Umhverfisráðuneyti

726/1997

Reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 588/1993 um merkingu, auglýsingu og kynningu matvæla, sbr. breytingu nr. 142/1995. - Brottfallin

1. gr.

Við 9. gr. bætast tveir nýir tölul. 10. og 11. tl., sem hljóði svo:

10.       Sérmerkingum vegna sætuefna, sbr. ákvæði 2. mgr. 13. gr. og 4. mgr. 28. gr., en borðsætuefni skulu merkt samkvæmt ákvæðum reglugerðar um aukefni í matvælum, nr. 579/1993.

11.       Magni innihaldsefna eða flokka þeirra, sbr. ákvæði 3. mgr. 12. gr.

 

 

2. gr.

Í stað orðsins "hráefna" í 2. mgr. 12. gr. komi orðið "innihaldsefna" og í stað 3. mgr. 12. gr. kemur ný mgr. sem hljóði svo:

Ákvæði 2. mgr. eiga ekki við um innihaldsefni eða flokka þeirra þegar:

 1.        Nettóþyngd efnanna er tilgreind samkvæmt ákvæðum 18. gr.

 2.        Aðrar sérreglur hafa verið settar um merkingu þeirra eða að sérreglur gera kröfu um að efnið sé í vörunni í tilteknu magni, án þess að sérstök krafa sé gerð um merkingu.

 3.        Efnin eru notuð í litlu magni sem bragðefni.

 4.        Efnin koma fram í heiti vörunnar, en hafa ekki áhrif á fæðuval neytenda, þar sem magn þeirra er ekki mikilvægt til að auðkenna vöruna eða aðgreina hana frá öðrum sambærilegum vörum.

 5.        Innihaldsefni eru þannig að 4. mgr. 24. gr. getur átt við.

 

 

3. gr.

Við 13. gr. bætist ný mgr. sem hljóði svo:

Fyrir matvæli sem innihalda sætuefni skal í tengslum við heiti vörunnar koma fram merkingin "Með sætuefni", en innihaldi varan bæði viðbættan sykur og sætuefni skal merking þessi vera "Með sykri og sætuefni".

 

 

4. gr.

1. ml. 14. gr. hljóði svo:

Heiti og heimilisfang framleiðanda eða pökkunaraðila, eða dreifanda (seljanda) með aðsetur á Evrópska efnahagssvæðinu, skal koma fram.

 

 

5. gr.

Við 2. mgr. 16. gr. bætist nýr ml., svohljóðandi:

Það sama gildir um sykur og sykurvörur.

 

 

6. gr.

Við 28. gr. bætist ný mgr. sem hljóði svo:

Vörur sem innihalda sætuefnið aspartam skal merkja með orðunum "Inniheldur fenýlalanín" og vörur með meira en 10% af viðbættum sykuralkóhólum skal merkja með orðunum "Mikil neysla getur haft hægðalosandi áhrif".

 

 

7. gr.

Við 36. gr. bætist eftirfarandi:

Undantekning frá þessum ákvæðum er þegar sætuefni er notað í orkuskertar vörur. Þá skal orkugildi vörunnar vera skert um 30% eða meira af hefðbundnu magni í sams konar eða sambærilegri vöru.

 

 

8. gr.

C-liður 42. gr. hljóði svo:

c)         Þegar hreinn safi er hráefni í gosdrykkjum, svaladrykkjum og drykkjum sem falla undir ákvæði reglugerðar nr. 561/1995, um ávaxtasafa og sambærilegar vörur, skal á umbúðum koma fram hlutfall af hreinum safa í vörunni tilbúinni til neyslu. Ef blanda á vöruna fyrir neyslu skal blöndunarhlutfall jafnframt koma fram.

 

 

9. gr.

Í stað flokksheitisins "sterkja" í viðauka 1 kemur eftirfarandi texti:

"Sterkja", ásamt tegundarheiti jurtar sem hún er unnin úr ef sterkjan inniheldur glúten.

 

 

10. gr.

Við viðauka 2 bætist eftirfarandi setning við neðanmálsgrein (2):

Ef umbreytt sterkja inniheldur glúten skal tegundarheiti jurtar, sem sterkjan er unnin úr, einnig koma fram í innihaldslýsingu.

Þá bætist flokksheitið "loftskiptar" (packaging gas) við flokksheiti aukefna í viðauka 2, ásamt neðanmálsgrein sem hljóði svo:

(3)        Ekki er skylt að tilgreina flokksheitið, en þegar loftskiptar eru notaðir til að hafa áhrif á geymsluþol, skal merkingin "Loftskiptar umbúðir" eða "Pakkað í loftskiptar umbúðir" koma fram á umbúðum.

 

 

11. gr.

Þrátt fyrir breytingu á tilskipun 93/102/EB á flokksheitum hráefna í I viðauka tilskipunar 79/112/EBE um merkingu, kynningu og auglýsingu matvæla er veitt undanþága til sölu vörutegunda sem framleiddar voru fyrir 30. júní 1996 í samræmi við áður gildandi flokksheiti.

 

 

12. gr.

Reglugerð þessi er sett með stoð í lögum nr. 93/1995 um matvæli og lögum nr. 81/1988 um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, með síðari breytingum. Einnig voru höfð til hliðsjónar ákvæði samningsins um Evrópskt efnahagssvæði, grein 9 (1) (b) í tilskipun 73/437/EBE um sykur og sykurvörur, grein 3 (1) (6) í tilskipun 79/112/EBE um merkingu, kynningu og auglýsingu matvæla, grein 10 (4) (d) í tilskipun 93/77/EBE um ávaxtasafa og sambærilegar vörur, grein 1 (3) (2) í tilskipun 94/35/EB um sætuefni, tilskipun 94/54/EB um umbúðamerkingar, tilskipun 95/42/EB um breytingu á tilskipun 93/102/EB um umbúðamerkingar, tilskipun 96/21/EB um breytingu á tilskipun 94/54/EB og tilskipun 97/4/EB um breytingu á tilskipun 79/112/EBE.

Reglugerðin öðlast þegar gildi.

 

 

Ákvæði til bráðabirgða.

 1.        Breytingu á umbúðamerkingum vegna ákvæða þessarar reglugerðar um merkingu sætuefna skal lokið fyrir 31. desember 1998.

 2.        Breytingu á umbúðamerkingum vegna ákvæða 2. og 9.-10. gr. skal lokið fyrir 14. febrúar 2000.

 3.        Þrátt fyrir framangreindar dagsetningar er heimilt að selja birgðir af vöru sem framleidd hefur verið og merkt fyrir þann tíma samkvæmt áður gildandi reglum.

 

 

Umhverfisráðuneytinu, 16. desember 1997.

 

 

Guðmundur Bjarnason.

Ingimar Sigurðsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica