Félagsmálaráðuneyti

524/1996

Reglugerð um greiðslu atvinnuleysisbóta. - Brottfallin

REGLUGERÐ

um greiðslu atvinnuleysisbóta.

 

I. KAFLI

Biðtími eftir atvinnuleysisbótum.

1. gr.

Atvinnuleysisbætur greiðast þeim sem verið hefur atvinnulaus í þrjá daga samfellt.

Atvinnuleysisbætur greiðast frá og með fyrsta skráningardegi, enda hafi tekjur hlutaðeigandi síðustu sex mánuði fyrir skráningu eigi verið hærri að meðaltali en sem nemur tvöföldum hámarksatvinnuleysisbótum á mánuði.

 

2. gr.

Nú voru meðaltekjur hlutaðeigandi fyrir skatt síðustu sex mánuði fyrir skráningu, hærri að meðaltali en sem nemur tvöföldum hámarksatvinnuleysisbótum á mánuði og frestast þá réttur til atvinnuleysisbóta þar til meðaltekjur fyrir liðinn mánuð verða jafnháar tvöföldum atvinnuleysisbótum.

Biðtíminn reiknast þannig að fundin eru meðallaun á dag með því að deila í meðalmánaðarlaun hlutaðeigandi síðustu sex mánuði fyrir skráningu með tölunni 21.67. Síðan er deilt með þeirri tölu sem þannig fæst, upp í mismuninn á meðalmánaðarlaunum hans og tvöföldum atvinnuleysisbótum á mánuði og segir sú tala sem þannig fæst, til um fjölda biðdaga eftir bótum.

 

II. KAFLI

Skerðing biðtíma milli atvinnuleysistímabila.

3. gr.

Atvinnuleysisbætur greiðast fyrir alla daga, nema laugardaga og sunnudaga, á hverju bótatímabili sem er 260 virkir dagar.

 

4. gr.

Að loknu hverju bótatímabili fellur hinn atvinnulausi af bótum í 16 vikur, þ.e. 80 virka daga, nema hann hafi sótt og lokið endurmenntunar- eða starfsþjálfunarnámskeiðum, eða tekið þátt í átaksverkefnum á vegum sveitarfélaga, í samtals a.m.k. 8 vikur á bótatímabilinu eða 40 virka daga.

Ljúki hinn atvinnnulausi ekki námskeiði, t.d. af þeirri ástæðu að hann fór í vinnu, er stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs heimilt að meta til skerðingar biðtíma þann hluta námskeiðs sem sannanlega var lokið.

 

5. gr.

Með endurmenntunar- og starfsþjálfunarnámskeiði er átt við námskeið þar sem kennt er námsefni sem nýst getur hinum atvinnulausa við atvinnuleit. Til námskeiða í þessu sambandi teljast ekki tómstundanámskeið. Ekki skiptir máli á hvers vegum námskeið er haldið ef námsefni uppfyllir framangreind skilyrði, en þau skulu að jafnaði haldin á dagvinnutíma.

Stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs skal útbúa skrá yfir þau námskeið sem skert geta biðtíma milli atvinnuleysistímabila og senda úthlutunarnefndum.

Nú hefur hinn atvinnulausi sótt námskeið sem ekki er á skrá stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs og er þá heimilt að óska ákvörðunar stjórnar sjóðsins um hvort námskeiðið skuli skerða biðtíma.

 

6. gr.

Við mat á lengd námskeiða skal miða við að hverjar fjórar kennslustundir að viðbættu heimanámi teljist einn virkur dagur.

 

 

7. gr.

Þátttaka í endurmenntunar- og starfsþjálfunarnámskeiðum skerðir biðtíma þannig að hver virkur dagur skv. 6. gr. skerðir biðtíma um tvo virka daga.

Þátttöku í námskeiðum skal sanna með vottorði þess sem staðið hefur fyrir námskeiðinu.

Námskeið má ekki telja með til skerðingar á biðtíma nema vottorð beri með sér að hlutaðeigandi hafi sótt og lokið námskeiðinu, sbr. þó 2. mgr. 4. gr.

 

8. gr.

Úthlutunarnefndum og vinnumiðlunum sveitarfélaga ber að kynna atvinnulausum möguleika á skerðingu 16 vikna biðtíma með þátttöku í endurmenntunar- og starfsþjálfunarnámskeiðum, svo og átaksverkefnum.

 

9. gr.

Þátttaka í átaksverkefnum skerðir biðtíma þannig að hver átta stunda vinnudagur telst einn virkur dagur og skerðir biðtíma um tvo virka daga.

Þátttöku í átaksverkefnum skal sanna með vottorði atvinnurekanda.

 

10. gr.

Stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs getur í samvinnu við líknarfélög, eða aðra sambærilega aðila, hrundið af stað samvinnuverkefnum þar sem hinum atvinnulausu gefst kostur á að sinna verkefnum fyrir samvinnuaðilann án frekara endurgjalds en atvinnuleysisbótanna.

Þátttaka í þessum samvinnuverkefnum skerðir biðtíma með sama hætti og þátttaka í átaksverkefnum, sbr. 9. gr.

 

11. gr.

Nú hefur atvinnulaus maður sannanlega ekki átt kost á þátttöku í námskeiði og skal biðtími þá engu að síður falla niður.

Úthlutunarnefnd skal tilkynna stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs í hvert sinn sem biðtími fellur niður af ástæðum sem tilgreindar eru í 1. mgr.

 

12. gr.

Nú fellur biðtími niður vegna atvika skv. 11. gr. og skal stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs þá leita skýringa úthlutunarnefndar.

III. KAFLI

Starfstími sem maður á að baki sem launamaður í öðru EES-landi.

13. gr.

Atvinnulaus maður verður að fullnægja eftirtöldum skilyrðum til að unnt sé að reikna starfstíma, sem hann á að baki sem launamaður í öðru EES-landi, með starfstíma hér á landi við ákvörðun bóta:

 a.            Hafa unnið hér á landi í samtals a.m.k. 425 dagvinnustundir í tryggingaskyldri vinnu á síðustu 12 mánuðum.

 b.            Hafa skráð sig hjá vinnumiðlun hér á landi eða hafið vinnu hér innan átta vikna frá þeim degi sem atvinnuleysistrygging hans féll niður í því landi sem hann flutti frá.

 c.            Framvísa vottorði (E 301) um starfstíma frá lögbæru yfirvaldi í því landi sem hann flutti frá.

 

14. gr.

Skilyrði a-liðar 13. gr. um vinnu hér á landi á ekki við um þá sem flytja til Íslands frá Danmörku, Finnlandi, Færeyjum, Grænlandi, Noregi eða Svíþjóð og hafa annað hvort starfað í þeim mæli hér á landi að viðkomandi hefði átt rétt á atvinnuleysisbótum samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar eða hefur þegið atvinnuleysisbætur hér á landi á næstliðnum fimm árum frá þeim degi sem skráning hjá vinnumiðlun átti sér stað eða vinna hófst hér á landi, sbr. ákvæði 2. og 3. mgr. 17. gr. Norðurlandasamnings um almannatryggingar, sbr. lög nr. 46/1993.

 

IV. KAFLI

Réttur til bóta við atvinnuleit í öðru EES-landi.

15. gr.

Maður sem óskar eftir að fá íslenskar atvinnuleysisbætur greiddar meðan hann leitar að atvinnu í öðru EES-landi skal fyrir brottför sækja um staðfestingu á bótarétti til Atvinnuleysistryggingasjóðs (vottorð E 303). Umsókn skal að jafnaði lögð fram eigi síðar en þremur vikum fyrir brottför.

Það er skilyrði fyrir greiðslu bóta í öðru EES-landi að umsækjandi fullnægi almennum skilyrðum laga um atvinnuleysistryggingar til að fá greiddar bætur, sé ríkisborgari í EES-landi og hafi á fjórum næstliðnum vikum fyrir brottfarardag:

 a.            verið atvinnulaus með öllu,

 b.            verið skráður samfellt hjá vinnumiðlun og

 c.            verið reiðubúinn að þiggja vinnu.

Atvinnuleysistryggingasjóði er heimilt að staðfesta bótarétt, enda þótt umsækjandi hafi ekki fullnægt ofangreindum skilyrðum allt fjögurra vikna tímabilið, ef hann sýnir fram á að hann hafi þegar tengsl við viðkomandi land, svo sem vegna starfs eða náms maka þar eða vegna þess að honum hafi sjálfum verið gefin fyrirheit um starf þar.

 

16. gr.

Bótaþegi getur að hámarki átt rétt á að fá greiddar bætur í öðru EES-landi í þrjá mánuði frá brottfarardegi en þó aldrei í lengri tíma en bótatímabili hans nemur, sbr. 3. mgr. 22. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Til þess að geta notið bóta allt þriggja mánaða tímabilið verður bótaþegi að hafa skráð sig hjá vinnumiðlun í öðru EES-landi innan sjö daga frá brottfarardegi. Að öðrum kosti miðast greiðsla við skráningardag erlendis.

 

17. gr.

Það að bótaþegi fær vinnu í öðru EES-landi hefur ekki í för með sér framlengingu á þeim tíma sem hann á rétt á að fá greiddar bætur í því landi. Heimilt er að hefja bótagreiðslur að nýju ef maður verður aftur atvinnulaus áður en sá tími, sem hann á rétt á að fá greiddar bætur í öðru EES-landi, er liðinn. Þetta á ekki við ef vinna í öðru EES-landi hefur skapað honum rétt til bóta í því landi.

 

18. gr.

Nú snýr sá sem hefur verið við atvinnuleit í öðru EES-landi aftur til Íslands og skráir sig hér áður en sá tími, sem hann á rétt á greiðslu bóta í öðru EES-landi, er liðinn og á hann þá rétt á greiðslum hér á landi frá fyrsta skráningardegi, enda sé bótatímabil hans ekki útrunnið.

Ef bótaþegi skráir sig ekki hér, fyrr en eftir að sá tími, sem hann á rétt á greiðslu bóta í öðru EES-landi, er liðinn, fellur bótaréttur hans niður. Hann öðlast ekki bótarétt aftur nema hann hafi unnið samtals a.m.k. 425 dagvinnustundir í tryggingaskyldri vinnu eftir að hann sneri til baka úr atvinnuleit í öðru EES-landi og fullnægi að öðru leyti almennum skilyrðum 16. gr. laga um atvinnuleysistryggingar fyrir bótarétti.

 

19. gr.

Sá sem fengið hefur vottorð E 303 til atvinnuleitar í öðru EES-landi, og skráð sig hjá vinnumiðlun þar, getur ekki öðlast aftur slíkan rétt nema hann hafi unnið samtals a.m.k. 425 dagvinnustundir í tryggingaskyldri vinnu eftir að hann sneri til baka úr atvinnuleit í öðru EES-landi og fullnægi að öðru leyti almennum skilyrðum 16. gr. laga um atvinnuleysistryggingar fyrir bótarétti.

 

V. KAFLI

Gildistaka.

20. gr.

Reglugerð þessi sem sett er með stoð í lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 93/1993, með síðari breytingum öðlast þegar gildi. Um leið fellur úr gildi reglugerð með sama heiti, nr. 247/1993.

 

Félagsmálaráðuneytinu, 28. september 1996.

 

Páll Pétursson.

Anna G. Björnsdóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica