Fara beint í efnið

Prentað þann 29. mars 2024

Breytingareglugerð

600/2009

Reglugerð um breytingu á ýmsum reglugerðum um skírteini útgefin af Flugmálastjórn Íslands o.fl.

I. KAFLI Breyting á reglugerð um skírteini útgefin af Flugmálastjórn Íslands nr. 400/2008.

1. gr.

Grein 1.2.9.3 orðast svo:

Flugvélstjórar, svifflugmenn og stjórnendur frjáls loftbelgs skulu getað talað og skilið það tungumál sem notað er í talfjarskiptum.

2. gr.

Grein 1.2.2 orðast svo:

1.2.2.1 Hvernig fullgilda skal skírteini (Method of rendering a license valid).

  1. Þegar skírteini, sem er gefið út af öðru aðildarríki ICAO, er tekið gilt í stað þess að gefa út íslenskt skírteini skal það fullgilt með sérstakri staðfestingu sem fylgja skal skírteininu. Slík fullgilding skal aldrei gilda lengur en skírteinið sjálft.
  2. Nú er skírteini gefið út af ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins, Sviss og Færeyja og veitir réttindi til flugs í flutningaflugi og skal þá fullgildingin takmarkast við viðkomandi flugrekanda. Umsækjandi um skírteini flugmanns á grundvelli erlends skírteinis skal hafa fast aðsetur á Íslandi eða starfa hjá flugrekanda með útgefið flugrekstrarleyfi hér á landi. Að öðru leyti gilda ákvæði reglugerðar um skírteini flugliða á flugvél, reglugerðar um skírteini flugliða á þyrlu og reglugerðar um heilbrigðiskröfur flugliða. Sjá einnig reglugerð um skírteini flugliða á flugvél (ákvæði JAR-FCL 1.015, og 1. viðbætir við JAR-FCL 1.015) og reglugerð um skírteini flugliða á þyrlu (ákvæði JAR-FCL 2.015 og 1. viðbæti við JAR-FCL 2.015).

1.2.2.2 Þegar gefin er út fullgilding erlends skírteinis samkvæmt 1.2.2.1 til flutningaflugs skal fá staðfestingu útgáfuríkis skírteinisins á gildi þess áður en fullgilding er gefin út.

1.2.2.3

  1. Flugmannsskírteini, sem gefið er út af ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins, Sviss og Færeyja, samkvæmt viðauka 1 við Chicago-samninginn, gildir til einkaflugs í sjónflugi að degi til innan íslenskrar lofthelgi í loftförum skráðum á Íslandi sem skráð eru til starfrækslu með einum flugmanni.
  2. Flugmannsskírteini sem gefin eru út af öðrum aðildarríkjum ICAO en greinir í a-lið 1.2.2.3, samkvæmt viðauka 1 við Chicago-samninginn, gildir í 3 mánuði innan sinna marka til einkaflugs í sjónflugi að degi til innan íslenskrar lofthelgi í loftförum skráðum á Íslandi sem skráð eru til starfrækslu með einum flugmanni. Til lengri tíma þarf að fullgilda skírteini umsækjanda og hann þarf að standast tilskilin próf.

1.2.2.4 Nú leikur vafi á að skírteini sem óskað er fullgildingar á, skv. a-lið 1.2.2.1 og a-lið 1.2.2.3, sé jafngilt og er Flugmálastjórn Íslands þá heimilt, innan þriggja vikna frá því að umsókn berst, að óska álits Eftirlitsstofnunar EFTA á jafngildi skírteinis sem sótt er um samþykki fyrir. Innan tveggja mánaða ber Eftirlitsstofnun EFTA að skila áliti sínu. Mánuði frá því að álit liggur fyrir skal umsækjanda svarað. Kjósi Flugmálastjórn að leita ekki álits Eftirlitsstofnunar EFTA, skal stofnunin svara umsækjanda innan þriggja mánaða. Framangreindir frestir skulu reiknast frá því að allar upplýsingar liggja fyrir.

1.2.2.5 Telji Flugmálastjórn vafa leika á jafngildi flugmannsskírteinis sem óskað er fullgildingar á getur stofnunin litið svo á að viðbótarkröfur og eða próf séu nauðsynleg til að skírteinið fáist fullgilt. Skírteinishafa og því ríki sem stóð að útgáfu þess skal tilkynnt um ákvörðun stofnunarinnar. Gera skal skírteinishafa kleift að þreyta viðbótarpróf eins fljótt og unnt er.

1.2.2.6 Þrátt fyrir ákvæði 1.2.2.5 skal fullgilda skírteini flugliða sem gefin eru út í samræmi við 1 viðauka Chicago-samningsins, enda sé skírteinið gefið út af aðildarríki innan Evrópska efnahagssvæðisins, Sviss og Færeyja, og skírteinishafi uppfyllir þær sérkröfur sem gerðar eru í viðauka I við reglugerð þessa.

3. gr.

Við reglugerðina bætist viðauki I. sem er fylgiskjal með reglugerð þessari.

4. gr.

  1. Í grein 1.2.5.2 bætist við í 1. málslið í upptalningu á eftir 1.2.5.2.3,: og 1.2.5.2.3.1,.
  2. Í grein 1.2.5.2.3 fellur brott: , fisflugmanns.
  3. Ný grein 1.2.5.2.3.1 orðast svo:

    Gildistími 2. flokks heilbrigðisvottorðs fisflugmanna er 60 mánuðir til 40 ára aldurs og síðan 24 mánuðir. Þó getur fluglæknir stytt gildistímann sýnist honum ástæða til. Sérstök takmörkun skal færð í vottorðið um að það gildi einvörðungu fyrir hreyfilknúin fis. Þessi sérákvæði um gildistíma gilda ekki um 2. flokks heilbrigðisvottorð vegna annarra flugmannsskírteina en fisflugmannsskírteina.

5. gr.

  1. Ný grein 1.2.11 orðast svo:

    Skráning fartíma.

  2. Ný grein 1.2.11.1 orðast svo:

    Handhafar skírteina flugvélstjóra, svifflugmanna og fisflugmanna skulu skrá eftirfarandi atriði fyrir hvert einstakt flug:

    1. Dagsetningu;
    2. tegund loftfars;
    3. skrásetningarmerki loftfars;
    4. stöðu sína sem:

      1. flugvélstjóri, svifflugmaður eða fisflugmaður,
      2. kennari,
      3. nemi;
    5. brottfararstað;
    6. komustað;
    7. fartíma; og
    8. sérstakar athugasemdir, t.d. hæfnipróf eða færnipróf.
  3. Ný grein 1.2.11.2 orðast svo:

    Fartíma skal skrá sérstaklega í flugdagbók sérhvers flugliða fyrir hverja gerð og á hvern hátt sem Flugmálastjórn samþykkir.

  4. Ný grein 1.2.11.3 orðast svo:

    Flugmenn á flugvélar og þyrlur skulu skrá fartíma sína í samræmi við ákvæði JAR-FCL 1.080. Flugvélstjórum er heimilt að skrá fartíma sína samkvæmt ákvæði JAR-FCL 1.080.

6. gr.

Við grein 2.9.1.4 bætist nýr stafliður sem verður a) liður er orðast svo:

  1. uppgötva og bregðast við hættu og bilunum,.

Breytist röð annarra stafliða samkvæmt því.

7. gr.

Ný grein 2.10.1.3.4 bætist við svohljóðandi:

Til að mega flytja farþega gegn gjaldi þarf handhafi skírteinis stjórnanda frjáls loftbelgs að hafa lokið minnst 35 fartímum og þar af minnst 20 tímum sem stjórnandi frjáls loftbelgs.

8. gr.

  1. Á eftir töluliðnum 1.2.6. í grein 2.10.2.1 kemur: 1.2.7.1.
  2. Á milli töluliðanna 1.2.6. og 2.1. fellur niður orðið: og
  3. Á eftir töluliðnum 2.1. kemur: og 2.10.1.3.4.

9. gr.

Við grein 2.11.1.4 bætist eftirfarandi málsgrein:

Einkaflugmanni með mikla reynslu, yfir 100 flugtíma samtals, er heimilt að taka verklegt stöðupróf og bóklegt próf í reglum er varða fis, sem nægir til að fullnægja kröfum fyrir skírteini fisflugmanns með farþegaáritun, ef um er að ræða fis með þriggja ása stýringu.

10. gr.

Grein 2.11.1.5.1 orðist svo:

Umsækjandi skal vera handhafi 2. flokks heilbrigðisvottorðs sem í gildi er.

11. gr.

2) liður a) liðar greinar 4.2.1.3 orðast svo:

tvö ár hafi umsækjandinn lokið viðurkenndu þjálfunarnámskeiði með fullnægjandi árangri.

12. gr.

Við b) lið greinar 4.6.1.2.1 bætist nýr málsliður sem orðast svo:

Miða skal enskukunnáttu við starfrækslustig 4, sbr. grein 1.2.9.

13. gr.

Grein 4.6.1.3 verði svohljóðandi:

4.6.1.3 Reynsla.

4.6.1.3.1 Umsækjandi skal hafa öðlast eftirfarandi reynslu:

  1. hafa starfað í samtals tvö ár við eitthvert eitt eða fleiri en eitt þeirra starfa sem talin eru í lið 1) til 3) að því tilskildu að hann hafi starfað við eitt þeirra eigi skemur en eitt ár:

    1. flugliði í flutningaflugi;
    2. veðurfræðingur í flugumsjón fyrirtækis í flugrekstri;
    3. flugumferðarstjóri; tæknilegur umsjónarmaður flugumsjónarmanna eða flugrekstrar; eða
  2. hafa starfað sem aðstoðarmaður við flugumsjón með flutningaflugi eigi skemur en eitt ár; eða
  3. hafa lokið viðurkenndu þjálfunarnámi með fullnægjandi árangri.

14. gr.

Við bætist ný grein svohljóðandi:

4.6.3 Mat á þekkingu.

Nú er umsækjandi um skírteini flugumsjónarmanns handhafi skírteinis atvinnuflugmanns með bóklegt atvinnuflugmannspróf 1.fl. eða hefur lokið flugumsjónarmannsnámi frá erlendum skóla skv. kröfum viðauka 1 við Chicago-samninginn eða býr sannanlega yfir þekkingu sem samræmist þeim kröfum sem gerðar eru til handhafa skírteinis samkvæmt grein 4.6.1.2 og er þá heimilt að meta þá þekkingu, að hluta eða öllu leyti, til jafns við þær kröfur sem gerðar eru samkvæmt grein 4.6.1.2.

15. gr.

Grein 7.5 Skráning fartíma fellur brott.

16. gr.

Í stað orðsins ,,lofthæfiskírteini" í reglugerðinni kemur alls staðar í réttri beygingu orðið: lofthæfivottorð.

II. KAFLI Breyting á reglugerð um skírteini flugliða á flugvél, nr. 401/2008.

17. gr.

Í stað orðsins ,,lofthæfiskírteini" í reglugerðinni kemur alls staðar í réttri beygingu orðið: lofthæfivottorð.

III. KAFLI Breyting á reglugerð um skírteini flugumferðarstjóra, nr. 404/2008.

18. gr.

Síðari málsliður 4. mgr. 17. gr. orðast svo:

Tilkynna skal til Flugmálastjórnar Íslands um atriði er áhrif hafa á heilbrigði samkvæmt grein 7.6.4 í reglugerð um skírteini útgefin af Flugmálastjórn Íslands.

