Sjávarútvegsráðuneyti

770/2006

Reglugerð um veiðar á íslenskri sumargotssíld. - Brottfallin

Felld brott með:

Breytingareglugerðir:

I. KAFLI

Síldveiðar í vörpu.

1. gr.

Allar veiðar á íslenskri sumargotssíld með vörpu í fiskveiðilandhelgi Íslands eru óheimilar nema að fengnu sérstöku leyfi Fiskistofu.

Skipum sem leyfi hafa til síldveiða sbr. 1. mgr. er heimilt að stunda veiðar á tímabilinu 1. september til 31. maí á hverju fiskveiðiári enda hafi þau fullnægjandi aflamark í síld. Ráð­herra er heimilt að fela Fiskistofu að fella úr gildi öll leyfi til síldveiða með vörpu sé talin ástæða til að takmarka veiðarnar eða endurskipuleggja stjórnun þeirra. Þá er heimilt að áskilja að flotvörpuveiðar á síld skuli aðeins heimilaðar á tilteknu svæði ef varpan er búin meðaflaskilju.

2. gr.

Heimilt er að stunda síldveiðar með vörpu utan 12 sjómílna frá viðmiðunarlínu, sbr. 5. gr. laga nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, með þessum takmörkunum:

  1. Síldveiðar með vörpu eru bannaðar á svæðum þar sem togveiðar með fiski­botnvörpu eru bannaðar eða þar sem áskilin er notkun smáfiskaskilju eða notkun á 155 mm poka við slíkar veiðar.
    Þrátt fyrir þetta er heimilt að stunda síldveiðar með vörpu upp að 12 sjómílum frá viðmiðunarlínu á eftirgreindum svæðum:
    1. Á svæði fyrir Vestfjörðum, sem að sunnan markast af línu, sem dregin er réttvísandi vestur frá Blakknesi og að norðan af línu, sem dregin er rétt­vísandi í norðvestur frá Straumnesvita.
    2. Á svæði austnorðaustur af Héraðsflóa, sbr. reglugerð nr. 747, 29. ágúst 2006, um bann við veiðum með fiskibotnvörpu austnorðaustur af Héraðs­flóa nema notuð sé smáfiskaskilja eða 155 mm poki í botnvörpu.
    3. Á svæði úti fyrir Suðausturlandi austan 12°50¢ V, sbr. reglugerð nr. 750, 29. ágúst 2006, um verndun smáfisks við tog- og dragnótaveiðar fyrir Suðausturlandi.
  2. Síldveiðar með vörpu eru bannaðar á svæði fyrir Suðausturlandi þar sem kol­munna­veiðar eru bannaðar samkvæmt reglugerð nr. 794/2004, um bann við kol­munna­veiðum á Þórsbanka og þar sem meðaflaskilja er áskilin við kol­munna­veiðar skv. reglugerð nr. 696/2005 um bann við kolmunnaveiðum við Þórsbanka án meðaflaskilju, með síðari breytingum.
  3. Þá eru síldveiðar bannaðar á svæðum þar sem slíkar veiðar eru bannaðar eða kunna að verða bannaðar með skyndilokunum eða reglugerðum. Tekur bannið til þeirrar veiðiaðferðar sem tilgreind er í hlutaðeigandi ákvörðun.

II. KAFLI

Veiðar í hringnót og net.

3. gr.

Skipum sem aflamark hafa í íslenskri sumargotssíld er heimilt að stunda síldveiðar í net og hringnót á tímabilinu 1. september til 31. maí á hverju fiskveiðiári enda hafi þau fullnægjandi aflamark í síld. Veiðar á smásíld eru þó óheimilar en smásíld telst síld 27 cm að lengd eða minni mælt frá trjónuodda að sporðsenda. Skipstjórum er skylt að virða ákvæði reglugerða og skyndilokana um bann við síldveiðum.

4. gr.

Þrátt fyrir ákvæði 3. gr. getur sjávarútvegsráðuneytið, að fengnu áliti Haf­rannsókna­stofnunar, veitt leyfi til veiði á smásíld eða veiða utan veiðitímabils enda fari afli til mann­eldis eða til beitu. Leyfi þessi má binda skilyrðum, sem nauðsynleg þykja.

5. gr.

Ef net eru notuð til síldveiða, skal lágmarksmöskvastærð vera slík að þegar möskvi er teygður horna á milli eftir lengd netsins, komist flöt mælistika 63 mm breið og 2 mm þykk auðveldlega í gegn. Netið skal mælt vott.

III. KAFLI

Almenn ákvæði.

6. gr.

Síldarafla skal landað og hann veginn í íslenskri höfn. Heimilt er að fengnu leyfi Fiskistofu að landa óvigtaðri síld um borð í vinnsluskip og flutningaskip, enda sé aflanum landað í íslenskri höfn og tryggt að skráning og vigtun hans sé fullnægjandi að mati Fiskistofu. Þegar að löndun lokinni skal skipstjóri veiðiskips senda Fiskistofu endanlegar tölur um landaðan afla og aflaverðmæti, staðfestar af móttakanda síldarinnar eða staðfest afrit af vigtarnótu, liggi það fyrir.

Heimilt er að miðla afla úr nót til skips, sem leyfi hefur til síldveiða í því skyni að koma í veg fyrir að síld sé sleppt dauðri úr nótum.

Um vigtun á síld gilda að öðru leyti ákvæði reglugerðar nr. 522/1998, um vigtun sjávar­afla, með síðari breytingum.

7. gr.

Fiskistofu er heimilt að svipta skip leyfi til síldveiða með vörpu vegna brota á ákvæðum reglugerðar þessarar, ákvæðum leyfisbréfa til síldveiða með vörpu og ákvæðum laga og reglugerða, sem lúta að stjórn veiða og nýtingu nytjastofna. Missi skip leyfi til veiða í atvinnuskyni fellur jafnframt úr gildi heimild til síldveiða.

8. gr.

Með mál sem kunna að rísa út af brotum á ákvæðum reglugerðar þessarar og ákvæðum leyfisbréfa gefnum út samkvæmt henni skal farið að hætti opinberra mála. Brot varða viðurlögum samkvæmt 17. gr. laga nr. 79, 26. maí 1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.

9. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga nr. 79, 26. maí 1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands til þess að öðlast þegar gildi og birtist til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli. Jafnframt er felld úr gildi reglugerð nr. 867, 26. september 2005, um veiðar á íslenskri sumargotssíld ásamt síðari breytingum.

Sjávarútvegsráðuneytinu, 8. september 2006.

F. h. r.

Árni Múli Jónasson.

Þórður Eyþórsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica