Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti

500/2010

Reglugerð um sérstakan stuðning við búvöruframleiðslu árin 2010-2012 vegna eldgoss í Eyjafjallajökli. - Brottfallin

I. KAFLI

Framleiðsla mjólkur og nautgripa skv. X. kafla búvörulaga.

1. gr.

Þrátt fyrir ákvæði 53.-55. gr. laga nr. 99/1993 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum er Matvælastofnun heimilt að ákveða að beingreiðslur skv. X. kafla laganna verði greiddar til lögbýlis samkvæmt greiðslumarki þess óháð framleiðslu á lögbýlinu, þó ekki lengur en til fardaga 2012, ef framleiðsluskilyrði á lögbýlinu hafa raskast tímabundið vegna náttúruhamfara, t.d. stórfellds öskufalls eða jökulflóða, enda sé a.m.k. annað þessara skilyrða einnig uppfyllt:

  1. Greiðslumark lögbýlis, að hámarki eins og það var við upphaf náttúruhamfara, er lagt inn til geymslu, sbr. 3. mgr. 53. gr. laganna. Beingreiðslur eru greiddar skráðum handhafa réttar til beingreiðslna með jöfnum framlögum þannig að hann verði jafnsettur öðrum sem njóta greiðslnanna.
  2. Framleiðandi gerir samkomulag við framleiðanda á öðru lögbýli um tímabundna nýtingu á greiðslumarki lögbýlisins (en ekki aðilaskipti). Þar skal kveðið á um að mjólk verði lögð inn í afurðastöð í nafni þess lögbýlis þar sem framleiðsluskilyrði hafa raskast. Beingreiðslur skal greiða skráðum handhafa réttar til beingreiðslna á því býli.

Matvælastofnun er heimilt að krefjast þess að beiðni samkvæmt þessari grein fylgi umsögn héraðsráðunautar um búrekstrarskilyrði á lögbýli auk annarra gagna sem skipt geta máli að áliti stofnunarinnar. Beiðni skv. b. lið skal fylgja skriflegt samþykki aðila að ráðstöfuninni. Það getur fyrst öðlast gildi við tilkynningu til Matvælastofnunar.

2. gr.

Matvælastofnun er heimilt að ákveða að framleiðendur sem hafa lagt a.m.k. 10% af greiðslumarki sínu inn til geymslu með heimild í a. lið 1. gr. eigi rétt á gripagreiðslum sem nema jafngildi þess sem þeir hefðu notið ef bú þeirra hefði verið óraskað.

Við þessa ákvörðun skal miða við síðasta útreikning árskúa áður en beiðni kemur fram, skv. 5. gr. reglugerðar nr. 567/2006 um gripagreiðslur á lögbýlum. Lengst getur þessi heimild náð til fardaga 2012.

II. KAFLI

Framleiðsla sauðfjárafurða skv. IX. kafla búvörulaga.

3. gr.

Matvælastofnun er heimilt að víkja frá ásetningshlutfalli skv. 3. mgr. 39. gr. laga nr. 99/1993 á framleiðsluárunum 2010, 2011 og 2012 á býlum þar sem framleiðsluskilyrði hafa raskast tímabundið vegna náttúruhamfara, t.d. stórfellds öskufalls eða jökulflóða.

Matvælastofnun er heimilt að ákveða að sauðfjárframleiðendur sem búa á býlum þar sem svo hagar til sem að framan greinir, með þeim afleiðingum að búskapur hefur dregist saman eða fallið niður um tíma, geti haldið venjulegri gæðastýringargreiðslu úr ríkissjóði skv. 41. gr. á framleiðsluárunum 2010, 2011 og 2012. Við ákvörðun greiðslnanna er heimilt að taka mið af því framleiðsluári þegar afurðir voru mestar á árunum 2007-2009.

4. gr.

Beiðni til Matvælastofnunar um lækkað ásetningshlutfall og/eða óbreyttar greiðslur samkvæmt gæðastýringu í sauðfjárrækt, skv. 3. gr. skal lögð fram eigi síðar en í lok viðkomandi framleiðsluárs, svo hún teljist gild fyrir framleiðsluárið.

Matvælastofnun er heimilt að krefjast þess að beiðni skv. 1. mgr. fylgi umsögn héraðsráðunautar um búrekstrarskilyrði á lögbýlinu, auk annarra gagna sem skipt geta máli að áliti stofnunarinnar.

III. KAFLI

Kæruleið. Gildistími.

5. gr.

Ágreiningur um framkvæmd þessarar reglugerðar verður borinn undir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til úrskurðar samkvæmt stjórnsýslulögum.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í lögum nr. 99/1993 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum. Reglugerðin öðlast gildi við birtingu.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, 9. júní 2010.

F. h. r.

Sigurgeir Þorgeirsson.

Arnór Snæbjörnsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica