Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 19. mars 2024

Reglugerð með breytingum síðast breytt 6. jan. 2022

652/2004

Reglugerð um úrræði á ábyrgð sveitarfélaga samkvæmt ákvæðum barnaverndarlaga.

Birta efnisyfirlit

I. KAFLI Gildissvið.

1. gr.

Reglugerð þessi tekur til barnaverndarúrræða á ábyrgð sveitarfélaga.

Úrræðin eru:

  1. Almenn stuðningsúrræði.
  2. Sumardvöl á vegum barnaverndarþjónustna.
  3. Tilsjónarmaður og persónulegur ráðgjafi.
  4. Stuðningsfjölskylda.
  5. Heimili og önnur úrræði á vegum barnaverndarþjónustna.

II. KAFLI Almenn atriði.

2. gr. Fjárhagsleg ábyrgð sveitarfélaga.

Sveitarstjórn ber ábyrgð á kostnaði sem hlýst af starfi barnaverndarþjónustnar, svo sem vegna þjónustu sem hún veitir og vegna þeirra úrræða sem barnaverndarnefndin ber ábyrgð á samkvæmt ákvæðum barnaverndarlaga.

3. gr. Um úrræði barnaverndarþjónustna.

Barnaverndarnefnd skal hafa tiltæk stuðningsúrræði skv. 24. gr. barnaverndarlaga og úrræði skv. XIV. kafla laganna ef nauðsynlegt reynist að vista barn utan heimilis.

Óheimilt er að ráða til starfa hjá barnaverndarnefndum eða fela að veita þjónustu samkvæmt þessari reglugerð aðila sem hlotið hefur refsidóm vegna brota á ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga.

4. gr. Áætlun.

Ef könnun leiðir í ljós að þörf er á beitingu úrræða samkvæmt ákvæðum barnaverndarlaga skal barnaverndarnefnd, í samvinnu við forsjáraðila og eftir atvikum barn sem náð hefur 15 ára aldri, gera skriflega áætlun um frekari meðferð máls skv. 23. gr. barnaverndarlaga eða eftir atvikum áætlun um umsjá barns skv. 33. gr. laganna. Um gerð og endurskoðun áætlana gildir jafnframt reglugerð um málsmeðferð fyrir barnaverndarnefnd.

Ef fyrir liggur úrskurður eða samþykki barns og/eða foreldris fyrir samþættingu þjónustu og tilnefndur hefur verið málstjóri, sbr. lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, nr. 86/2021 skal stuðningsteymi eftir því sem tilefni er til gera grein fyrir markmiðum með þjónustu sem veitt er á grundvelli barnaverndarlaga, nr. 80/2002 og reglugerðar þessarar í stuðningsáætlun.

5. gr. Samningur um stuðning eða beitingu úrræðis.

Barnaverndarnefnd skal gera skriflegan samning við hvern þann sem tekur að sér að veita þjónustu skv. 24. gr. og XIV. kafla barnaverndarlaga.

Í hverjum samningi skal tilgreina meðal annars:

  1. nafn þjónustuþega,
  2. skilgreiningu og markmið með úrræði,
  3. tíma sem úrræði er ætlað að vara, starfshlutfall og vinnuskyldu eftir því sem við á,
  4. stuðning við barn og þann sem tekur að sér að veita þjónustu meðan úrræði varir,
  5. samráðsfundi,
  6. skýrslugerð, skráningu, varðveislu og skil persónuupplýsinga eftir því sem við á,
  7. innra eftirlit
  8. umgengni barns við foreldra og aðra nákomna þegar það á við,
  9. greiðslur,
  10. þagnarskyldu og
  11. uppsagnar- og endurskoðunarákvæði.

6. gr. Skyldur þess sem veitir þjónustu.

Sá sem tekur að sér að veita þjónustu skal haga störfum sínum í fyllsta samræmi við líkamlegar og andlegar þarfir barns og stuðla að alhliða þroska og heilbrigði hvers og eins barns.

Aldrei má beita barn líkamlegum eða andlegum refsingum eða þvingunum.

7. gr. Upplýsingar um barn.

Sá sem tekur að sér að veita þjónustu á rétt á að fá þær upplýsingar um barn og fjölskyldu sem nauðsynlegar eru til að gera viðkomandi kleift að sinna hlutverki sínu.

Viðkomandi skal gæta fyllsta trúnaðar um hagi barns, foreldra og annarra sem hann kann að fá upplýsingar um. Þagnarskylda helst eftir að starfi er lokið.

8. gr. Eftirlit.

Barnaverndarþjónusta skal hafa virkt innra eftirlit með úrræðum skv. 1. gr. reglugerðarinnar. Í því felst meðal annars að tryggja að starfsemin uppfylli á hverjum tíma þau skilyrði sem sett eru og fylgjast með að ráðstöfun nái tilgangi sínum.

Ef barnaverndarþjónusta hefur með samningi falið einkaaðila að sinna þjónustu skv. 1. gr. skal þjónustan hafa virkt innra eftirlit með því að einkaaðilinn uppfylli þær kröfur sem gerðar eru til starfseminnar. Í innra eftirliti felst meðal annars að fylgjast með því að ráðstöfun nái tilgangi sínum, þ.m.t. með heimsóknum, með því að fá reglubundnar skýrslur og með því að ræða við barnið.

Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála hefur eftirlit með gæðum þjónustu sem fer fram á grundvelli reglugerðar þessarar, sbr. lög nr. 88/2021.

9. gr. Réttindi barns.

Þegar barn er vistað utan heimilis gilda ákvæði 80. gr. barnaverndarlaga um undirbúning og framkvæmd vistunar, 81. gr. um rétt barns til umgengni við kynforeldra og aðra nákomna og 82. gr. um réttindi barna og beitingu þvingunar, eftir því sem við á.

III. KAFLI Almenn stuðningsúrræði.

10. gr. Úrræði með samþykki foreldra.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. barnaverndarlaga skal barnaverndarnefnd með samþykki foreldra og eftir atvikum í samráði við barn veita aðstoð meðal annars með því að:

  1. Leiðbeina foreldrum um uppeldi og aðbúnað barns. Hér er átt við almenna sálfræðilega, uppeldislega eða félagslega ráðgjöf af hendi starfsmanna barnaverndarþjónustnar eða einhvers sem þjónustan felur þetta verkefni.
  2. Stuðla að því í samvinnu við hlutaðeigandi stofnanir að beitt verði úrræðum samkvæmt öðrum lögum, svo sem lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, málefni fatlaðs fólks, heilbrigðisþjónustu, leikskóla og lögum um grunnskóla. Barnaverndarnefnd skal leitast við að upplýsa foreldra og barn eftir atvikum um rétt til aðstoðar samkvæmt öðrum lögum er gæti auðveldað þeim að ná tökum á vanda sínum.
  3. Útvega barni viðeigandi stuðning eða meðferð. Er meðal annars átt við að útvega barni sumardvöl skv. IV. kafla reglugerðarinnar. Einnig fellur hér undir að sjá til þess að barn fái meðferðarviðtöl, til dæmis sálfræðimeðferð, vegna ofbeldis eða annarra vandamála.
  4. Útvega barni eða fjölskyldu tilsjónarmann, persónulegan ráðgjafa eða stuðningsfjölskyldu skv. V. eða VI. kafla reglugerðarinnar.
  5. Aðstoða foreldra eða þungaða konu við að leita sér meðferðar vegna veikinda, áfengis- eða vímuefnaneyslu eða annarra persónulegra vandamála.

Barnaverndarnefnd ber að beita öðrum úrræðum ef könnun leiðir í ljós að annars konar þjónusta mæti betur þörfum og hagsmunum barns og fjölskyldu.

IV. KAFLI Sumardvöl á vegum barnaverndarþjónustna.

11. gr. Skilgreining.

Með sumardvöl á vegum barnaverndarþjónustnar er átt við dvöl á einkaheimili í allt að þrjá mánuði yfir sumartíma sem stuðning skv. c-lið 24. gr. og 86. gr. barnaverndarlaga. Sumardvöl er að jafnaði ekki ætluð börnum yngri en sex ára.

12. gr. Umsókn um rekstrarleyfi.

Einkaaðilar sem hyggjast taka barn í sumardvöl skulu hafa rekstrarleyfi Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála, sbr. lög um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála, nr. 88/2021. Umsókn um rekstrarleyfi skal vera skrifleg. Umsókninni skulu fylgja þau gögn sem Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála gerir kröfu um, sbr. einkum 13. gr. og 13. gr. a. reglugerðar þessarar.

Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála er heimilt að hafna umsókn á þeim grundvelli einum að tilskilin gögn hafi ekki borist. Áður skal umsækjanda þó leiðbeint um kröfur til framlagningar gagna, sbr. 1. mgr.

13. gr. Gögn með umsókn.

Umsókn samkvæmt 12. gr. reglugerðarinnar skulu fylgja eftirfarandi gögn:

  1. lýsing umsækjanda á markmiðum með þjónustu, þ.m.t. hvernig umönnun verði háttað,
  2. lýsing umsækjanda á aðstöðu, þ.m.t. upplýsingar um húsnæði og annan aðbúnað, og eftir atvikum upplýsingar um aðra starfsemi í húsnæðinu,
  3. yfirlit yfir þekkingu og reynslu umsækjanda af starfi með börnum,
  4. upplýsingar um fjölda einstaklinga sem hafa aðkomu að veitingu þjónustu, sem og upplýsingar um menntun þeirra og reynslu af starfi með börnum,
  5. samþykki allra einstaklinga sem eru búsettir á heimilinu og eru eldri en 15 ára fyrir því að Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála afli upplýsinga úr sakaskrá þar sem sérstaklega komi fram hvort viðkomandi hafi hlotið refsidóm vegna brota á ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga, og
  6. læknisvottorð umsækjanda.

13. gr. a Viðbótargögn.

Ef ætlunin er að taka á móti fleiri en fimm börnum skal umsókn um rekstrarleyfi, til viðbótar við þau gögn sem talin eru upp í 13. gr. reglugerðarinnar, jafnframt fylgja:

  1. starfsleyfi heilbrigðisnefndar,
  2. úttekt eldvarnareftirlits og vottun um að brunavarnir séu fullnægjandi, og
  3. leyfi byggingarnefndar ef um nýtt húsnæði eða breytta notkun er að ræða.

Ef umsækjandi rekstrarleyfis er félag skal umsókn jafnframt fylgja rekstraráætlun, síðasti ársreikningur félagsins og upplýsingar um skráningu félagsins í fyrirtækjaskrá.

14. gr. Skilyrði leyfisveitingar.

Ekki er skilyrði að umsækjandi sé í sambúð eða hjónabandi. Ef um hjón og sambýlisfólk er að ræða þá skulu þau sækja um saman.

Umsækjandi skal sækja viðurkennt námskeið í skyndihjálp/slysum á börnum. Standi námskeið umsækjanda ekki til boða er heimilt að veita bráðabirgðaleyfi þar til hann hefur átt þess kost að ljúka námskeiði.

15. gr. Fjöldi barna og lengd dvalar.

Að jafnaði skal ekki veita leyfi til að taka fleiri en fjögur börn í einu til dvalar, en aldrei fleiri en sex börn, þar með talin önnur börn sem dvelja á heimilinu yngri en 16 ára.

Heimilt er að veita leyfi til skemmri tíma en þriggja mánaða dvalar.

16. gr. Umsögn barnaverndarþjónustu.

Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála sendir umsókn um rekstrarleyfi til sumardvalar á einkaheimili til umsagnar hjá barnaverndarþjónustu í heimilisumdæmi umsækjanda. Í umsögninni skal koma fram afstaða þjónustunnar til þess hvort umsækjandi uppfyllir skilyrði leyfisveitingar. Jafnframt skal í umsögninni fjallað um önnur atriði sem barnaverndarþjónusta telur skipta máli fyrir meðferð umsóknarinnar hjá Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála. Þá skal í umsögninni koma fram hvort barnaverndarþjónusta mæli með því að leyfið sé veitt. Barnaverndarþjónusta skal senda Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála umsögnina. Ef þjónustan hefur byggt umsögn sína á gögnum sem ekki liggja þegar fyrir hjá stofnuninni skulu þau gögn fylgja umsögninni.

16. gr. a Niðurstaða Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála.

Þegar umsögn barnaverndarþjónustu liggur fyrir skal Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála ákveða hvort rekstrarleyfi skuli gefið út. Þó getur stofnunin óskað eftir nýrri umsögn frá þjónustunni ef hún telur að fyrri umsögn hafi verið ábótavant.

Að öðru leyti gilda ákvæði stjórnsýslulaga og ákvæði laga um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála, nr. 88/2021 um málsmeðferð við leyfisveitingar samkvæmt reglugerð þessari.

17. gr. Gildístími og endurnýjun rekstrarleyfis.

Rekstrarleyfi skal gefið út til ákveðins tíma, þó ekki lengur en til fimm ára. Heimilt er að binda rekstrarleyfi skilyrðum.

Um málsmeðferð endurnýjunar leyfa fer samkvæmt lögum um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála, nr. 88/2021 og ákvæðum reglugerðar þessarar.

19. gr. Ráðstöfun barns í sumardvöl.

Barnaverndarþjónusta sem vill ráðstafa barni í sumardvöl ber að ganga úr skugga um að viðkomandi heimili hafi rekstrarleyfi Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála, ef um einkaaðila að ræða.

Áður en barn fer í sumardvöl gerir barnaverndarnefnd samning við leyfishafa um dvöl barnsins skv. 5. gr. reglugerðarinnar.

20. gr. Ábyrgð barnaverndarþjónustna.

Barnaverndarnefnd sem ber ábyrgð á ráðstöfun barns er skylt að fylgjast vandlega með högum og aðbúnaði barnsins og heimsækja barnið eins oft og þurfa þykir, að jafnaði einu sinni meðan á dvöl barns stendur.

Barnaverndarþjónusturnar skulu tilkynna hvor annarri ef í ljós kemur að umönnun og aðbúnaður barns á heimili er óviðunandi eða aðstæður á heimilinu hafa breyst þannig að ekki sé sýnt að aðbúnaður og öryggi barnsins sé tryggt. Barnaverndarnefnd þar sem leyfishafi býr getur leitast við að fá úr því bætt með leiðbeiningum og áminningum eða svipt leyfishafa leyfi komi annað ekki að haldi að mati nefndarinnar. Barnaverndarnefnd sem ber ábyrgð á ráðstöfun barns skal grípa til viðeigandi ráðstafana vegna barnsins, svo sem að rifta samningi um vistun.

21. gr. Kæruheimild.

Um stjórnsýslukæru vegna stjórnvaldsákvarðana Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála fer samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga.

V. KAFLI Tilsjónarmaður og persónulegur ráðgjafi.

22. gr. Tilsjónarmaður.

Með tilsjónarmanni er átt við einstakling sem fenginn er á vegum barnaverndarþjónustnar fyrst og fremst til að aðstoða foreldra við að sinna forsjár- og uppeldisskyldum sínum svo sem best hentar hag og þörfum barns skv. d-lið 24. gr. barnaverndarlaga.

23. gr. Persónulegur ráðgjafi.

Með persónulegum ráðgjafa er átt við einstakling sem fenginn er á vegum barnaverndarþjónustnar fyrst og fremst til að veita barni ráðgjöf og leiðbeiningar í þeim tilgangi að styrkja það félagslega og tilfinningalega svo sem í sambandi við tómstundir, menntun og vinnu skv. d-lið 24. gr. barnaverndarlaga.

Samband persónulegs ráðgjafa og barns byggist á gagnkvæmu trausti og vinsemd.

24. gr. Umsókn um rekstrarleyfi.

Einkaaðilar sem óska eftir að taka að sér hlutverk tilsjónarmanns eða persónulegs ráðgjafa skulu hafa rekstrarleyfi Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála, sbr. lög um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála, nr. 88/2021. Umsókn um rekstrarleyfi skal vera skrifleg. Umsókninni skulu fylgja þau gögn sem Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála gerir kröfu um, sbr. einkum 24. gr. a. og 24. gr. b. reglugerðar þessarar.

Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála er heimilt að hafna umsókn á þeim grundvelli einum að tilskilin gögn hafi ekki borist. Áður skal umsækjanda þó leiðbeint um kröfur til framlagningar gagna, sbr. 1. mgr.

24. gr. a Gögn með umsókn einstaklings.

Ef umsækjandi er einstaklingur skal umsókn samkvæmt 24. gr. reglugerðar þessarar fylgja:

  1. læknisvottorð,
  2. samþykki fyrir því að Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála afli upplýsinga úr sakaskrá þar sem sérstaklega komi fram hvort umsækjandi hafi hlotið refsidóm vegna brota á ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga,
  3. yfirlit yfir starfsferil umsækjanda, menntun og reynslu af starfi með börnum, og
  4. umsögn síðasta vinnuveitanda um hæfni umsækjanda eða umsögn tveggja ábyrgra aðila ef vinnuveitanda er ekki til að dreifa.

24. gr. b Gögn með umsókn félags.

Ef umsækjandi er félag skal umsókn samkvæmt 24. gr. reglugerðar þessarar fylgja:

  1. upplýsingar um skráningu félags í fyrirtækjaskrá,
  2. upplýsingar um fjármögnun og aðra fjárhagslega þætti,
  3. síðasti ársreikningur félagsins,
  4. upplýsingar um fjölda starfsfólks.

24. gr. c Umsögn barnaverndarþjónustu.

Barnaverndarþjónusta í heimilisumdæmi umsækjanda skal veita umsögn um umsókn um rekstrarleyfi að beiðni Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála. Í umsögninni skal koma fram afstaða þjónustunnar til þess hvort umsækjandi hafi nauðsynlega þekkingu og hæfni til að mæta þörfum barns og foreldra hverju sinni. Jafnframt skal í umsögninni fjallað um önnur atriði sem barnaverndarþjónusta telur skipta máli fyrir meðferð umsóknarinnar hjá Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála. Þá skal í umsögninni koma fram hvort barnaverndarþjónusta mæli með því að leyfið sé veitt. Barnaverndarþjónusta skal senda Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála umsögnina. Ef þjónustan hefur byggt umsögn sína á gögnum sem ekki liggja þegar fyrir hjá stofnuninni skulu þau gögn fylgja umsögninni.

24. gr. d Niðurstaða Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála.

Þegar umsögn barnaverndarþjónustu liggur fyrir skal Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála ákveða hvort rekstrarleyfi skuli gefið út. Þó getur stofnunin óskað eftir nýrri umsögn frá þjónustunni ef hún telur að fyrri umsögn hafi verið ábótavant.

Að öðru leyti gilda ákvæði stjórnsýslulaga og ákvæði laga um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála, nr. 88/2021 um málsmeðferð við leyfisveitingar samkvæmt reglugerð þessari.

25. gr. Réttindi og skyldur tilsjónarmanna og persónulegra ráðgjafa.

Barnaverndarnefnd gerir samning um stuðning skv. 5. gr. reglugerðarinnar í hvert sinn sem ráðinn er tilsjónarmaður eða persónulegur ráðgjafi til að vinna með tilteknu barni eða fjölskyldu.

Tilsjónarmaður og persónulegur ráðgjafi starfa undir stjórn barnaverndarþjónustnar og eiga rétt á handleiðslu. Ber þeim að veita barnaverndarnefnd allar nauðsynlegar upplýsingar um líðan og umönnun barna og atvik máls að öðru leyti og ber að fara eftir þeim fyrirmælum sem barnaverndarnefnd setur varðandi samvinnu við barn, foreldra og aðra.

VI. KAFLI Stuðningsfjölskylda.

26. gr. Hlutverk stuðningsfjölskyldu.

Með stuðningsfjölskyldu er átt við aðila sem fenginn er á vegum barnaverndarþjónustnar fyrst og fremst til að taka á móti barni, eða í sumum tilvikum barni og foreldrum, á einkaheimili í því skyni meðal annars að tryggja öryggi barnsins, létta álagi af barni og fjölskyldu þess og leiðbeina foreldrum og styðja þá í uppeldishlutverkinu skv. d-lið 24. gr. og 85. gr. barnaverndarlaga.

Heimilt er að vista barn hjá stuðningsfjölskyldu í allt að sjö daga samfellt. Ef vistun er ætlað að vara í lengri tíma fer um það úrræði skv. VII. kafla þessarar reglugerðar eða ákvæðum barnaverndarlaga um fóstur eftir því sem við á.

27. gr. Umsóknir, vottorð og önnur gögn.

Einkaaðilar sem óska eftir að taka að sér hlutverk stuðningsfjölskyldu skal hafa rekstrarleyfi Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála, sbr. lög um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála, nr. 88/2021. Umsókn um rekstrarleyfi skal vera skrifleg. Umsókninni skulu fylgja þau gögn sem Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála gerir kröfu um, sbr. einkum 27. gr. a. og 27. gr. b. reglugerðar þessarar.

Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála er heimilt að hafna umsókn á þeim grundvelli einum að tilskilin gögn hafi ekki borist. Áður skal umsækjanda þó leiðbeint um kröfur til framlagningar gagna, sbr. 1. mgr.

27. gr. a Gögn með umsókn.

Umsókn samkvæmt 27. gr. reglugerðarinnar skulu fylgja eftirfarandi gögn:

  1. lýsing umsækjanda á markmiðum með þjónustu, þ.m.t. hvernig umönnun verði háttað,
  2. lýsing umsækjanda á aðstöðu, þ.m.t. upplýsingar um húsnæði og annan aðbúnað, og eftir atvikum upplýsingar um aðra starfsemi í húsnæðinu,
  3. yfirlit yfir þekkingu og reynslu umsækjanda af starfi með börnum,
  4. upplýsingar um fjölda einstaklinga sem hafa aðkomu að veitingu þjónustu, sem og upplýsingar um menntun þeirra og reynslu af starfi með börnum,
  5. samþykki allra einstaklinga sem eru búsettir á heimilinu og eru eldri en 15 ára fyrir því að Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála afli upplýsinga úr sakaskrá þar sem sérstaklega komi fram hvort viðkomandi hafi hlotið refsidóm vegna brota á ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga, og
  6. læknisvottorð umsækjanda.

27. gr. b Viðbótargögn.

Ef ætlunin er að taka á móti fleiri en fimm börnum skal umsókn um rekstrarleyfi, til viðbótar við þau gögn sem talin eru upp í 27. gr. a. reglugerðarinnar, jafnframt fylgja:

  1. starfsleyfi heilbrigðisnefndar,
  2. úttekt eldvarnareftirlits og vottun um að brunavarnir séu fullnægjandi, og
  3. leyfi byggingarnefndar ef um nýtt húsnæði eða breytta notkun er að ræða.

Ef umsækjandi rekstrarleyfis er félag skal umsókn jafnframt fylgja rekstraráætlun, síðasti ársreikningur félagsins og upplýsingar um skráningu félagsins í fyrirtækjaskrá.

28. gr. Skilyrði leyfisveitingar.

Ekki er skilyrði að umsækjandi sé í sambúð eða hjónabandi. Ef um hjón og sambýlisfólk er að ræða þá skulu þau sækja um saman.

29. gr. Fjöldi barna.

Að jafnaði skal ekki veita leyfi til að taka fleiri en tvö börn samtímis inn á heimili.

30. gr. Umsögn sveitarfélags.

Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála sendir umsókn um rekstrarleyfi til að taka að sér hlutverk stuðningsfjölskyldu til umsagnar hjá sveitarfélagi þar sem umsækjandi á lögheimili. Í umsögninni skal koma fram afstaða sveitarfélagsins til þess hvort umsækjandi uppfyllir skilyrði leyfisveitingar. Jafnframt skal í umsögninni fjallað um önnur atriði sem sveitarfélag telur skipta máli fyrir meðferð umsóknarinnar hjá Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála. Þá skal í umsögninni koma fram hvort sveitarfélag mæli með því að leyfið sé veitt. Sveitarfélag skal senda Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála umsögnina. Ef sveitarfélag hefur byggt umsögn sína á gögnum sem ekki liggja þegar fyrir hjá stofnuninni skulu þau gögn fylgja umsögninni.

30. gr. a Niðurstaða Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála.

Þegar umsögn sveitarfélags liggur fyrir skal Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála ákveða hvort rekstrarleyfi skuli gefið út. Þó getur stofnunin óskað eftir nýrri umsögn frá sveitarfélaginu ef hún telur að fyrri umsögn hafi verið ábótavant.

Að öðru leyti gilda ákvæði stjórnsýslulaga og ákvæði laga um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála um málsmeðferð við leyfisveitingar samkvæmt reglugerð þessari.

31. gr. Gildistími og endurnýjun rekstrarleyfis.

Rekstrarleyfi skal gefið út til ákveðins tíma, þó ekki lengur en til fimm ára. Heimilt er að binda rekstrarleyfi skilyrðum.

Um málsmeðferð endurnýjunar leyfa fer samkvæmt lögum um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála, nr. 88/2021 og ákvæðum reglugerðar þessarar.

32. gr. Ráðstöfun barns til stuðningsfjölskyldu.

Barnaverndarþjónusta sem vill útvega barni stuðningsfjölskyldu ber að ganga úr skugga um að viðkomandi heimili hafi og rekstrarleyfi Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála, ef um einkaaðila að ræða.

Áður en barn fer til stuðningsfjölskyldu gerir barnaverndarnefnd samning við stuðningsfjölskyldu um vistun barnsins skv. 5. gr. reglugerðarinnar.

33. gr. Ábyrgð barnaverndarþjónustna

Barnaverndarnefnd sem ber ábyrgð á ráðstöfun barns er skylt að fylgjast vandlega með högum og aðbúnaði barnsins og því að vistun nái markmiði sínu.

Barnaverndarþjónusturnar skulu tilkynna hvor annarri ef í ljós kemur að umönnun og aðbúnaður barns á heimili er óviðunandi eða aðstæður á heimilinu hafa breyst þannig að ekki sé sýnt að aðbúnaður og öryggi barnsins sé tryggt. Barnaverndarnefnd þar sem leyfishafi býr getur leitast við að fá úr því bætt með leiðbeiningum og áminningum eða svipt leyfishafa leyfi komi annað ekki að haldi að mati nefndarinnar. Barnaverndarnefnd sem ber ábyrgð á ráðstöfun barns skal grípa til viðeigandi ráðstafana vegna barnsins, svo sem að rifta samningi um vistun.

34. gr. Kæruheimild

Um stjórnsýslukæru vegna stjórnvaldsákvarðana Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála fer samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga.

VII. KAFLI Heimili og önnur úrræði á vegum barnaverndarþjónustna.

35. gr. Heimili og önnur úrræði sem barnaverndarþjónustur skulu hafa tiltæk skv. 84. gr. barnaverndarlaga.

Barnaverndarnefndir, ein eða fleiri saman, skulu hafa tiltæk úrræði, svo sem með rekstri vistheimila, sambýla, samningum við einkaheimili eða á annan hátt til að:

  1. veita börnum móttöku, þar með talið í bráðatilvikum til að tryggja öryggi þeirra, greina vanda eða til könnunar á aðstæðum þeirra, svo sem vegna vanrækslu, vanhæfni eða framferðis foreldra, og
  2. veita börnum móttöku vegna ófullnægjandi heimilisaðstæðna eða sérstakra þarfa barna, svo sem í kjölfar meðferðar.

36. gr. Skilgreiningar.

Með heimili/stofnun er í kafla þessum hér eftir átt við úrræði skv. 84. gr. barnaverndarlaga sem barnaverndarnefnd vill setja á laggirnar með viðvarandi skipulögðum hætti og ráða starfsmenn til að veita börnum móttöku, svo sem vistheimili og sambýli. Barnaverndarnefnd getur falið öðrum rekstur heimilis/stofnunar á grundvelli þjónustusamnings.

Með öðru úrræði er í kafla þessum hér eftir átt við öll önnur úrræði skv. 84. gr. barnaverndarlaga, svo sem þegar barnaverndarnefnd vill fela vistforeldri að veita barni móttöku á einkaheimili jafnt þegar um er að ræða nákomna ættingja eða aðra. Heimilt er að vista barn í slíku úrræði að jafnaði í allt að þrjá mánuði. Ef vistun er ætlað að vara í lengri tíma fer að jafnaði um það eftir ákvæðum barnaverndarlaga um fóstur.

37. gr. Umsókn um rekstrarleyfi til að reka heimili/stofnun eða annað úrræði.

Einkaaðilar sem óska eftir að reka heimili/stofnun eða annað úrræði á grundvelli 84. gr. barnaverndarlaga skulu hafa rekstrarleyfi Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála, sbr. lög um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála, nr. 88/2021. Umsókn um rekstrarleyfi skal vera skrifleg. Umsókninni skulu fylgja þau gögn sem Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála gerir kröfu um, sbr. einkum 38. og 39. gr. reglugerðar þessarar.

Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála er heimilt að hafna umsókn á þeim grundvelli einum að tilskilin gögn hafi ekki borist. Áður skal umsækjanda þó leiðbeint um kröfur til framlagningar gagna, sbr. 1. mgr.

38. gr. Gögn með umsókn.

Umsókn samkvæmt 37. gr. reglugerðarinnar skulu fylgja eftirfarandi gögn:

  1. lýsing umsækjanda á markmiðum með þjónustu, þ.m.t. hvernig umönnun verði háttað,
  2. lýsing umsækjanda á aðstöðu, þ.m.t. upplýsingar um húsnæði og annan aðbúnað, og eftir atvikum upplýsingar um aðra starfsemi í húsnæðinu,
  3. yfirlit yfir þekkingu og reynslu umsækjanda af starfi með börnum,
  4. upplýsingar um fjölda einstaklinga sem hafa aðkomu að veitingu þjónustu, sem og upplýsingar um menntun þeirra og reynslu af starfi með börnum,
  5. samþykki allra einstaklinga sem eru búsettir á heimilinu og eru eldri en 15 ára fyrir því að Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála afli upplýsinga úr sakaskrá þar sem sérstaklega komi fram hvort viðkomandi hafi hlotið refsidóm vegna brota á ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga, og
  6. læknisvottorð umsækjanda.

39. gr. Viðbótargögn.

Ef ætlunin er að taka á móti fleiri en fimm börnum skal umsókn um rekstrarleyfi, til viðbótar við þau gögn sem talin eru upp í 38. gr. reglugerðarinnar, jafnframt fylgja:

  1. starfsleyfi heilbrigðisnefndar,
  2. úttekt eldvarnareftirlits og vottun um að brunavarnir séu fullnægjandi, og
  3. leyfi byggingarnefndar ef um nýtt húsnæði eða breytta notkun er að ræða.

Ef umsækjandi rekstrarleyfis er félag skal umsókn jafnframt fylgja rekstraráætlun, síðasti ársreikningur félagsins og upplýsingar um skráningu félagsins í fyrirtækjaskrá.

40. gr. Umsögn barnaverndarþjónustu.

Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála sendir umsókn um rekstrarleyfi til að taka að sér að reka heimili/stofnun eða annað úrræði á grundvelli 84. gr. barnaverndarlaga til umsagnar hjá barnaverndarþjónustu í heimilisumdæmi umsækjanda. Í umsögninni skal koma fram afstaða þjónustunnar til þess hvort umsækjandi hafi nauðsynlega þekkingu og hæfni til að reka úrræði. Jafnframt skal í umsögninni fjallað um önnur atriði sem barnaverndarþjónusta telur skipta máli fyrir meðferð umsóknarinnar hjá Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála. Þá skal í umsögninni koma fram hvort barnaverndarþjónusta mæli með því að leyfið sé veitt. Barnaverndarþjónusta skal senda Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála umsögnina. Ef þjónustan hefur byggt umsögn sína á gögnum sem ekki liggja þegar fyrir hjá stofnuninni skulu þau gögn fylgja umsögninni.

40. gr. b Niðurstaða Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála.

Þegar umsögn barnaverndarþjónustu liggur fyrir skal Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála ákveða hvort rekstrarleyfi skuli gefið út. Þó getur stofnunin óskað eftir nýrri umsögn frá þjónustunni ef hún telur að fyrri umsögn hafi verið ábótavant.

Að öðru leyti gilda ákvæði stjórnsýslulaga og ákvæði laga um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála um málsmeðferð við leyfisveitingar samkvæmt reglugerð þessari.

41. gr. Gildistími og endurnýjun rekstrarleyfis.

Rekstrarleyfi til að reka heimili/stofnun eða annað úrræði samkvæmt 84. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002 skal gefið út til ákveðins tíma, þó ekki lengur en til fimm ára. Heimilt er að binda rekstrarleyfi skilyrðum.

Um málsmeðferð endurnýjunar leyfa fer samkvæmt lögum um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála, nr. 88/2021 og ákvæðum reglugerðar þessarar.

43. gr. Ráðstöfun barns.

Ef nauðsynlegt reynist að vista barn utan heimilis skal barnaverndarnefnd velja úrræði af kostgæfni og með tilliti til þarfa og hagsmuna barnsins sem í hlut á. Barnaverndarþjónustu er óheimilt að vista barn í úrræði sem rekið er af einkaaðila á grundvelli þjónustusamnings ef Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála hefur ekki gefið út rekstrarleyfi, nema ákvæði 44. gr. reglugerðarinnar eigi við.

Áður en barn fer í vistun gerir barnaverndarnefnd samning við rekstraraðila eða vistforeldri um vistun barnsins skv. 5. gr. reglugerðarinnar.

Barnaverndarnefnd sem ber ábyrgð á ráðstöfun barns er skylt að fylgjast vandlega með högum og aðbúnaði barnsins og því að vistun nái markmiði sínu. Vistun barns skal aldrei vara lengur en þörf krefur.

Barnaverndarnefnd skal grípa til viðeigandi ráðstafana vegna barnsins, svo sem að rifta samningi um vistun, ef í ljós kemur að meðferð barns á heimili/stofnun eða í öðru úrræði er óviðunandi eða aðstæður á heimilinu hafa breyst þannig að ekki sé sýnt að aðbúnaður og öryggi þess sé tryggt.

44. gr. Ráðstöfun barns til bráðabirgða.

Í undantekningartilvikum getur vistun barns hafist áður en rekstrarleyfi Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála liggur fyrir. Á þetta einungis við þegar vinda þarf bráðan bug að ráðstöfun og hagsmunum barns þykir augljóslega best borgið hjá einhverjum sem ekki hefur þá þegar fengið leyfi stofnunarinnar.

Barnaverndarþjónustu ber að tilkynna og Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála tafarlaust um vistun skv. 1. mgr. Í tilkynningu skal koma fram:

  1. nafn og kennitala barns,
  2. nafn, kennitala og heimilisfang þess sem tekur við barninu, og
  3. á hvaða lagagrunni gripið er til ráðstöfunar.

Ef vistun barns hefst áður en rekstrarleyfi er gefið út skal barnaverndarþjónusta leiðbeina þeim aðila sem tekur við barni um rekstrarleyfisskyldu einkaaðila. Sá aðili sem tekur við barni skal svo fljótt sem verða má og eigi síðar en sjö dögum eftir að vistun hefst leggja fram umsókn um rekstrarleyfi, sbr. lög um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála, nr. 88/2021 og ákvæði reglugerðar þessarar.

45. gr. Breytingar á rekstri.

Leyfishafa er skylt að tilkynna Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála um allar meiri háttar breytingar sem kunna að verða á rekstri heimilis/stofnunar eða annars úrræðis meðan rekstrarleyfi er í gildi, svo sem um breytt markmið og breytta staðsetningu.

46. gr. Afturköllun rekstrarleyfis.

Um afturköllun rekstrarleyfis fer samkvæmt lögum um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála, nr. 88/2021.

47. gr. Eftirlit Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála.

Um eftirlit Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála með heimilum/stofnunum og öðrum úrræðum á vegum barnaverndarþjónustna fer samkvæmt lögum um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála, nr. 88/2021.

Ef Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála berast upplýsingar um að aðbúnaði barns sé ábótavant skal stofnunin upplýsa barnaverndarþjónustu, sem gert hefur samning um þjónustu rekstrarleyfishafa, um málið. Ef stofnunin ákveður að hefja athugun á málinu skal hún jafnframt upplýsa viðkomandi barnaverndarþjónustu um það og afla hjá henni viðeigandi upplýsinga sem málið varðar.

Ef áminning er veitt rekstrarleyfishafa skal stofnunin einnig gera viðkomandi barnaverndarþjónustu viðvart um áminninguna sem og því ráðuneyti sem fer með almennt stjórnsýslueftirlit. Afturkalli Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála rekstrarleyfi einkaaðila til að reka heimili/stofnun eða annað úrræði skal stofnunin gera viðkomandi barnaverndarþjónustu viðvart um ákvörðunina.

48. gr. Kæruheimild.

Um stjórnsýslukæru vegna stjórnvaldsákvarðana Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála fer samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga.

49. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er skv. 2. mgr. 38. gr., 5. mgr. 84. gr., 2. mgr. 85. gr. og 2. mgr. 86. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002, öðlast þegar gildi.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.