Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti

573/2008

Reglugerð um veiðar á Austur-Atlantshafs bláuggatúnfiski. - Brottfallin

1. gr.

Ákvæði reglugerðar þessarar taka til veiða á bláuggatúnfiski á samningssvæði Atlantshafs túnfiskveiðiráðsins (ICCAT), þar með talið hafsvæði utan lögsögu ríkja og enn fremur innan lögsagna þar sem íslensk skip hafa rétt til að veiða samkvæmt samningum eða veiðileyfum þess efnis. Um er að ræða veiðiheimildir úr stofni Austur-Atlantshafs bláuggatúnfisks en útbreiðslusvæði hans eru talin ná frá Grænhöfðaeyjum til Noregs. Vestari mörk stofnsins markast við línu sem liggur frá norðri eftir 45°V til suðurs að 10°N. Þaðan liggur markalínan til austurs að 35°V, til suðurs að 0°N, til austurs að 25°V og þaðan suður eftir Atlantshafi.

2. gr.

Íslenskum fiskiskipum er óheimilt að veiða bláuggatúnfisk á samningssvæði ICCAT nema þau hafi fengið til þess leyfi sem Fiskistofa gefur út. Leyfisveitingin er bundin við þau skip sem sækja um veiðiheimildir á bláuggatúnfiski til sjávarútvegs- og landbúnðaðarráðuneytisins innan frests sem auglýstur hefur verið til 28. mars 2008.

3. gr.

Á árinu 2008 er íslenskum skipum heimilt að veiða 51,53 tonn af bláuggatúnfiski miðað við afla upp úr sjó. Fiskistofa skal stöðva veiðar skipanna þegar þeim afla er náð með því að senda þeim tilkynningu þess efnis.

4. gr.

Skipstjórar skulu skrá í aflaskýrslur sem Fiskistofa og Hafrannsóknarstofnunin leggja til, nákvæmar upplýsingar um veiðarnar í því formi sem skýrslurnar gera ráð fyrir og skila inn til Fiskistofu þegar skip kemur næst til hafnar eftir að hafa stundað veiðar samkvæmt reglugerð þessari.

5. gr.

Þau íslensku fiskiskip sem heimild hafa fengið til að stunda veiðar á samningssvæðinu skulu vera búin fjarskiptabúnaði sem sendir upplýsingar með sjálfvirkum hætti til sameiginlegrar eftirlitsstöðvar Landhelgisgæslu Íslands og Fiskistofu, hér eftir nefnd Eftirlitsstöðin, um staðsetningu viðkomandi skips á klukkustundar fresti. Óheimilt er að halda úr höfn til veiða fyrr en starfsmenn Eftirlitsstöðvarinnar hafa staðfest til skipstjóra að ofangreindur búnaður starfi eðlilega.

6. gr.

Tilkynningar.
Öll skip sem veiðar stunda á samningssvæðinu skulu senda eftirgreindar tilkynningar til Eftirlitsstöðvarinnar:
Komutilkynning:
Skylt er skipstjóra skips að tilkynna til Eftirlitsstöðvarinnar með ekki meira en 12 klukkustunda og að minnsta kosti 6 klukkustunda fyrirvara að það fari inn á viðkomandi samningssvæði til veiða. Í tilkynningunni komi fram eftirfarandi upplýsingar:

  1. Kóði viðtakanda: "ISL" fyrir íslensku eftirlitsstöðina.
2. Raðnúmer skeytisins.
  3. Kóði fyrir tegund skeytisins: "COE" sem komutilkynning.
4. Kallmerki skipsins.
5. Staðsetning skipsins í gráðum og heilum mínútum.
6. Áætlað aflamagn um borð eða afla sem flytja á í kvíar í kg miðað við afla upp úr sjó, sundurliðað eftir tegundum.
7. Dagsetning og tími.


Aflatilkynning:
Dag hvern
á tímabilinu frá kl. 6.00 til 8.00 að íslenskum tíma, skal skipstjóri tilkynna Eftirlitsstöðinni um afla síðasta sólarhrings, miðað við afla upp úr sjó, sundurgreindan eftir tegundum. Í tilkynningunni komi fram eftirfarandi upplýsingar:

1. Kóði viðtakanda: "ISL" fyrir íslensku eftirlitsstöðina.
2. Raðnúmer skeytisins.
3. Kóði fyrir tegund skeytisins: "CAT" sem aflatilkynning.
4. Kallmerki skipsins.
5. Númer veiðiferðar.
6. Staðsetning skipsins í gráðum og heilum mínútum (þarf ekki ef skipið er í sjálfvirku gervihnattaeftirliti).
7. Afli í kg frá síðustu aflatilkynningu miðað við afla upp úr sjó, sundurliðað eftir tegundum.
8. Dagsetning og tími.

Brottfarartilkynning:

Þegar veiðiskip hættir veiðum skal það tilkynnt Eftirlitsstöðinni. Jafnframt skal í tilkynningu tilgreina afla frá síðustu aflatilkynningu miðað við afla úr sjó, aðgreindan eftir tegundum og einnig löndunarhöfn eða löndunarstað. Í tilkynningunni komi fram eftirfarandi upplýsingar:

1. Kóði viðtakanda: "ISL" fyrir íslensku eftirlitsstöðina.
2. Raðnúmer skeytisins.
3. Kóði fyrir tegund skeytisins: "COX" sem brottfarartilkynning.
4. Kallmerki skipsins.
5. Staðsetning skipsins í gráðum og heilum mínútum (þarf ekki ef skipið er í sjálfvirku gervihnattaeftirliti).
6. Afli í kg frá síðustu aflatilkynningu miðað við afla upp úr sjó, sundurliðað eftir tegundum.
7. Löndunarhöfn eða löndunarstaður.
8. Dagsetning og tími.


Tilkynningar til Eftirlitsstöðvarinnar er hægt að senda með eftirfarandi sambandsleiðum: Tölvupóstfang sar@lhg.is, fax nr. 545 2001, Inmarsat C nr. 581 425101519 eða gegnum strandstöðvar á Íslandi.

7. gr.

Óheimilt er að styðjast við leit úr lofti við veiðar á bláuggatúnfiski.

8. gr.

Lágmarksþyngd hvers bláuggatúnfisks sem veiddur er skal vera 30 kg, þó má allt að 8% afla hverrar veiðiferðar vera undir 30 kg, en þyngd hvers fisks skal þó aldrei vera minni en 10 kg.

Þetta hlutfall skal gilda fyrir hverja löndun skips og reiknast annað hvort sem hlutfall af fjölda fiska eða hlutfall heildarþyngdar landaðs afla. Þyngd miðast við afla upp úr sjó.

9. gr.

Eftirlitsmaður skal vera um borð í skipum sem stunda veiðar á bláuggatúnfiski.

10. gr.

Brot á reglugerð þessari varða viðurlögum samkvæmt ákvæðum III. kafla laga nr. 151, 27. desember 1996, um fiskveiðar utan lögsögu Íslands og ákvæðum laga nr. 116, 10. ágúst 2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

11. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt ákvæðum laga nr. 151, 27. desember 1996, um fiskveiðar utan lögsögu Íslands og ákvæðum laga nr. 116, 10. ágúst 2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, til að öðlast þegar gildi og birtist til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 343 frá 5. apríl 2005 um veiðar á Austur-Atlantshafs bláuggatúnfiski.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, 19. júní 2008.

F. h. r.

Steinar I. Matthíasson.

Brynhildur Benediktsdóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica