Dóms- og kirkjumálaráðuneyti

790/2000

Reglugerð um breytingu á reglugerð um Happdrætti Háskóla Íslands, nr. 348 8. október 1976, með síðari breytingum. - Brottfallin

1. gr.

23. gr. orðist svo:
Vinningar verða greiddir á þeim tíma sem auglýstur er í vinningaskránni á skrifstofu happdrættisins í Reykjavík, eða þar sem auglýst kann að verða í vinningaskránni.

Sá sem vinning hefur hlotið skal snúa sér til þess umboðsmanns happdrættisins, sem hefur ritað undir miðann, og skal umboðsmaðurinn rita aftan á miðann vottorð um að hann hafi hlotið vinning og hve háan. Vinningurinn verður síðan greiddur gegn afhendingu hlutamiðans og losnar happdrættið með því undan frekari greiðsluskyldu, þó að aðrir kynnu síðar að sanna betri rétt til vinningsins.

Ef mótmæli koma fram gegn greiðslu vinnings til handhafa hlutamiðans, áður en greiðsla vinninganna hefst samkvæmt vinningaskránni, skal happdrættið leggja vinninginn í sparisjóð og afhenda síðan með áföllnum vöxtum þeim sem með dómi eða á annan hátt sannar eignarrétt sinn á vinningnum. Ef aðilar hafa ekki innan þriggja mánaða frá því að mótmæli komu fram, komið sér saman um greiðslu vinningsins, greiðir happdrættið handhafa miðans vinninginn með áföllnum vöxtum, nema sannað sé fyrir stjórn happdrættisins að mál sé þingfest um eignarrétt vinningsins.

Happdrættinu er heimilt að bjóða vinninga í skyndihappdrætti sem greiddir eru með reglubundnum útborgunum í ákveðinn tíma, enda komi fram í vinningaskrá fjárhæð hverrar greiðslu, lengd greiðslutímabils og tíðni greiðslna. Í tilviki slíks vinnings fær vinningshafi í hendur skuldabréf frá viðurkenndri fjármálastofnun sem tryggir rétt hans til útgreiðslu fjárhæðar samkvæmt vinningaskrá. Skuldabréfið skal gefið út þegar vinningsmiða er framvísað og miðast lengd greiðslutímabils við útgáfudag. Framsal happdrættisins á skuldabréfi til vinningshafa jafngildir greiðslu þess á slíkum vinningi.


2. gr.

Reglugerð þessi sem sett er samkvæmt lögum um Happdrætti Háskóla Íslands, nr. 13 13. apríl 1973, öðlast þegar gildi.


Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, 23. október 2000.

Sólveig Pétursdóttir.
Björn Friðfinnsson.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica