Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti

527/1995

Reglur um slysatryggingar við heimilisstörf. - Brottfallin

Reglur um slysatryggingar við heimilisstörf.

1. gr.

Sá, sem fyllir út viðeigandi reit á skattframtali í byrjun árs, telst slysatryggður við heimilisstörf í 12 mánuði frá móttöku skattframtals hjá skattyfirvöldum, enda hafi því verið skilað innan tilskilins frests.

Ekki er unnt að óska eftir slysatryggingu við heimilisstörf eftir að skattyfirvöld hafa móttekið skattskýrslu.

2. gr.

Slysatryggingin nær til heimilisstarfa sbr. 3. gr., sem innt eru af hendi hér á landi, sem hér segir:

  1. Á heimili hins tryggða.
  2. Í bílskúr og geymslum við heimili hins tryggða
  3. Í garði umhverfis heimili hins tryggða.
  4. Í sumarbústað þar sem hinn tryggði dvelur.

3. gr.

Til heimilisstarfa í reglugerð þessari teljast eftirtalin störf, séu þau ekki liður í atvinnustarfsemi hins tryggða:

  1. Hefðbundin heimilisstörf, svo sem matseld og þrif.
  2. Umönnun sjúkra, aldraðra og barna.
  3. Almenn viðhaldsverkefni, svo sem málning og minni háttar viðgerðir.
  4. Garðyrkjustörf.

4. gr.

Undanskilin slysatryggingu við heimilisstörf eru m.a.:

  1. Slys, sem hinn tryggði verður fyrir við meiri háttar viðhaldsframkvæmdir, svo sem múrbrot, uppsetningu innréttinga og lagningu gólfefna.
  2. Slys, sem hinn tryggði verður fyrir við ýmsar daglegar athafnir sem ekki teljast til hefðbundinna heimilisstarfa, svo sem að klæða sig og borða.
  3. Slys, sem hinn tryggði verður fyrir á ferðalögum, svo sem í tjaldi, hjólhýsi og á hóteli.

5. gr.

Reglur þessar eru settar með stoð í 2. mgr. 25. gr. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar. Reglurnar öðlast gildi við skil skattframtals til skattyfirvalda, innan tilskilins frests, í fyrsta sinn árið 1996.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið, 12. september 1995.
Ingibjörg Pálmadóttir.
Páll Sigurðsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica