Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti

595/1982

Reglugerð um áfengisvarnarnefndir - Brottfallin

Samkvæmt 30. gr. laga nr. 82 frá 2. júlí 1969, eru hér sett ákvæði um verksvið og skyldur áfengisvarnanefnda.

1. gr.

Áfengisvarnanefndir skulu vera í öllum hreppum og kaupstöðum landsins, þriggja manna í hreppum, sjö manna í kaupstöðum, öðrum en í Reykjavík, þar sem nefndin er skipuð níu mönnum. Ráðherra skipar formenn nefndanna, að fengnum tillögum áfengisvarnaráðs, en að öðru leyti skulu nefndarmenn kosnir af hlutaðeigandi hreppsnefndum og bæjarstjórnum.

Skylt er að viðhafa hlutfallskosningu, ef óskað er. Kjörtími nefndanna er fjögur ár.

Nú ákveður sveitarstjórn, að stofna félagsmálaráð og getur ráðherra þá falið því störf áfengisvarnanefndar að nokkru eða öllu leyti.

2. gr.

Áfengisvarnanefnd á hverjum stað skal leitast við að efla bindindi í hverjum þeim kaupstað eða hreppi, er hún starfar í, með því:

a. að styðja bindindisstarfsemi, þar sem hún er fyrir, og vinna að því, að slík starfsemi sé hafin, þar sem hún hefur ekki átt sér stað;

b. að stuðla að aukinni fræðslu meðal kaupstaðar- eða hreppsbúa um bindindis- og áfengismál;

c. að hafa eftirlit með því, að hin lögboðna bindindisfræðsla í skólum fari fram á viðunandi hátt. Skal hún eiga samvinnu við skólastjóra, kennara og skóla- og fræðsluráð um fræðsluna;

d. að vera yfirvöldum og lögreglumönnum til aðstoðar við að halda uppi hlýðni við áfengislögin og reyna af fremsta megni að sporna við ólöglegri framleiðslu, innflutningi, sölu og annarri ólöglegri meðferð áfengis, hvort heldur er á samkomum eða annars staðar;

e. að hlíta fyrirmælum áfengisvarnaráðs í öllum greinum, þ. á. m. að halda a. m. k. tvo fundi á ári hverju í hreppum, sex í kaupstöðum utan Reykjavíkur og ekki færri en einn fund í mánuði í Reykjavík.

3 gr.

Áfengisvarnanefndir skulu vinna gegn neyslu áfengra drykkja og leitast við að draga úr skaðlegum afleiðingum hennar. Þær skulu vera ráðgefandi um öll bindindis- og áfengismál fyrir sveitarstjórnir, lögreglustjóra, áfengisvarnarráð, ríkisstjórn og aðra þá aðilja, sem komið geta til greina í því sambandi, þ. á. m. fyrir presta, og gera sjálfar tillögur um áfengisvarnir, er þær telja þörf á. Skulu nefndirnar njóta aðstoðar og verndar yfirvalda og annarra opinberra starfsmanna í starfi sínu, eftir því sem þörf krefur. Áfengisvarnanefndum er rétt að leita til lögreglustjóra um upplýsingar um vínveitingaleyfi, sem veitt eru. Ef veitingastaður sækir um leyfi til áfengisveitinga skal leita álits áfengisvarnanefndar áður en ákvörðun er tekin um hvort leyfi skulu veitt.

4. gr.

Nú eru í kaupstað eða hreppi menn, einn eða fleiri, sem annað hvort gerast vandræðamenn að einhverju leyti eða ósjálfbjarga, sökum drykkjuskapar, og ber þá áfengisvarnanefnd að gera það, sem í hennar valdi stendur, til þess að útvega þeim hæli og hjúkrun, í því skyni að venja þá af áfengisnautn. Einnig ber áfengisvarnanefndum að hafa vakandi auga með ungum mönnum, sem taka að drekka, og reyna að fá þá til að láta af því. Skal áfengisvarnanefnd, framfærslunefnd og lögregla á staðnum, svo og prestur, vinna saman, þegar þörf krefur, að þessum málum.

5. gr.

Áfengisvarnanefnd er skylt að gera það sem mögulegt er, til þess að bjarga heimilum drykkjumanna og vernda fjölskyldur þeirra. Nú er nefndinni kunnugt um, að einhver í kaupstað eða hreppi, þar sem hún starfar, neyti áfengis sjálfum sér, fjölskyldu sinni og ættingjum til skaða, og skal hún þá tafarlaust rannsaka málið og gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess að úr verði bætt, ef unnt er, á viðunandi hátt (sbr. 4. gr.).

6. gr.

Rétt til að leita aðstoðar áfengisvarnanefndar hafa:

a. aðilji sjálfur;

b. maki aðilja, nákomnir ættingjar hans og venslafólk (foreldrar, börn, systkini, tengdaforeldrar o.s.frv.);

c. læknar og prestar eftir tilmælum aðilja sjálfs, ættingja hans eða venslafólks. Þeir geta og ótilkvaddir af öðrum leitað til áfengisvarnanefnda, er þeir telja einstaklingum eða heimilum hættu búna vegna áfengisnautnar;

d. lögráðendur ólögráða manna;

e. framfærslunefndir og hreppsnefndir;

f. lögregla og löggæslumenn;

g. aðrir, er persónulega eru kunnugir aðilja og bera hag hans fyrir brjósti.

7. gr.

Nú liggur fyrir kvörtun eða tilkynning um skaðlega áfengisneyslu, og skal þá einn eða fleiri úr viðkomandi áfengisvarnanefnd, eftir því sem hún ákveður, rannsaka ástandið hjá þeim manni, sem í hlut á, og á heimili hans og taka skýrslu um það af fjölskyldunni eða öðrum, sem vel þekkja til og eru vitnisbærir, enda samþykki aðiljar það. Nefndin getur leitað aðstoðar hins opinbera í slíkum málum og óskað að fá þaðan allar þær upplýsingar, er að gagni mega verða og yfirvöldum er heimilt að láta í té.

Ef það kemur í ljós við rannsókn, að málið er nefndinni ofvaxið, t. d. ef um afbrot er að ræða, skal hún tafarlaust tilkynna það hlutaðeigandi yfirvöldum og afhenda þeim það til meðferðar.

8. gr.

Áfengisvarnaráð skal hafa umsjón með áfengisvarnanefndum, samræma störf þeirra og vera þeim til aðstoðar og leiðbeiningar í hvívetna. Skulu nefndirnar standa í sambandi við ráðið og sér í lagi við formann þess, áfengisvarnaráðunaut ríkisstjórnarinnar. Skulu nefndirnar snúa sér til ráðunautsins og fá hjá honum bendingar og upplýsingar, sem þær þarfnast. Þær skulu gefa honum allar upplýsingar um bindindis- og áfengismál, sem hann biður um og þær geta látið í té, ásamt árlegri skýrslu um störf sín. Skal þeim séð fyrir skýrsluformi til útfyllingar, og ber þeim að skila skýrslum eftir hver áramót.

9. gr.

Nefndirnar fá greiddan styrk af því fé, sem áfengisvarnaráð fær til úthlutunar úr ríkissjóði, svo framarlega sem ráðið telur störf nefndanna styrksverð. Ber þeim að gefa ráðinu glögga skýrslu um meðferð styrkfjár þess, er þær fá, þá er ráðið óskar.

10. gr.

Áfengisvarnanefndum og framkvæmdastjórum þeirra ber að gæta fyllstu þagmælsku um öll einkamál manna, er þessir aðiljar komast að í starfi sínu.

Reglugerð þessi öðlast þegar gildi.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið, 6. október 1982.

Svavar Gestsson.

Jón Ingimarsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica