Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti

449/1978

Reglugerð um veitingu sérfræðingsleyfa handa lyfjafræðingum - Brottfallin

1. gr.

Umsóknir um sérfræðingsleyfi, ásamt nauðsynlegum gögnum skal senda til heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins.

 

2. gr.

Ráðuneytið leitar álits þeirrar deildar Háskóla Íslands, þar sem lyfjafræði lyf­sala er kennd, um umsækjendur um sérfræðingsleyfi, sbr. 3. gr. Heimilt er að skipa nefnd sérfróða manna til þess að meta og semja álitsgerð um umsóknir um sérfræðingsleyfi.

 

3. gr.

Til þess að kandidat í lyfjafræði geti átt rétt til að öðlast sérfræðingsleyfi, skal hann fullnægja eftirtöldum kröfum:

a) Hann skal að jafnaði hafa starfsleyfi sem lyfjafræðingur hér á landi, sbr. I. kafla laga um lyfjafræðinga nr. 35/1978.

b) Hann skal hafa unnið að minnsta kosti í 5 ár við þá sérgrein, sem hann sækir um sérfræðiviðurkenningu i. Víkja má frá þessu skilyrði, ef umsækjandi hefur öðlast doktorsnafnbót eða licentiatgráðu að loknu framhaldsnámi.

c) Hann skal hafa samið ritgerð um lyfjafræðilegt efni, sem að verulegu leyti er byggð á eigin athugunum og rannsóknum og fengið hana eða hluta hennar birta eða samþykkta til birtingar í viðurkenndu tímariti um lyfjafræði eða öðrum viðurkenndum tímaritum.

Ritgerð þessi skal hafa vísindalegt gildi í þeirri sérgrein sem við á. Hlutur umsækjanda í slíkri vinnu þarf að teljast verulegur, ef um samverkamenn er að ræða.

d) Veiting sérfræðingsleyfa tekur ekki til aðstoðarlyfjafræðinga. Þó má víkja frá þessu skilyrði, ef aðstoðarlyfjafræðingur hefur lokið vísindavinnu, sem metin er gild til doktorsprófs.

 

4. gr.

Sérfræðingsleyfi má veita í eftirtöldum greinum lyfjafræði:

a) Lífræn efnafræði.

b) Lyfjaefnafræði.

c) Lyfjagerðarfræði.

d) Lífefnafræði.

e) Lyfjafræði lækna (pharmacology).

f) Félagslyfjafræði.

g) Öðrum greinum, sem kenndar eru lyfjafræðingsefnum.

 

5. gr.

Þeir lyfjafræðingar sem öðlast hafa sérfræðiviðurkenningu Lyfjafræðingafélags Íslands, áður en lög um lyfjafræðinga nr. 35/1978 tóku gildi, eiga rétt á að öðlast sérfræðingsleyfi samkvæmt reglugerð þessari, en þurfa að staðfesta ósk þess efnis með formlegri umsókn.

 

6. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 16. gr. laga um lyfjafræðinga nr. 35/1978 og öðlast þegar gildi.

 

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið, 15. desember 1978.

 

Magnús H. Magnússon.

Páll Sigurðsson


Þetta vefsvæði byggir á Eplica