Landbúnaðarráðuneyti

399/1993

Reglugerð um varnir gegn útbreiðslu riðuveiki og bætur vegna niðurskurðar. - Brottfallin

REGLUGERÐ

um varnir gegn útbreiðslu riðuveiki og bætur vegna niðurskurðar.

I. KAFLI

Almenn ákvæði.

1. gr.

Eigendum og umráðaaðilum sauðfjár er skylt að tilkynna héraðsdýralækni án tafar ef riðuveiki gerir vart við sig í fjárstofni þeirra eða ef grunur leikur á að sjúkdómurinn leynist í sauðfénu.

Héraðsdýralæknir skal tilkynna yfirdýralækni um sjúkdóminn og fylgja fyrirmælum hans um töku og meðferð á sýnum eða lifandi kindum sem senda skal til rannsóknar. Nákvæm skýrsla um sjúkdómaástand viðkomandi hjarðar og upplýsingar um vanhöld skal fylgja. Héraðsdýralæknir ákveður í umboði yfirdýralæknis hvort farga skuli kind, sem grunur fellur á, gegn bótum skv. 25. gr. laga nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim.

2. gr

Óheimilt er að flytja sauðfé úr hjörðum, sem riðuveiki hefur verið staðfest í, á aðra bæi eða í önnur fjárhús. Þá er óheimilt að flytja hey, heyköggla og hálm, húsdýraáburð, túnþökur og gróðurmold, sláturúrgang og hrámeti úr sláturhúsum til fóðurs yfir varnarlínur eða milli sveita á sýktum svæðum. Óhreina ull má aðeins flytja beint á vinnslustað. Ullarumbúðir skal þvo og sótthreinsa í þvottastöð strax eftir notkun. Ekki má endurnota ullarumbúðir án sótthreinsunar. Heimilt er yfirdýralækni að gera ráðstafanir til að stöðva flutning og notkun flutningatækja og leita fulltingis lögreglu til þess. Kostnað sem leiðir af ákvæðum greinarinnar bera aðilar sjálfir.

Yfirdýralæknir getur gefið undanþágu frá ákvæðum þessarár greinar.

3. gr.

Landbúnaðarráðherra getur að fengnum tillögum yfirdýralæknis fyrirskipað að sauðfé sé haft í sóttkví um lengri eða skemmri tíma þar sem riðuveiki gerir vart við sig. Jafnframt að banna flutning sauðfjár milli héraða, hreppa og einstakra bæja, sé það talið hafa þýðingu til að hindra útbreiðslu riðuveiki. Þá getur yfirdýralæknir fyrirskipað sérstakar litarmerkingar á sauðfé, þar sem sýking hefur fundist eða grunur leikur á um sýkingu. Merkin greiða ríkissjóður og viðkomandi sveitarfélag að jöfnu.

Ennfremur er landbúnaðarráðherra heimilt að fengnum tillögum yfirdýralæknis að fyrirskipa varnaraðgerðir, svo sem sótthreinsun, lyfjameðferð, ónæmisaðgerðir, litamerkingu sauðfjár o.fl., eftir því sem þörf krefur og við á hverju sinni, á kostnað viðkomandi aðila.

4. gr.

Á bæjum þar sem riða hefur verið staðfest skal ekki hýsa sauðfé af öðrum bæjum né fóðra eða brynna því með heimafé, hvorki við fjárrag haust og vor né á öðrum tímum. Ef hýsing er óumflýjanleg skal nota til þess hús þar sem fé hefur ekki verið geymt, þó ekki hlöður né fjós. Sé gegn þessu brotið getur yfirdýralæknir ákveðið að þeim kindum, sem hýstar hafa verið, verði lógað.

Leitast skal við að samræma lögboðnar smalanir innan sveitar og milli sveita. Við allar lögréttir og skilaréttir (aukaréttir) skal vera aðstaða til að einangra sjúkar eða grunaðar kindur. Línubrjóta, fé, sjúkt af riðu og annað fé, sem vekur grunsemdir í göngum, rekstrum og fjársafni, skal einangra án tafar og senda beint í sláturhús eða lóga á staðnum, ef ekki er annars kostur. Héraðsdýralæknir getur ákveðið, að fengnu samþykki yfirdýralæknis og eftir tillögum sveitarstjórnar, að slátra skuli fé sem kemur fyrir að hausti fjarri eiginlegum sumarhögum og öðru fé, sem smithætta kann að stafa af. Skylt er að taka hausinn til rannsóknar og staðfestingar og önnur sýni eftir einkennum samkvæmt áður fengnum leiðbeiningum héraðsdýralæknis. Hræið skal grafa djúpt eða urða rækilega. Eiganda og héraðsdýralækni skal tilkynnt um slíka lógun við fyrsta tækifæri.

Sauðfé af riðubæjum og sérmerkt sauðfé skal draga í sérstakan dilk og skal það njóta forgangs við sundurdrátt hvar sem réttað er. Fjallkóngar, réttarstjórar, hreppsstjórar og bændur almennt við smölun heimalanda sinna, annast framkvæmd 2. og 3. mgr.

5. gr.

Yfirdýralækni er heimilt að láta fara fram skoðun og sýnatöku á sauðfé til þess að kanna útbreiðslu riðuveiki og fyrirskipa að fargað verði sjúkum eða grunsamlegum kindum á hvaða tíma árs sem er. Fjáreigendum er skylt að greiða fyrir slíkum skoðunum og rannsóknum og veita nauðsynlega aðstoð án sérstakrar þóknunar. Förgun skal framkvæmd í samráði við héraðsdýralækni. Hlíta skal fyrirmælum hans og yfirdýralæknis um allt er lýtur að þessu.

6. gr.

Þegar sauðfé er fargað vegna riðuveiki, skal gera samræmda skriflega samninga um allt er lýtur að förgum sauðfjárins, tímabundið fjárleysi á viðkomandi jörð og greiðslu bóta.

Verði riðuveiki vart, eða komi upp rökstuddur grunur um riðuveiki og ágreiningur rís um framkvæmd niðurskurðar, þannig að ekki næst samkomulag skv. 1. mgr., getur ráðherra, að fengnum tillögum yfirdýralæknis, fyrirskipað niðurskurð alls sauðfjár á svæði og tímabundið fjárleysi í þeim tilgangi að hefta útbreiðslu veikinnar.

7. gr.

Þar sem riða hefur verið staðfest er skylt að gera þeim sem erindi eiga í fjárhús á viðkomandi jörð viðvart um smithættu. Skylt er að gera nauðsynlegar ráðstafanir gegn því að menn geti borið veikina með sér. Yfirdýralæknir lætur í té skilti til viðvörunar í þessu skyni, sé þess óskað. Óheimilt er að flytja vélar, tæki og annað sem snert hefur fé eða hugsanlega smitmengast á sýktu svæði til ósýktra svæða, nema héraðsdýralæknir samþykki sótthreinsun.

Fjárklippur, markatengur, lyfjadælur o.fl., sem notað hefur verið á riðubæjum, má ekki nota á öðrum bæjum. Þessi tæki og önnur sem óhreinkast af sauðfé á sýktum svæðum skulu sótthreinsuð samkvæmt fyrirmælum héraðsdýralæknis að lokinni notkun á hverjum bæ.

Eyða skal að fullu sjúku sauðfé með því að brenna það eða grafa. Á sama hátt getur yfirdýralæknir fyrirskipað að eytt sé við förgun hausum og innyflum úr sauðfé frá bæjum þar sem riðuveiki hefur verið staðfest.

8. gr.

Umráðamönnum sauðfjár á svæðum þar sem riðuveiki hefur verið staðfest eða fjárskipti hafa farið fram á síðustu fimm árum er skylt að tilkynna viðkomandi riðunefnd eða héraðsdýralækni um fyrirhugaða flutninga á fé til lífs milli bæja og svæða eða breytingar á tilhögun upprekstrar innan sveitar þar sem riðuhætta er. Héraðsdýralækni er heimilt í samráði við yfirdýralækni að gera ráðstafanir til að stöðva slíka flutninga og láta flytja til baka eða lóga fé sem þannig hefur verið flutt án vitundar hans.

9. gr.

Héraðsdýralæknir skal hlutast til um að fylgst sé með, hvort grunsamlegt sauðfé kemur fyrir í göngum, rekstrum og réttum, og að fé sé skoðað á húsi a.m.k. einu sinni á ári, þar sem riðuhætta er, og að fjáreigendur fái leiðbeiningar um hvernig best verði fylgt reglum um riðuvarnir.

Héraðsdýralæknir skal sjá um að allt sauðfé á bæjum, þar sem yfirdýralæknir hefur fyrirskipað sérstakar litamerkingar, sé merkt.

10. gr.

Heimilt er sveitarstjórn að skipa riðunefnd, að fengum tillögum dýrasjúkdómanefndar. Kostnaður af störfum riðunefndar greiðist úr sveitarsjóði.

11. gr.

Ákvæði þessarar reglugerðar taka einnig til kýlapestar í sauðfé, eftir því sem við á, riðuveiki í geitum og öðrum dýrategundum.

II. KAFLI

Kostnaður og bætur.

12. gr.

Bætur fyrir bústofn miðast við fjártölu samkvæmt síðustu forðagæsluskýrslu, þó ekki fleiri kindur en framvísað er til förgunar. Fjárhæð bóta skal miða við tvöfalt kjötverð í verðflokknum FI og 24 kg fallþunga á hverja kind, auk sláturs og gæru, skv. gildandi verðlagsgrundvelli sauðfjárafurða fyrir förgun.

13. gr.

Afurðatjónsbætur skulu miðast við greiðslumark á því lögbýli þar sem niðurskurður sauðfjár fer fram. Fyrir hvert fjárleysisár skulu þær vera ákveðið hlutfall af heildarverðmæti kjöts, gæra og sláturs samkvæmt verðlagsgrundvelli, eins og fengist hefði fyrir 100% nýtingu greiðslumarks lögbýlisins. Fyrsta/fyrra fjárleysisár skal hlutfall þetta vera 65% ef niðurskurður fer fram að hausti og unnt er að afsetja heyfeng, eða heyöflun hefur ekki farið fram. Sé ekki unnt að afsetja heyfeng og niðurskurður fer fram fyrir árslok skal hlutfallið vera 80%. Sé skorið niður á tímabilinu frá 1. janúar til 31. mars er þetta hlutfall 85%, en 95% á tímabilinu frá 1. apríl og þar til sauðfé er sleppt í sumarhaga. Síðari fjárleysisár er hlutfall bóta 65%. Magntölur og verð afurða skal við útreikning bótafjárhæðar miða við meðaltal verðlagsgrundvallar sauðfjár það haust sem afurðatjónsbæturnar greiðast. Greiðsla skal fara fram í september ár hvert.

Þá skal greiða afurðatjónsbætur vegna tekna sem handhafi greiðslumarks hafði af framleiðslu sauðfjárafurða umfram greiðslumark lögbýlisins, sbr. 5. mgr. 29. gr. laga nr. 99/1993. Þær skulu miðast við sannanlegar tekjur umfram 35% af reiknuðum framleiðslukostnaði sömu afurða samkvæmt verðlagsgrundvelli.

Sé um að ræða förgun sauðfjár hjá aðilum sem ekki eru skráðir fyrir greiðslumarki til framleiðslu sauðfjárafurða skulu afurðatjónsbætur fyrir hvert fjárleysisár miðaðar við samanlagt verðmæti sauðfjárafurða hjá viðkomandi aðila miðað við síðasta skattframtal og eftir sömu hlutföllum og um getur í 1. mgr.

Beinar greiðslur ríkissjóðs til framleiðenda sauðfjárafurða falla niður á fjárleysistíma. Hafi eigandi sauðfjár fengið greiddar beinar greiðslur vegna framleiðslu sem ekki fellur til vegna niðurskurðar skulu þær endurgreiddar samhliða því að uppgjör afurðatjónsbóta fer fram af hálfu ríkissjóðs.

14. gr.

Ef unnt er að nýta afurðir sauðfjár að hluta eða í heild, sem fargað er, kemur verðmæti þeirra afurða til frádráttar bótagreiðslum.

Réttur til bóta glatast að öllu leyti eða að hluta ef eigandi sauðfjár fer ekki eftir ákvæðum um varúðarráðstafanir, fjárleysi á jörðinni, lagfæringu á girðingum, sótthreinsun húsa og kaup á líflömbum. Sama gildir ef eigandi sauðfjár verður sér úti um fé sem hann vissi eða mátti vita með tilliti til aðstæðna að haldið var sjúkdómi eða hefur valdið því með ásetningi eða vanrækslu að sauðfé hans smitaðist. Heimilt er að halda eftir allt að 20% bótafjár þar til sótthreinsun er lokið.

15. gr.

Aðili sem fargað hefur sauðfé vegna riðuveiki skal sótthreinsa útihús og nánasta umhverfi þeirra á eigin kostnað eftir fyrirmælum og undir eftirliti dýralæknis á svæðinu. Ákveða skal í samningi hvernig hreinsun húsa og umhverfis skuli hagað og hvenær lokið. Heimilt er að halda eftir allt að 20% bótafjár þar til sótthreinsun er lokið. Yfirdýralæknir leggur til efni til sótthreinsunar.

Yfirdýralæknir ákveður hvar heimilt sé að taka lömb til fjárskipta. Fjáreigendum á þeim svæðum er skylt að selja öll gimbralömb er þeir hafa til förgunar og hrútlömb, þó þannig að þeir haldi óskertum beinum greiðslum, til þeirra sem ætla að taka sauðfé að loknu fjárleysi.

Ef flytja þarf líflömb vegna fjárskipta samkvæmt ákvörðun yfirdýralæknis úr fjarlægum héruðum skal ríkissjóður greiða 90% flutningskostnaðar. Kaup á fjárskiptafé og vörslu í flutningum annast kaupendur líflamba.

III. KAFLI.

Refsiákvæði og gildistaka.

16. gr.

Brot á ákvæðum reglugerðar þessarar varða viðurlögum samkvæmt ákvæðum 30. gr. laga nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim. Með mál út af brotum skal farið að hætti opinberra mála.

17. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í lögum nr. 25 7. apríl 1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim og öðlast þegar gildi. Jafnframt er úr gildi felld reglugerð um varnir gegn útbreiðslu riðuveiki og kýlapestar í sauðfé og geitum nr. 556 24. september 1982.

Landbúnaðarráðuneytið, 1. október 1993.

Halldór Blöndal.

Jón Höskuldsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica