Fjármálaráðuneyti

760/2000

Reglugerð um lækkun, niðurfellingu eða endurgreiðslu aðflutningsgjalda af vörum vegna endursendingar, galla, tjóns, vöntunar eða endursölu til útlanda. - Brottfallin

Aðflutningsgjöld.
1. gr.

Með aðflutningsgjöldum er í reglugerð þessari átt við alla skatta og gjöld sem greiða ber við tollmeðferð vöru. Um endurgreiðslu virðisaukaskatts fer þó skv. 8. gr. reglugerðarinnar.


Endursending vöru.
2. gr.

Tollstjóri skal að uppfylltum skilyrðum 2. mgr. falla frá innheimtu aðflutningsgjalda af ótollafgreiddri vöru sem er í vörslu farmflytjanda og ekki hefur verið vitjað, viðtakandi hefur ekki fundist að eða neitað hefur verið um viðtöku á og endursend er til útlanda til sama aðila og hún var send frá hingað til lands. Sama á við um vöru sem sett hefur verið í tollvörugeymslu og endursend er til útlanda af sömu ástæðum.

Skilyrði ákvörðunar skv. 1. mgr. eru að eftirtalin gögn séu lögð fram innan eins mánaðar frá brottför útflutningsfars:

1. Skrifleg beiðni á þar til gerðu eyðublaði um tollskoðun þeirrar vöru sem beiðni um endursendingu lýtur að. Nauðsynleg tollskjöl skulu fylgja beiðninni, hafi þau ekki þegar verið afhent.
2. Skrifleg staðfesting tollgæslu á að skoðun vöru og umbúða hafi farið fram og að varan hafi reynst vera í samræmi við framkomnar upplýsingar. Ef varan er eigi þegar að lokinni tollskoðun flutt um borð í flutningsfar skal hún innsigluð ef ástæða þykir til að hafa hana undir innsigli þar til útflutningur á sér stað.
3. Skrifleg staðfesting farmflytjanda á útflutningi vörunnar ásamt afriti útflutningsfarmskírteinis.
4. Afrit útflutningsskýrslu, þó aðeins ef þörf er á að mati tollstjóra.
5. Skrifleg beiðni hins erlenda seljanda um endursendingu vörunnar eða, eftir atvikum, staðfestingu hans á því að hann muni veita vörunni viðtöku.

Tollstjóri skal að uppfylltum skilyrðum 2. mgr. endurgreiða aðflutningsgjöld af tollafgreiddri vöru sem send er ónotuð aftur til útlanda til sama aðila og hún var send frá hingað til lands.


Galli.
3. gr.
Lækka skal, fella niður eða endurgreiða aðflutningsgjöld af ónotaðri vöru sem reynist haldin galla. Sama á við þótt galli hafi ekki komið í ljós fyrr en við notkun, enda sé hann þess eðlis að ekki hafi verið unnt að ganga úr skugga um hann fyrr. Lækkun eða niðurfelling gjalda getur tekið til vörusendingar sem er gölluð í heild eða að hluta.

Skilyrði tollmeðferðar skv. 1. mgr. er að vara sé send aftur til útlanda eða fargað undir tolleftirliti, að lögð sé fram staðfesting hins erlenda seljanda á því að hann annaðhvort taki vöruna aftur vegna gallans eða hann af sömu ástæðu óski eftir förgun hennar í stað endursendingar, og að skilyrðum 2. mgr. 2. gr. sé fullnægt eftir því sem við getur átt.


Eyðilegging, rýrnun og skemmdir fyrir tollafgreiðslu.
4. gr.
Lækka skal, fella niður eða endurgreiða aðflutningsgjöld af vöru sem hefur eyðilagst, rýrnað eða orðið fyrir skemmdum á leið hingað til lands, við affermingu, í vörslu tollyfirvalda, í viðurkenndum geymslum fyrir ótollafgreiddar vörur eða í flutningi á milli tollhafna innan lands, áður en þær eru afhentar viðtakanda.

Skilyrði tollmeðferðar skv. 1. mgr. er að vöru sé framvísað fyrir tollgæslunni og gerð sé grein fyrir eyðileggingu, rýrnun eða skemmdum þegar er þær koma í ljós. Ef vöru er framvísað eftir tollafgreiðslu skal einungis endurgreiða aðflutningsgjöld ef að mati tollstjóra er sýnt nægilega fram á að tjón hafi orðið fyrir tollafgreiðslu.

Verði tjónsatvik á meðan vara er í flutningi milli viðurkenndra geymslustaða skal þegar tilkynna það til tollgæslu og skulu nauðsynlegar ráðstafanir gerðar til varnar því að ástandi vöru verði breytt.

Séu aðflutningsgjöld felld niður eða endurgreidd að fullu vegna algerrar eyðileggingar vöru skal henni fargað undir tolleftirliti.

Beiðni um lækkun, niðurfellingu eða endurgreiðslu aðflutningsgjalda skal fylgja skýrsla tollgæslunnar um skoðun vörunnar svo og matsgerð vátryggjanda eða umboðsmanns hans ef um hana er að ræða eða tjónsmat frá viðurkenndum aðila ef vara er óvátryggð.


Vöntun í vörusendingu.
5. gr.

Tollstjóri skal lækka, fella niður eða endurgreiða aðflutningsgjöld ef fram kemur vöntun í vörusendingu í heild eða hluta, enda sé fullnægt eftirtöldum skilyrðum:

1. Ef vöruvöntun er sýnileg við affermingu flutningsfars, þ.e. annaðhvort hafi vörusending ekki komið fram við affermingu eða sjáanlegt hafi verið af ytri umbúðum að um vöntun hafi verið að ræða, skal farmflytjandi afhenda tollstjóra skrá um vöntunina innan 16 daga frá komu flutningsfars vöru til landsins. Hafi vara sannanlega átt að koma til landsins undir innsigli erlends tollyfirvalds, farmflytjanda eða erlends seljanda hennar, t.d. í innsigluðum gámi, má taka tillit til vöntunar þrátt fyrir að fresturinn sé liðinn, enda sé tollstjóra þegar tilkynnt skriflega um vöntunina og staðfest af farmflytjanda og innflytjanda að vöntun hafi fyrst komið í ljós er innsigli var rofið. Framvísa skal innsiglinu óski tollstjóri eftir því. Vöntun skal því aðeins tekin til greina að tilkynning berist tollstjóra innan viku frá því að innsigli er rofið hvort sem vöntun kemur í ljós í geymslu fyrir ótollafgreiddar vörur eða í geymslu innflytjanda.
2. Vöruvöntun, sem ekki er sýnileg við affermingu flutningsfars, skal taka til greina án tillits til frests skv. 1. tölul. í eftirfarandi tilvikum:
a. Ef sýnt er fram á með fullnægjandi gögnum að um vöntun í sendingu hafi verið að ræða, svo sem með skriflegri staðfestingu sendanda vöru eða vátryggingafélags á því að hún hafi horfið erlendis enda fylgi kreditreikningur eða staðfesting banka eða sparisjóðs á lækkun eða niðurfellingu hinnar erlendu kröfu.
b. Ef rekstraraðili geymslu fyrir ótollafgreiddar vörur gefur, þegar er vöntun kemur í ljós og eigi síðar en innan tólf mánaða frá því er varan var flutt í geymsluna, yfirlýsingu um að vöru hafi vantað í vörusendingu í geymslunni, enda sé ekki um að ræða verulegt magn vöru og tollstjóri telur ekki ástæðu til að véfengja yfirlýsinguna.

Hafi aðflutningsgjöld verið greidd af vörusendingu sem koma átti til landsins í tilteknu farmskrárnúmeri og heimild verið veitt til afhendingar hennar frá farmflytjanda, en síðan komið í ljós samkvæmt ferðauppgjöri að hana hafi vantað í viðkomandi flutningsfar, skal farmflytjanda heimilt þegar hún kemur til landsins að afhenda hana án þess að tollafgreiðsla sé tekin upp að nýju. Heimild til afhendingar er bundin því skilyrði að tollgæslunni sé gerð grein fyrir vöntuninni á eyðublaði fyrir sérstaka tollafgreiðslu, E8, m.a. sendingarnúmeri og farmskrárnúmeri í raunverulegu flutningsfari. Jafnframt skal framvísa afriti greiðslukvittunar vegna upphaflegrar tollafgreiðslu og öðrum tollskjölum ef þörf er á að mati tollstjóra.


Endursala vöru til útlanda, í tollfrjálsa verslun, í tollfrjálsa forðageymslu,
á frísvæði eða á varnarsvæði.
6. gr.
Tollstjóri skal fella niður eða endurgreiða aðflutningsgjöld af vöru sem endurseld er til útlanda, enda sé sýnt fram á með fullnægjandi hætti að mati tollstjóra að varan hafi verið seld til útlanda, auk þess sem fullnægt sé skilyrðum 2. gr. eftir því sem við getur átt. Frestur til að leggja fram beiðni um tollmeðferðina og nauðsynleg staðfestingargögn skal þó vera sex mánuðir frá brottför útflutningsfars.

Tollstjóri skal endurgreiða aðflutningsgjöld af vöru sem endurseld er í tollfrjálsa verslun hér á landi, í tollfrjálsa forðageymslu skipaútgerðar eða flugfélags, á frísvæði eða á varnarsvæði samkvæmt varnarsamningi Íslands og Bandaríkjanna, að uppfylltum eftirtöldum skilyrðum:

1. Varan sé ónotuð.
2. Framvísað sé sölureikningi með áritaðri staðfestingu tollgæslunnar á því að vara samkvæmt reikningnum hafi verið flutt til aðila sem grein þessi tekur til.
3. Framvísað sé afriti greiðslukvittunar aðflutningsgjalda vörunnar og, ef þörf er á að mati tollstjóra, afritum annarra tollskjala varðandi vöruna.
4. Beiðni um tollmeðferðina og nauðsynleg staðfestingargögn séu afhent tollstjóra innan eins mánaðar frá því að sú vara sem beiðni lýtur að var afhent kaupanda.

Hvers konar aðvinnsla vöru hér á landi fyrir endursölu er óheimil. Umpökkun og skipting einstakra vörusendinga telst ekki vera aðvinnsla í þessu sambandi.


Umsókn um lækkun, niðurfellingu eða endurgreiðslu aðflutningsgjalda, tímafrestur.
7. gr.
Ef óskað er tollmeðferðar samkvæmt reglugerð þessari skal lögð fram aðflutningsskýrsla hjá viðkomandi tollstjóra þar sem fram komi beiðni um lækkun, niðurfellingu eða endurgreiðslu aðflutningsgjalda. Beiðnin skal gefin til kynna með því að vísa í reit 14 í aðflutningsskýrslunni til viðkomandi greinar og númers reglugerðarinnar.

Tollmeðferð samkvæmt reglugerðinni skal fara fram innan eins árs frá komu flutningsfars vöru til landsins. Hafi vara verið sett í almenna tollvörugeymslu skal fresturinn þó vera jafnlangur leyfilegum geymslutíma vöru þar.

Þrátt fyrir að frestur skv. 2. mgr. sé liðinn og uppboðsaðgerðir til lúkningar aðflutningsgjöldum séu hafnar getur tollstjóri fallist á beiðni um tollmeðferð samkvæmt reglugerðinni ef sérstakar ástæður mæla með því, enda séu uppboðsaðgerðirnar því eigi til fyrirstöðu og viðkomandi greiði allan áfallinn kostnað, þ.m.t. uppboðskostnað.


Endurgreiðsla virðisaukaskatts.
8. gr.
Þegar aðflutningsgjöld eru endurgreidd samkvæmt reglugerð þessari skal þó ekki endurgreiddur sá virðisaukaskattur sem skattskyldir aðilar samkvæmt ákvæðum laga nr. 59/1988, um virðisaukaskatt, hafa greitt við innflutning þeirrar vöru sem beiðni lýtur að. Við uppgjör á virðisaukaskatti skal innskattur af innfluttri vöru dreginn frá útskatti samkvæmt þeim lögum og reglugerðum og öðrum fyrirmælum settum samkvæmt þeim.

Endurgreiða skal öðrum aðilum en um ræðir í 1. mgr. þann virðisaukaskatt sem þeir hafa greitt vegna innflutnings viðkomandi vöru.


Kæra á úrskurði tollstjóra um lækkun, niðurfellingu
eða endurgreiðslu aðflutningsgjalda.
9. gr.
Telji innflytjandi ákvörðun tollstjóra, er varðar lækkun, niðurfellingu eða endurgreiðslu aðflutningsgjalda samkvæmt reglugerð þessari, eigi rétta, getur hann óskað eftir úrskurði tollstjóra með því að senda honum skriflega kæru, studda nauðsynlegum rökum og gögnum, innan 60 daga frá tollafgreiðsludegi. Tollstjóri skal kveða upp rökstuddan úrskurð innan 30 daga frá því er gagnaöflun er lokið. Innflytjanda skal sendur úrskurður í ábyrgðarbréfi og honum bent á heimild til að kæra úrskurð til ríkistollstjóra, sbr. 2. mgr.

Úrskurði tollstjóra um lækkun, niðurfellingu eða endurgreiðslu aðflutningsgjalda, sbr. 1. mgr., verður skotið til ríkistollstjóra innan 60 daga frá dagsetningu eða póstlagningu úrskurðar. Kæra skal vera skrifleg og studd nauðsynlegum gögnum. Ríkistollstjóri skal úrskurða um kæru innan 30 daga frá því er hún barst honum. Úrskurður ríkistollstjóra er fullnaðarúrskurður á stjórnsýslustigi.


Lagastoð.
10. gr.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimildum í 6., 112., 113. og 148. gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum, 2. mgr. 12. gr. laga nr. 97/1987, um vörugjald, með síðari breytingum, og 36. gr., sbr. 1. mgr. 49. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum, til að öðlast gildi þegar í stað. Frá sama tíma er felld úr gildi reglugerð nr. 545/1990, um lækkun, niðurfellingu eða endurgreiðslu aðflutningsgjalda vegna endursendingar, eyðileggingar, skemmda, rýrnunar, vöntunar eða endursölu til útlanda, með áorðnum breytingum.


Fjármálaráðuneytinu, 11. október 2000.

F. h. r.
Árni Kolbeinsson.
Maríanna Jónasdóttir.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica