Fara beint í efnið

Prentað þann 16. apríl 2024

Stofnreglugerð

543/1996

Reglugerð um gatnagerðargjald.

1. gr. Almenn heimild.

Sveitarstjórn er heimilt að innheimta gatnagerðargjald af öllum lóðum í sveitarfélaginu og/eða mannvirkjum á þeim, hvort sem um er að ræða lóðir í eigu sveitarfélagsins eða aðrar lóðir. Gjaldinu skal varið til framkvæmda skv. 2. gr. laga um gatnagerðargjald nr. 17/1996.

2. gr. Ábyrgð á greiðslu gatnagerðargjalds.

Lóðarhafi ber ábyrgð á greiðslu gatnagerðargjalds.

3. gr. Ákvörðun um gatnagerðargjald.

Sveitarstjórn ákveður í gjaldskrá sinni, sbr. 11. gr. reglugerðar þessarar, upphæð gjaldsins og hvenær það er innheimt. Gatnagerðargjald er þó fyrst gjaldkræft við úthlutun lóðar, sem er í eigu sveitarfélagsins, og við útgáfu byggingarleyfis á öðrum lóðum.

4. gr. Viðmiðun gatnagerðargjalds.

Við ákvörðun gatnagerðargjalds skal miða við rúmmál byggingar, flatarmál hennar og/eða flatarmál lóðar. Heimilt er að hafa hverja þessara viðmiðana sem er, eina af þeim, tvær saman eða allar þrjár. Flatarmál og rúmmál byggingar skal reikna eftir ÍST 50 og miða við brúttóstærðir.

5. gr. Hámark gatnagerðargjalds.

Hámark gatnagerðargjalds er 15% af heildarbyggingarkostnaði rúmmetra eða fermetra í vísitöluhúsi fjölbýlis eins og hann er á hverjum tíma, eftir því hvor viðmiðunin á við, eða vegið meðaltal þessara stærða ef við á.

Gatnagerðargjald sem miðað er við stærð lóðar skal ekki vera hærra en ef það væri miðað við stærð byggingar á sömu lóð. Gildir það eins þó aðeins hluti gatnagerðargjalds sé miðaður við flatarmál lóðar.

Hámark gatnagerðargjalds skv. 1. mgr. gildir jafnt um einstaka byggingaráfanga eða húshluta og um byggingar í heild.

6. gr. Lágmarksgatnagerðargjald og viðbótargatnagerðargjald.

Heimilt er að ákveða lágmark gatnagerðargjalds af lóð með hliðsjón af nýtingarmöguleikum lóðarinnar samkvæmt samþykktu skipulagi. Gatnagerðargjald verður ekki endurgreitt þó minna sé byggt en lágmarksgjaldið miðast við. Heimilt er í tengslum við útgáfu byggingarleyfis að innheimta viðbótargatnagerðargjald ef stærð byggingar er umfram viðmiðun lágmarksgatnagerðargjalds.

7. gr. Heimild til afturköllunar byggingarleyfis ef gatnagerðargjald er ekki greitt.

Nú greiðir lóðarhafi ekki gatnagerðargjald á tilskildum tíma og er sveitarstjórn þá heimilt að afturkalla byggingarleyfi og/eða lóðarúthlutun, enda sé kveðið á um það í úthlutunar- eða byggingarskilmálum.

8. gr. Álagning gatnagerðargjalds m.a. ef hús er rifið eða það brennur.

Þegar hús er rifið eða fjarlægt af lóð og nýtt byggt í staðinn, er heimilt að innheimta gatnagerðargjald að því er stækkuninni nemur, nema lágmarksgatnagerðargjald skv. 5. gr. reglugerðar þessarar hafi verið greitt og ekki farið fram úr viðmiðun þess. Sama gildir ef hús brennur og byggt er nýtt hús á lóð.

9. gr. Endurgreiðsla gatnagerðargjalds.

Sveitarstjórn skal í eftirgreindum tilvikum endurgreiða gatnagerðargjald:

  1. Ef lóðarhafi skilar úthlutaðri lóð eða ef lóðarúthlutun er afturkölluð.
  2. Ef gatnagerðargjald hefur verið greitt í tengslum við útgáfu byggingarleyfis, en leyfið fellur úr gildi eða er fellt úr gildi. Á það jafnt við um gatnagerðargjald af eignarlóðum og viðbótargatnagerðargjald skv. 6. gr. reglugerðar þessarar.

Endurgreiðslu gatnagerðargjalds skv. a-lið 1. mgr. er heimilt að fresta þar til lóð er úthlutað að nýju, en þó ekki lengur en í 6 mánuði. Frestur til endurgreiðslu er í öðrum tilvikum 1 mánuður frá því að lóðarhafi krefst endurgreiðslu gatnagerðargjalds skv. b-lið 1. mgr.

Gatnagerðargjald skal endurgreitt og verðbætt miðað við vístölu byggingarkostnaðar eftir því sem kveðið er á um í gjaldskrá skv. 11. gr. reglugerðar þessarar.

10. gr. Breytt notkun húss.

Þegar veitt er byggingarleyfi fyrir breytingu eða endurbyggingu húsnæðis, sem felur í sér breytta notkun þess, þannig að húseignin færist í hærri gjaldflokk samkvæmt gjaldskrá sveitarfélagsins, þá skal húseigandi greiða gatnagerðargjald af hinu breytta húsnæði, sem nemur mismun á gjaldinu reiknuðu af hinu breytta húsnæði fyrir og eftir breytinguna. Ef húseign færist í lægri gjaldflokk við slíkar breytingar greiðist ekki gatnagerðargjald og lóðarhafi á ekki rétt á endurgreiðslu.

11. gr. Gjaldskrár sveitarstjórna.

Sveitarstjórn skal setja sérstaka gjaldskrá fyrir gatnagerðargjald. Í gjaldskránni skal m.a. kveðið á um eftirfarandi atriði:

  1. Við hvaða þætti gatnagerðargjald skuli miðast, sbr. 3. gr. reglugerðar þessarar, og upphæð þess.
  2. Hvort um er að ræða mismunandi gjaldflokka eftir notkun lóðar, t.d. eftir því hvort um er að ræða lóð fyrir íbúðarhúsnæði, verslunarhúsnæði, iðnaðarhúsnæði o.s.frv., eða mismunandi gjald af lóðum fyrir íbúðarhúsnæði eftir því hvort um er að ræða lóð fyrir einbýlishús, raðhús, fjölbýlishús o.s.frv.
  3. Greiðsluskilmála gatnagerðargjalds.
  4. Hvort ákveðin rými eða tilteknar tegundir bygginga skuli vera undanþegnar gatnagerðargjaldi að meira eða minna leyti.
  5. Heimild til að uppreikna gatnagerðargjald reglulega.
  6. Tilhögun endurgreiðslu gatnagerðargjalds, sbr. 9. gr. reglugerðar þessarar.
  7. Hvað innifalið er í gatnagerðargjaldi, sbr. 2. gr. laga um gatnagerðargjald nr. 17/1996.

12. gr. Auglýsing gjaldskrár.

Sveitarstjórn skal auglýsa gjaldskrána og efnislegar breytingar á henni á þann hátt sem venja er að birta opinberar auglýsingar í sveitarfélaginu. Ekki þarf þó að auglýsa breytingar á gatnagerðargjaldi sem leiða af heimild til að uppreikna þau, sbr. e-lið 11. gr. reglugerðar þessarar.

13. gr. Ágreiningur um álagningu gatnagerðargjalds.

Verði ágreiningur um ákvörðun og/eða innheimtu gatnagerðargjalds, skal hann borinn undir viðkomandi sveitarstjórn eða byggðarráð, eftir því hver háttur er hafður á í viðkomandi sveitarfélagi. Aðili máls getur skotið ákvörðun sveitarstjórnar eða byggðarráðs um álagningu og/eða innheimtu gatnagerðargjalds til úrskurðar félagsmálaráðherra. Kærufrestur er þrír mánuðir frá því að aðili fékk vitneskju um álagningu gjaldsins. Kæruheimild þessi skerðir þó eigi rétt aðila til að höfða mál fyrir dómstólum.

14. gr. Lögveðsréttur.

Gatnagerðargjald er ásamt áföllnum vöxtum og kostnaði tryggt með lögveðsrétti í viðkomandi fasteign með forgangsrétti fyrir hvers konar samningsveði og aðfararveði.

15. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi staðfestist hér með samkvæmt 6. gr. laga um gatnagerðargjald nr. 17/1996 til að öðlast gildi 1. janúar 1997. Jafnframt falla úr gildi reglugerðir og samþykktir einstakra sveitarfélaga um gatnagerðargjöld, sem settar voru á grundvelli laga nr. 51/1974, sbr. lög nr. 31/1975, sbr. þó ákvæði til bráðabirgða í lögum um gatnagerðargjald nr. 17/1996.

Félagsmálaráðuneytinu, 8. október 1996.

Páll Pétursson.

Sesselja Árnadóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.