Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 19. mars 2024

Reglugerð með breytingum síðast breytt 14. jan. 1999

698/1998

Reglugerð um ráðstöfun iðgjalds til lífeyrissparnaðar og viðbótartryggingarvernd.

I. KAFLI Gildissvið og skilgreiningar.

1. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi tekur til samninga um lífeyrisréttindi, sem stofnað er til á grundvelli 1. mgr. 5. gr. laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Samningar samkvæmt reglugerð þessari taka ekki til iðgjalds sem rennur til öflunar lágmarkstryggingarverndar í sameign skv. III. kafla laga nr. 129/1997.

2. gr. Skilgreiningar.

Í reglugerð þessari hafa eftirfarandi hugtök þá merkingu sem hér greinir.

Lífeyrissjóður: Félag eða stofnun sem veitir viðtöku iðgjaldi til greiðslu lífeyris vegna elli til æviloka, örorku eða andláts samkvæmt nánari ákvæðum í I., II. og III. kafla laga nr. 129/1997 og hefur starfsleyfi samkvæmt þeim lögum, starfar samkvæmt staðfestri reglugerð, sbr. lög nr. 55/1980, um starfskjör launþega og skyldutryggingu lífeyrisréttinda eða starfar samkvæmt sérlögum.

Sjóðfélagi: Einstaklingur sem greitt er fyrir, greiðir eða hefur greitt iðgjald til lífeyrissjóðs og á hjá honum réttindi.

Rétthafi: Einstaklingur sem greitt er fyrir, greiðir eða hefur greitt iðgjald til vörsluaðila lífeyrissparnaðar.

Lágmarksiðgjald: Iðgjald sem nemur a.m.k. 10% af iðgjaldsstofni og ákveðið er í sérlögum, kjara- eða ráðningarsamningi eða með öðrum sambærilegum hætti.

Viðbótariðgjald: Iðgjald umfram lágmarksiðgjald.

Lágmarkstryggingarvernd: Sú tryggingarvernd sem lífeyrissjóður veitir samkvæmt lögum eða samþykktum sínum miðað við 40 ára inngreiðslutíma iðgjalds.

Iðgjald til lágmarkstryggingarverndar: Það iðgjald sem lífeyrissjóður reiknar að þurfi til að standa undir lágmarkstryggingarvernd.

Séreignarhluti iðgjalds til lágmarkstryggingarverndar: Sá hluti iðgjalds sem renna skal til séreignarmyndunar þegar lífeyrissjóður skilgreinir hluta lágmarkstryggingarverndar með séreignarréttindum.

Viðbótartryggingarvernd: Sú tryggingarvernd sem er umfram þá lágmarkstryggingarvernd sem lífeyrissjóður skilgreinir og greitt er fyrir með greiðslu iðgjalds samkvæmt sérstökum samningi við þá aðila sem tilgreindir eru í 1.-4. tölul. 3. mgr. 8. gr. laga nr. 129/1997.

Vörsluaðilar lífeyrissparnaðar: Þeir aðilar sem heimild hafa skv. 3. mgr. 8. gr. laga nr. 129/1997 til að stunda starfsemi skv. II. kafla þeirra laga og taka við iðgjaldi með samningi um viðbótartryggingarvernd, þ.e. lífeyrissjóðir, bankar, sparisjóðir, líftryggingafélög og verðbréfafyrirtæki sem starfa skv. 8. gr. laga nr. 13/1996, um verðbréfaviðskipti, enda hafi þessir aðilar starfsstöð hér á landi.

II. KAFLI Um aðila samnings.

3. gr. Samningsaðilar.

Aðilar að samningi um lífeyrissparnað eru rétthafi og vörsluaðili lífeyrissparnaðar.

Vörsluaðili lífeyrissparnaðar skal hafa fengið staðfestingu fjármálaráðherra á því, að reglur sem um tryggingarverndina gilda séu í samræmi við ákvæði laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Allar breytingar á reglunum skal einnig tilkynna til fjármálaráðherra og öðlast þær ekki gildi fyrr en ráðherra hefur staðfest þær að fenginni umsögn viðkomandi eftirlitsaðila. Taka skal afstöðu til reglnanna og breytinga á þeim skriflega eigi síðar en þremur mánuðum eftir að fullbúið erindi berst ráðherra.

4. gr. Greiðendur samkvæmt samningi.

Launamönnum og þeim sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi er heimilt að gera samning um tryggingarvernd á grundvelli iðgjalda sem þeir hafa beinan ráðstöfunarrétt yfir. Sjóðfélögum er heimilt að ráðstafa iðgjöldum samkvæmt 1. gr. til þess vörsluaðila sem þeir kjósa. Launagreiðanda er skylt, samkvæmt beiðni launamanns, að draga umsamið iðgjald af launum og skila því til viðkomandi vörsluaðila.

III. KAFLI Um form og efni samnings.

5. gr. Form samnings.

Samningur um lífeyrissparnað skal vera skriflegur. Hann skal gefinn út í tveimur samhljóða eintökum, einu heldur rétthafi og einu heldur vörsluaðili. Afrit skal rétthafi eða vörsluaðili senda til þess aðila sem sér um ráðstöfun á framlagi rétthafa til lífeyrissparnaðar. Þess skal gætt að samningurinn uppfylli skilyrði II. kafla laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

Samningur um lífeyrissparnað sem gerður er við viðskiptabanka eða sparisjóð skal kveða á um innlegg á bundinn innlánsreikning eða vera í samræmi við 3. mgr.

Sé samningur gerður við verðbréfafyrirtæki skal iðgjald varðveitt samkvæmt fjárvörslusamningi, með ákvæðum um útgreiðslu í samræmi við 11. gr.

Sé samningur gerður við líftryggingafélag skal hann kveða á um kaup á lífeyristryggingu eða vera gerður á grundvelli heimildar sem líftryggingafélag hefur fengið skv. 11. gr. laga nr. 60/1994, um vátryggingastarfsemi.

Sé samningur gerður við lífeyrissjóð skal hann annað hvort kveða á um innborgun í séreignardeild eða samtryggingadeild sjóðsins og vera í samræmi við samþykktir hans.

6. gr. Efni samnings.

Í samningnum skal koma fram:

1. Nafn og kennitala rétthafa.

2. Nafn og kennitala vörsluhafa.

3. Mánaðarlegt innlegg til öflunar lífeyrisréttinda. Skal fjárhæðin tilgreind í krónum eða sem hlutfall af launum. Heimilt er að breyta fjárhæðinni með sérstökum samningi.

4. Reglur þær sem gilda um útborgun og réttindi þau, sem samningnum er ætlað að veita, þar á meðal um hvers konar samning er að ræða, sbr. ákvæði IV. kafla.

5. Heimild til að segja samningi upp með sex mánaða fyrirvara sbr. 12. gr.

6. Að greiðslur skuli eigi hefjast síðar en tveimur mánuðum frá undirritun.

7. Önnur atriði sem varða samningsaðilana.

IV. KAFLI Tegundir samninga um lífeyrissparnað.

7. gr. Ráðstöfun séreignarhluta iðgjalds til lágmarkstryggingarverndar.

Ákveði lífeyrissjóður að hluta af lágmarkstryggingarvernd sem hann veitir megi afla með séreignarsparnaði er sjóðfélögum hans heimilt að ráðstafa séreignarhluta iðgjalds til lágmarkstryggingarverndar til annars vörsluaðila lífeyrissparnaðar.

Velji sjóðfélagi að ráðstafa séreignarhluta iðgjalds vegna lágmarkstryggingarverndar til annars aðila en þess sem móttekur lágmarksiðgjaldið skulu um útborgun séreignarinnar gilda sömu reglur og gilda myndu fyrir séreignarhlutann í þeim lífeyrissjóði sem sjóðfélaginn greiðir samtryggingarhluta lágmarksiðgjaldsins til.

8. gr. Ráðstöfun viðbótariðgjalds til öflunar lífeyrisréttinda í sameign.

Sjóðfélaga er heimilt að ráðstafa viðbótariðgjaldi til öflunar lífeyrisréttinda í sameign samkvæmt ákvæðum III. kafla laga nr. 129/1997. Sjóðfélaga er heimilt að ráðstafa viðbótariðgjaldi með þessum hætti til hvers þess aðila sem heimilt er að veita því viðtöku samkvæmt þeim reglum sem um starfsemina gilda.

9. gr. 🍌 Ráðstöfun viðbótariðgjalds til séreignarmyndunar og viðbótartryggingarverndar.

Sjóðfélagi getur gert samning við vörsluaðila lífeyrissparnaðar um greiðslu viðbótariðgjalds til séreignarmyndunar og viðbótartryggingarverndar. Slíkur samningur er ekki bundinn við þann lífeyrissjóð sem veitir lágmarksiðgjaldi viðtöku.

10. gr. Fjárhagslegur aðskilnaður.

Aðilar sem móttaka iðgjald til séreignarsparnaðar eða viðbótartryggingarverndar skulu tryggja að sá hluti rekstrarins sem lýtur að varðveislu og ávöxtun iðgjalds er sjóðfélagar hafa beinan ráðstöfunarrétt yfir, sé fjárhagslega aðskilinn og ekki niðurgreiddur af annarri starfsemi. Þannig skal sameiginlegum kostnaði skipt með eðlilegum og ótvíræðum hætti á milli rekstrarþátta þeirra aðila sem taka á móti iðgjaldi til séreignarsparnaðar eða viðbótartryggingarverndar.

V. KAFLI Útborgun.

11. gr. Útborgun viðbótarlífeyris.

Í samningi um viðbótarlífeyrissparnað skal koma fram að rétthafi geti hafið úttekt á innstæðu eða gert sérstakan útborgunarsamning tveimur árum eftir fyrstu greiðslu, en þó aldrei fyrr en hann hefur fullnægt eftirfarandi skilyrðum:

1. Útborgun lífeyrissparnaðar í séreign, ásamt vöxtum, er heimilt að hefja með jöfnum árlegum greiðslum þegar rétthafi er orðinn 60 ára. Útborgun má þó ekki vera lokið fyrr en rétthafi hefur náð 67 ára aldri.

2. Verði rétthafi öryrki og orkutapið, sem hann verður fyrir, er 100% á hann rétt á að fá lífeyrissparnað og vexti greidda út með jöfnum árlegum greiðslum á sjö árum. Árleg útborgun lækkar og úttektartími lengist í hlutfalli við lækkun örorkuprósentu sbr. 3. mgr. 11. gr. laganna.

3. Erfingjar rétthafa öðlast rétt til innstæðunnar eftir reglum erfðalaga. Börnum rétthafa undir 13 ára aldri skal úthluta þeim hluta innstæðunnar, sem þeim ber, með jöfnum greiðslum á þeim árum sem vantar á að viðkomandi barn verði 18 ára. Hafi barn náð 13 ára aldri við andlát rétthafa skal hlutur þess greiddur út á 5 árum. Hlut eftirlifandi maka ber að skipta með jöfnum greiðslum á sjö ár. Greiðslum skal þó lokið fyrir 67 ára aldur maka, hafi hann ekki þegar náð honum við andlát rétthafa. Láti rétthafi ekki eftir sig börn eða maka, skal innstæðan renna til dánarbús rétthafa án takmarkana skv. 2. ml. 2. mgr. 8. gr. laganna.

4. Ef innstæða er undir kr. 500.000 skal heimilt að kveða á um skemmri útborgunartíma en að ofan greinir. Skal viðmiðunarfjárhæð þessi breytast árlega í hlutfalli við breytingu á vísitölu neysluverðs miðað við grunnvísitölu 173,5 stig.

Rétthafa og viðtakanda greiðslu er heimilt að gera sérstakan samning um mánaðarlega útborgun tiltekinnar krónutölu, sem fylgja skal vísitölu neysluverðs. Samningur þessi getur, að hluta til eða öllu leyti, verið til ákveðins tíma, sbr. skilyrði 11. gr. laganna um lágmarkstíma, eða til æviloka rétthafa.

VI. KAFLI Uppsögn og framsal.

12. gr. Uppsagnarákvæði.

Samningi um viðbótartryggingarvernd, lífeyrisréttindi í séreign eða sameign er hægt að segja upp með sex mánaða fyrirvara. Þegar samningurinn nær til séreignarhluta iðgjalds vegna lágmarkstryggingarverndar, sbr. 7. gr. tekur uppsögnin gildi þegar hún hefur verið tilkynnt til hlutaðeigandi lífeyrissjóðs.

Uppsögn veitir ekki rétt til útborgunar innstæðu eða réttinda. Aðilar samnings um lífeyrissparnað geta samið um að heimilt sé að flytja innstæðu eða réttindi eftir uppsögn milli þeirra sem boðið geta upp á samninga af þessu tagi sbr. 3. mgr. 8. gr. laganna.

13. gr. Framsal réttinda.

Rétthöfum er óheimilt að framselja, veðsetja eða á annan hátt ráðstafa innstæðu eða réttindum samkvæmt samningi um viðbótartryggingarvernd eða lífeyrisréttindi í séreign. Þó er heimilt að gera samkomulag skv. 1.-3. tl. 3. mgr. 14. gr. laganna um skiptingu réttindanna milli rétthafa og maka hans svo og að flytja innstæðuna milli vörsluaðila, sbr. 2. mgr. 12. gr.

VII. KAFLI Ýmis ákvæði.

14. gr. Upplýsingaskylda.

Sjóðfélagi skal tilkynna með hæfilegum fyrirvara þeim lífeyrissjóði, sem tekur við lágmarksiðgjaldi, um fyrirhugaða ráðstöfun þess hluta iðgjaldsins, sem runnið getur til séreignarmyndunar og sjóðfélagi hefur ráðstöfunarrétt yfir. Geri hann það ekki skal iðgjaldið greiðslufært hjá viðkomandi lífeyrissjóði, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 129/1997.

Vörsluaðilar lífeyrissparnaðar skulu upplýsa rétthafa um skyldu þeirra til að tryggja sér lágmarkstryggingarvernd, inntak hennar og um heimildir þeirra til ráðstöfunar hluta iðgjalds eftir því sem við á, sbr. IV. kafla.

15. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, öðlast þegar gildi.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.