Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 28. mars 2024

Ógild reglugerð síðast breytt 24. sept. 2018

599/1982

Reglugerð um Heimspekistofnun Háskóla Íslands

1. gr.

Í heimspekideild Háskóla Íslands starfar Heimspekistofnun samkvæmt 2. mgr. 9. gr. laga nr. 77/1979 um Háskóla Íslands, og er hún vísindaleg rannsókna- og fræðslustofnun skv. 1. gr. téðra laga.

2. gr.

Hlutverk Heimspekistofnunar er:

  1. Að vera vettvangur rannsókna í heimspekilegum fræðum.
  2. Að vera til ráðuneytis um kennslu, námsefni og próf í heimspeki í skólum landsins og stuðla með öðrum hætti að eflingu heimspekilegra fræða á Íslandi.
  3. Að annast útgáfu ritverka á fræðasviði sínu.

3. gr.

Hlutverki sínu gegnir Heimspekistofnun einkum með því að:

  1. Veita starfsmönnum stofnunarinnar og gestum fyrirgreiðslu við rannsóknir.
  2. Gangast fyrir ráðstefnum, umræðufundum, námskeiðum, fyrirlestrum og annarri starfsemi, sem starfssvið stofnunarinnar varðar.
  3. Hafa samvinnu við aðila innan háskólans sem utan um rannsóknir í heimspeki og annast samskipti við rannsókna- og fræðslustofnanir í heimspekilegum fræðum við aðra háskóla.

4. gr.

Stjórn stofnunarinnar skal skipuð þremur mönnum. Heimspekideild kýs tvo þeirra úr hópi fastra háskólakennara í heimspeki. Hún kýs annan þeirra formann og skal hann jafnframt vera forstöðumaður. Stúdentar sem hafa heimspeki að aðalgrein kjósa einn stjórnarmann úr sínum hópi til eins árs í senn. Kennarar skulu kjörnir til tveggja ára.

Stjórnin hefur umsjón með fjármálum stofnunarinnar og gerir tillögur til deildar um fjárveitingar.

Stjórnin skal halda minnst tvo fundi á ári með starfsliði stofnunarinnar, annan fyrir lok febrúar og hinn fyrir lok októbermánaðar, til að ræða málefni stofnunarinnar. Fundir þessir nefnast misserisfundir. Þeir hafa ekki ákvörðunarvald, en geta samþykkt ályktanir til stjórnar Heimspekistofnunar eða heimspekideildar.

Nú telur einhver sá, sem rétt á til setu á misserisfundi Heimspekistofnunar, ákvörðun stjórnar eða forstöðumanns vera andstæða ákvæðum þessarar reglugerðar eða laga háskólans, og getur hann þá skotið ákvörðuninni til deildarráðs heimspekideildar.

5. gr.

Starfslið stofnunarinnar er:

  1. Fastir kennarar í heimspeki í heimspekideild.
  2. Gistikennarar, sérfræðingar og styrkþegar, sem vinna að tímabundnum rannsóknaverkefnum samkvæmt ákvörðun stjórnar.
  3. Stúdentar í heimspeki, sem vinna að rannsóknaverkefnum undir leiðsögn kennara sinna, en stjórnin kveður nánar á um stöðu þeirra.
  4. Annað starfslið, eftir því sem háskólaráð ákveður að fengnum tillögum stjórnar. Stjórn stofnunarinnar skal fá greidda þóknun fyrir störf sín eftir gildandi reglum innan háskólans.

6. gr.

Rekstur stofnunarinnar er greiddur af ríkisfé samkvæmt því sem veitt er í fjárlögum. Aðrar tekjur stofnunarinnar eru:

  1. Styrkir til einstakra verkefna.
  2. Greiðslur fyrir umbeðin verkefni.
  3. Gjafir.

Stjórn stofnunarinnar skal álykta um viðtöku fjár samkvæmt liðum a) -c).

Ávallt er skylt að leita samþykkis deildarráðs fyrir fjárveitingatillögum stofnunarinnar.

Fjármálin heyra endanlega undir rektor og háskólaritara, sbr. 3. og 4. mgr. 2. gr. laga nr. 77/ 1979) um Háskóla Íslands. Skal reikningshald vera hluti af heildarreikningum Háskóla Íslands.

7. gr.

Háskólinn sér stofnuninni fyrir húsnæði og annarri starfsaðstöðu. Húsnæði skal vera minnst einn lestrarsalur og ein vinnustofa.

8. gr.

Til bókasafns stofnunarinnar skal leggja þann bókakost Háskólabókasafns, sem fellur undir fræðasvið hennar, að fengnum tillögum stjórnar stofnunarinnar, bókasafnsnefndar og háskólabókavarðar til háskólaráðs.

Við stofnunarbókasafnið skal árlega auka í samræmi við fjárveitingu til Háskólabókasafns, enda heyrir stofnunarbókasafnið undir það.

Ennfremur njóti stofnunin þeirrar þjónustu, sem um getur í lögum nr. 38/1969 um Landsbókasafn Íslands, sbr. sérstaklega 1. mgr. 8. gr., þar sem svo er mælt fyrir, að stofnanir háskólans hafi söfn í sinni vörslu, sbr. og 2. mgr. sömu greinar, svo og 12. og 13. gr. téðra laga.

9. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild 9. gr. laga nr. 77/1979 um Háskóla Íslands, sbr, reglugerð fyrir Háskóla Íslands nr. 78/1979, 66. gr., og öðlast þegar gildi.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.