Menntamálaráðuneyti

350/1998

Reglugerð um Orðabók Háskólans. - Brottfallin

REGLUGERÐ

um Orðabók Háskólans.

1. gr.

Orðabók Háskólans er háskólastofnun og heyrir undir rektor og háskólaráð, sbr. 65. gr. háskólareglugerðar.

2. gr.

Orðabók Háskólans er vísindaleg orðfræðistofnun. Hlutverk hennar er að safna heimildum um íslenskan orðaforða frá upphafi prentaldar á Íslandi til samtímans, annast úrvinnslu þess efniviðar sem þannig safnast og sinna hvers kyns rannsóknum á orðaforðanum og þróun hans. Stofnunin gegnir jafnframt þjónustuhlutverki við fræðimenn og almenning. Því hlutverki skal stofnunin sinna með útgáfustarfsemi og með því að gera söfn sín aðgengileg eftir því sem kostur er, á því formi sem best þykir henta hverju sinni. Forgangsverkefni Orðabókarinnar er að vinna að samningu sögulegrar orðabókarlýsingar. Að öðru leyti ákveður stjórn stofnunarinnar á hverjum tíma markmið og verkefni hennar.

3. gr.

Stjórn Orðabókar Háskólans hefur á hendi yfirstjórn stofnunarinnar á vegum rektors og háskólaráðs. Hún skal skipuð þrem mönnum og einum til vara, kosnum af háskólaráði til fjögurra ára í senn að fengnum tillögum heimspekideildar. Rektor skipar einn hinna þriggja aðalmanna formann stjórnar og ákveður þóknun til hans að fengnu samþykki menntamálaráðuneytisins. Að auki á forstöðumaður rétt til setu á fundum stjórnarinnar með málfrelsi og tillögurétt. Stjórnin velur sjálf varaformann úr sínum hópi.

4. gr.

Starfssvið stjórnar Orðabókarinnar er þetta:

 a.            Stjórnin hefur yfirumsjón með orðabókarstarfinu, skipulagningu þess og framvindu.

 b.            Stjórnin skal fjalla um og staðfesta stefnumótun stofnunarinnar til lengri tíma, að fengnum tillögum frá sérfræðingafundum.

 c.            Stjórnin skal í upphafi hvers árs fjalla um starfsáætlun sem forstöðumaður leggur fram að höfðu samráði við sérfræðinga.

 d.            Stjórnin skal fjalla um og samþykkja fjárlagatillögur stofnunarinnar sem forstöðumaður undirbýr í samráði við rektor.

 e.            Stjórnin skal fjalla um og samþykkja meiriháttar verkefni sem stofnunin ræðst í.

 f.             Stjórnin tilnefnir forstöðumann úr hópi sérfræðinga, sbr. 5. gr.

 g.            Stjórnin gefur álit sitt á umsóknum um sérfræðingsstörf, svo og umsóknum starfsmanna um framgang, sbr. 6. gr.

5. gr.

Þeir starfsmenn Orðabókar Háskólans sem hafa rannsóknarskyldu eru forstöðumaður og sérfræðingar. Forstöðumaður er jafnframt prófessor í heimspekideild með takmarkaðri kennsluskyldu. Um veitingu starfsins fer eftir sömu reglum sem um önnur prófessorsstörf. Enn fremur skal leita álits orðabókarstjórnar áður en starfið er veitt.

Sérfræðingar eru ráðnir af rektor að fenginni umsögn orðabókarstjórnar. Um nýráðningar og framgang sérfræðinga á Orðabók Háskólans fer að öðru leyti eftir ákvæðum 19. gr. reglugerðar Háskóla Íslands, en nánar eftir starfsreglum sem háskólaráð setur, svo og sérstökum starfsreglum Orðabókarinnar, sem orðabókarstjórn setur og háskólaráð staðfestir.

Starfsmenn við sérfræðiþjónustu eru ráðnir af forstöðumanni Orðabókarinnar til tiltekinna verkefna. Um ráðningu þeirra og framgang í starfi fer eftir sérstökum starfsreglum háskólaráðs.

Annað starfsfólk ræður forstöðumaður eftir því sem fjárhagur stofnunarinnar leyfir og verkefni gefa tilefni til.

6. gr.

Verksvið starfsfólks Orðabókarinnar er þetta:

 a.            Forstöðumaður er í fyrirsvari fyrir Orðabók Háskólans. Hann hefur forystu um stefnumótun Orðabókarinnar til lengri og skemmri tíma. Jafnframt hefur hann með höndum daglega verkstjórn á Orðabókinni og umsjón með því starfi sem þar er unnið. Um starfsskyldur forstöðumanns gilda að öðru leyti ákvæði erindisbréfs sem orðabókarstjórn setur honum.

 b.            Sérfræðingar leggja stund á hvers kyns orðfræðirannsóknir í tengslum við orðabókarstarfið og annast efnissöfnun og úrvinnslu á vegum Orðabókarinnar. Í samráði við forstöðumann vinna þeir að þeim verkefnum sem orðabókarstjórn markar eða ákveðin hafa verið á starfsmannafundum. Um starfsskyldur sérfræðinga gilda að öðru leyti sérstakar reglur sem orðabókarstjórn setur.

 c.            Aðrir starfsmenn eru yfirleitt ráðnir til ákveðinna verkefna, og sinna þeim undir stjórn forstöðumanns og sérfræðinga.

7. gr.

Forstöðumaður skal halda fundi með sérfræðingum stofnunarinnar a.m.k. fjórum sinnum á ári og oftar ef þurfa þykir. Á þessum fundum skal ræða framvindu orðabókarstarfsins og gera áætlanir um starfið fram undan. Leitast skal við að móta langtímastefnu um vinnulag við orðabókarstarfið og skiptingu þess í áfanga. Við atkvæðagreiðslu ræður einfaldur meirihluti, nema atkvæði falli jöfn, þá ræður atkvæði forstöðumanns. Sérfræðingafundur skal einnig gefa álit sitt á umsóknum um embætti forstöðumanns og sérfræðingsstöður. Um hlutverk og valdsvið slíkra funda gilda að öðru leyti sérstakar reglur sem orðabókarstjórn setur.

Enn fremur skal forstöðumaður halda fundi með öllum starfsmönnum Orðabókarinnar tvisvar á ári. Á þeim fundum skal ræða þau mál er varða alla starfsmenn stofnunarinnar.

8. gr.

Rekstur stofnunarinnar er kostaður af ríkisfé, samkvæmt því sem fé er veitt til í fjárlögum. Háskólinn sér stofnuninni fyrir húsnæði.

Aðrar tekjur eru þessar:

 a.            Styrkir til rannsókna.

 b.            Greiðslur fyrir umbeðin verkefni eða þjónustu.

 c.            Gjafir.

Öflun tekna á þann hátt, er greinir í 2. málsgrein, er háð samþykki stjórnarinnar.

Háskólinn sér um bókhald Orðabókarinnar. Ársreikningar stofnunarinnar skulu sendir ríkisendurskoðun til endurskoðunar ásamt fylgiskjölum. Samrit reikninganna sendist háskólarektor og menntamálaráðuneytinu.

9. gr.

Nú er starfsemi Orðabókar Háskólans í frjálsri samkeppni við atvinnustarfsemi annarra aðila og skal þá gætt ákvæða 2. mgr. 14. gr. samkeppnislaga nr. 8/1993 og sé sá þáttur starfseminnar fjárhagslega aðskilinn annarri starfsemi Háskóla Íslands og ekki niðurgreiddur hvorki af tekjum af annarri starfsemi háskólans né fjárframlögum til hans.

10. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt 3. mgr. 9. gr. laga um Háskóla Íslands, nr. 131/1990, sbr. 65. gr. háskólareglugerðar, nr. 98/1993, og öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð um Orðabók Háskólans nr. 119/1989.

Menntamálaráðuneytinu, 18. júní 1998.

Björn Bjarnason.

Stefán Baldursson.

 

 

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica