Iðnaðarráðuneyti

632/1996

Reglugerð um Orkustofnun. - Brottfallin

REGLUGERÐ

um Orkustofnun.

 

1. gr.

                Orkustofnun er sjálfstæð ríkisstofnun, sem starfar undir yfirstjórn iðnaðarráðherra.

 

2. gr.

                Meginhlutverk Orkustofnunar er sem hér segir:

1.             Að vera ríkisstjórninni til ráðuneytis um orkumál, samkvæmt orkulögum nr. 58/1967 og önnur auðlindamál sem stofnuninni eru falin með lögum og stjórnvaldsákvörðunum.

2.             Að safna og varðveita grundvallarupplýsingar um auðlindirnar og standa fyrir rannsóknum á þeim, þannig að unnt sé að veita ráðgjöf um skynsamlega og hagkvæma nýtingu þeirra.

3.             Að halda skrár um orkubúskap landsmanna, þar með talið um orkunýtingu, og standa fyrir nauðsynlegum rannsóknum og upplýsingaöflun í því skyni og gefa út árlega yfirlit um þessi mál.

4.             Að vinna að áætlunargerð til langs tíma um orkubúskap þjóðarinnar og hagnýtingu orkulinda landsins í samvinnu við aðra.

5.             Að stuðla að samvinnu þeirra sem að orkumálum starfa og samræmingu á rannsóknum og gerð rannsóknaáætlunar til langs tíma.

6.             Að annast þau stjórnsýsluverkefni sem Orkustofnun eru falin skv. lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum.

7.             Að miðla upplýsingum til stjórnvalda og almennings um orkubúskap og nýtingu auðlindanna.

8.             Að hafa umsjón með auðlindasvæðum í eigu ríkisins.

9.             Að annast rannsóknir á þeim sviðum sem tengjast starfsemi stofnunarinnar gegn greiðslu, eftir því sem tilefni gefst til og um semst.

                Með auðlindum er í reglugerð þessari átt við orkuauðlindir svo og aðrar jarðrænar auðlindir, eftir því sem fyrir er mælt í lögum.

 

3. gr.

                Iðnaðarráðherra skipar orkumálastjóra til fimm ára í senn. Hlutverk orkumálastjóra er að fara með stjórn og daglegan rekstur Orkustofnunar. Hann skal sjá til þess að starfsemi stofnunarinnar sé í samræmi við ákvæði laga og reglugerða svo og þess fjárhagsramma sem fjárlög afmarka hverju sinni. Ennfremur skal hann annast um að nægilegt eftirlit sé með bókhaldi og meðferð fjármuna stofnunarinnar. Nánar skal kveðið á um verksvið og skyldur orkumálastjóra í erindisbréfi.

                Orkumálastjóri kemur fram fyrir hönd stofnunarinnar.

 

4. gr.

                Stjórn Orkustofnunar er skipuð af iðnaðarráðherra. Í henni skulu sitja þrír menn til tveggja ára í senn.

                Hlutverk stjórnar er að fylgjast með að skipulag og starfsemi stofnunarinnar sé jafnan í réttu og góðu horfi. Þá fjallar stjórnin um meginstefnu í starfsemi stofnunarinnar, þar með talið um starfsáætlun, fjárhagsáætlun og skipurit fyrir stofnunina svo og um langtíma markmiðssetningu.

                Um starfskjör stjórnarmanna fer skv. nánari ákvörðun ráðherra.

 

5. gr.

                Starfsemi Orkustofnunar skiptist í tvo málaflokka, orkumál og orkurannsóknir. Hvor málaflokkur skiptist í tvær sjálfstæðar rekstrareiningar með eftirfarandi hætti:

1.             Orkumál:

                - Orkumálasvið, sbr. 6. gr.

                - Jarðhitaskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna, sbr. 7. gr.

2.             Orkurannsóknir:

                - Rannsóknasvið, sbr. 8. gr.

                - Vatnamælingar, sbr. 8. gr.

                Fjárveitingum af fjárlögum til Orkustofnunar skal varið til reksturs orkumálasviðs og embættis orkumálastjóra svo og til verkkaupa vegna orkurannsókna og vatnamælinga í samræmi við ákvæði fjárlaga og rannsóknaáætlun sem stofnunin semur og ráðherra staðfestir, sbr. t.d. 1. tölul. 1. mgr. 8. gr.

                Skrifstofa orkumálastjóra skal, sem sérstök rekstrareining, annast sameiginlega þjónustu fyrir stofnunina, eftir því sem hagkvæmt og skynsamlegt þykir.

                Rekstrareiningarnar skulu vera fjárhagslega aðgreindar eða aðskildar eftir því sem við á. Hver fyrir sig skal standa undir þeim kostnaði sem af starfsemi hennar hlýst, þ.m.t. vegna þjónustu sem einingarnar selja hver annarri, sameiginlegri þjónustu stofnunarinnar og þjónustu annarra aðila.

                Heimilt er að ráða sérstaka yfirmenn rekstrareininga stofnunarinnar, sbr. 1. og 3. mgr. Skal fela þeim þann starfa tímabundið til fimm ára í senn. Orkumálastjóri skal setja yfirmönnum þessum erindisbréf þar sem m.a. skal kveða á um valdsvið og verkaskiptingu þeirra.

 

6. gr.

                Hlutverk orkumálasviðs er að uppfylla ákvæði laga um Orkustofnun gagnvart stjórnvöldum, sbr. fyrstu átta töluliði 2. mgr. 2. gr. Þetta hlutverk sitt rækir orkumálasviðið m.a. með því:

1.             Að hafa í þjónustu sinni hæfa sérfræðinga með greinargóða yfirlitsþekkingu á meginatriðum íslenskra orkumála, orkubúskap, vatnsorku og jarðhita til að geta m.a. veitt ríkisstjórninni ráðgjöf um skynsamlega nýtingu auðlindanna.

2.             Að skilgreina og gera áætlun um þau rannsóknarverk sem vinna skal fyrir fjárveitingar úr ríkissjóði til orku- og auðlindarannsókna, semja um framkvæmd þeirra, hafa eftirlit með framvindu rannsóknanna og meta og túlka niðurstöður.

                Við samninga skal m.a. gætt að eðlilegri verðlagningu á rannsóknastarfsemi sem ekki býr við samkeppni á markaði.

 

7. gr.

                Starfrækja skal jarðhitaskóla samkvæmt samningi við Háskóla Sameinuðu þjóðanna, eftir því sem fé er veitt til skólans eða hann aflar.

 

8. gr.

                Hlutverk rannsóknasviðs og vatnamælinga er sem hér segir:

1.             Að annast rannsóknir á auðlindunum, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 2. gr., eðli þeirra og skilyrðum til nýtingar samkvæmt samningi við þá sem slíkar rannsóknir kosta, m.a. orkumálasvið stofnunarinnar, orkufyrirtæki o.fl.

2.             Að vinna að sérstökum verkefnum fyrir orkumálasvið, sem miða að því að uppfylla hlutverk þess.

3.             Að sinna, eftir því sem um semst, kennslu og leiðbeiningarstörfum við jarðhitaskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna, sbr. 7. gr.

4.             Að annast aðrar rannsóknir á auðlindasviði en um getur í 1. tölulið eftir því sem tilefni gefst til og um semst.

5.             Að markaðsfæra erlendis þekkingu Orkustofnunar, enda sé ekki tekin meiri áhætta en samrýmist fjárhagslegri getu viðkomandi rekstrareiningar.

6.             Að finna upp, þróa og aðlaga aðferðir og tæki til rannsókna á orkulindum landsins í samræmi við fjárhag viðkomandi rekstrareiningar hverju sinni.

                Keppt skal að því að veita viðskiptavinum örugga og góða ráðgjöf og þjónustu. Í því skyni skal m.a gæta þess:

1.             Að til staðar sé nægileg fagþekking og að henni sé haldið við.

2.             Að tiltækur sé tækjabúnaður sem nauðsynlegur er til að beita fremstu rannsóknartækni eftir því sem fjárhagur leyfir og við verður komið á hverjum tíma.

                Orkumálastjóri skal kveða á um verkaskiptingu í orkurannsóknamálum milli rannsóknasviðs og vatnamælinga.

                Verkefni sem rannsóknasvið og vatnamælingar annast, fyrir orkumálasviðið eða aðra, skulu að jafnaði standa undir sér og verðlagning taka mið af markaðsverði þegar slíkt á við.

                Rekstrarafgangi rannsóknasviðs og vatnamælinga skal í samráði við orkumálastjóra ráðstafa til að efla rannsóknarfærni viðkomandi rekstrareiningar, m.a. með hliðsjón af því hlutverki sem fram kemur í 6. tölulið 1. mgr. og 2. tölulið 2. mgr. þessarar greinar.

 

9. gr.

                Ráðherra skipar tækninefnd orkumálastjóra til ráðuneytis. Hlutverk tækninefndar er að vera samráðsvettvangur orkumálasviðs Orkustofnunar og orkuiðnaðarins til að stuðla að samvinnu þeirra og vera ráðgefandi t.d. við undirbúning orkurannsóknaáætlunar og mótun langtímastefnu í orku- og auðlindarannsóknum. Í nefndinni skulu eiga sæti:

1.             Orkumálastjóri, sem jafnframt er formaður.

2.             Fulltrúi Landsvirkjunar.

3.             Tveir fulltrúar Samorku.

4.             Fulltrúi Rafmagnsveitna ríkisins.

5.             Fulltrúi Rannsóknarráðs Íslands.

6.             Fulltrúi Þjóðhagsstofnunar.

                Tækninefndin skal auk þess kalla til starfa aðra í samræmi við hlutverk sitt eins og við á.

                Starf í tækninefndinni er ólaunað.

 

10. gr.

                Setja skal Orkustofnun skipurit þar sem nánar er kveðið á um innra skipulag hennar. Ráðherra staðfestir skipuritið.

 

11. gr.

                Reglugerð þessi er sett samkvæmt 2. mgr. 2. gr. og 3. mgr. 4. gr. orkulaga nr. 58 frá 29. apríl 1967. Reglugerðin öðlast gildi 1. jan. 1997. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 79 frá 29. mars 1968 um tækninefnd Orkustofnunar.

 

Iðnaðarráðuneytinu, 6. desember 1996.

 

Finnur Ingólfsson.

Halldór J. Kristjánsson.

 

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica