Fara beint í efnið

Prentað þann 19. apríl 2024

Stofnreglugerð

505/2008

Reglugerð fyrir Bláskógaveitu.

I. KAFLI Almenn ákvæði.

1. gr. Eignarhald.

Bláskógaveita er fyrirtæki sem Bláskógabyggð á og starfrækir sem sjálfstætt fyrirtæki, hér eftir nefnt Bv. Fjárhagur hennar er aðskilinn frá fjárhag sveitarsjóðs með sérstökum ársreikningi.

2. gr. Tilgangur.

Megintilgangur Bv er rekstur hita- og vatnsveitu og önnur starfsemi sem tengist vinnslu, dreifingu, kaupum og sölu á heitu og köldu vatni.

3. gr. Veitusvæði.

Veitusvæði Bv í Biskupstungum er landsvæði jarðanna Laugaráss, Fells, Brautarhóls og Litla Fljóts auk þéttbýlisins í Reykholti. Í Laugardal er veitusvæði Bv jarðirnar Laugarvatn, Snorrastaðir, Hjálmstaðir, Ketilvellir, Miðdalur og Miðdalskot. Bv hefur einkarétt til sölu heits vatns á veitusvæði sínu.

Bv er heimilt með samningum að veita og selja heitt vatn út fyrir veitusvæðið sem áður er tilgreint, enda hafi öðrum ekki verið veitt einkaleyfi til slíkrar sölu. Ennfremur er Bv heimilt að gera þjónustu- og/eða umsýslusamninga við aðrar veitur vegna nýrra verkefna.

4. gr. Stjórn.

Veitunefnd fer með stjórn Bv í umboði sveitarstjórnar. Veitunefnd skal skipuð 3 mönnum og 3 til vara. Kjörtímabil hennar er hið sama og kjörtímabil sveitarstjórnar. Um veitunefnd gilda ákvæði IV. kafla sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, með síðari breytingum.

5. gr. Verksvið veitunefndar.

Helstu verkefni veitunefndar eru að:

  1. Annast stefnumótun um uppbyggingu og rekstur veitunnar í samræmi við samþykktir sveitarstjórnar.
  2. Gera áætlanir um öflun og dreifingu á heitu og köldu vatni og vinna að framkvæmd þeirra í samræmi við samþykktir sveitarstjórnar og gildandi lög á hverjum tíma.
  3. Gera tillögu um gjaldskrá Bv og leggja hana fyrir sveitarstjórn og óska staðfestingar iðnaðarráðherra.
  4. Semja drög að fjárhagsáætlun fyrir veituna og leggja fyrir sveitarstjórn.
  5. Gera tillögu um ráðningu veitustjóra og framkvæmdastjóra til sveitarstjórnar.
  6. Gera samninga um vatnskaup og vatnssölu.
  7. Setja nánari reglur um einstök framkvæmdaratriði reglugerðar þessarar eftir því sem þörf gerist og leggja fyrir sveitarstjórn.
  8. Gera skil á ársreikningi í samræmi við gildandi lög.
  9. Stjórn skal setja veitustjóra og framkvæmdastjóra starfslýsingu (ráðningarsamning).

6. gr. Veitustjóri.

Við Bv skal starfa veitustjóri. Hann skal ráðinn af sveitarstjórn. Hann annast daglegan rekstur veitunnar og ræður starfsmenn til hennar samkvæmt starfslýsingu (ráðningarsamningi). Veitustjóri situr fundi veitunefndar og hefur málfrelsi og tillögurétt.

7. gr. Framkvæmdastjóri.

Veitustjórn getur lagt til við sveitarstjórn að ráða framkvæmdastjóra til Bv. Sé framkvæmdastjóri ráðinn skal hann sjá um daglegan rekstur ásamt veitustjóra og í samræmi við ráðningarsamning.

8. gr. Reikningshald og ráðstöfun tekna.

Skrifstofa Bláskógabyggðar sér um bókhald fyrirtækisins en veitunefnd fylgist með stöðu fyrirtækisins á hverjum tíma og gætir þess að bókhald sé rétt og tímanlega fært.

Reikningsár Bv er almanaksárið og skulu reikningar hennar vera hluti af samstæðureikningum Bláskógabyggðar og vera áritaðir af endurskoðendum Bláskógabyggðar í samræmi við ákvæði sveitarstjórnarlaga. Tekjum Bv skal varið til þess að standa straum af nauðsynlegum rekstri og stofnkostnaði þannig að tryggður sé öruggur rekstur veitunnar, svo og til greiðslu afborgana og vaxta af skuldum hennar. Ráðstöfun hagnaðar eða jöfnun taps skal ákveðin af sveitarstjórn að fengnum tillögum veitunefndar.

Heimilt er að mynda framkvæmdasjóð, ef hentugt þykir, til undirbúnings kostnaðarsamra áfanga í uppbyggingu Bv.

II. KAFLI Gjaldskrá, söluskilmálar og innheimta.

9. gr. Almennt.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar setur Bv gjaldskrá, að fenginni tillögu veitunefndar. Gjaldskrá sem hlotið hefur samþykki sveitarstjórnar skal send iðnaðarráðherra til staðfestingar og skal hún birt í B-deild Stjórnartíðinda.

Skilyrði fyrir samningi um nýtingarétt á vatni er að í gildi sé samþykkt umsókn um tengingu. Sækja skal um tengingu á þar til gerðum eyðublöðum.

10. gr. Vatnsveita.

Um gjaldskrá og söluskilmála fyrir kalt vatn gilda ákvæði reglugerðar nr. 401/2005 fyrir vatnsveitur sveitarfélaga.

11. gr. Hitaveita.

Við upphaf og lok samnings um nýtingarétt á heitu vatni skal send inn umsókn til veitustjóra um aðild eða breytingar ásamt upplýsingum um vatnsmagn það sem viðskiptavinur óskar að fá, þar sem hemlanotkun gildir. Ef um breytingu á aðild er að ræða skal umsóknin undirrituð af báðum aðilum, þ.e. þeim sem hætta viðskiptum og þeim er tekur við.

12. gr. Gjaldskrá fyrir mælanotkun.

Bv ákveður stærð og gerð mæla sem eru í mælagrind. Gjaldi vegna nýtingaréttar á heitu vatni er skipt í mælagjald og gjald fyrir hvern rúmmetra vatns, ásamt föstu gjaldi á mínútulítra eftir notkunarflokkum þar sem hemlanotkun er. Greiðsla fastagjalds hefst eftir að uppsetningu tengigrindar/tengingu er lokið, óháð því hvenær önnur viðskipti hefjast. Viðskiptavinur skal greiða mælagjald þrátt fyrir stöðvun á vatnsafhendingu vegna vanskila eða annarra vanefnda viðskiptavinar þar til samningurinn er úr gildi fallinn vegna uppsagnar.

13. gr. Reikningar, uppgjör o.fl.

Viðskiptavinur skal greiða samkvæmt gildandi gjaldskrá Bv á hverjum tíma. Við breytingar á gjaldskrá skal reikningsfæra notkun í beinu hlutfalli við gildistíma hverrar gjaldskrár á því tímabili sem reikningurinn tekur til. Bv má byggja reikninga á áætlun um viðskiptin og innheimta samkvæmt slíkri áætlun. Reikningar, sem byggjast á sannreyndri notkun, nefnast álestrarreikningar en reikningar, sem byggjast á áætlun, nefnast áætlunarreikningar.

Vatnsnotkun skal sannreyna eigi sjaldnar en á u.þ.b. 12 mánaða fresti. Þegar vatnsnotkun hefur verið sannreynd skal hún reikningsfærð og gerð upp fyrir tímabilið milli álestra.

Þar til vatnsmælir hefur verið settur upp, eða ef vatnsmælir bilar, áætlar Bv vatnsnotkun með hliðsjón af eðlilegri þörf viðkomandi húss/mannvirkja.

Viðskiptavinur getur, gegn greiðslu mælaálestrargjalds, krafist aukaálesturs og uppgjörs miðað við sannreynda notkun. Ennfremur getur hann óskað eftir breytingu á áætlun um notkun vegna nýrra forsendna.

Reikninga skal senda viðskiptavini á þann stað sem hann tiltekur. Reikninga ber að greiða á tilgreindum gjalddaga og eigi síðar en á eindaga. Sé reikningur eigi greiddur innan tilgreinds frests (fyrir eindaga) er kemur fram á reikningi, reiknast dráttarvextir frá gjalddaga, samkvæmt ákvæðum laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Útsending reikninga fyrir heitavatnsnotkun skal fara fram eigi sjaldnar en annan hvern mánuð.

Ef leigutaki óskar eftir að mælir sé prófaður skal hann senda skriflega beiðni til Bv þar að lútandi. Ef kemur í ljós við athugun mælis að mesta skekkja sé 5% eða minni er heimilt að gera leigutaka að greiða kostnað við prófunina. Sé skekkjan meiri skal Bv bera kostnað við prófunina og leiðrétta reikninga leigutaka í samræmi við niðurstöður hennar, þó ekki fyrir lengri tímabil en 2 mánuði, nema leigutaki geti sannað að um lengra tímabil hafi verið að ræða. Öll þau sömu ákvæði og hér eru talin um mæla skulu jafnframt gilda um söluhemla ef þeir eru notaðir í einstökum tilfellum.

III. KAFLI Almenn ákvæði um tengingu húsveitna.

14. gr. Eigandi/viðskiptavinur húsveitu.

Eigandi húseignar eða annarra mannvirkja sem tengjast Bv telst eigandi húsveitu. Kaupandi heits vatns nefnist viðskiptavinur. Húseigandi er ábyrgur fyrir vatnsgjaldi vegna neysluvatns í samræmi við ákvæði laga um vatnsveitur sveitarfélaga, nr. 32/2004. Ennfremur er húseigandi ábyrgur fyrir skilvísri greiðslu viðskiptavinar í þeim tilfellum sem viðskiptavinur er leigjandi húseiganda.

15. gr. Afhending og meðferð vatns, eignaréttur o.fl.

Bv lætur leggja og á allar lagnir veitukerfisins, þ.m.t. stofnæðar/aðalæðar, dreifiæðar/götuæðar, heimæðar inn fyrir húsveggi og mælitæki og annast Bv rekstur og viðhald þeirra.

Sé um óskipulagt svæði að ræða eða aðstæður óvenjulegar að því er varðar fjarlægð húsveitu frá veitukerfi eða fyrirhugaða vatnsnotkun húsveitunnar skal heimæðagjald ákveðið samkvæmt sérstökum samningi hverju sinni þar sem hliðsjón er höfð af stofnkostnaði við framkvæmdir.

Bv sér um tengingu við húsveitu viðskiptavinar. Við framkvæmdina skal Bv halda raski í lágmarki og ganga þrifalega um. Bv ákveður staðsetningu mælagrindar og inntaks í samráði við húseiganda. Húseigandi á ekki kröfu um sérstaka greiðslu fyrir óþægindi vegna lagningar veitukerfisins.

Bv er heimilt að krefjast lágmarksgjalds sé lokað fyrir húsveitu um lengri eða skemmri tíma.

16. gr. Heimæðar.

Heimæð er vatnslögn sem liggur frá dreifikerfi Bv að stofnkrana/mælitæki í inntaksrými húsveitu og er ætlað að sjá notendum fyrir vatni.

Sækja skal um lagningu heimæðar til Bv á þar til gerðu eyðublaði áður en framkvæmdir hefjast á lóð. Umsókn skulu fylgja teikningar samþykktar af byggingaryfirvöldum í Bláskógabyggð og skal á þeim gerð grein fyrir afstöðu húss/mannvirkis og væntanlegum inntaksstað fyrir heitt vatn. Hönnuðir skulu hafa samráð við Bv um væntanlega legu lagna á lóð og gera grein fyrir þeim á teikningum.

Umsókn um heimæð eða breyting á þeim skal undirrituð af húseiganda er skuldbindur sig, með undirskrift sinni, að greiða tilskilin gjöld sem ákveðin eru í gjaldskrá Bv og að hlíta settum reglum um kaup á vatni frá Bv.

Húseiganda ber að koma fyrir ídráttarröri, skv. 22. gr. reglugerðar um vatnsveitur sveitarfélaga, nr. 401/2005.

Bv kostar lagningu eigin veitukerfis, en húseigandi greiðir heimæðar-/tengigjöld og stofngjöld samkvæmt gjaldskrá fyrir hverja heimæð og mælagrind. Húseigandi skal standa straum af kostnaði við breytingu á húsveitu vegna tengingar við Bv. Húseigandi kostar breytingu á heimæðum sem nauðsynlegar eru vegna framkvæmda hans og skal hann fyrirfram sækja um leyfi til hverrar þeirra framkvæmda sem kunna að hafa í för með sér röskun á veitukerfi Bv.

Heimilt er að krefja húseiganda um greiðslu aukakostnaðar vegna lagningar heimæðar að ósk hans í frosna jörð.

Óheimilt er að tengja dælur við heimæðar og innanhússkerfi nema með leyfi veitustjóra.

17. gr. Mælitæki.

Bv setur upp nauðsynleg mælitæki og ákveður staðsetningu þeirra. Ekki má flytja tækin án samþykkis Bv.

Bv getur krafist flutnings mælitækja ef það þykir hentugra að mati veitustjóra.

Húseigandi skal bera ábyrgð á mælitækjum og vatnsnotkun þar til hann tilkynnir Bv um lok notkunar.

Bv annast venjulegt viðhald mælitækja á sinn kostnað en verði mælitæki fyrir óvenjulegu hnjaski eða skemmdum, sem rekja má til húseiganda, er heimilt að skylda hann að greiða kostnað við viðhald og endurnýjun þess.

Viðskiptavinur greiðir leigu fyrir afnot mælitækja samkvæmt gjaldskrá Bv.

Starfsmönnum Bv ber skylda til að innsigla mælitæki. Þessi innsigli mega engir aðrir rjúfa en starfsmenn Bv nema skjótra aðgerða sé þörf vegna hættuástands. Þá er heimilt að rjúfa innsigli en viðkomandi skal þá tilkynna Bv skriflega um málsatvik eigi síður en næsta dag á eftir.

IV. KAFLI Lagning veitukerfa, tengingar o.fl.

18. gr. Vatnsveita.

Um veitukerfi vatnsveitu gilda ákvæði reglugerðar um vatnsveitur sveitarfélaga nr. 401/2005.

19. gr. Hitaveita.

Sækja skal um uppsetningu tengibúnaðar vegna vatnsafhendingar eða breytingar á lögn nýrra hitunarkerfa á þar til gerðum eyðublöðum. Umsóknin skal undirrituð af eiganda húss eða fullgildum umboðsmanni hans og skal vera í samræmi við byggingarreglugerð.

Tengigrind er sett upp þegar stofngjald/tengigjald hefur verið greitt.

20. gr. Áhleypingar.

Engir aðrir en umboðsmenn Bv mega hleypa vatni úr kerfum veitunnar á hitakerfi húsa í fyrsta sinn eftir tengingu. Verði húsveita tengd veitukerfi Bv í heimildarleysi getur Bv aftengt húsveituna fyrirvaralaust.

21. gr. Aðgangur að lögnum.

Bv er heimilt að leggja heimæð um lóð og húseigandi skal sjá fyrir inntaksstað fyrir hitaveitu við útvegg húss. Í innrými skal vera rúm fyrir nauðsynlegan búnað og það rými skal vera aðgengilegt starfsmönnum Bv. Í þeim undantekningartilfellum þar sem inntak hitaveitu og mælagrind eru ekki í sama herbergi, skal lögn þar á milli vera óhulin eða í stokk sem auðvelt er að opna og ber húseigandi ábyrgð á tjóni er leki þar á milli kann að valda.

Óheimilt er að hylja mælagrind á þann hátt að það valdi erfiðleikum við viðhald og viðgerðir. Ekki má setja hillur eða annað ofan við mæli þannig að það hindri eðlilegan aflestur og getur Bv krafist úrbóta sé frágangur umhverfis mælagrind ekki í samræmi við ákvæði reglugerðar.

Heimilt er Bv að nýta bakrásarvatn til endurvinnslu eftir að húseigandi hefur notað það. Óheimilt er að tengja vatnsdælur, varmadælur og annan slíkan búnað við framrás eða bakrás hitaveitu nema með leyfi veitustjóra.

22. gr. Eigandi heimæðar.

Heimæð ásamt mælitækjum er eign Bv enda þótt heimæðagjald/tengigjald eða stofngjald hafi verið greitt nema um annað hafi sérstaklega verið samið.

V. KAFLI Sala á heitu vatni.

23. gr. Almennt.

Bv selur heitt vatn á veitusvæði sínu með þeim skilmálum sem ákveðnir eru í reglugerð þessari og gjaldskrá á hverjum tíma.

Bv krefst þess að hver sem óskar að gerast viðskiptavinur sæki um það skriflega og geri grein fyrir vatnsþörf og til hverra nota vatnið sé ætlað.

Á þeim stöðum sem flutningsgeta veitukerfisins leyfir ekki umbeðið afl án sérstakra ráðstafana ákveður veitustjóri nánari skilmála.

Stjórn Bv getur tekið sér frest allt að eitt ár til að verða við beiðni. Heimilt er að setja það skilyrði fyrir kaupum að lagning dreifiæða um landareignir sé Bv að kostnaðarlausu varðandi bætur til landeigenda.

Verði um ágreining að ræða milli stjórnar Bv og húseiganda er hægt að sækja mál til sveitarstjórnar.

24. gr. Rekstrartruflanir.

Bv er ekki bótaskyld þótt viðskiptavinir verði fyrir tjóni vegna frosta, ófullnægjandi hita, rafmagnstruflana, náttúruhamfara, breytinga á hverum eða af öðrum óviðráðanlegum orsökum.

Bv getur fyrirskipað takmörkun á notkun heits vatns um lengri eða skemmri tíma, ef hún telur það nauðsynlegt, eða stöðvað notkun vegna viðgerða. Takmörkunin/stöðvunin hefur ekki áhrif á greiðslu fastagjalds (aflgjalds og/eða mælagjalds).

Óviðráðanlegar breytingar á þrýstingi, hitastigi eða magni vatns eru án ábyrgðar Bv. Um breytingar sem stafa af öðrum ástæðum skal Bv tilkynna viðskiptavinum með hæfilegum fyrirvara.

VI. KAFLI Innheimta vanskila, viðurlög við brotum o.fl.

25. gr. Stöðvun vatnsafhendingar. Vatnsveita.

Um innheimtu vanskilagjalda og stöðvun vatnsafhendingar vegna gjalda fyrir kalt vatn gilda ákvæði laga um vatnsveitur sveitarfélaga, nr. 32/2004, og reglugerð um sama efni, nr. 401/2005.

26. gr. Stöðvun vatnsafhendingar. Hitaveita.

Það eru vanskil, ef reikningur (fasta-, álestrar- eða áætlunarreikningur) er ekki greiddur á eindaga, og reiknast þá hæstu löglegir dráttarvextir frá gjalddaga á vanskilin. Ef reikningar eru komnir yfir eindaga sendist skuldin sjálfkrafa til innheimtu hjá lögfræðingi með tilheyrandi kostnaði.

Bv hefur rétt til að loka fyrir aðrennsli heita vatnsins hjá viðskiptavini sem vanrækir að greiða hitaveitugjöldin eða ítrekað hunsar tilmæli starfsmanns veitunnar um nauðsynlegar úrbætur á rekstrinum og viðskiptavinur vanefnir skyldur sínar samkvæmt reglugerð þessari.

Fyrirmælum um lokun ber að tilkynna með skriflegri viðvörun til viðskiptavinar með minnst 10 daga fyrirvara. Viðskiptavinur greiðir sérstakt opnunargjald samkvæmt gjaldskrá þegar vatni er hleypt á aftur.

Verði lokað fyrir húsveitu vegna skulda, skal að jafnaði ekki opnað aftur nema skuldin sé að fullu greidd eða trygging sett fyrir skilvísri greiðslu.

27. gr. Fjárnám.

Öll gjöld samkvæmt reglugerð þessari, svo og gjaldskrá settri samkvæmt henni má innheimta með fjárnámi skv. 10. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga um aðför, nr. 90/1989, sbr. 79. gr. orkulaga, nr. 58/1967, með síðari breytingum.

28. gr. Viðurlög.

Brot á reglugerð þessari varða sektum, nema þyngri refsing liggi við samkvæmt lögum. Ef brot veldur skemmdum á eigum Bv eða veldur veitunni tjóni á annan hátt skal hinn brotlegi að auki bæta þann skaða.

Vanræki húseigandi að vinna verk sem honum ber samkvæmt reglugerð þessari eða sé verk ekki unnið á viðunandi hátt, er Bv heimilt að láta vinna það á hans kostnað, hafi hann ekki orðið við tilmælum um að vinna verkið innan tiltekins frests.

Með ágreining vegna reglugerðar þessarar skal farið að hætti opinberra mála.

29. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi sem samþykkt er af sveitarstjórn Bláskógabyggðar er sett samkvæmt heimild í orkulögum, nr. 58/1967, með síðari breytingum og í samræmi við lög um vatnsveitur sveitarfélaga, nr. 32/2004, sbr. tilvísanir í reglugerð um sama efni nr. 401/2005. Ljósti reglugerð þessari eða einstökum ákvæðum hennar saman við framangreinda reglugerð um vatnsveitur sveitarfélaga, gildir síðarnefnda reglugerðin.

Reglugerð þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð fyrir Hitaveitu Laugaráss, nr. 204/1985.

Gjaldskrár settar á grundvelli eldri reglugerða skulu halda gildi sínu þar til nýjar verða settar á grundvelli þessarar reglugerðar.

Iðnaðarráðuneytinu, 14. maí 2008.

Össur Skarphéðinsson.

Kristján Skarphéðinsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.