19. gr.

5. mgr. 16. gr. verður svohljóðandi:

Meta skal tungumálafærni umsækjandans formlega með reglulegum hléum, nema í hlut eigi umsækjendur sem hafa fært sönnur á tungumálafærni sem svarar til 6. færnistigs. Hléið skal ekki vera lengra en þrjú ár fyrir umsækjendur sem fært hafa sönnur á tungumálafærni sem svarar til 4. færnistigs og ekki lengur en sex ár fyrir umsækjendur sem fært hafa sönnur á tungumálafærni sem samsvarar 5. færnistigi.

20. gr.

1. málsl. 1. málsgr. IV. viðauka orðast svo:

Kröfurnar, sem um getur í 18. gr., skulu tryggja að veitendur þjálfunar hafi viðeigandi starfsfólk og búnað og starfi í umhverfi sem sniðið er að því að veita þá þjálfun sem nauðsynleg er til að fá eða halda í gildi skírteinum nema í flugumferðarstjórn og flugumferðarstjóraskírteinum.

21. gr.

Grein 6.5.1.2 orðast svo:

Ef annað er ekki tekið fram í þessum kafla skulu handhafar skírteina flugumferðarstjóra endurnýja 3. flokks heilbrigðisvottorð sitt ekki sjaldnar en á 24 mánaða fresti og á 12 mánaða fresti eftir fertugt.

22. gr.

Grein 6.5.2.6.1 orðast svo:

Hjartalínurit skal tekið við endurskoðun eigi sjaldnar en á 4 ára fresti. Eftir 30 ára aldur skal hjartalínurit tekið eigi sjaldnar en á tveggja ára fresti.

23. gr.

Grein 6.5.3.2.3 orðast svo:

Við fyrstu skoðun til 3. flokks heilbrigðisvottorðs skal sjónskoðun gerð af augnlækni eða sérfræðingi í augnfræði, sem heilbrigðisskor getur fallist á. Við endurskoðun skal liggja fyrir skýrsla augnlæknis eða sérfræðings í augnfræði, sem heilbrigðisskor getur fallist á, ef ljósbrotsgalli er meira en +/- 3 díoptríur. Ef ljósbrotsgalli liggur á bilinu +3 til +5 díoptríur eða -3 til -6 díoptríur skal endurskoðun fara fram á fjögurra ára fresti, en á tveggja ára fresti ef ljósbrotsgalli er meiri en +6 díoptríur.

24. gr.

Grein 6.5.1.1 orðist svo:

Umsækjandi um skírteini flugumferðarstjóra skal gangast undir læknisskoðun fyrir útgáfu 3. flokks heilbrigðisvottorðs samkvæmt reglugerð þessari.

25. gr.

c-liður 1. mgr. í viðauka IV. orðast svo:

c) greina frá þeirri aðferðarfræði sem notuð verður til þess að leggja niður fyrir sér innihald, skipulag, og tímaramma þjálfunarnámskeiða, þjálfunaráætlana deildar og hæfnisáætlana deildar. Þetta felur í sér fyrirkomulag prófa eða mats. Að því er varðar próf sem tengjast grunnþjálfun, þ.m.t. þjálfun í hermi, skal greina nákvæmlega frá menntun og hæfi prófdómara,.

26. gr.

1. málsliður 1. mgr. í III. viðauka orðast svo:

Kröfur til tungumálafærni, sem mælt er fyrir um í 13. gr. gilda bæði um orðfæri og venjulegt málfar.

27. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með vísan til 31. gr. og 73. gr., sbr. 145. gr. laga nr. 60/1998 um loftferðir með síðari breytingum og tekur þegar gildi. Frá og með sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 90/1977 um skráningu flugtíma.

Samgönguráðuneytinu, 18. maí 2009.

Kristján L. Möller.

Ragnhildur Hjaltadóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.