Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 19. mars 2024

Reglugerð með breytingum síðast breytt 11. des. 2007

463/1999

Reglugerð um framkvæmd almannatrygginga og skráningu í tryggingaskrá.

1. gr. Almenn ákvæði.

Tryggingastofnun ríkisins skal halda sérstaka skrá um tryggingaréttindi einstaklinga. Skráin skal vera til viðbótar við Þjóðskrá og nefnast tryggingaskrá.

2. gr. Tryggingaskrá.

Í tryggingaskrá skal skrá eftirfarandi grunnupplýsingar: Nafn, kennitölu, tryggingarland, tímabil tryggingar og grundvöll skráningar. Einnig skal skrá réttindi á grundvelli alþjóðasamninga eða milliríkjasamninga sem Ísland hefur gert við önnur ríki um almannatryggingar. Þá skal skrá staðfestingar og aðrar ákvarðanir um tryggingarétt einstaklinga.

3. gr. Tilkynning til Tryggingastofnunar.

Tryggingastofnun ríkisins skal útbúa tilkynningarblað sem liggi frammi hjá Tryggingastofnun, umboðum hennar og á þeim stöðum þar sem tilkynningar aðsetursskipta fara fram.

Einstaklingar sem flytja til landsins skulu senda tilkynningarblaðið til Tryggingastofnunar og láta fylgja vottorð um tryggingar og tryggingatímabil frá erlendum tryggingastofnunum eftir því sem við á.

4. gr. Grundvöllur skráningar.

Tryggingastofnun ríkisins skal kanna hvort viðkomandi er tryggður og færa upplýsingar um tryggingaréttindi í tryggingaskrá. Einstaklingar skulu fá skriflegt svar um tryggingaréttindi sín og skírteini, ef við á.

5. gr. Búseta.

Sá sem búsettur er hér á landi telst tryggður að uppfylltum öðrum skilyrðum almannatryggingalaga. Með búsetu er átt við lögheimili í skilningi lögheimilislaga.

Sá sem flytur búsetu sína frá Íslandi telst ekki lengur tryggður.

6. gr. Milliríkjasamningar.

Þeir sem eiga að vera tryggðir skv. ákvæðum milliríkjasamninga skulu skráðir þótt ákvæðum 5. gr. sé ekki fullnægt, að fullnægðum öðrum skilyrðum laganna.
Einnig skal skrá þá sem réttinda eiga að njóta samkvæmt milliríkjasamningum án þess þó að teljast tryggðir á Íslandi.

7. gr.

Taka skal til greina trygginga,- starfs,- eða búsetutímabil frá ríkjum sem samningar hafa verið gerðir við að því marki sem nauðsynlegt er til þess að fullnægja skilyrðum almannatrygginga varðandi ákvörðun um tryggingu. Einungis eru tekin til greina búsetu- eða starfstímabil hafi viðkomandi verið tryggður á sama tíma.

Tímabilin skulu staðfest af tryggingayfirvöldum viðkomandi ríkis á þar til gerðum eyðublöðum. Heimilt er að víkja frá kröfu um formlega staðfestingu skv. 1. ml. þegar einstaklingur hefur flutt frá Íslandi til Norðurlanda og verið þar búsettur í styttri tíma en eitt ár.

Til að öðlast rétt til elli-, örorku- eða barnalífeyris skulu lágmarks tryggingatímabil á Íslandi þó ávallt vera 1 ár.

Hafi lengri tími en tveir mánuðir liðið frá því að tryggingatímabili var lokið, sbr. 1. mgr., er ekki skylt að taka tryggingatímabilin til greina.

8. gr. Undanþágur vegna sjúkratrygginga.

Heimilt er að veita ótryggðum einstaklingum undanþágur frá ákvæðum 37. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar um að einstaklingar hafi verið búsettir á Íslandi í sex mánuði áður en þeir teljist sjúkratryggðir, í eftirfarandi tilvikum:

a) Þegar um er að ræða nauðsynlega þjónustu í skyndilegum sjúkdómstilfellum.
b) Þegar um er að ræða einstakling sem íslensk sóttvarnayfirvöld krefjast að undirgangist skoðun og/eða rannsókn vegna gruns um alvarlegan smitsjúkdóm eða ef staðfest er að viðkomandi hafi veikst af slíkum sjúkdómi og að nauðsynlegt er að hefja meðferð án tafar. Undanþágan tekur einungis til greiningar og meðferðar sbr. sóttvarnarlög og reglugerðir á grundvelli þeirra.
c) Þegar um er að ræða nýrnasjúkling sem þarfnast reglulega meðferðar í nýrnavél eða sjúkling sem þarfnast súrefnis. Undanþágan tekur einungis til nefndrar meðferðar.
d) Þegar um er að ræða námsmann sem flutt hefur lögheimili sitt frá Íslandi á námstíma vegna náms erlendis og flytur aftur til Íslands innan sex mánaða frá námslokum.
e) Þegar um er að ræða einstakling sem haldinn er lífshættulegum sjúkdómi og flytur hingað til lands til varanlegrar búsetu, enda hafi hann áður verið búsettur hér á landi í a.m.k. 20 ár og eigi hér nána ættingja. Sama á við um barn undir 20 ára aldri sem haldið er lífshættulegum sjúkdómi og flytur hingað til lands með foreldrum eða foreldri sem uppfyllir framangreint skilyrði um búsetu.

Tryggingastofnun ríkisins veitir ofangreindar undanþágur og gefur út sérstakt skírteini ef skilyrðum er fullnægt. Umsókn skal fylgja læknisvottorð og upplýsingar um tryggingar.

9. gr.

Umsækjandi um sjúkradagpeninga, sem leggur niður launaða vinnu skv. 43. gr. almannatryggingalaga, skal hafa unnið hér á landi. Við ákvörðun sjúkradagpeninga skv. 43. gr. skal við það miða hvernig störfum umsækjanda hefur verið háttað hér á landi síðustu tvo mánuðina áður en hann varð óvinnufær.

10. gr. Dvöl erlendis sem ekki er í atvinnuskyni.

Heimilt er að ákveða að einstaklingur sem tryggður er samkvæmt lögunum sé áfram tryggður í allt að eitt ár frá brottför frá Íslandi. Skilyrði er að viðkomandi hafi haft samfellda fasta búsetu hér á landi, sbr. 5. gr., eigi skemur en fimm ár fyrir brottför.

Sækja skal um staðfestingu á tryggingu skv. þessari grein til Tryggingastofnunar eigi síðar en fjórum vikum fyrir brottför. Heimilt er að víkja frá fjögurra vikna frestinum ef atvik eru svo ljós að drátturinn torveldar ekki gagnaöflun um atriði er máli skipta.

Tryggingayfirlýsing skal gefin út til jafnlangs tíma og fyrirhuguð dvöl. Ef dvalartími er óviss er staðfesting gefin til sex mánaða og aldrei lengur en til eins árs hverju sinni.

Ákvæði þessarar greinar gilda ekki ef tilgangur farar er að leita læknismeðferðar og ef milliríkjasamningar kveða á um annað.

11. gr. Dvöl eða búseta erlendis í atvinnuskyni.

Sá sem fer af landi brott í atvinnuskyni telst ekki tryggður, enda leiði annað ekki af lögum, milliríkjasamningum eða ákvæðum reglugerðar þessarar.

Heimilt er að veita einstaklingi sem fullnægir skilyrðum 5. gr. um búsetu, yfirlýsingu um sjúkratryggingu í skyndilegum tilvikum, þegar um er að ræða lausavinnu erlendis sem ekki er ætlað að standa lengur en í þrjá mánuði, en viðkomandi fer ekki til starfa erlendis á vegum vinnuveitanda.

Heimilt er að ákveða að einstaklingur sé tryggður í allt að eitt ár þrátt fyrir starf erlendis, enda sé hann tryggður við upphaf starfsins. Starfið skal vera innt af hendi erlendis fyrir aðila með aðsetur og starfsemi á Íslandi og greiða skal tryggingagjald, sbr. lög um tryggingagjald, hér á landi af launum viðkomandi á starfstímanum.

Sama gildir um maka og börn undir 18 ára aldri sem dveljast með honum.

Heimilt er að framlengja tryggingaskráningu skv. 3. mgr. í allt að fjögur ár til viðbótar, að loknu fyrsta tímabilinu, að undangengnu mati, þar sem m.a. verði kannað hvort skilyrði séu áfram uppfyllt.

Sækja skal um staðfestingu á tryggingu þessari til Tryggingastofnunar eigi síðar en fjórum vikum fyrir brottför af landinu.

Þegar einstaklingur er sendur til starfa í löndum sem samningar hafa verið gerðir við um almannatryggingar, gilda ákvæði þeirra samninga eftir því sem við á.

Ákvæði um sérstök tilvik.

12. gr. Starfsmenn sendiráða, fastanefnda og ræðisskrifstofa.

Íslenskir ríkisborgarar sem gegna störfum erlendis á vegum ríkisins við sendiráð, fastanefnd eða ræðisskrifstofu og taka laun úr ríkissjóði eru tryggðir hér á landi.

Heimilt er að hafa skráningu óbreytta í allt að sex mánuði eftir að störfum lýkur. Snúi viðkomandi ekki aftur til Íslands innan þess tíma fellur rétturinn til að vera skráður niður.

Sama gildir um maka og börn er með þeim dveljast, enda öðlist þeir ekki sjálfstæð réttindi í viðkomandi landi.

Íslenskir ríkisborgarar sem ráðnir eru til starfa við sendiráð, fastanefnd eða ræðisskrifstofu eða í þjónustu sendierindreka án þess þó að vera sendir til starfa á vegum ríkisins eru ekki tryggðir nema annað leiði af milliríkjasamningum, sbr. þó 11. gr. Heimilt er að ákveða að þessir aðilar séu tryggðir ef um það er sótt, utanríkisráðuneytið mæli með því, að um sé að ræða starf sem teljist mikilvægt hagsmunum Íslands erlendis og að þeir geti ekki notið trygginga í gistiríkinu.

13. gr.

Sendierindrekar erlendra ríkja á Íslandi eru ekki tryggðir hjá almannatryggingum.

Sama gildir um maka þeirra og börn sem ekki hafa íslenskt ríkisfang og dveljast hér á landi með þeim, enda öðlist þeir ekki sjálfstæð réttindi á grundvelli atvinnu hér á landi.

Einkaþjónustumenn sem eru erlendir ríkisborgarar er starfa eingöngu í þjónustu sendierindreka og hafa ekki fasta búsetu hér á landi eru ekki tryggðir, enda njóti þeir almannatrygginga í sendiríkinu.

Njóti þessir einstaklingar réttinda hér á landi samkvæmt milliríkjasamningum skal skrá upplýsingarnar í tryggingaskrá, sbr. framlögð vottorð, og gefa út viðeigandi skírteini.

14. gr. Starfsmenn alþjóðastofnana.

Íslenskir ríkisborgarar sem starfa erlendis hjá alþjóðastofnunum og launaðir eru af þeim teljast ekki tryggðir. Heimilt er að ákveða samkvæmt umsókn að einstaklingur teljist tryggður á Íslandi þegar um er að ræða stofnun sem Ísland er aðili að og starfið telst þjóna hagsmunum Íslands erlendis. Skilyrði er að viðkomandi hafi verið tryggður á Íslandi við upphaf starfs og geti ekki notið trygginga á vegum starfs síns eða vinnuveitanda.

Starfsmenn alþjóðastofnana á Íslandi sem búsettir eru hér á landi vegna starfsins eiga rétt á að vera skráðir sem tryggðir að fullnægðum öðrum skilyrðum, enda séu þeir ekki tryggðir í heimalandi sínu.

15. gr. Námsmenn.

Sá sem er búsettur og tryggður hér á landi og dvelst erlendis við nám er áfram tryggður meðan á námi stendur enda sé hann ekki tryggður í almannatryggingum námslandsins. Sama gildir um aðstandendur hans sem með honum dveljast.

Með námsmanni í þessari reglugerð er átt við einstakling, annan en launþega eða sjálfstætt starfandi einstakling, sem er við nám eða starfsþjálfun er lýkur með útgáfu vottorðs um menntun sem viðurkennt er af yfirvöldum.

Heimilt er að veita námsmönnum og fjölskyldum þeirra sömu aðstoð og sjúkratryggðir einstaklingar á Íslandi njóta meðan á tímabundinni dvöl hér á landi stendur á námstímanum.

Heimilt er að hafa skráningu óbreytta í allt að sex mánuði eftir að námi lýkur. Snúi námsmaður ekki aftur til Íslands innan þess tíma fellur réttur til að vera skráður niður.

16. gr.

Erlendir námsmenn sem búsettir eru hér á landi vegna námsins eiga rétt á að vera skráðir sem tryggðir, að fullnægðum öðrum skilyrðum, enda séu þeir ekki tryggðir í heimalandi sínu.

17. gr. Lífeyrisþegar.

Lífeyrisþegar sem taka upp búsetu innan Evrópska efnahagssvæðisins eiga rétt á að halda skráningu sinni sem tryggðir hjá almannatryggingum. Um réttindi þeirra í búsetulandinu fer eftir reglum þess lands.

18. gr. Flóttamenn.

Einstaklingar sem íslenska ríkisstjórnin hefur veitt hæli sem flóttamönnum skulu teljast tryggðir í íslenskum almannatryggingum frá komudegi við framlagningu gagna frá Útlendingastofnun eða Þjóðskrá.

Sameiginleg ákvæði.

20. gr.

Tryggingastofnun ákvarðar hvort einstaklingur telst tryggður samkvæmt almannatryggingalögum og reglugerð þessari. Ef um er að ræða íþyngjandi ákvörðun skal tilkynna einstaklingi um hana skriflega með rökstuðningi.

21. gr.

Ákvörðun um tryggingaréttindi og skráningu samkvæmt þessari reglugerð má skjóta til úrskurðarnefndar almannatrygginga.

22. gr.

Eigi einstaklingur rétt á bótum samkvæmt erlendri löggjöf fyrir sama tímabil og bætur eru greiddar fyrir hér á landi skal draga þær frá nema annað leiði af milliríkjasamningum.

23. gr.

Við framkvæmd reglugerðar þessarar skal taka mið af ákvæðum milliríkjasamninga um almannatryggingar sem Ísland er aðili að, þ.m.t. lagaskilareglum.

Tryggingastofnun ríkisins getur gert samkomulag við stjórnvöld í öðrum ríkjum um undantekningar frá lagaskilareglum reglugerðar Evrópusambandsins nr. 1408/71 um almannatryggingar í samræmi við 17. gr. þeirrar reglugerðar í þágu ákveðinna einstaklinga eða hópa einstaklinga. Við gerð slíks samkomulags skal Tryggingastofnun taka mið af hagsmunum einstaklingsins. Þó skal samkomulag aldrei gert til lengri tíma en 5 ára.

24. gr.

Reglugerð þessi sem sett er með stoð í 66. gr., 9. gr. d, 10. gr., 32. gr. og 54. gr. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar, með síðari breytingum, öðlast gildi 1. júlí 1999.

Við samningu reglugerðar þessarar var höfð hliðsjón af reglugerðum Evrópusambandsins nr. 1408/71 og nr. 574/72 um almannatryggingar sem öðluðust gildi hér á landi 1. janúar 1994, öðrum samningum sem Ísland hefur gert við önnur ríki um almannatryggingar og alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að.

Við gildistöku reglugerðarinnar falla úr gildi reglugerðir nr. 261/1995, nr. 482/1996 og nr. 454/1998. Ennfremur falla ákvæði 6. - 7. gr. og 2. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 655/1994 úr gildi frá sama tíma.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.