild í lögum nr. 100/1992 um vog, mál og faggildingu og öðlast gildi við birtingu.


Viðskiptaráðuneytinu, 4. nóvember 2002.

Valgerður Sverrisdóttir.
Þorgeir Örlygsson.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica