Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti

703/2006

Reglugerð um greiðsluþátttöku Tryggingastofnunar ríkisins í tæknifrjóvgunarmeðferð erlendis. - Brottfallin

1. gr.

Tryggingastofnun ríkisins er heimilt að taka þátt í kostnaði vegna tæknifrjóvgunar sjúkratryggðra para erlendis ef ekki er unnt að veita fullnægjandi meðferð hér á landi, enda séu uppfyllt almenn skilyrði laga nr. 55/1996 um tæknifrjóvgun og 35. gr. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar, með síðari breytingum.

2. gr.

Skilyrði greiðsluþátttöku Tryggingastofnunar ríkisins samkvæmt reglugerð þessari er að fyrir liggi vottorð um nauðsyn meðferðar frá sérfræðingi á heilbrigðisstofnun sem hefur leyfi til að framkvæma tæknifrjóvgun skv. 2. gr. laga nr. 55/1996 um tæknifrjóvgun. Nefnd skv. 2. mgr. 35. gr. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar, með síðari breytingum, ákvarðar um greiðsluþátttöku Tryggingastofnunar ríkisins á grundvelli vottorðsins en getur jafnframt leitað faglegs álits annarra sérfræðinga.

3. gr.

Ef fallist er á greiðsluþátttöku Tryggingastofnunar ríkisins, sbr. 2. gr., greiðir stofnunin kostnað við sjúkrahúsdvöl erlendis, kostnað við aðra nauðsynlega dvöl, lyf og læknishjálp og kostnað við ferðir, samkvæmt ákvæðum reglugerðar nr. 827/2002 um ferðastyrki Tryggingastofnunar ríkisins vegna brýnnar sjúkdómsmeðferðar erlendis. Greiddir eru fullir dagpeningar skv. 4. gr. reglugerðar nr. 827/2002 fyrir annan makann og hálfir fyrir hinn meðan dvalist er utan sjúkrahúss.

Pör skulu taka þátt í kostnaði við meðferðina samkvæmt 13. gr. reglugerðar nr. 1030/2004 um hlutdeild sjúkratryggðra í kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu, á sama hátt og vegna tæknifrjóvgunarmeðferðar sem framkvæmd er á Íslandi.

4. gr.

Reglugerð þessi sem sett er með stoð í 4. mgr. 35. gr. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 201/1998 um greiðslu læknishjálpar við glasafrjóvgun erlendis og reglur tryggingaráðs frá 14. febrúar 2003.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, 1. ágúst 2006.

Siv Friðleifsdóttir.

Davíð Á. Gunnarsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica