Fara beint í efnið

Prentað þann 29. mars 2024

Breytingareglugerð

359/2009

Reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 163, 30. maí 1973, um hvalveiðar, með síðari breytingum.

1. gr.

1. gr. orðist svo:

Rétt til þess að stunda hvalveiðar í íslenskri fiskveiðilandhelgi og til að landa hvalafla, þótt utan landhelgi sé veitt, svo og til að verka slíkan afla, hafa þeir einir, er fengið hafa til þess leyfi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins. Áður en leyfi er veitt, skal ráðherra leita umsagnar Hafrannsóknarstofnunarinnar.

Leyfi til veiða á hrefnu árin 2009, 2010, 2011, 2012 og 2013 skal veita þeim íslensku skipum, sem eru í eigu eða leigu einstaklinga eða lögaðila, sem hafa stundað hrefnuveiðar í atvinnuskyni á árunum 2006-2008 eða félaga sem þeir hafa stofnað um slíka útgerð. Einnig skal veita leyfi þeim íslensku skipum sem eru í eigu eða leigu einstaklinga eða lögaðila sem að mati ráðherra uppfylla neðangreind skilyrði til að fá leyfi til hrefnuveiða. Eingöngu þeim skipum sem sérútbúin eru til veiða á stórhvölum er heimilt að taka þátt í veiðum á langreyði árin 2009, 2010, 2011, 2012 og 2013.

Við mat á því hvort skip fullnægi skilyrðum til þess að fá leyfi til hrefnuveiða skal Fiskistofa ganga úr skugga um að eftirfarandi skilyrðum sé fullnægt:

  1. Að minnsta kosti einn úr áhöfn hafi reynslu af hrefnuveiðum. Við mat á því hvort aðili hafi reynslu af hrefnuveiðum er sú krafa gerð að aðili hafi a.m.k. verið samfellt í þrjá mánuði skytta á hrefnuveiðibát. Heimilt er Fiskistofu að meta jafngilda annarskonar reynslu eða þekkingu svo að hún fullnægi áskilnaði skv. þessari grein.
  2. Skyttur sem annast veiðar og aflífun dýra skulu hafa sótt viðurkennt námskeið í meðferð skutulbyssa og sprengiskutla og í aflífunaraðferðum við hvalveiðar. Auk þessa skal skytta hafa fullnægjandi skotvopnaleyfi.

Við veiðarnar skal nota búnað sem tryggir að hrefnur aflífist samstundis eða aflífun taki sem skemmstan tíma og valdi þeim sem minnstum þjáningum. Til að tryggja ofangreint skal Fiskistofa ganga úr skugga um að skip sem ætlað er til hrefnuveiða sé búið eftirfarandi veiðibúnaði:

  1. Riffli a.m.k. 11,6 (.458 cal.) að stærð sem skal nota ef þörf er á seinna skoti. Riffillinn skal ásamt skotfærum, vera staðsettur í nánd við skutulbyssu. Aflífist hrefna ekki samstundis við skutulskot skal svo fljótt sem auðið er aflífa hana með riffilskoti í höfuðið. Einungis skal nota alklæddar kúlur með rúnuðum oddi (e. round nosed full metal jacket).
  2. Vélknúinni vindu til að draga hrefnuna að skipinu og um borð í það. Vindan skal þola a.m.k. 5.000 kg álag og hafa a.m.k. 2.500 kg togkraft. Skotlínu skal tengja inn á vinduna og er óheimilt að sleppa línuenda lausum frá skipi eftir að hrefna hefur verið skutluð.
  3. Línu sem þolir a.m.k. 5.000 kg álag.
  4. Fjöðrunarbúnaði sem þolir a.m.k. 5.000 kg álag og hefur fjöðrun upp á a.m.k. 1,5 m eða línu sem hefur a.m.k. 20% teygjanleika.

Óheimilt er að nota skutul án skutulsprengju (kaldskutul). Einungis skal nota skutulsprengjur af gerðinni hvalgranat-99. Óheimilt er að hleypa af skoti án þess að skutulsprengja sé fest á skutulinn og lína fest í skutul í annan endann og í skipið í hinn endann.

2. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt 4. gr. laga nr. 26 3. maí 1949, um hvalveiðar, til að öðlast þegar gildi.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, 6. apríl 2009.

F. h. r.
Sigurgeir Þorgeirsson.

Ásta Einarsdóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.