Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 28. mars 2024

Reglugerð með breytingum síðast breytt 1. nóv. 2012

535/2001

Reglugerð um köfun.

I. KAFLI Almenn ákvæði.

1. gr. Gildissvið.

Ákvæði reglugerðar þessarar og viðauka hennar gilda um allar athafnir sem gerðar eru við köfun í atvinnuskyni, sem fram fara í ám eða vötnum, við strendur landsins eða frá íslenskum skipum hér við land.

2. gr. Skilgreiningar.

Þegar eftirfarandi orð og orðasambönd eru notuð í reglugerð þessari, hafa þau merkingu þá sem hér segir:
Afþrýstibið: Sá tími sem kafari þarf að bíða á leiðinni upp á yfirborð til að losa sig við uppsafnaðar lofttegundir úr vefjum líkamans. Þessi tími er fundinn í viðeigandi töflum eftir botntíma og dýpi köfunarinnar.

Atvinnuköfun: Allar þær athafnir sem falla undir og eru liður í atvinnustarfsemi kafara eða annarra aðila. Einnig telst það vera atvinnuköfun ef athöfnin er liður í skipulagðri þjónustustarfsemi til verndar almannahagsmunum.

Áhugaköfun: Allar þær athafnir sem teljast til köfunar en falla ekki undir atvinnuköfun.

Botntími: Sá tími sem líður frá því er kafari fer undir yfirborð þar til hann hefur uppstigningu.

Kafari: Sá sem er réttmætur handhafi atvinnuskírteinis kafara.

Köfun: Allar athafnir manna sem fara fram undir yfirborði vatns eða sjávar þar sem líkaminn er undir meiri þrýstingi en sem nemur 50 hektópaskölum (50 mbar) yfir loftþrýstingi á yfirborði jarðar og notast er við tæki sem eru hluti af viðurkenndum köfunarbúnaði.

Köfunarbók: Dagbók kafara.

Köfunarbúnaður: Allur búnaður sem notaður er við köfun.

Köfunarformaður: Sá sem hefur með höndum verkstjórn við köfun og ber skyldur sem slíkur.

Köfunarverktaki: Vinnuveitandi kafara eða sjálfstæður atvinnurekandi. Sá sem ábyrgð ber á framkvæmd köfunar.

Verkkaupi: Hver sá sem kaupir vinnu við köfun.

Öryggiskafari: Kafari í viðeigandi köfunarbúnaði á meðan köfun stendur og reiðubúinn er til tafarlausrar köfunar á það dýpi sem viðkomandi köfun er á.

3. gr. Framkvæmd.

Siglingastofnun Íslands hefur umsjón og eftirlit með framkvæmd laga um köfun svo og ákvæða reglugerðar þessarar í samráði við samgönguráðuneytið.

Siglingastofnun Íslands er heimilt hvenær sem er að skoða köfunarbúnað og framkvæmd köfunaraðgerða með hliðsjón af öryggi þeirra enda sé þess gætt að tefja ekki atvinnu að óþörfu.

4. gr. Útgáfa leiðbeininga.

Siglingastofnun Íslands getur gefið út leiðbeiningar með nánari fyrirmælum um öryggi kafara, köfun og kafarastörf sem og um nám í köfun og endurmenntun kafara.

5. gr. Menntunarkröfur.

Sá sem vill stunda atvinnuköfun skal hafa lokið prófi í atvinnuköfun með fullnægjandi árangri frá aðila viðurkenndum af Siglingastofnun Íslands.

6. gr. Rannsóknir slysa og óhappa.

Slys eða óhöpp sem verða við köfun skal tilkynna þegar í stað til lögreglu í því umdæmi þar sem slys eða óhapp átti sér stað og til rannsóknarnefndar sjóslysa. Lögreglan annast rannsókn á orsökum þeirra ásamt rannsóknarnefnd sjóslysa.

Varðveita skal ummerki sem gætu verið gagnleg við að upplýsa orsakir óhapps eða slyss. Við rannsóknina skal kalla til sérfróða aðila eftir því sem þurfa þykir.

II. KAFLI Köfunarbúnaður.

7. gr. Viðurkenning búnaðar.

Allur köfunarbúnaður skal hljóta viðurkenningu Siglingastofnunar Íslands um að búnaðurinn eða hlutar hans uppfylli gildandi tæknikröfur áður en hann er seldur á almennum markaði, framleiddur til sölu eða tekinn í notkun. Liggi fyrir vottorð frá viðurkenndri prófunarstofu um að búnaðurinn sé í samræmi við staðla og reglur telst staðfesting frá Siglingastofnun fullnægjandi.

Eigandi köfunarbúnaðar ber ábyrgð á því að sækja um viðurkenningu fyrir búnaðinn og að honum verði haldið vel við.

Auk þeirra ákvæða sem sett eru um búnað í reglugerð þessari gilda ákvæði íslenskra reglna um gerð persónuhlífa, um þrýstihylki, um þrýstibúnað og kröfur íslenskra staðla um köfunarbúnað. Við prófun, vottun, framleiðslu, eftirlit og merkingu persónuhlífa skal fylgja tilskipun ráðsins nr. 89/686/EBE frá 21. desember 1989 um samræmingu laga aðildarríkjanna um persónuhlífar.

Með öllum köfunarbúnaði skulu fylgja leiðbeiningar um rétta meðhöndlun, eftirlit og viðhald á búnaðinum.

8. gr. Þjónustuaðilar köfunarbúnaðar.

Þeir aðilar, einstaklingar, fyrirtæki eða stofnanir er annast skoðun, viðhald og viðgerðir á köfunarbúnaði skulu hafa hlotið viðurkenningu Siglingastofnunar Íslands sem staðfestir hver réttindi og skyldur þeirra eru.

Um áfyllingu öndunarlofts á lofthylki gilda ákvæði íslenskra reglna um áfyllingarstöðvar fyrir gashylki.

9. gr. Viðhaldskerfi og eftirlitsbók.

Eftirlit og viðhald köfunarverktaka á köfunarbúnaði skal vera gert eftir viðhaldskerfi þar sem tiltekið er hvernig og hvenær skuli prófa búnaðinn og íhluti hans samkvæmt viðeigandi stöðlum.

Eftirlitsbók skal fylgja hverjum samstæðum köfunarbúnaði. Í hana skal rita allt sem máli skiptir um viðhald, eftirlit og skoðanir. Hver sá, sem færir í bókina skal staðfesta færslu sína með undirskrift sinni ásamt dagsetningu.

III. KAFLI Atvinnuköfunarskírteini.

10. gr. Almenn ákvæði.

Hver sem vill stunda atvinnuköfun skal fullnægja eftirfarandi skilyrðum:

a) vera fullra 20 ára,
b) standast með fullnægjandi hætti heilbrigðiskröfur,
c) uppfylla menntunar- og hæfniskröfur,
d) hafa gilt atvinnuköfunarskírteini útgefið af Siglingastofnun Íslands.

11. gr. Útgáfa skírteina.

Siglingastofnun Íslands gefur út atvinnuköfunarskírteini samkvæmt reglugerð þessari.

Umsókn um atvinnuskírteini kafara skal senda til Siglingastofnunar Íslands. Í umsókn skal greina frá nafni umsækjanda, heimili og kennitölu. Umsókn skal fylgja:

a) Prófskírteini frá aðila sem kennir atvinnuköfun og sem hlotið hefur viðurkenningu Siglingastofnunar Íslands til kennslunnar.
b) Heilbrigðisvottorð frá lækni sem hefur sérþekkingu á líkamsástandi kafara er sýni að uppfylltar séu heilbrigðiskröfur samkvæmt reglugerð þessari.
c) Staðfesting samkvæmt köfunarbók um verklega þjálfun frá köfunarskóla eða öðrum viðurkenndum aðila eins og nánar greinir í námsskrá.
d) Tvær nýlegar ljósmyndir af umsækjanda.

12. gr. Flokkar og gildistími skírteina.

Atvinnuköfunarskírteini flokkast með eftirfarandi hætti:

a) A-skírteini, sem heimilar mettunarköfun á ótakmarkað dýpi.
b) B-skírteini, sem heimilar köfun með allan búnað niður á 50 metra dýpi.
c) C-skírteini, sem heimilar froskköfun ("SCUBA") niður á 30 metra dýpi án afþrýstibiðar.
d) D-skírteini, sem veitir réttindi til kennslu áhugaköfunar.
e) E-skírteini, sem ætlað er fyrir nema í atvinnuköfun.
f) F-skírteini, sem heimilar leiðsögu- og yfirborðsköfun með ferðamenn til þeirra sem hafa réttindi sem PADI Divemaster, eða sambærileg réttindi frá viðurkenndum alþjóðlegum köfunarsamtökum.
g) G-skírteini, önnur köfun.

13. gr. Varðveisla.

Siglingastofnun Íslands skal halda skrá um handhafa atvinnuköfunarskírteina.

Handhafa skírteinis eru óheimil önnur störf við köfun en þau sem skírteinið greinir.

Handhafi skírteinis skal jafnan hafa það í sinni vörslu þegar hann er að störfum og sýna það hlutaðeigandi yfirvöldum þegar þess er krafist.

IV. KAFLI Kennsla í köfun.

14. gr. Námsskrá og prófanefnd.

Siglingastofnun Íslands semur eða samþykkir námsskrá samkvæmt tilmælum í II. viðauka fyrir þá sem hyggja á nám í köfun. Kröfur um innihald námsskrár skal endurskoða með hliðsjón af reynslu og tækniþróun við köfun.

Öll próf í atvinnuköfun hérlendis og athuganir á hæfni þeirra sem lokið hafa prófi í atvinnuköfun erlendis skulu fara fram undir umsjón þriggja manna prófanefndar sem samgönguráðherra skipar. Siglingastofnun Íslands tilnefnir formann, stjórn Kafarafélags Íslands einn meðstjórnanda en sá þriðji er skipaður án tilnefningar af samgönguráðuneyti. Þegar mál eru tekin fyrir er varða kennsluréttindi til áhugaköfunar, leiðsögu- og yfirborðsköfunar með ferðamenn ásamt málefnum er varða köfunarskóla og fyrirtæki í ferðatengdri köfunarþjónustu skal prófanefnd kalla til ráðgjafar fulltrúa kafara með kennsluréttindi frá viðurkenndum alþjóðlegum köfunarsamtökum.

Sá sem fær leyfi til kennslu í áhugaköfun skal hafa lokið prófum frá viðurkenndum aðila.

Prófanefnd er heimilt að fylgjast með kennslu í köfun og sjá til þess að framfylgt sé fyrirmælum kennsluáætlunar og námsskrár.

15. gr. Umsjón kennslunnar.

Viðurkenning Siglingastofnunar Íslands á kennslu í köfun er háð því að lögð sé fram kennsluáætlun og skrá yfir kennslubúnað sem stofnunin samþykkir að fenginni umsögn prófanefndar og að tilnefndir séu tveir kafarar með sömu eða hærri réttindi en kennt er til og kenna munu á umræddu námskeiði eða skóla. Annar þeirra skal hafa a.m.k. 200 klukkustunda botntíma, tveggja ára starfsreynslu sem atvinnukafari, náð 25 ára aldri og vera handhafi atvinnukafaraskírteinis A, B eða C.

Þeir aðilar sem stunda kennslu í köfun skulu halda skrá yfir nemendur og vera með gilda slysa- og veikindatryggingu fyrir sérhvern nemanda vegna hugsanlegra óhappa sem gætu komið upp í köfunarþjálfuninni.

Breyting á kennsluáætlun eða námstilhögun, kennslubúnaði eða öðru sem námið varðar er háð samþykki Siglingastofnunar Íslands að fenginni umsögn prófanefndar.

16. gr. Nám erlendis.

Siglingastofnun Íslands skal viðurkenna nám á EES-svæðinu í atvinnuköfun sem hlotið hefur formlega viðurkenningu annars aðildarríkis enda uppfylli slíkt nám tilmæli European Diving Technology Committee (EDTC) varðandi nám í atvinnuköfun.

Nám í atvinnuköfun utan EES-svæðisins skal uppfylla ákvæði námsskrár samkvæmt mati Siglingastofnunar Íslands.

V. KAFLI Heilbrigði og læknisskoðun.

17. gr. Almenn ákvæði.

Læknisskoðun kafara skal gerð samkvæmt fyrirmælum sem Siglingastofnun Íslands setur í samráði við Landlæknisembættið og skal hún framkvæmd af lækni viðurkenndum af Landlæknisembættinu. Niðurstöður skoðunarinnar skal skrá á eyðublöð sem Siglingastofnun Íslands gefur út.

Atvinnukafarar og nemar í köfun skulu vera í góðu andlegu og líkamlegu ástandi og vera hæfir til köfunarstarfa.

Læknir sendir stofnuninni skriflega tilkynningu um að læknisskoðun sé lokið ásamt niðurstöðum hennar og staðfestir auk þess í köfunarbók kafarans hvort heilsufar kafarans fullnægi þeim kröfum sem til hans eru gerðar.

Standist kafari ekki læknisskoðun, falla réttindi hans til atvinnuköfunar niður. Standist kafarinn læknisskoðun getur hann sótt um endurnýjun atvinnuköfunarskírteinis.

Veiti kafari rangar eða ófullnægjandi upplýsingar um heilbrigði sitt getur það varðað sviptingu eða neitun um veitingu atvinnuköfunarskírteinis.

Gildistími læknisskoðunar gagnvart veittum atvinnuskírteinum er 12 mánuðir ef ekki kemur til ástæða sem því breytir.

Ágreiningi um læknisskoðun skal vísa til landlæknis.

VI. KAFLI Köfunarverktaki.

18. gr. Almenn ákvæði.

Verkkaupa er óheimilt að ráða aðra til köfunarstarfa en köfunarverktaka.

Í sérhverri köfun skal vera köfunarverktaki sem;

a) ræður kafara einn eða fleiri til starfa í köfunaraðgerð; eða
b) kafar sjálfur í köfunaraðgerð; eða
c) sá maður sem verkkaupi tilnefnir skriflega sem köfunarverktaka, áður en köfun hefst.

Uppfylli fleiri menn en einn skilyrði köfunarverktaka skulu þeir menn í sameiningu tilnefna annan hvorn þeirra eða einhvern sem köfunarverktaka áður en köfunaraðgerð hefst.

Köfunarverktaki skal tilnefna skriflega köfunarformann einn eða fleiri. Honum er óheimilt að ráða til köfunarstarfa hérlendis aðra en handhafa gildra atvinnuköfunarskírteina.

Köfunarverktaki skal tryggja að köfunaráætlun sé gerð fyrir sérhverja köfunaraðgerð og að allir þátttakendur þekki og vinni eftir köfunaráætluninni.

19. gr. Skyldur köfunarverktaka.

Köfunarverktaki skal tryggja, eins og framast er unnt, að köfunaraðgerð sé skipulögð og framkvæmd þannig að heilsu og öryggi allra sem þátt taka í aðgerðinni sé ekki hætta búin.

Köfunarverktaki skal sjá til þess að á köfunarstað sé nauðsynlegur fjöldi hæfra starfsmanna og allur sá búnaður sem þarf til að tryggja öryggi við köfunaraðgerðina og vegna hugsanlegra neyðartilfella sem upp gætu komið við köfunarstörfin.

Köfunarverktaki skal gera ráðstafanir til að framkvæmd eftirlits, prófanir og viðhald á köfunar- og neyðarbúnaði sé fullnægjandi og í samræmi við reglur og staðla.

Hann skal jafnframt ganga úr skugga um að eftirlitsbækur fyrir köfunarbúnað séu færðar samkvæmt kröfum þar um.

Köfunarverktaki skal ganga úr skugga um að bókuð sé í köfunarbók skýrsla um sérhverja köfunaraðgerð.

Köfunarverktaka er skylt að stöðva köfunaraðgerð ef köfunarformaður eða kafari telja að aðstæður á köfunarstað ógni öryggi og heilsu kafaranna.

VII. KAFLI Öryggi og skyldur við köfun.

20. gr. Köfunarformaður.

Köfunarformaður stýrir öllum þeim sem starfa í köfunaraðgerð og einnig öllu því sem lýtur að köfuninni.

Köfunarformaður sér til þess að unnið sé eftir köfunaráætlun og að öryggisreglur séu haldnar. Hann skal færa í köfunarbók, samkvæmt tilmælum í I. viðauka, skýrslu um hverja þá köfunaraðgerð sem hann stýrir.

Köfunarformanni er óheimilt að kafa sjálfum í köfunaraðgerð nema:

a) hann sé að stjórna eða kenna áhugaköfun; og
b) hann geti kafað án þess að það tefli heilsu og öryggi annarra þátttakenda í hættu; og
c) köfunaráætlunin heimili þá köfun.

Enginn maður skal tilnefndur sem köfunarformaður eða starfa sem slíkur nema:

a) hann sé hæfur til að stjórna slíkri aðgerð á fullnægjandi hátt; og
b) hafi a.m.k. fimm ára reynslu sem atvinnukafari og/eða 200 kafanir; og
c) sé handhafi gilds atvinnuskírteinis kafara. Siglingastofnun Íslands er þó heimilt að gera skriflega undantekningu frá þessu skilyrði, enda hafi viðkomandi gengist undir læknisskoðun og staðist hana.

21. gr. Skyldur kafara og annarra sem þátt taka í köfunaraðgerð.

Enginn skal kafa í köfunaraðgerð, nema:

a) hafa gilt atvinnukafaraskírteini fyrir viðkomandi köfunaraðgerð; og
b) standast heilbrigðiskröfur; og
c) vera meðvitaður um að ákvarðanir og aðgerðir sem hann tekur meðan á köfun stendur geta haft eða hafa í raun áhrif á hans eigið öryggi sem og öryggi starfsfélaga hans; og
d) til staðar sé köfunarverktaki í þeirri aðgerð.

Sérhver kafari skal:

a) fullvissa sig um að hans eigin köfunarbúnaður sé í lagi áður en köfun hefst; og
b) fara eftir fyrirmælum köfunarformanns eða köfunaráætlunar; og
c) færa köfunarbók samkvæmt tilmælum í I. viðauka um sérhverja köfun; og
d) varðveita köfunarbækur sínar í minnst fimm ár eftir að síðast var skrifað í þær.

22. gr. Köfunaráætlun.

Köfunarverktaki skal áður en köfunaraðgerð hefst sjá til þess að gerð sé sérstök köfunaráætlun fyrir viðkomandi verk og að nauðsynlegar uppfærslur séu gerðar á áætluninni eftir því sem verkinu miðar áfram.

Köfunaráætlunin skal grundvallast á áhættumati vegna heilsu og öryggis sérhvers starfsmanns sem tekur þátt í köfunarstarfinu. Nánar er getið um innihald köfunaráætlunar í V. viðauka reglugerðarinnar.

23. gr. Handbók.

Köfunarverktaki skal hafa til staðar á köfunarstað nauðsynlegar leiðbeiningar vegna köfunarstarfsins, t.d. í handbók, og skal hún vera aðgengileg öllum sem að verkinu vinna. Handbókin skal innihalda upplýsingar um stjórnskipulag starfseminnar, ábyrgð og skyldur starfsmanna, verklagsreglur fyrir köfunarstörfin, gátlista vegna öryggisráðstafana og viðhalds á búnaði, neyðarráðstafanir, gildandi lög og reglur um köfun, kröfur vegna umhverfismála, staðla, köfunartöflur og aðrar mikilvægar upplýsingar sem nota þarf við köfunarstarfið.

24. gr. Neyðarráðstafanir.

Köfunarverktaki skal hafa áætlun um hvernig bregðast skal við slysum og öðrum hugsanlegum neyðaratvikum. Neyðaráætlun skal innihalda lýsingar á aðgerðum og verkefnum hvers starfsmanns og tiltekinn skal sá búnaður sem nota þarf þegar hættuástand verður. Neyðaráætlunin skal kynnt öllum sem að köfunarstörfunum koma og skal sérhverjum manni gerð grein fyrir skyldum sínum samkvæmt áætluninni. Köfunarverktaki skal sjá til þess að haldnar séu reglulegar æfingar samkvæmt fyrirmælum neyðaráætlunarinnar.

Áður en köfun hefst skal köfunarverktaki og/eða köfunarformaður gera ráðstafanir til að tryggja að leiðbeiningar læknis um meðhöndlun kafara fáist á köfunarstað og að kafari komist tafarlaust undir læknishendur ef óhapp verður. Gera skal áætlun um flutning kafara í afþrýstiklefa á tilskildum tíma.

Köfunarverktaki skal tryggja að starfsmenn á köfunarstað hafi tilskilda þekkingu á að beita fyrstu hjálp vegna þeirra slysa eða óhappa sem gætu komið upp við kafarastörfin. Nauðsynlegur skyndihjálparbúnaður skal vera til staðar og aðgengilegur á köfunarstað.

VIII. KAFLI Viðurlög, gildistaka o.fl.

25. gr. Sérstakar ástæður.

Samgönguráðuneytið getur veitt skriflega heimild til að víkja frá reglugerð þessari þegar sérstökum ástæðum er til að dreifa.

26. gr. Viðurlög.

Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða refsingu samkvæmt 8. gr. laga um köfun nr. 31/1996.

27. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt lögum nr. 31/1996 um köfun, staðfestist hér með til að öðlast þegar gildi og birtist til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 88/1989 um kafarastörf.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.