Fara beint í efnið

Prentað þann 28. mars 2024

Stofnreglugerð

688/2001

Reglugerð um útgáfu húsbréfa á árunum 1999, 2000 og 2001 fyrir Íbúðalánasjóð.

1. gr.

Á grundvelli laga nr. 44/1998 um húsnæðismál gaf Íbúðalánasjóður út 1. og 2. flokk húsbréfa frá árinu 1998. Útgáfa flokkanna hófst á árinu 1998 og stóð fram á árið 2001.

Húsbréfin í hverjum flokki skulu gefin út í fjórum undirflokkum, þ.e. A, B, C og D. Í undirflokki A skal hvert húsbréf vera að fjárhæð 1.000.000 kr., í undirflokki B 100.000 kr., í undirflokki C 10.000 kr. og í undirflokki D 1 kr. Vextir í 1. og 2. flokki 1998 eru 4,75% á ári. Lánstími bréfa í 1. flokki skal vera 25 ár og í 2. flokki 40 ár.

Bréf í undirflokki D skulu vera rafrænt eignarskráð hjá Verðbréfaskráningu Íslands hf. og skulu notuð í skiptum fyrir bréf úr undirflokkum A, B og C við rafræna eignarskráningu þeirra. Við skiptin skal skrá jafn margar einingar af undirflokki D og sem nemur nafnverði þeirra húsbréfa í undirflokki A, B og/eða C sem afhent eru til rafrænnar eignarskráningar.

Samanlögð fjárhæð samþykktra skuldabréfaskipta úr 1. og 2. flokki 1998 skal ekki vera umfram 30.142 milljónir króna á árinu 2000 miðað við reiknað markaðsvirði húsbréfanna. Þannig skal samanlögð fjárhæð samþykktra skuldabréfaskipta 1998, 1999, 2000 og 2001 úr 1. og 2. flokki húsbréfa 1998 ekki fara umfram 83.849 milljónir króna miðað við fyrrnefnt reiknað markaðsvirði.

Reiknað markaðsvirði skal ákvarðað þannig að mánaðarlega verði fundið sennilegt nafnverð þeirra húsbréfa, sem skipta á fyrir fasteignaveðbréf og skal það ákvarðast með hliðsjón af meðaltali reiknaðs verðs húsbréfa í viðkomandi mánuði. Þannig fundið reiknað nafnverð húsbréfa skal síðan reikna til markaðsvirðis miðað við meðalviðskiptaverð viðkomandi flokks á Verðbréfaþingi Íslands, að viðbættum 6 punktum (0,06%). Hafi engin viðskipti átt sér stað með viðkomandi húsbréfaflokk í þeim mánuði, sem útreikningar ná til, skal reikna meðalviðskiptaverð út frá ávöxtunarkröfu sambærilegs húsbréfaflokks á Verðbréfaþinginu, að viðbættum 6 punktum.

2. gr.

Húsbréf eru verðtryggð miðað við vísitölu neysluverðs, skv. lögum um vísitölu neysluverðs nr. 12/1995 og vaxtalögum nr. 25/1987, með síðari breytingum. Grunnvísitala flokkanna er vísitala desembermánaðar 1997.

3. gr.

Íbúðalánasjóður greiðir verðbætur á höfuðstól, vexti og vaxtavexti húsbréfa skv. breytingum á vísitölu neysluverðs frá útgáfudegi bréfanna, 15. desember 1997 til gjalddaga. Höfuðstóll, verðbætur, vextir og vaxtavextir greiðast eftir á í einu lagi. Nafnvextir eru óbreytanlegir allan tímann og reiknast frá útgáfudegi 15. desember 1997.

4. gr.

Íbúðalánasjóður innleysir og endurgreiðir húsbréf flokkanna að fullu skv. útdrætti á föstum gjalddögum, sem eru 15. mars, 15. júní, 15. september og 15. desember ár hvert. Fyrsti gjalddagi er 15. september 1998. Húsbréfaflokkunum skal lokað eigi síðar en 1. september 2001. Dregin verða út númer úr gildum óinnleystum húsbréfum, sem afgreidd hafa verið þremur mánuðum fyrir viðkomandi gjalddaga. Í hverjum útdrætti skal draga út húsbréf fyrir þá fjárhæð, sem svarar næst til endurgreiðslu jafngreiðsluláns með þeim vöxtum sem um flokkana gilda, lánstíma sem eftir er og eftirstöðvum. Númer útdreginna húsbréfa skulu birt í Lögbirtingablaði í síðasta lagi tveimur mánuðum fyrir gjalddaga.

Verði húsbréf ekki dregin út, greiðast þau að fullu á lokagjalddaga. Lokagjalddagi 1. flokks er 15. desember 2022 og 2. flokks 15. desember 2037. Húsbréf verða ekki innleyst að hluta.

5. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 21., 22., 24. og 29. gr. laga nr. 44/1998 um húsnæðismál, öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 2/1999 um útgáfu húsbréfa á árunum 1999, 2000 og 2001 fyrir Íbúðalánasjóð, með síðari breytingum.

Félagsmálaráðuneytinu, 18. september 2001.

Páll Pétursson.

Óskar Páll Óskarsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.