Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 19. mars 2024

Reglugerð með breytingum síðast breytt 6. jan. 2023

366/2005

Reglugerð um vistun barna á vegum annarra en barnaverndarþjónustna samkvæmt ákvæðum barnaverndarlaga (sumarbúðir o.fl.).

I. KAFLI Almennt.

1. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi fjallar um leyfisveitingar og fleiri atriði er varða vistun barna á vegum annarra en barnaverndarþjónustna á einkaheimilum eða öðrum heimilum samkvæmt ákvæði 91. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002.

Reglugerðin tekur ekki til heimila þar sem börn dvelja með foreldrum sínum.

2. gr. Almennar skilgreiningar.

  1. Sumardvöl á einkaheimili.
    Með sumardvöl er átt við dvöl á einkaheimili gegn gjaldi í allt að þrjá mánuði yfir sumartíma á vegum annarra en barnaverndarþjónustna, þ.e. á vegum foreldra eða þeirra sem fara með forsjá eða umsjá barns.
  2. Önnur heimili.
    Með þessu er átt við önnur heimili sem félagasamtök eða aðrir aðilar fá leyfi til að setja á laggirnar til að taka á móti börnum til sólarhringsdvalar til umönnunar, stuðnings, afþreyingar eða hollra tómstunda á vegum annarra en barnaverndarþjónustna, þ.e. á vegum foreldra eða þeirra sem fara með forsjá eða umsjá barns. Hér undir falla staðir þar sem fram fer saman eða hvort í sínu lagi meðferð, tómstundastarf, námskeiðahald eða önnur óskilgreind umönnun, svo sem sumarbúðir, reiðskólar og neyðarathvörf.
  3. Rekstraraðili.
    Með rekstraraðila er átt við þann sem fær leyfi til að reka heimili samkvæmt þessari reglugerð. Rekstraraðili fer með yfirstjórn og ber fulla og óskoraða ábyrgð á starfi heimilis.
  4. Forstöðumaður.
    Ef rekstraraðili er annar en einstaklingur eða er einstaklingur sem ekki starfar við heimilið ber rekstraraðila að ráða sérstakan forstöðumann sem ber ábyrgð á daglegri starfsemi heimilis.

3. gr. Aldur barna.

Sumardvöl eða vistun á öðru heimili samkvæmt þessari reglugerð er að jafnaði ekki ætluð börnum yngri en 6 ára.

4. gr. Húsnæði.

Húsnæði þar sem börn eru vistuð samkvæmt þessari reglugerð skal fullnægja skilyrðum þeim sem sett eru í heilbrigðisreglugerð og öðrum fyrirmælum yfirvalda heilbrigðis-, bygginga- og brunamála varðandi húsnæði.

5. gr. Ábyrgð og innra eftirlit.

Rekstraraðili ber alla ábyrgð á starfi heimilis. Rekstraraðili og allir starfsmenn þegar það á við skulu haga störfum sínum í sem fyllsta samræmi við líkamlegar og andlegar þarfir barna og stuðla að alhliða þroska og heilbrigði í uppeldi hvers og eins barns í samræmi við þau markmið sem viðkomandi heimili hefur.

Óheimilt er að veita leyfi til eða ráða til starfa á heimilum sem rekin eru samkvæmt þessari reglugerð aðila sem hlotið hefur refsidóm vegna brota á ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga.

Rekstraraðili skal gera ráðstafanir til að varna slysum innan heimilis sem utan og skal tileinka sér upplýsingar og fræðsluefni sem kann að vera aðgengilegt í því sambandi.

Aldrei má beita börn líkamlegum eða andlegum refsingum eða þvingunum á heimili sem rekið er samkvæmt þessari reglugerð.

Rekstraraðila er skylt að viðhafa virkt innra eftirlit með starfsemi sinni, sbr. 11. gr. laga um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála, nr. 88/2021. Í því felst meðal annars að tryggja að starfsemin uppfylli á hverjum tíma þau skilyrði sem sett eru og fylgjast með að ráðstöfun nái tilgangi sínum.

6. gr. Skrá um vistun.

Rekstraraðili ber ábyrgð á því að haldin sé skrá yfir þau börn sem dvalið hafa á heimili þar sem fram komi nafn þeirra, kennitala, heimilisfang og dvalartími.

Rekstraraðili ber ábyrgð á því að skrá öll tilvik um slys og óhöpp sem kunna að verða á börnum inni á heimilinu og utan meðan á vistun stendur. Rekstraraðila er jafnframt skylt að tilkynna Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála, um alvarleg óvænt atvik í samræmi við ákvæði 12. gr. laga um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála, nr. 88/2021.

7. gr. Upplýsingar um börn.

Ef barn á við einhvers konar veikindi að stríða skal sá sem vistar barn sitt gefa rekstraraðila upplýsingar um veikindin og skýr fyrirmæli læknis um meðferð, lyfjagjöf o.s.frv. að svo miklu leyti sem slíkt á við. Rekstraraðilar skulu kynna þeim sem vista börn sín þetta ákvæði.

8. gr. Trúnaður.

Rekstraraðili, forstöðumaður og aðrir starfsmenn þegar það á við skulu gæta fyllsta trúnaðar um allar persónuupplýsingar sem þeim eru látnar í té í tengslum við vistun barns. Trúnaðarskylda helst þó látið sé af starfi.

9. gr. Eftirlit Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála.

Um eftirlit Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála með vistun barna á vegum annarra en barnaverndarþjónustna á einkaheimilum eða öðrum heimilum samkvæmt ákvæði 91. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002 og ákvæðum reglugerðar þessarar fer samkvæmt lögum um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála, nr. 88/2021.

10. gr. Misfellur í aðbúnaði barns.

Þeir sem starfa á eða í tengslum við heimili sem rekið er samkvæmt þessari reglugerð, svo og hver annar sem hefur ástæðu til að ætla að barn sem vistað er á slíku heimili, búi við óviðunandi uppeldisaðstæður, verði fyrir áreitni eða ofbeldi eða stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu skulu tafarlaust tilkynna það barnaverndarþjónustu þar sem viðkomandi barn býr. Einnig skal tilkynna það Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála. Tilkynningarskylda gengur framar ákvæðum laga eða siðareglna um þagnarskyldu viðkomandi starfsstétta.

11. gr. Afturköllun rekstrarleyfis.

Ef þjónusta rekstraraðila uppfyllir í veigamiklum atriðum ekki skilyrði rekstrarleyfis eða er í veigamiklum atriðum ekki í samræmi við ákvæði laga, reglugerða, reglna og/eða samninga skal Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála afturkalla rekstrarleyfið.

Um málsmeðferð afturköllunar rekstrarleyfis fer samkvæmt lögum um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála, nr. 88/2021.

12. gr. Kæruheimild.

Um stjórnsýslukæru vegna stjórnvaldsákvarðana Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála fer samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga.

13. gr. Rekstrarleyfisskylda.

Einkaaðilum, sem hyggjast veita þjónustu á grundvelli 91. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002 er skylt að afla rekstrarleyfis Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála áður en byrjað er að veita þjónustuna. Umsókn um rekstrarleyfi skal vera skrifleg. Umsókninni skulu fylgja þau gögn sem Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála gerir kröfu um, sbr. lög um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála, nr. 88/2021 og ákvæði reglugerðar þessar.

Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála er heimilt að hafna umsókn á þeim grundvelli einum að tilskilin gögn hafi ekki borist. Áður skal umsækjanda þó leiðbeint um kröfur til framlagningar gagna, sbr. 1. mgr.

Um málsmeðferð leyfisveitinga fer samkvæmt ákvæðum laga um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála, nr. 88/2021 og ákvæðum reglugerðar þessarar.

II. KAFLI Sumardvöl á einkaheimili.

14. gr. Umsóknir.

Þeir sem óska eftir að taka barn í sumardvöl skv. 1. tölul. 2. gr. skulu sækja um rekstrarleyfi Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála. Í umsókninni skal koma fram:

  1. nafn (nöfn) umsækjanda og kennitala,
  2. heimilisfang umsækjanda,
  3. nöfn annarra heimilismanna,
  4. upplýsingar um aðra starfsemi á heimili, svo sem gistiþjónustu, atvinnurekstur eða umönnun einstaklinga,
  5. aldur og fjöldi barna sem óskað er eftir að taka til dvalar,
  6. hvort hugmyndin sé að sinna einnig börnum með sérþarfir svo sem fötluðum börnum og
  7. tímabil það sem óskað er að hvert barn dvelji á heimilinu í senn.

15. gr. Vottorð, umsagnir og önnur gögn.

Umsókn skal fylgja:

  1. hjúskapar-/sambúðarvottorð ef við á,
  2. læknisvottorð allra heimilismanna,
  3. samþykki allra heimilismanna eldri en 15 ára fyrir því að Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála afli upplýsinga úr sakaskrá þar sem sérstaklega komi fram hvort viðkomandi hafi nokkurn tíma hlotið refsidóm vegna brota á ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga,
  4. yfirlit yfir starfsferil umsækjanda, menntun og reynslu af starfi með börnum, og
  5. stutt lýsing umsækjanda á hvernig umönnun barnanna verði háttað, aðstöðu til leikja, útiveru og annarra tómstundastarfa.

15. gr. a Umsögn barnaverndarþjónustu.

Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála sendir umsókn um rekstrarleyfi til sumardvalar á einkaheimili til umsagnar hjá barnaverndarþjónustu í heimilisumdæmi umsækjanda. Í umsögninni skal koma fram afstaða þjónustunnar til þess hvort umsækjandi hafi nauðsynlega þekkingu og hæfni til að taka barn í sumardvöl. Jafnframt skal í umsögninni fjallað um önnur atriði sem barnaverndarþjónusta telur skipta máli fyrir meðferð umsóknarinnar hjá Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála. Þá skal í umsögninni koma fram hvort barnaverndarþjónustan mæli með því að leyfið sé veitt.

Barnaverndarþjónustu er heimilt að leita eftir upplýsingum um umsækjanda og aðbúnað á heimilinu frá öðrum aðilum, svo sem vinnuveitendum, öðrum barnaverndarþjónustum, heilbrigðisfulltrúa og slökkviliðsstjóra, enda sé umsækjanda gert kunnugt um það.

Barnaverndarþjónusta skal senda Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála umsögnina. Ef þjónustan hefur byggt umsögn sína á gögnum sem ekki liggja þegar fyrir hjá stofnuninni skulu þau gögn fylgja umsögninni.

16. gr. Skilyrði leyfisveitingar.

Hjón eða sambýlisfólk skulu sækja um leyfi saman. Ekki er skilyrði að umsækjandi sé í sambúð eða hjónabandi.

Umsækjandi skal sækja viðurkennt námskeið í skyndihjálp/slysum á börnum. Standi námskeið umsækjanda ekki til boða er heimilt að veita bráðabirgðaleyfi þar til hann hefur átt þess kost að ljúka námskeiði.

17. gr. Fjöldi barna.

Að jafnaði skal ekki veita leyfi til að taka fleiri en fjögur börn í einu til dvalar, en aldrei fleiri en sex börn, þar með talin önnur börn sem dvelja á heimilinu yngri en 16 ára.

18. gr. Niðurstaða Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála.

Þegar umsögn barnaverndarþjónustu liggur fyrir skal Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála ákveða hvort rekstrarleyfi skuli gefið út. Þó getur stofnunin óskað eftir nýrri umsögn frá þjónustunni ef hún telur að fyrri umsögn hafi verið ábótavant.

Að öðru leyti gilda ákvæði stjórnsýslulaga og ákvæði laga um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála, nr. 88/2021 um málsmeðferð við leyfisveitingar samkvæmt reglugerð þessari.

19. gr. Gildistími og endurnýjun rekstrarleyfis.

Rekstrarleyfi skal gefið út til ákveðins tíma, þó ekki lengur en til fimm ára. Heimilt er að binda rekstrarleyfi skilyrðum.

Um málsmeðferð endurnýjunar leyfa fer samkvæmt lögum um Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála, nr. 88/2021 og ákvæðum reglugerðar þessarar.

III. KAFLI Önnur heimili sem veita börnum viðtöku.

21. gr. Umsóknir.

Þeir sem óska eftir að setja á stofn og reka heimili skv. 2. tölul. 2. gr., til að veita börnum viðtöku til umönnunar, stuðnings, afþreyingar eða hollra tómstunda, skulu sækja um rekstrarleyfi Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála eigi síðar en sex vikum áður en starfsemi á að hefjast. Í umsókninni skal koma fram:

  1. heiti heimilis og staðsetning,
  2. upplýsingar um rekstraraðila, nafn, kennitölu, heimilisfang, heima- og vinnusíma, menntun og núverandi starf ef um einstakling er að ræða,
  3. upplýsingar um forstöðumann ef það á við, nafn, kennitölu, heimilisfang, heima- og vinnusíma, menntun og núverandi starf,
  4. stutt lýsing á þeirri starfsemi sem fyrirhuguð er,
  5. tímabil sem heimili er ætlað að starfa og sótt er um leyfi fyrir. Sé heimili ekki starfrækt allt árið skal tilgreina þann tíma úr ári sem um ræðir,
  6. aldur og fjöldi barna sem óskað er eftir að taka til dvalar,
  7. hvort hugmyndin sé að sinna einnig börnum með sérþarfir svo sem fötluðum börnum,
  8. tímabil það sem óskað er að hvert barn dvelji á heimilinu í senn og
  9. upplýsingar um aðra starfsemi á heimili, svo sem gistiþjónustu, atvinnurekstur eða umönnun einstaklinga.

22. gr. Vottorð, umsagnir og önnur gögn.

Umsókn skal fylgja:

  1. yfirlit yfir starfsferil rekstraraðila ef um einstakling er að ræða, menntun og reynslu af starfi með börnum,
  2. lýsing á verksviði og ábyrgð forstöðumanns þegar það á við og yfirlit yfir starfsferil forstöðumanns, menntun og reynslu af starfi með börnum,
  3. samþykki rekstraraðila ef um einstakling er að ræða og forstöðumanns fyrir því að Barnaverndarstofa afli upplýsinga úr sakaskrá þar sem sérstaklega komi fram hvort viðkomandi hafi nokkurn tíma hlotið refsidóm vegna brota á ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga gegn einstaklingi sem ekki hefur náð 18 ára aldri,
  4. meðmæli ábyrgs aðila þar sem lýst er hæfni rekstraraðila og forstöðumanns til að reka þá starfsemi sem fyrirhuguð er og færð rök fyrir því,
  5. greinargerð þar sem lýst er tilgangi fyrirhugaðs starfs, markmiðum, aðferðum, kenningum og hugmyndafræði svo og öðru sem umsækjandi telur ástæðu til að taka fram,
  6. upplýsingar um fjölda starfsfólks og verkaskiptingu þess ef um það er að ræða, þ. á m. hvort sérstakir starfsmenn starfa við hreingerningar, matseld, störf sérfræðinga o.s.frv.,
  7. stutt yfirlit yfir kröfur um menntun starfsmanna og reynslu þeirra af starfi með börnum,
  8. úttekt slökkviliðsstjóra og vottun um að brunavarnir séu fullnægjandi,
  9. leyfi byggingarnefndar ef um nýtt húsnæði eða breytta notkun þess er að ræða og
  10. starfsleyfi heilbrigðisnefndar.

22. gr. a Umsögn barnaverndarþjónustu.

Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála sendir umsókn um rekstrarleyfi til að reka heimili sem veitir börnum viðtöku til umsagnar hjá barnaverndarþjónustu í heimilisumdæmi umsækjanda. Í umsögninni skal koma fram afstaða þjónustunnar til þess hvort umsækjandi uppfyllir skilyrði leyfisveitingar. Jafnframt skal í umsögninni fjallað um önnur atriði sem barnaverndarþjónusta telur skipta máli fyrir meðferð umsóknarinnar hjá Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála. Þá skal í umsögninni koma fram hvort barnaverndarþjónusta mæli með því að leyfið sé veitt.

Barnaverndarþjónusta skal senda Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála umsögnina. Ef þjónustan hefur byggt umsögn sína á gögnum sem ekki liggja þegar fyrir hjá stofnuninni skulu þau gögn fylgja umsögninni.

23. gr. Skilyrði leyfisveitingar.

Forstöðumaður skal að jafnaði ekki vera yngri en 25 ára. Víkja má frá því með tilliti til menntunar og reynslu.

Aldrei skulu færri en tveir starfa á heimili samkvæmt þessum kafla. Starfsmenn geta þeir einir talist sem náð hafa 18 ára aldri. Unglingar yngri en 18 ára teljast ekki starfsmenn enda þótt þeir veiti starfi heimilis lið. Starfsmenn mega ekki hafa hlotið refsidóm vegna brota á ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga, þegar brot aðila hefur beinst gegn einstaklingi sbr. 2. mgr. 5. gr.

Að jafnaði skulu ekki vera fleiri en fimm börn í umsjá hvers starfsmanns. Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála er heimilt að setja skilyrði um fjölda starfsmanna. Við ákvörðun um fjölda starfsmanna skal einkum tekið mið af aldri barna og þörfum þeirra (þ.m.t. sérþörfum barna eða þarfa fatlaðra barna), þjónustu sem börnum er veitt (þ.m.t. matseld, hreingerningum og þvottum), menntun starfsmanna og reynslu, eðli og markmiðum starfsins, skipulagi, reynslu af starfi heimilisins, verkaskiptingu milli starfsmanna, lengd dvalar hvers barns í senn og hverjir leggi starfi heimilis lið án þess að teljast til starfsmanna.

Séu börn 20 eða fleiri í senn, svo sem í sumarbúðum, skulu starfsmenn með uppeldismenntun eða reynslu af slíku starfi, einn eða fleiri, starfa á heimilinu. Þá getur Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála sett skilyrði um lágmarksmenntun starfsmanna, sérfræðilega ráðgjöf og handleiðslu gagnvart þeim svo og að á heimili eða í tengslum við það starfi fólk með sérfræðilega þekkingu, svo sem á sviði læknisfræði, sálfræði, kennslu- og uppeldisfræði, allt eftir eðli þess starfs sem fram fer.

Rekstraraðili skal sjá um að starfsmenn hljóti sérstaklega þjálfun í því hvernig bregðast skuli við eldsvoða.

Rekstraraðili skal sjá til þess að sem flestir starfsmenn hafi til að bera þekkingu á grundvallaratriðum í skyndihjálp. Undantekningarlaust skal starfa á heimili einn starfsmaður sem hefur sótt viðurkennt námskeið í skyndihjálp/slysum á börnum. Séu börn fleiri en 20 skulu sem flestir starfsmanna hafa sótt námskeið um skyndihjálp. Nauðsynleg fræðsla um skyndihjálp skal endurnýjuð þriðja hvert ár.

24. gr. Niðurstaða Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála.

Þegar umsögn barnaverndarþjónustu liggur fyrir skal Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála ákveða hvort rekstrarleyfi skuli gefið út. Þó getur stofnunin óskað eftir nýrri umsögn frá þjónustunni ef hún telur að fyrri umsögn hafi verið ábótavant.

Að öðru leyti gilda ákvæði stjórnsýslulaga og ákvæði laga um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála um málsmeðferð við leyfisveitingar samkvæmt reglugerð þessari.

25. gr. Aðbúnaður.

Öll neysla áfengis, tóbaks og annarra vímuefna er bönnuð á heimilum sem rekin eru samkvæmt þessum kafla.

26. gr. Gildistími og endurnýjun rekstrarleyfis.

Rekstrarleyfi skal gefið út til ákveðins tíma, þó ekki lengur en til fimm ára. Heimilt er að binda rekstrarleyfi skilyrðum.

Um málsmeðferð endurnýjunar leyfa fer samkvæmt lögum um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála, nr. 88/2021 og ákvæðum reglugerðar þessarar.

27. gr. Breytingar á starfsemi heimilis.

Rekstraraðili skal gera Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála grein fyrir öllum meiri háttar breytingum sem kunna að verða á starfsemi heimilis á gildistíma rekstrarleyfis, eigi síðar en sex vikum áður en breytingar taka gildi. Undir þetta falla breytt markmið og innihald starfs, flutningur í annað húsnæði, upplýsingar um nýjan forstöðumann, breytingar á fjölda starfsmanna eða fjölda barna o.s.frv.

Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála; og barnaverndarþjónustu getur óskað eftir frekari gögnum, m.a. umsögn Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála; og barnaverndarþjónustu í umdæmi sem heimili flytur til.

IV. KAFLI Gildistaka og ákvæði til bráðabirgða.

29. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er skv. 3. mgr. 91. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002, öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 562/2000 um einkaheimili sem taka börn til dvalar í atvinnuskyni í allt að sex mánuði og reglur nr. 401/1998 um heimili og stofnanir fyrir börn samkvæmt 1.–3. mgr. 51. gr. laga um vernd barna og ungmenna, nr. 58/1992, sbr. lög nr. 22/1995.

Ákvæði til bráðabirgða.

Heimili sem hafa leyfi til að taka börn í sveit á sumrin á vegum annarra en barnaverndarnefnda samkvæmt reglugerð, nr. 562/2000, um einkaheimili sem taka börn til dvalar í atvinnuskyni í allt að sex mánuði og heimili sem hafa leyfi skv. reglum nr. 401/1998 um heimili og stofnanir fyrir börn samkvæmt 1.–3. mgr. 51. gr. laga um vernd barna og ungmenna, nr. 58/1992, sbr. lög nr. 22/1995, mega starfa út gildistíma leyfisins. Hyggist heimili halda áfram starfsemi eftir að gildandi leyfi rennur út skal lögð fram umsókn í samræmi við ákvæði þessarar reglugerðar.

Félagsmálaráðuneytinu, 8. apríl 2005.

Árni Magnússon.

Óskar Páll Óskarsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.